Bændablaðið - 11.09.2014, Side 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. september 2014
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 7.200 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.600. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is
Blaðamenn: Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is
– Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Umbrotin við Bárðarbungu hafa
nú staðið linnulaust frá 16. ágúst.
Enn sem komið er hafa eldsumbrot
ekki valdið usla í sveitum eða
byggð, enda nær eingöngu bundin
við Holuhraunssvæðið með
tilheyrandi hraungosi. Síðustu
daga hafa Austfirðingar þó fengið
smjörþefinn af hættunni sem
getur stafað af því súra gasi sem
streymir upp úr gosgígunum.
Ef litið er á sögu eldgosa þá var
það einmitt gasmóðan sem olli hvað
mestum usla suður um alla Evrópu
í Skaftáreldum 1783 til 1784 þegar
Lakagígar gusu. Það hefur verið
talið mesta gos Íslandssögunnar og
eitt hið öflugasta á jörðinni. Aska
og gosgufur ollu miklu mistri og
móðu yfir Íslandi sem barst síðan
yfir Evrópu, Asíu og Ameríku. Mikil
mengun fylgdi móðunni sem olli
eitrun í gróðri svo búpeningur féll
unnvörpum á Íslandi og í Evrópu
sem aftur leiddi af sér hungursneyð.
Móðan og gosaskan ollu líka köldu
veðurfari vegna þess að þau drógu
úr inngeislun sólar og deyfðu
sólskinið. Þetta voru móðuharðindin
svokölluðu, mestu harðindi sem
dunið hafa yfir Íslendinga. Eldgosið
er eitt mannskæðasta eldgos í
mannkynssögunni. Menn skyldu því
ekki vanmeta hættuna sem skapast
getur af því gasi sem streymir upp
úr gígunum í Holuhrauni.
Vísindamenn hafa verið að
undirbúa sig undir að mögulega geti
orðið mikið sprengigos undir jökli í
sjálfri Bárðarbungu. Ef slíkt eldgos
yrði, þá skiptir öllu máli hvaðan
vindurinn blæs. Allir landsmenn
gætu hæglega fundið illilega fyrir
slíku gosi.
Þegar eldfjallið Askja gaus 1875
var það í fyrstu tiltölulega meinlaust
þegar gos hófst 3. janúar sama
ár. Að kvöldi 28. mars hófst svo
djöfulgangurinn fyrir alvöru með
gríðarlegu sprengigosi. Var gosið í
tveim lotum og stóð sú fyrri í einn
til tvo tíma en sú seinni í nokkrar
klukkustundir og var mun öflugri. Þá
lá vindur til norðausturs og lagðist
vikurlag yfir heiðar og niður í dali.
Á Jökuldal mældist eftir þessi
ósköp 20 sentímetra þykkt öskulag.
Þá nefna heimildir að brennheitir
vikurmolar á stærð við tennisbolta
hafi verið að falla í tuga kílómetra
fjarlægð frá eldfjallinu. Þessi ósköp
leiddu til þess að mikill fjöldi fólks
af áhrifasvæði eldgossins flýði til
Ameríku.
Þótt við vonum að slík niðurstaða
verði ekki afleiðing núverandi
óróahrinu, þá er alveg ljóst að
yfirvöld verða að vera við því búin
að leggja þurfi mikla fjármuni í
neyðaraðstoð ef illa fer. Eru menn
tilbúnir í þann slag? /HKr.
Varinn er góður
LOKAORÐIN
OECD og landnýting
Nýlega er komin út skýrsla Efnahags- og
framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu
umhverfismála á Íslandi. Í skýrslunni má finna
margar ágætar ábendingar um málaflokkinn
hérlendis. Bent er á að landsmenn búi við
einstakar náttúrulegar aðstæður, hlutfall
endurnýjanlegrar orku sé hvergi hærra
innan OECD og sífellt fleiri vilja sækja landið
heim eins og við þekkjum. Þá lofar OECD
auðlindastefnu landsins þ.e. stjórn fiskveiða og
orkunýtingarstefnuna sem felst í rammaáætlun
um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Hins vegar er líka nefnt að mikill fjöldi
ferðamanna geti valdið miklu
álagi á náttúruna. Þá er talin
vera of mikil áhersla á iðnað
sem byggist á ódýrri orku.
Hvorutveggja verði að stýra
skynsamlega á komandi árum
ef ekki á að hljótast tjón af. Þá
er einnig nefnt að stjórnsýsla sé
of veikburða og of fjárvana til
að fylgja eftir umhverfisreglum
með fullnægjandi hætti, t.d.
á sviði fráveitumála. Athygli
er jafnframt vakin á fáum
valkostum landsmanna í samgöngumálum að
frátöldum einkabílnum. Allt þetta eru mikilvæg
mál sem eiga skilið vandaða umræðu.
Stuðningskerfi landbúnaðarins
hvetur ekki til ofbeitar
Helst hefur þó vakið athygli gamalkunnur frasi
um ofbeit og landeyðingu. Talað er um að
stuðningskerfi landbúnaðarins hvetji til ofbeitar.
Bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið hafa tekið
þann punkt upp og m.a. rætt við Landgræðslustjóra
þar sem hann tekur undir þau sjónarmið sem
fram koma í skýrslunni. Hann heldur þar fram
að landnýting sé ekki sjálfbær og að bændur séu
hvattir með styrkjum til að hafa sem flest fé í
stað þess að horfa til afurðanna. Það kallar hann
„hausatölubúskap“.
Við þetta verður að gera athugasemdir. Fyrir
það fyrsta fer Landgræðslan með eftirlit með
landnýtingu hjá þeim sem taka þátt í gæðastýrðri
sauðfjárframleiðslu fyrir hönd Matvælastofnunar.
Hafi því eftirliti ekki verið nægilega sinnt
undanfarin ár hittir það Landgræðsluna sjálfa fyrir.
Reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu var
endurskoðuð í fyrra og ný reglugerð tók gildi í
ársbyrjun 2014. Framangreind endurskoðun hófst
að frumkvæði bænda. Atvinnuvegaráðuneytið
hafði fullt samráð við Landgræðsluna í þeirri
vinnu og stofnunin hafði mikil áhrif á ákvæði
um landnýtingu í hinni nýju reglugerð. Það er á
ábyrgð stofnunarinnar að fylgja þeim eftir.
Landgræðslustjóri kýs síðan
að drepa málinu á dreif með
því að vitna til þeirra deilna
sem hafa staðið um afréttinn
Almenninga sem lesendur
Bændablaðsins þekkja vel. Í því
máli hafa þeir fjáreigendur sem
eiga upprekstrarrétt farið alfarið
að lögum. Samningur um friðun
rann út og farið var fram á ítölu.
Niðurstaða hennar varð að beita
mætti 50 lambám á svæðinu og
það hefur verið gert í tvö sumur.
Úrskurðar yfirítölunefndar er enn beðið, en á
meðan gildir fyrri ákvörðun. Svo einfalt er það.
Ekki eru færð rök fyrir því að styrkjakerfið
hvetji til fjölgunar sauðfjár. Framleiðsla hefur
aukist undanfarin ár en það er vegna þess að
afurðir eftir hverja kind hafa aukist. Fjölgun fjár
frá 2008–2013 er tæp 3% en framleiðsluaukning
er tæp 11%. Afurðaaukning á hvern grip er því
tæp 8% á tímabilinu.
Opinber stuðningur er
föst fjárhæð í fjárlögum
Allar opinberar greiðslur til sauðfjárræktarinnar
eru fastar fjárhæðir í fjárlögum. Aukin framleiðsla
þýðir því einfaldlega að þær dreifast meira.
Bændur geta því ekki náð sér í fleiri krónur í
opinbera styrki með því einu að fjölga fé. Fjölgun
fjár hefur líka kostnað í för með sér og aðstæður
til þess eru einfaldlega misjafnar hjá einstökum
bændum og á einstökum landsvæðum. Heilmikil
tækifæri eru fólgin í sauðfjárræktinni og víða getur
verið hagfellt að fjölga, en annnars staðar síður.
Þar gildir ekkert eitt svar, en það er ekki hægt að
halda því fram að styrkjakerfið hvetji til fjölgunar.
Á hvaða gögnum byggist OECD?
Hvað varðar skýrslu OECD hefði stofnunin
þurft nýrri gögn til stuðnings því sem haldið er
fram. Ályktanir þeirra byggjast m.a. á gömlum
heimildum frá því á 9. og 10. áratug síðustu aldar.
Í umfjöllun um áhrif ferðamanna á landið er til
dæmist byggt á nýrri rannsóknum.
Rannsóknirnar sem vitnað er til skulu ekki
dregnar í efa hér, en aðstæður hafa breyst frá því
þær voru gerðar. Landgræðslustjóri hefur sjálfur
sagt að nú grær landið hraðar upp en það eyðist.
Það er rétt hjá honum. Við viljum halda áfram á
þeirri braut og því hlýtur að þurfa að meta stöðuna
upp á nýtt m.a.í ljósi þeirrar miklu fækkunar fjár
sem orðið hefur síðustu áratugi. Þá þarf að taka
tillit til þess að fyrr á árum var sauðfé beitt úti
á vetrum sem skapaði oft verulegt álag á landið.
Slíkt er liðin tíð.
Hundruð bænda stunda landgræðslu
Um 600 bændur um allt land starfa innan raða
verkefnisins „Bændur græða landið“ í samvinnu
við Landgræðsluna. Að auki stunda bændur ýmis
uppgræðslustörf og jarðabætur á sínum bújörðum
sem ekki eru innan verkefnisins. Bændur eru hvað
fjölmennastir við landgræðslu og það skiptir
verulegu máli að svo verði áfram.
Ég er þess fullviss að bændur vilja vinna
áfram með Landgræðslunni að landbótum og
uppgræðsluverkefnum, því þeir eiga auðvitað
allt sitt undir því að geta nýtt landið til framtíðar
litið. Órökstuddar fullyrðingar um stöðu þessara
mála eru óheppilegar og draga athyglina frá því
sem máli skiptir – að halda áfram að græða upp
landið. /SSS
Réttað í Undirfellsrétt
í Vatnsdal
Undirfellsrétt í Vatnsdal hefur lengi verið ein af stærstu
réttum landsins en þar var réttað um síðustu helgi.
Afréttarlöndin sem smöluð eru fyrir Undirfellsrétt eru
Grímstungu- og Haukagilsheiði ásamt hluta úr Víði-
dalsfjalli.
Hér er verið að reka fé í rétt seinni daginn en samtals
var smalað þar báða dagana um 15 til 17 þúsund fjár.
Á myndunum til hliðar er fólk í óða önn að draga fé í
dilka. Á myndinni lengst til hægri er Erna Bjarna dóttir,
hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og aðstoðarfram-
kvæmdastjóri samtakanna, búin að ná tökum á fallegu
lambi.
Myndirnar tók Hjörtur L. Jónsson.