Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 99
H Ú N A V A K A 97
Einn hóll í landi Sveinsstaða ber nafnið Hóll í keldu og annar Hóll í götu.
Hóll í keldu var fyrrum, áður en land var þurrkað, umlukinn keldu en Hóll í
götu er norðarlega á Stekkjarási. Hugsanlega heitir Hóll í götu svo vegna þess
að þar hafi margir farið um. Leiða má rök að því að fyrrum hafi leið úr
Vatnsdal legið um Torfdal, þaðan nærri Stekkjarhólum og út Stekkjarás,
þaðan út að Þingeyrum og yfir Húnavatn.
Svo er í landinu Réttarhóll, Stekkjarhóll og Stekkjarhólar á tveimur stöðum.
Þá skal ekki láta hjá líða að nefna Þrístapa. Það er hólarani með þremur
toppum. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi. Árið 1934 tóku afi minn og faðir
þátt í að finna og grafa upp bein þeirra Agnesar og Friðriks sem legið höfðu
rúm hundrað ár í óvígðri mold við hólinn.
Syðst í landi Sveinsstaða, á landamerkjum við Vatnsdalshóla, er skarð í
hólaranann norðan við Flóðið. Það skarð heitir Tíðaskarð. Hugsanlega hefur
fólk úr Vatnsdal farið þar um er það fór til tíða að vetrarlagi út að Þingeyrum.
Seint á 19. öld réðust langafi minn og afi í það stórvirki að grafa skurð um
Tíðaskarð, dýpka skarðið svo mikið að veita mætti vatni úr Flóðinu, í
vorflóðum, norður á engjar Sveinsstaða. Þetta þótti mikið mannvirki enda
verkfæri fábrotin. Þó mun hestvagn hafa verið notaður að einhverju leyti til
þess að flytja möl úr skurðinum. Í skýrslu um ábúð og ásigkomulag nokkurra
umboðsjarða Þingeyraklausturs gjörð 1865 segir m.a. um Sveinsstaði en þar er
þá ábúandi dannebrogsmaður og hreppstjóri Ólafur Jónsson:
Hér að auki er það mikla þrekvirki, sem mörgum er kunnugt orðið, að hann hefir grafið
120 faðma langan skurð úr flóðinu, sem kallað er, gegnum Vatnsdalshóla í Tíðaskarði, og
sem er á sumum stöðum 6 álnir á dýpt og breidd, og mun þetta vera eitt hið mesta mannvirki
sem leiguliði hefir gjört á ábúðajörð sinni, en eigi þetta verk að geta komst í gott lag og haldast
vel við mun varla að ætlast til að ábúandi geti meira gert að jarðabótum.
Jón Ólafsson tók við búskap eftir föður sinn árið 1870. Í lýsingu frá 1881
segir m.a.:
Mylluhóll var leikvöllur minn í bernsku. Hér fetar sonardóttirin, Sunna Margrét, stíginn
eða veginn, sem ég gerði forðum en hann er nú gróinn og að mestu glataður.