Bændablaðið - 11.09.2014, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. september 2014
Einar Bergmundur og Guðrún Tryggvadóttir hjá Náttúran.is. Myndir / VH
Matarmarkaðurinn Hörpu:
Sælgæti úr íslenskri náttúru
og erlendar dásemdir
Matarmarkaður Búrsins var
haldinn í fimmta sinn í Hörpu
síðustu helgina í ágúst. Kynnendur
að þessu sinn voru 42 og gestir
hátt í 20 þúsund enda stanslaus
straumur að gestum báða dagana
enda margt að sjá og smakka.
Sælkerasveppir ehf. sérhæfir sig,
eins og nafnið gefur til kynna, í að
rækta sveppi. Ragnar Guðjónsson
eigandi segir að hann leggi aðallega
áherslu á ostrusveppi og það séu þeir
sem hann sé að kynna. „Hægt er að
fá þá bæði þurrkaða og ferska en við
höfum verið að selja þá í veitingahús
í tæp fjögur ár og ætlum fljótlega
að bjóða þá í smásölu í verslunum.“
Ragnar segir að sveppirnir séu
ræktaðir í 300 fermetra húsnæði í
Hafnarfirði sem sé að verða of lítið.
„Í dag seljum við 150 til 300 kíló á
mánuði til veitingahúsa og svo á eftir
að koma í ljós hversu mikið selst í
smásölu.“
Sjávarþörungar til matargerðar
Þóra Valsdóttir hjá Matís var að
kynna sjávarþörunga og hvernig
hægt er að nota þá til matargerðar.
„Kynningin er á vegum Matís og
hluti af stærra verkefni sem kallast
Ny Nordisk Mat og felst meðal
annars í að kynna þörunga til matar.“
Þóra segir að líklegast hafi
Íslendingar lært að borða þörunga
af írskum formæðrum okkar því
neysla á söl þekkist ekki í Noregi
fyrr á tímum nema í hallæri og þeir
eru lítið fyrir það enn í dag. „Dæmi
um sölvaát á Íslandi er að finna í
Egils sögu og í Grágás þar sem er að
finna reglur um verslun með söl en
verðmæt afurð áður fyrr. Þrátt fyrir
að söl hafi verið mest notuð er líka
þekkt að fólk lagði sér aðrar tegundir
af sjávarþörungum til matar eins og
fjörugrös, stór- og beltisþara.“
Bulsur – grænmetispulsur
Grænmetispulsur, eða bulsur eins og
þær eru kallaðar, komu á markað á
síðasta ári. Berglind Hesler segir
að meginuppistaðan í þeim sé
bankabygg af Héraði. „Í þeim eru
líka nýrnabaunir, hör- og thíafræ auk
fersks hvítlauks og chili sem hefur
bætt uppskriftina heilmikið.“
Berglind segir að sala á bulsum
gangi vonum framar. „Framleiðslan
er í Reykjavík en höfuðstöðvarnar
eru í Berufirði þar sem ég og Svavar
Pétur Eysteinsson eru að prófa
okkur áfram með gulrófusnakk sem
vonandi kemur á markað áður en
langt um líður.“
Góður ilmur og gott bragð
Arctic Mood í Garðabæ og Selfossi
framleiðir te úr íslenskum jurtum.
„Við höfum verið að prófa okkur
áfram með nokkrar útgáfur og nýlega
settum við nýja tegund á markað sem
heitir Jarlinn. Það líkist dökku Earl
Gray en er gert úr hvannarblöðum
og fræjum,“ segir Birgir Þórðarson
garðyrkjufræðingur.
Íslenskt lynghunang
Merkurhunang er ný vara sem
kom á markað í ágúst á þessu
ári, segir Þorbjörn Andersen
býflugnaræktandi. „Hunangið
kemur af búum í Grímsnesi og við
Hafravatn. Því miður var uppskeran í
ár minni en ég hafði vonað og er þar
helst að kenna miklum rigningum í
júní og júlí. Tíðin í ágúst bjargaði
aftur á móti því sem bjargað var og
ætli ég hafi ekki náð 90 kílóum af
hunangi í heildina sem getur ekki
talist mikil uppskera.“
Spírandi ofurfæði
Katrín Árnadóttir hjá Eco spíra
framleiðir spírur og hunang sem
kemur af búi í upplendi Hafnarfjarðar.
„Flugurnar safna hunanginu af
beitilyngi og það er ótrúlega ljúffengt.
Við erum einnig að framleiða
lífrænar spírur af mörgum gerðum
eins og brokkolí, grænkáli, radísum,
alfa alfa, baunum og sólblómum en
það er ný framleiðsla. Framleiðslan
er 100% lífræn og fyrirtækið hefur
verið starfandi í tæp tvö ár.“
Verðlaunamakríll frá Hornafirði
Heitreyktur makríll frá Hornafirði
hlaut á síðasta ári gullverðlaun
sem besta afurðin í samkeppni
smáframleiðenda í Svíþjóð. Ómar
Frans Fransson er eigandi Sólskers
ehf. „Auk makríls framleiðum við
heitreykt þorskhrogn og makrílpate.“
Ómar segist enn vera smáverkandi
þrátt fyrir verðlaunin og að hann selji
megnið af sínum afurðum á hótel
og í gegnum einn dreifingaraðila í
Reykjavík.
Þorgrímur Einar Guðbjartsson, mjólkurfræðingur og bóndi á Erpsstöðum,
og austurríski ostagerðarmaðurinn Gerald.
Þorbjörn Andersen bý ugnaræktandi.
Ragnhildur Jónsdóttir heklar úr
geitarull.