Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 182
H Ú N A V A K A 180
Lollý var fagurkeri á öllum sviðum og gilti einu hvort um var að ræða
listmuni, málverk, borðbúnað, húsgögn eða mat. Hún naut þess að hafa fallegt
í kring um sig. Lollý og Bjössi bjuggu börnum sínum afar fallegt heimili sem
bar smekk hennar fagurt vitni. Hún var einstaklega hjálpsöm og greiðvikin og
lét sig ætíð varða hag þeirra sem minna máttu sín. Þegar barnabörnin komu
hvert af öðru áttu þau strax stað í hjarta hennar.
Björn lést þann 20. júní 1996, aðeins fimmtíu og átta ára gamall. Lát hans
var mikið áfall fyrir Lollý og börnin en hún tókst á við sorgina kjarkmikil og
æðrulaus eins og hennar var vandi.
Eftir fráfall Björns kynntist Lollý Kristófer Kristjánssyni og varð Kaldakinn
II hennar annað heimili undanfarin ár þótt hún hafi alltaf haldið heimili sitt í
Reykjavík.
Lollý glímdi við illvígan sjúkdóm síðustu árin. Hún lést á St. Jósefsspítalanum
í Hafnarfirði. Útför hennar var gerð frá Langholtskirkju föstudaginn 30. októ-
ber. Jarðsett var í Gufuneskirkjugarði.
Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir.
Óli Júlíus Björnsson
frá Siglufirði
Fæddur 16. desember 1926 – Dáinn 26. október 2009
Óli Júlíus Björnsson var fæddur á Siglufirði og bjó þar mestan hluta ævi sinnar.
Hann var sonur Björns Skarphéðinssonar sem var fæddur 1896 og dáinn
1955. Móðir hans var Björg Pálína Bessadóttir, fædd 1896 og dáin 1934. Óli
var yngstur þriggja systkina. Hin voru: Ingibjörg, fædd 1918 og Skarphéðinn,
fæddur 1924. Þau eru bæði látin.
Móðir Óla lést þegar hann var átta ára, eftir það ólst hann upp hjá föður
sínum og Sigríði Bessadóttur, móðursystur sinni.
Eftir að Óli lauk hefðbundinni skólagöngu hneigðist hugur hans til sjós og
sjómennsku. Hann vann störf sem tengdust sjónum allan sinn starfsaldur, fyrst
úti á sjó og síðan í landi.
Árið 1938 keyptu þeir bræður, Óli og Skarphéðinn, ásamt föður sínum,
lítinn árabát sem fenginn var frá Noregi. Þeir höfðu þá saltað síld allt sumarið
hjá Tynes til að eiga fyrir bátnum en þá var Óli aðeins 12 ára gamall og
Skarphéðinn 14 ára. Árið 1942 stækkuðu þeir útgerðina og festu kaup á 5
tonna trillu, Björgu SI – 84 og voru feðgarnir saman í útgerðinni þar til faðir
þeirra lést. Bræðurnir héldu áfram að gera út til ársins 1966. Með útgerðinni
unnu þeir hin ýmsu verkamannastörf og gerðu alla tíð.
Árið 1950 giftist Óli Ástu Bjarnadóttur frá Vestmannaeyjum. Hún var fædd
26. febrúar 1932 og lést 25. júlí 1992. Óli og Ásta eignuðust fjögur börn. Þau
eru: Sverrir Sævar en hann er giftur Björgu Viktoríu Zophoníasdóttur, Helga
gift Óskari Elefsen, Birna, tvíburasystir Helgu, gift Arnari E. Ólafssyni og
yngst er Júlía, gift Reyni Karlssyni.