Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 84
H Ú N A V A K A 82
skrá og ákveða hver fær hvern. Sú gamla fékk aftur Meið og heilsaði glöð. Lagt
á í rólegheitum, fumlaust og síðan teymt aðeins út í móann þar sem enn mátti
sjá grænan topp í laut. Það tekur alltaf góða stund að koma stórum hópi af
stað þó hver leggi á sinn hest en sumum þarf aðeins að rétta hjálparhönd. Og
ekki þurfti að kalla á hestasvein til aðstoðar við gömlu konuna, strax voru
komnir tveir með útréttar hendur þegar hún fór að máta sig við bakþúfuna.
Þessi dagur leið með líku sniði og hinn fyrri nema nú var ekki skipt um hesta
á miðri leið, aðeins áð þar sem við átti, riðnar moldargötur og melar um
gömlu reiðleiðirnar. Lausu hestarnir voru reknir vel á undan svo ekkert
truflaði. Allt gekk eftir áætlun í rólegu landslagi heiðarinnar sem þarna er
greiðfært yfirferðar. Veðrið var aðgerðalítið mestallan daginn, þungskýjað en
úrkomulaust að mestu þar til um kvöldið að nálgast fór náttstað við
Ströngukvísl. Þá fór að rigna og kula á norðaustan og þegar komið var að
Ströngukvíslarskála í kvöldhúminu var öllum brátt að draga sig í skjól. Sú
gamla var samt í sjöunda himni, glöð á sínum góða vini, Meiði, sem tölti lipurt
upp traðirnar að skálanum þar sem knapinn, orðinn 18 ára í huganum, sveifl-
aði sér af baki ofan í grjót og möl á hlaðinu, án þess að biðja um aðstoð.
Meiður er með stærri hestum og kerlingin í minnsta konuflokknum svo 88
ára gömlu lappirnar náðu stutt og sögðu pass þegar þær mættu óblíðu yfirborði
hlaðsins. Þar lyppuðust þær niður, settu snöggan slink á gamla bakið, sem
mátti ekki við bregðast og brotnaði saman. Það var sárt svo þarna varð aðeins
að ná andanum og finna upprisupunktinn. Og blessaðir karlarnir, sem brugðu
snart við þó þeir næðu ekki að afstýra óhappinu, voru strax komnir þarna til
aðstoðar vesalingnum sem var að reyna að koma fyrir sig höndum og hífa sig
upp. Og upp stóð hún, bar sinn hnakk í hús, með lagi og stuðningi veggja.
Gekk svo rólega til skála, fór úr böslum, þvoði skarn af andliti og höndum og
hengdi föt til þerris á snaga. En gott var að geta svo fundið sér neðri koju, lagt
sig aðeins og látið líða úr sárasta verkinn.
En verkurinn leið ekki úr svo glatt og allt útlit fyrir að þarna hefði eitthvað
gefið sig til lengra viðfangs. - Jæja, var þá draumurinn búinn. Nei, ekki meðan
ég hef hausinn í lagi og fullan mátt í höndum, get stillt undir mig löppunum
og staðið óstudd, þá er ekki fullreynt ennþá, hugsaði sú gamla. - Sef á þessu í
nótt og skoða morgundaginn. Einhvers staðar stakk ég í vasa verkjatöflunum
sem læknirinn ávísaði síðast þegar eitthvað var að en engin ástæða til að gleypa
þær við smáverkjum. Tek eina nú og sé til.
Steikarfisklyktin ilmar úr eldhúsinu, allt í kring er verið að raða sér í
svefnpláss, finna sinn farangur á ganginum og búa sig undir nóttina. Hún lét
ösina eiga sig, beið þar til um hægðist, stillti þá fótum undir hrygg með
herkjum og engin leið að beygja sig nema styðja höndum á hné en það tókst
að draga bakpokann að kojustokk og nota handlagnina til að vega hann upp
til fóta þar svo hægt væri að sitja við athafnir. Þökk sé hönnun bakpoka með
alla þessa rennilása og mörgu hólf. Greið leið að þéttsamanvöfðum svefn-
pokanum í „kjallaranum“ og allt á sínum stað. Best að leggja sig aðeins meðan
lagt er á borð.
Fararstjórinn kom, þegar hann hafði gengið tryggilega frá hestum í girðingu