Vestfirðir - 26.11.2015, Blaðsíða 10

Vestfirðir - 26.11.2015, Blaðsíða 10
Breyting á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 Íbúðarsvæði á Suðureyrarmölum Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti 5. nóvember 2015 tillögu að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 samkvæmt 2.mgr. 36.gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Breytingin felst í möguleika á uppbyggingu á minni- háttar verslunar- og þjónsutustarfsemi á íbúðarsvæði á Suðureyrarmölum. Greinargerð gildandi aðalskipu- lags breytist en skipulagsuppdráttur helst óbreyttur. Breytingin hefur verið send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Þeir sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skipulagsfulltrúi Ísafjarðarbæjar 10 26. Nóvember 2015 Arfleifð Núpsskóla Núpur við Dýrafjörð hefur verið töluvert til umræðu að undanförnu og ekki af góðu einu. Umfjöllunin hefur að mestu snúist um dapurlega reynslu fyrrum nemenda Núpsskóla sem þar voru við nám á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þekkt er að á þeim árum áttu heimavistar- skólar víða um land erfitt uppdráttar vegna fólksfækkunar í heimahéraði og því var brugðið á það ráð að bjóða „afvegaleiddum unglingum að sunnan“ upp á skólavist. Ekki er annað að sjá en að unglingunum, sem og skólunum, hafi lítill greiði verið gerður með þeirri ráðstöfun. Heimavistarskólunum varð ekki bjargað, enda lögðu þeir upp laupana skömmu síðar, og margir áttu þar erfiða skólagöngu. Á þessum árum þótti ekki tiltökumál að láta ungviðið ganga um sjálfala og því er í sjálfu sér táknrænt að fólk hafi látið sér til hugar koma að leysa vandamálin með því að senda „vandræðaung- lingana“ í sveit þar sem þeir fengu að sjá um sig sjálfir líkt og sauðfé sem rekið hefur verið á fjall. Er freist- andi að álykta sem svo að margir hafi átt bágt með að gera greinarmun á þörfum manna og búpenings. En þó endalok Núpsskóla hafi verið dapurleg á staðurinn sér merka sögu sem vert er að halda á lofti því segja skal kost og löst eigi að hafa það sem sannara reynist. Skólinn var stofnaður árið 1906 af stórhuga mönnum sem vildu færa sveitina inn í nútímann en meðal helstu hvatamanna var Sig- tryggur Guðlaugsson fyrsti skólastjóri Núpsskóla. Á þessum árum voru skólar einkum í þéttbýli en þorri landsmanna bjó í sveitum þar sem kennsla fór fram á heimilum og var hún yfirleitt í höndum farkennara sem fór á milli bæja. Flestir luku námi fyrir unglingsaldur enda einungis fáum útvöldum ætlað að ganga menntaveginn. Ísland var þó að færast í átt til nýrri tíma sem krafðist aukinnar menntunar enda fjölgaði skólum mjög á þessum árum. Hins vegar var óvenjulegt að á Núpi var skólahald jafnt fyrir börn sem unglinga. Menntunartækifæri voru því með besta móti í hreppnum eftir því sem þá tíðkaðist til sveita. Vert er að taka fram að flestir virðast hafa átt kost á skólavist enda gengu börn og ung- lingar fátækra ekki síður í Núpsskóla. Var það til vitnis um aukið jafnrétti, en sú mikla stéttaskipting sem verið hafði við lýði frá landnámi var heldur tekin að dvína. Yfirstéttin hafði þó sem fyrr tögl og hagldir en alþýðunni var ætlað að sýna tilhlýðilega undirgefni. Sigtryggur ræktaði einnig upp kennslugarð fyrir nemendur Núpsskóla en hann var formlega stofnaður árið 1909 undir heitinu Skrúður. Þar var unnið mikið brautryðjendastarf og er hugtakið „skrúðgarður“ dregið af heiti hans. Opnaði hann augu margra fyrir ræktunarmöguleikum landsins auk þess sem hann var nærsveitungum til yndisauka. Með Skrúð hófst merkilegt ræktunarátak fyrir vestan og var trjá- ræktin þar sýnilegur vitnisburður um þær framfarir sem bjartsýni og framtak gátu haft í för með sér. Ungmennafé- lag Mýrahrepps og stúkan Gyða höfðu einnig mikil áhrif á menningar- og félagslíf í sveitinni en fundir og uppá- komur á þeirra vegum áttu sér gjarnan stað á Núpi. Núpsskóli veitti mörgum alþýðu- manninum von um betri framtíð með því að bjóða upp á menntun sem áður hafði ekki verið til staðar. Leyfi ég mér að slá því föstu að framlag skólans hafi verið ómetanlegt á velmektarárum hans og að áhrif hans hafi náð langt út fyrir Dýrafjörð. Í því sambandi leyfi ég mér að vísa í síðasta bindi ritraðarinnar Frá Bjargtöngum að Djúpi þar sem ég segi sögu fátækrar fjölskyldu frá Arnarnesi í Dýrafirði. Börn þeirrar fjölskyldu gengu í Núpsskóla á fyrstu árum hans en þau áttu öll eftir að rífa sig upp úr fátæktinni og afla sér starfsmenntunar. Átti það jafnt við um dæturnar sem synina. Má gera því skóna að þar hafi skólinn haft afgerandi áhrif. Hann veitti tækifæri og efldi mönnum metnað. Sveinn Mósesson var yngsta barn Arnarneshjónanna en hann var á barnsaldri þegar fjölskyldan flutti að Sjónarhóli, sem var þurrabúð í landi Núps, og var skólinn aðeins steinsnar frá heimkynnum hans. Ég eftirlæt honum að slá botninn í þetta greinarkorn en frásögn hans er táknræn fyrir það líf sem skólinn bar með sér í fásinni sveitarinnar. Eftirfarandi orð skrifaði hann á efri árum í minniskompu sína en honum lá ævinlega gott orð til skól- ans og gat verið ljúfsár í tali þegar um hann var rætt: „Þegar árshátíðirnar voru haldnar að Núpi þá komu ungu mennirnir á skíðum innan úr sveitinni og fóru á snjóbrú yfir Núpsána, þá var enginn vegur nema troðningarnir eftir Lækjarholtunum. Þá hlustaði ég eftir marrinu í skíðunum. Þá var hlustað eftir öllum hljóðum. Það var svo sjaldan að nokkuð ryfi kyrrðina.“ Leifur Reynisson, sagnfræðingur. Lumar þú á mynd innan úr baðstofu? Það er ekki nema rúmlega mannsaldur síðan þorri ís-lendinga bjó í baðstofum. Þessi húsakynni voru aðal íveruhús torfbæjanna og meginumgjörðin fyrir daglegt líf íbúanna. Baðstofan var löngum vagga íslenskrar menningar og hún sjálf, sem hjarta gömlu torf- bæjanna, eitt merkasta menningar- framlag íslendinga og norðurhjarans. Allmargir núlifandi íslendingar hafa haft beina reynslu af baðstofulífinu og muna enn þessar einstöku og fallegu stofur. Íslenski bærinn að Austur-Meðal- holtum í Flóahreppi, ( www.islenski- baerinn.is) er stofnun sem hefur það að meginmarkmiði að rannsaka og sýna margvíslegar hliðar á torfbæj- ararfinum. Þessi stofnun hefur verið í uppbyggingu áratugum saman og á síðasta ári var opnuð í nýjum sýningarsal all yfirgripsmikil sýning um íslenska torfbæjararfinn, sýning sem er mikilvægur áfangi frekari uppbyggingar, rannsókna og sýn- ingarhalds. Um þessar mundir er að hefjast undirbúningur að yfirlitssýningu og bókarútgáfu þar sem sjónum verður sérstaklega beint að baðstofunni. Markmið þessa verkefnis er að safna saman öllum þekktum og tiltækum myndum sem til eru innan úr bað- stofum. Til þessara mynda teljast allar myndir; teikningar, málverk og sérstaklega ljósmyndir sem sýna bað- stofurýmið eða einhvern hluta þess. Mjög fáar myndir eru til innan úr íslensku baðstofunni. Á blómatíma þeirra voru ljósmyndavélar tiltölu- lega fágætar og birtuskilyrði óhag- stæð þáverandi ljósmyndatækni. Nokkrar þekktar myndir eru þó til af íslensku baðstofunni. En mjög lík- lega gætu enn leynst góðar myndir hjá einstaklingum víðsvegar um land sem ástæða væri til að skoða og koma á framfæri í réttu samhengi. Hér með leitum við hjálpar almennings. Fólk sem sér þennan pistil, á eða veit um mynd eða lýsingu af baðstofu er vin- samlega beðið að hafa samband við Hannes Lárusson: islenskibaerinn@ islenskibaerinn.is síma 694-8108 eða Guðmundu Ólafsdóttur: guo22@hi.is síma 846-9775. Öll úrvinnsla myndefnis og upp- lýsinga verður í samræmi við bestu hefðir. Verkefni þetta er samstarfsverk- efni Íslenska bæjarins og Guðmundu Ólafsdóttur nemenda í safnafræði og er þessi myndasöfnun jafnframt hluti af lokaritgerð hennar í safnafræði. mynd: westfjords.is

x

Vestfirðir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirðir
https://timarit.is/publication/1082

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.