Vestfirðir - 26.11.2015, Blaðsíða 12

Vestfirðir - 26.11.2015, Blaðsíða 12
12 26. Nóvember 2015 Teigsskógur aftur í umhverfismat – 12 ár frá byrjun Vegagerðin hefur lagt fram nýja skýrslu um mat á umhverfisáhrifum af vegagerð í Austur Barðastrandarsýslu. Kynntir eru fimm kostir en megin- áhersla Vegagerðarinnar er á veg um Teigsskóg við vestanverðan Þorska- fjörð. Gert er ráð fyrir nýjum 20 km vegi frá Melanesi að Þórisstöðum í Þorskafirði með nýjum brúm á Djúpafirði og Gufufirði, sem áætlað er að kosti 4,9 milljarða króna. Brú og þverun yfir Þorskafjörð er áætluð kosta 1,8 milljarða króna. Samtals yrði heildarkostnaðurinn 6,7 milljarðar króna við að ljúka endurbyggingu Vestfjarðavegar 60 um A-Barðastrandarsýslu. Þessi kostur er kallaður Þ-H leið eftir staðarnöfnunum Hallsteinsnes og Þórisstaðir sem afmarka hinn umdeilda Teigsskóghluta leiðarinnar. Ódýr- asti kosturinn er svonefnd Hálsaleið, sem Vegagerðin lagði til í upphafi. Þar er gert ráð fyrir nýjum vegi yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls ásamt sömu brúm og þverunum og í hinum kostinum. Kostnaður við Hálsaleiðina er talinn vera 5.230 milljónir króna og er hún 20% ódýrari en Þ-H leiðin. Hálsaleiðin yrði 6 km lengri en Þ-H kosturinn. Hins vegar Hálsaleiðin ekki meðal kostanna sem boðið er upp á til umhverfismats vegna andstöðu sveitarstjórna í báðum hlutum Barðastrandarsýslu. Hinir kostirnir fjórir eru allir mun dýrari en Þ-H leiðin eða frá 9,7 millj- arð króna upp í 11,2 milljarða króna. Í tveimur þeirra er gert ráð fyrir jarð- göngum í gegnum Hjallaháls og hinir tveir miðast við miklar þveranir frá Melanesi yfir á Reykjanes annars vegar og yfir á austanverðan Þorskafjörð hins vegar. Telja verður að Þ-H leiðin sé sú eina sem er raunhæf kostnaðarlega séð. Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri segir í svari við fyrirspurn blaðsins Vest- firðir að „ef áætlanir vegagerðarinnar standast og ekkert óvænt kemur upp á er miðað við að lokarannsóknir og verkhönnun fari fram eftir mitt ár 2016 og útboð þá um haustið. Við reiknum með að inni í samgönguáætlun verði fjárveiting sem miði að því að fram- kvæmdir gætu eitthvað hafist fyrir árs- lok það ár, en það er háð ganginum í undirbúningsferlinu, veðurlagi o.s.frv. Etv er raunhæfast að miða við að fram- kvæmdir hefjist ekki af krafti fyrr en vorið 2017, en þó eru þarna ýmsir verkþættir sem etv mætti fara af stað með að vetri ef allt annað er orðið klárt. Við teljum ekki rétt að vera með nein loforð eða fullyrðingar um tímasetn- ingar á upphafi framkvæmda á þessu stigi , meðan ekki er séð fyrir endann á matsferlinu.“ 12 ára forsaga Deilur um nýjan veg um Austur Barða- strandarsýslu hafa staðið lengi yfir og er ekki lokið enn. Upphaf málsins má rekja til fyrstu skýrslu Vegagerðarinnar um umhverfismat frá 2003. Þar voru nokkrir kostir teknir til mats, en einkum var horft til þess að leggja nýjan veg um Teigsskóg í Þorskafirði og komast hjá hálsunum tveimur, Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi. Skipulagsstofnun samþykkti Hálsaleiðina og hafnaði Teigsskógsleið í úrskurði sínum árið 2006. Við það var ekki unað og málið kært til Umhverfis- ráðherra Jónínu Bjartmars. Hún heim- ilaði vegagerðina um Teigsskóg með tilteknum skilyrðum. Því var skotið til dómsstóla og á árinu 2009 felldi Hæsti- réttur ákvörðun Umhverfisráðherra úr gildi. Síðan þá hefur málið verið í þeirri stöðu sem leiddi af úrskurði Skipulags- stofnunar 2009. Næst er það 2013 sem Vegagerðin sendir nýjar hugmyndir til Skipulagsstofnunar og vill endurupp- taka umhverfismatið en þeim er hafnað. Ári síðar reynir Vegagerðin aftur og kynnir nú Þ-H leiðina og fjóra aðra kosti. Aftur hafnar Skipulagsstofnun og bendir á að breytingin sé svo lítil frá Teigsskógsleiðinni sem hafnað var 2006 að í raun sé um sama kostinn að ræða. Vegagerðinni er hins vegar bent á að Skipulagsstofnun geti fallist á upp- töku málsins ef forsendur hafi breyst verulega. Leiddi það til breytinga á Þ-H leiðinni sem varð til þess að í byrjun ársins 2015 samþykkti Skipulagsstofnun að fram færi nýtt umhverfismat sem nú er loksins farið af stað. Frumvarp um Teigsskóg Á síðasta kjörtímabili fluttu þrír þing- menn kjördæmisins frumvarp til laga þar sem lagt var til að ákveða með lögum veglínuna og fara framhjá um- hverfismatsferli og stofnunum sem um það eiga að fjalla. Það voru Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Eftir síðustu Alþingiskosningar urðu valdaskipti og Einar K Guðfinnsson varð forseti Alþingis og Gunnar Bragi Sveinsson varð utanríkisráðherra. Þrátt fyrir það hefur málinu ekki verið hreyft á Al- þingi og Gunnar Bragi svaraði því til á opnum fundi framsóknarmanna á Ísafirði síðasta föstudag að ekki væri nægur stuðningur á Alþingi við laga- setninguna. Mun minni umhverfisáhrif nú Skipulagsstofnun segir að nýja veglínan Þ-H skaði Teigsskóg mun minna en sú sem hafnað var. Veglínan breytist á þriðjungi allrar leiðarinnar og um helmingi þess kafla sem beinlínis liggur um Teigsskóg. Þá er hönnun vegarins breytt og verður hann 8 metra breiður í stað 7,5 metra áður. Samhliða er veg- urinn lækkaður og verður yfirborð hans aðeins 0.78 metri yfir landinu í stað 1,54 metra áður. Við þessar breytingar verður heildarbreidd vegsvæðisins 26 metrar í stað 32 metrar. Flatarmál raskaðs svæðis, vegur, fylling og sker- ing, minnkar um 2 hektara. Þá er hætt við að hafa efnisnámur í Teigsskógi og loks má nefna að vegurinn mun liggja niður í fjöru algerlega utan Teigsskógs á 2,6 km kafla. Eins er veglínunni breytt þannig að hún ristir ekki í gegnum skóginn endilangan eins og áður var fyrirhugað. Að öllu samanlögðu verður röskun skógarsvæðis 15,3 ha í stað 49- 51 ha áður. Að auki er ráðgert að endur- heimta 9 ha nýjan skóg þannig að nettó röskunin verður aðeins 6 hektarar í stað um 50 ha. Athyglisvert er að með nýjum upp- lýsingum er nú talið að 31 þúsund hekt- arar af skóglendi séu á Vestfjörðum, þar af 15 þúsund ha á sunnanverðum Vestfjörðum. Stærð Teigsskógs er nú metin sem 667 ha. Rask upp á 6 hektara er í öllum skilningi óverulegt, hvort heldur sem miðað er við 667 ha eða 31 þúsund hektara. Framhaldið óvisst Þegar hefur komið fram að andstaða er við fyrirhugaða Þ-H leið af hálfu sömu aðila og lögðust gegn Teigs- skógsleiðinni eldri. Það er því óvarlegt að gera ráð fyrir snurðulausri fram- vindu að þessu sinni. Þvert á móti má búast við kærum og jafnvel málshöfðun á nýjan leik fyrir dómsstólum. Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri vildi engu spá fyrir um hugsanleg dómsmál. Hvað langur tími kann að líða áður en endan- leg niðurstaða fæst er ekki gott að spá fyrir um, en fyrra ferlið tók 6 ár.

x

Vestfirðir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vestfirðir
https://timarit.is/publication/1082

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.