Bændablaðið - 11.09.2014, Page 4

Bændablaðið - 11.09.2014, Page 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. september 2014 Fréttir Eftirlitsverkefni Matvælastofnunar um upprunamerkingar: Þriðjungur af óinnpökkuðu innfluttu grænmeti er ómerkt Matvælastofnun og heilbrigðis- eftirlit sveitarfélaga stóðu fyrir rannsókn á merkingu upprunalands á matjurtum frá september 2013 til maí 2014. Árið 2009 voru settar reglur hér á landi um upprunamerkingar ferskra matjurta. Reglurnar ná þó ekki til allra matjurta, heldur fyrst og fremst til grænmetis og kryddjurta. Tilgangurinn með rannsóknarverkefninu var að kanna hvort upplýsingar um upprunaland væru til staðar, hvort þær væru læsilegar og hvort þær væru villandi. Rannsóknin leiðir í ljós að við þriðjung óinnpakkaðra matjurta, sem skoðaðar voru, vantaði fullnægjandi upprunamerkingar. Þessi niðurstaða kemur heim og saman við sjálfstæð eftirlitsverkefni sem Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, hefur haft með höndum frá 2011. Hann hefur gagnrýnt seinagang eftirlitsaðila og sagðist nýverið, í viðtali við Bændablaðið, ítrekað hafa þrýst á eftirlitsstofnanir að sinna skyldu sinni að þessu leyti. Hann telur að mikill misbrestur hafi verið á þessum merkingum allt frá setningu reglugerðarinnar. Þetta hafi að vísu lagast með árunum en talsvert vanti upp á að þessi mál séu almennt í lagi. Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að niðurstöður rannsóknarinnar sýni að margir ábyrgðaraðilar innpakkaðra matjurta og margar verslanir gefa skýrar og góðar upplýsingar um uppruna matjurta. Hins vegar séu einnig mörg dæmi um að upprunamerkingar, sem skylt er að merkja, vanti og er algengara að merkingar vanti á óinnpakkaðar matjurtir en innpakkaðar vörur. Allmargar verslanir þurfa því að bæta upprunamerkingar sínar, auk nokkurra pökkunaraðila. Í tilkynningunni frá Matvæla- stofnun segir enn fremur: „Rannsókn á upprunamerkingum matjurta var framkvæmd í 49 verslunum víða um land og voru um 368 innpakkaðar matjurtir og 292 óinnpakkaðar skoðaðar með tilliti til upprunamerkinga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að á innpökkuðum matjurtum voru upplýsingar um upprunaland á 84% vara sem innihalda eina matjurtategund. Á vörum með blöndu af tegundum voru upplýsingar um upprunaland allra tegunda á þremur af hverjum fjórum vörum. Upplýsingar um upprunaland vantaði því á 16% þeirra vara sem innihalda eina tegund en á um fjórðung vara sem innihalda blöndu matjurta. Merkingar þessara vara voru vel læsilegar í 92% tilfella og skýrar í 93% tilfella. Í 7% tilfella voru merkingarnar taldar óskýrar eða villandi. Óinnpakkað síður upprunamerkt Þegar óinnpakkað grænmeti er selt verður upprunaland að koma skýrt fram við vöruna þannig að neytandi geti á greiðan hátt séð hvaðan það kemur. Rannsóknin leiddi í ljós að við þriðjung óinnpakkaðra matjurta vantaði upprunamerkingar eða upprunamerkingin var með þeim hætti að ekki var greinilegt að hún átti við matjurtina. Jafnframt sýndu niðurstöðurnar að við þriðjung óinnpakkaðra matjurta var upprunamerkingin ekki vel læsileg þótt hún væri til staðar. Mikill munur er á milli verslana, sumar þeirra eru með allar óinnpakkaðar matjurtir vel merktar, en einnig eru dæmi um verslanir þar sem engar upprunamerkingar eru til staðar. Framkvæmd rannsóknarinnar þegar litið er til þátttöku, fjölda skoðunarstaða og matvara var með þeim hætti að niðurstöðurnar ættu að gefa góða mynd af ástandi upprunamerkinga á þeim matjurtum sem skylt er að merkja skv. reglugerð.“ Skýrslu Matvælastofnunar um eftirlitsverkefnið má finna á eftirfarandi vefslóð: http://mast.is/ matvaelastofnun/eftirlitsnidurstodur/ eftirlitsverkefni/. /smh Fljótafé til sýnis og sölu Fljótamenn verða með opið hús á Þrasastöðum laugardaginn 4. október kl. 13.30. Í auglýsingu í Bændablaðinu misritaðist dagsetningin og leiðréttist það hér með. Á opna húsinu verður hægt að kaupa kynbótalömb en einnig verður hrútasýning, veitingar og kynningar á heimaframleiðslu Fljótamanna. Bent er á að einungis má selja líflömb innan Tröllaskagahólfs að Svarfaðardal undanskildum. Að beiðni Matvælastofnunar (MAST) er vinna í gangi milli Matvælastofnunar og tölvudeildar Bændasamtaka Íslands við samanburð gagna. Annars vegar skráðum upplýsingum í upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFeng, og hins vegar skráðum upp- lýsingum í Bústofni, tölvukerfi Matvælastofnunar um búfjáreign í landinu. Ljóst er að tölur um hrossaeign ársins 2013 víkja verulega frá fjöldatölum liðinna ára vegna þeirra breytinga á lögum um búfjárhald sem fyrr voru rakin. Á liðnum árum hafa búfjáreftirlitsmenn safnað tölum um hrossaeign eftir að hross hafa verið tekin á hús þ.e.a.s á tímabilinu janúar til mars. Fjöldatölur hrossa hafa því komið fram með vorgögnum. Með breytingu á lögum um búfjárhald nr. 38/2013, sem tók gildi um síðustu áramót, færðist búfjáreftirlit sveitarfélaga til Matvælastofnunar. Eftir lagabreytinguna er hefðbundin vorskoðun ekki áskilin í lögum. Því er nauðsynlegt að tölur um hrossaeign komi fram með haustskýrslum (forðagæsluskýrsla) sem umráðamönnum búfjár er skylt að skila til Matvælastofnunar. Áríðandi er að eigendur/ umráðamenn hrossa skili haustskýrslum en þeim má skila með rafrænum hætti. Eins er mikilvægt að hrossaeigendur yfirfari skráningar í heimarétt WorldFengs um afdrif og merkingar hrossa sinna, en allir félagar í Landssambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda hafa frían aðgang að WorldFeng í dag. Sverrir Þ. Sverrisson hjá Matvælastofnun. Jón Baldur Lorange tölvudeild Bændasamtaka Íslands. Tölur MAST um minkaeldi á skjön við upplýsingar úr greininni: Tölur um fjölda dýra standast alls ekki segja minkabændur Loðdýraræktin hefur verið í örum vexti á Íslandi undanfarin ár og þykir uppbyggingin hér á landi til mikillar fyrirmyndar í greininni á heimsvísu. Þá hefur greinin verið að skila Íslendingum umtalsverðum gjaldeyristekjum. Þá er það ekki bara eldið sjálft sem er að skapa Íslendingum gjaldeyristekjur, því talsverðar tekjur fást einnig af sölu á minkafóðri sem selt er héðan til Danmerkur. Tölum MAST ber ekki saman við tölur minkabænda Í nýjum tölum MAST kemur fram að loðdýraeldið samanstendur að langmestu leyti af eldi á mink. Þar hefur fjöldinn á minkalæðum og högnum aukist úr 40.178 dýrum, árið 2012 í 64.484 dýr árið 2013. Samkvæmt samtölum við forsvarsmenn í minkaeldinu standast þessar tölur MAST hins vegar alls ekki. Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), segir að þótt met hafi verið sett í ásetningu á læðum í fyrrahaust þá hafi þær ekki verið „nema“ 45 þúsund talsins. Ef högnar séu taldir með þá séu þetta í mesta lagi 55 þúsund dýr, en ekki ríflega 64 þúsund eins og MAST haldi fram. Þá hafi fengist um 190 þúsund hvolpar. Í heild séu dýrin því um 245 þúsund sem er reyndar algjört met í þessari grein. Verðlækkun á skinnum en von um að jafnvægi sé að nást Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu, en eins og kunnugt er hefur verð á minkaskinnum hríðfallið frá því í fyrrahaust. Íslenskir minkabændur hafa á undanförnum árum átt næstdýrustu minkaskinnin á markaðnum á eftir Dönum. Fjölmargir nýir framleiðendur hafa komið inn í greininna á undanförnum árum og þá einkum í Asíu. Það hefur m.a. valdið því mikla verðfalli sem orðið hefur og vonast menn nú til að jafnvægi fari að nást. Skinnauppboð stendur nú yfir hjá Kobenhagen Fur í Kaupmannahöfn. Sala gengur vel og skinnaverð virðist lofa góðu. Langflestir minkar eru á Suðurlandi samkvæmt tölum MAST, sem greinilega verður að taka með nokkrum fyrirvara. Þar fjölgaði dýrum úr 19.912 árið 2012 í 40.070 árið 2013. Næst kemur Norðurland vestra sem var með 16.360 dýr árið 2012, eða álíka og Suðurland, en þeim fækkaði þar í 15.340 dýr árið 2013. Austurland taldist vera með 30.932 dýr árið 2013 og Reykjanessvæðið með 3.102 dýr. Refaræktin lognaðist út af Talsverð refarækt var á Íslandi á níunda áratug síðustu aldar og fór mest í 21.480 dýr á árinu 1986. Síðan féll refaeldið hratt og leið að heita má undir lok árið 2006. Á árinu 2013 voru samt 4 eldisrefir í landinu samkvæmt tölum MAST. Kanínueldi aftur á uppleið Þriðja loðdýraeldisgreinin á Íslandi er kanínueldi. Talsvert var um slíkt eldi á árum áður og þannig voru 3.259 eldiskanínur á landinu árið 1988. Á síðasta ári voru eldiskanínurnar hins vegar taldar vera 276. Þeim mun þó vera að fjölga nokkuð hratt m.a. vegna ræktunar á eldiskanínum hjá Kanínu ehf. á Syðri-Kárastöðum í Húnaþingi vestra. Þar er Birgit Kositzke að byggja upp eldi á kanínum, einkum til kjötframleiðslu, sem væntanlega verður byrjað að markaðssetja nú fyrir jólin. /HKr. – Sjá umfjöllun um búfjártölur Matvælastofnunar á bls. 20-21. Þeir virðast nú frekar veiklulegir þessir nýfæddu minkahvolpar á minkabúinu Mön sem Ingjaldur Breki Hauksson er þarna að skoða. Þeir eru samt hluti af merkilegu uppb ggingarstar greininni sem a að hefur slendingum drjúgra gjaldeyristekna. Mynd / HKr. MAST ber saman gögn um fjölda hrossa í landinu Samstöðuhátíð gegn matarsóun var haldin í Hörpu Samstöðuhátíðin „Saman gegn matarsóun“ var haldin í Hörpu 6. september síðastliðinn. Hátíðin er liður í norrænu samvinnuverkefni (United Against Food Waste Nordic) sem gengur út á að minnka sóun á mat á öllum stigum framleiðslu og neyslu. Viðburðir verða haldnir hjá öllum Norðurlandaþjóðunum á tímabilinu júní til október 2014 en verkefnið er hugsað til eins árs í senn. Auk viðburðarins í Hörpu verður framleidd heimildarmynd um matarsóun, gefin út matreiðslubók, framleiddur sjónvarpsþáttur, haldin námskeið fyrir almenning og stór málstofa verður skipulögð með aðkomu fagfólks. Málefninu komið í umræðuna Markmið samvinnuverkefnis er að koma matarsóun í umræðuna á Norðurlöndunum og finna raunverulegar lausnir. Það er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) en matarsóun er málefni sem skiptir miklu máli á heimsvísu og varðar umhverfismál, efnahagsmál og samfélagslega ábyrgð. Á vefslóðinni matarsoun.is má finna nánari upplýsingar um verkefnið og ýmsan hagnýtan fróðleik, sem getur komið að gagni fyrir fólk sem vill minnka sóun á matvælum. /smh Á vefnum matarsoun.is kemur fram að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 1,3 milljónir tonna af mat fari ruslið á hverju ári. Mynd / matarsoun.is

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.