Akureyri - 13.10.2011, Blaðsíða 14

Akureyri - 13.10.2011, Blaðsíða 14
13. OKTÓBER 201114 Út að borða með Arndísi Ég opna annað augað. Er ekki alveg viss hvort það er nótt eða dagur. Jú, ég heyri í bílum. Það hefur snjóað. Alveg eins og þennan sama dag fyrir sex árum þegar það gleymdist að sjá til þess að ég kæmist í eigin brúðkaup. Þá var það furðu lostinn leigubílsstjóri sem skutlaði mér í kirkjuna. Best að ég hafi heimilisbílinn til umráða í dag, í tilefni dagsins. Við erum heppin og sæl að eiga hvort annað. Í þessum heimi örra breytinga er það ekki sjálfsagt. Og það er heldur ekki alltaf auðvelt. „Sanity and happiness are an impossible combination“, sagði Mark Twain og útleggst einhvernvegin þannig að ógerlegt sé að höndla bæði heilbrigða skysemi og hamingjuna í einu. Hjónaband er val. Hamingja er líka val. Suma daga er mjög erfitt að grípa í skottið á henni, en kona fær ekki tækifæri til að höndla hana nema því aðeins að hún hafi valið að gera það. Því vel ég að segja fyrirgefðu oftar en heilbrigð skynsemi leyfir mér, fíflast oftar en heilbrigð skynsemi leyfir mér, elska oftar en heilbrigð skynsemi leyfir mér, þykjast heyrnarlaus oftar en heilbrigð skynsemi leyfir mér, að vera kát oftar en heilbrigð skynsemi leyfir mér. Í dag vel ég einnig að borða meira en heilbrigð skynsemi leyfir mér. Það er notalegt að halda tvö ein upp á brúðkaupsafmælið sitt og enn betra með góðum vinum. Vera par. Við erum heppin. Vinir okkar hafa boðið okkur í dagverð á Icelandair hótelinu á Akureyri. Það kemur skemmtilega á óvart hvað það er notalegt að labba inn í lobbýið. Viðskiptahlið hótelsins; afgreiðsluborðið, blasir ekki við heldur setustofa í notalegum litum. Þetta minnir mig óneitanlega á Square hótelið í Kaupmannahöfn. Ekkert sérstaklega frumlegt og enginn íburður, en framúrskarandi notalegt og litasamsetningarnar fullkomnar fyrir minn smekk. Veitingastaðurinn er á neðstu hæð hótelsins, þar sem að gengið er út í huggulegan húsagarð. Í fyrstu er ég ekki alveg viss um hvað mér finnist um að borða „ofan í kjallara“. En eftir dagverðinn, þegar við sitjum og spjöllum saman, þá kemur á daginn að staðurinn heldur vel utan um hópinn og stemningin er notaleg. Veitingastaðurinn er, líkt og hótelið, einfaldur en huggulegur. Mitt smámunasama auga heggur þó eftir því að skemmtilegra væri að sjá kilina heldur en blaðsíðurnar á bókunum í hillunum. Vissulega ekki eins þægilegt fyrir augað en áhugaverðara fyrir heilabúið. Nú verð ég að láta það fylgja að ég kann hreint ekki að meta hlaðin hlaðborð. Finnst þau hreinlega ólystug. Því fá þeir sem sjá um veitingastaðinn á Icelandair hótelinu á Akureyri mikið lof fyrir framsetningu. Margt er á boðstólnum en því er stillt fram af hógværð og látlausri fágun. Ég byrja á gröfnu nautakjöti, reykt um laxi og patéi. Sleppi purusteikinni en fæ mér egg og beikon ásamt bökuðum baunum. Að því búnu fleiri tegundir af eftirrétt en ég kæri mig um að muna – og kaffi. Allt er gott og eins lítið „staðið“ og það mögulega getur orðið á hlaðborði. Lítið er á hverju fati og kokkarnir duglegir að fylla á. Brauðið heimabakað og ljúffengt og kryddsultan með patéinu ein sú besta sem ég hef bragðað. Réttirnir eru mun fleiri en ég get talið upp hér og óhætt að segja að allir fái lystisemdum sinna bragðlauka fullnægt. Ég er, til að mynda, mikil forréttakona og fór því margar ferðir að grafna nautakjötinu, laxinum, patéinu, salatinu og öðru sem þar var. Aðrir við borðið þóttust hafa himinn höndum tekið með steikt beikon, pylsur og purusteik á sínum diski. Og einn borðfélaganna lét sköpunargáfuna njóta sín og fékk sér vöfflu með sýrópi og spældu eggi. Ekki sem verst! Við höfum borðað yfir okkur. Sitjum makindalega og spjöllum. Börnin í pössun og höfum tímann fyrir okkur. Meiri lúxus er vart hægt að hugsa sér, fyrir utan dásamlegan eiginmann. Nema ef vera skyldi nuddi hjá Ulriku á Aqua Spa, en þannig lýkur þessu brúðkaupsafmæli. Held heim, að snýta, elda, hugga og þvo, með mínum heittelskaða með fullt af hamingju og lítið af heilbrigðri skynsemi; klikkuð og kát. Arndís Bergsdóttir skrifar um veitingahús KLIKKUÐ OG KÁT ERNA / SKIPHOLTI 3 / S.552 0775 / ERNA.IS Fallega Jólaskeiðin frá Ernu Verð 16.500,- HÖFUÐBORG LANDSBYGGÐARINNAR MEÐ AUGUM AÐKOMUMANNSINS Næstur á mælendaskrá „aðkomu-manna“ í blaðinu er Björn Malm-quist fréttamaður en í eina tíð fannst honum Akureyri eins og útlönd. Ég veit ekki hvort hægt er að lýsa sam - bandi mínu við Akureyri sem persónu legu – og þó. Allavega frá mínum bæjar dyrum séð – eins og reyndar bæjardyrum allra annarra sem þangað hafa komið og þar hafa búið. Ég man eftir löngum bílferðum frá Akranesi, þar sem ég ólst upp, til að heimsækja Lísel og Jóhann frænda og öll frændsystkinin mín, Finn, Hilmar, Karenu og Björgu, sem áttu heima í fallega húsinu í Ásabyggð. Og ég man hvað mér fannst alltaf eins og ég væri að koma til útlanda – það voru tré út um allt, bærinn var snyrtilegur og það var einhvern veginn alltaf gott veður á Akureyri... í minningunni að minnsta kosti. Þessum heimsóknum fækkaði með ár- un um, eins og gengur – börnin breytt ust í unglinga sem síðan fluttu út og stofn- uðu sín eigin heimili. Akureyri varð að viðkomustað á ferðalagi; kíkjum í kaffi til gömlu hjónanna, fáum okkur ís í Brynju og höldum svo áfram...alveg þangað ég flutti, skömmu eftir síðustu alda mót, með fjölskylduna austur á land, til að fara að vinna sem fréttamaður á Egilsstöðum. Þá varð Akureyri nefnilega að alvöru áfangastað fyrir okkur borgarbörnin sem nú vorum orðin að íbúum lands- byggðarinnar. Við uppgötvuðum það sem margir nýir kunningar og vinir á norðausturhorni landsins höfðu vitað lengi: ef Reykjavík er höfuðborg alls landsins, þá er Akureyri höfuðborg Norður- og Austurlands. Fyrir fólk eins og okkur, sem leit á það áður sem dagstúr að skreppa á Þingvelli, þá varð það allt í einu ekkert tiltökumál að keyra á laugardagsmorgni frá Seyðisfirði til Akureyrar; fara í búðir á Glerártorgi, fá sér kaffi á Bláu könnunni, fara með krakkana í sund, kíkja í Eymundsson, og síðan á Bautann, (og gleymum ekki að heilsa upp á Lísel og Jóhann!). Þegar við komum svo heim á Seyðisfjörð, leið okkur eins og við hefðum skroppið í bæinn (Reykjavík, það er...) Svona upplifði ég Akureyri fyrir nokkrum árum. Eins og litla útgáfu af Reykjavík – nema hvað þessi útgáfa var fallegri og vinalegri en sú fyrir sunnan. Ég veit ég ætti kannski ekki að segja þetta, af því ég bý í Reykjavík, en samt: svona er þetta bara! Björn Malmquist fréttamaður

x

Akureyri

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akureyri
https://timarit.is/publication/1079

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.