Bændablaðið - 11.09.2014, Page 24

Bændablaðið - 11.09.2014, Page 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. september 2014 Kornræktin í Belgsholti: Bleyta og illgresi til vandræða „Ég er með í kringum 64–65 hektara undir korn í sumar og það er svipað og verið hefur undanfarin ár. Síðasta ár var alveg sérstaklega óhagstætt, þannig að ég þurfti bæði að kaupa talsvert af sáðkorni og fóðri. En ég hef nú haldið mínu striki bara öll þessi átta til tíu ár, því til lengri tíma litið er kornræktin til mikilla hagsbóta fyrir mitt bú – þótt það komi eitt og eitt slæmt ár,“ segir Haraldur Magnússon, sem rekur kúabú í Belgsholti í Melasveit. „Ætli ótíðin í fyrra hafi ekki kostað mig fjórar til fjórar og hálfa milljón í sáðkorn og fóður miðað við það sem venjulegt má teljast. Reyndar lítur þetta ekkert sérstaklega vel út hjá mér núna þótt það sé mun betra en í fyrra. Það er komið talsvert illgresi í akrana og það stefnir í að ég geti ekki losnað við það nema eitra í þá. Það er kominn njóli og alls kyns annað illgresi og ég sé ekki aðra leið úr þessu. Ástæðan er sú að það eru komin illgresisfræ út um alla akra – sem dreifast bara í jarðvinnunni – og þá er ekkert við því að gera annað en að eitra. Svo hefur tíðarfarið vafalaust gert arfanum auðveldara fyrir í að breiða úr sér, en það hefur verið hér mjög rakt og frekar hlýtt í sumar. Kornið hefur líka þroskast seinna og þar með gefið illgresinu betri vaxtarskilyrði. Bleytan í sumar, í svona mýrarstykkjum eins og hér eru, er líka óhagstæð fyrir byggið. Hafrar, til dæmis, þola slíkt mun betur,“ segir Haraldur. Haraldur kvartar líka yfir gæsinni – að hún hafi verið talsvert ágeng nú síðsumars – en segir hins vegar að álftin láti yfirleitt ekki sjá sig fyrr en með haustinu. Haraldur segir að nokkuð sé í að hann byrji að þreskja. Hann sé með nokkur yrki í gangi, þar á meðal fljótsprottna skeglu sem hann ræktar heima. Vindmyllan komin í lag Eins og fjallað hefur verið um í Bændablaðinu og víðar, setti Haraldur upp vindmyllu í Belgsholti í júlí 2012. Hann keypti mylluna t i lbúna t i l uppsetningar en mastrið smíðaði hann sjálfur. Á ýmsu hefur gengið með virkni hennar á þessum tíma; spaðar brotnuðu til að mynda af á síðasta mastrið féll. Þegar blaðamaður renndi í hlað á Belgsholti virtist allt vera eðlilegt, enda snerust spaðar hennar hægt og örugglega. Þegar Haraldur hafði sýnt blaðamanni ástand kornakranna, bar svo við að myllan hafði stöðvast. „Það eru einhver vandamál enn til staðar,“ útskýrir Haraldur. „Vandamálið virðist vera bundið við svokallaðan „encoder“ – en hann ákvarðar eða stillir af afstöðu spaðanna gagnvart vindáttinni. Ef það gerist ekki á réttan hátt, slær einfaldlega út og hún fer í neyðarstöðvun,“ segir hann. Þegar blaðamaður talaði svo við Harald fáeinum dögum síðar var hann búinn að skipta um encoder og hafði allt gengið eðlilega síðan. Haraldur bindur vonir við að myllan muni skila honum drjúgum sparnaði á rafmagnskaupum þegar hún verður farin að skila fullum afköstum – eða jafnvel allt að 70 prósentum. Það mun koma sér vel fyrir kúa- og kornræktarbú, sem þarf meðal annars að standa straum af kostnaði við rekstur orkufrekrar kornþurrkstöðvar. /smh Kornræktin á Melum í Melasveit: Fimm hundruð hektara landrými „Við erum að vinna landrými á Melum og höfum verið að gera það síðastliðin fjögur ár,“ segir Geir Gunnar Geirsson, eigandi svínabúsins Mela í Melasveit. „Talsverð vinna hefur farið í að brjóta land, ræsa fram, kalka, gera vegi og fleira – því landið er talsvert súrt og blautt. Við sáðum fyrst í akra þarna í fyrra og það var svo blautt og kalt allt síðasta sumar að það má segja að það hafi hreinlega orðið uppskerubrestur. Við þresktum um 150 hektara þá en uppskeran var auðvitað langt undir meðaltali. Núna í vor tókum við aðeins meira land undir og mér sýnist að rúmlega helmingurinn hafi spjarað sig. Landið var bara sums staðar of blautt – og ekki tilbúið undir sáningu – til að það væri mögulegt að sáning tækist sem skyldi. Eftir á að hyggja vorum við kannski helst til bjartsýnir í sáningu. Landrýmið sem við höfum þarna til kornræktar, má segja að sé nálægt 500 hekturum. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að vera með sáðskiptaplan og vera með um 400 hektara undir korn í gangi í einu.“ Geir Gunnar er bjartsýnn á framtíð kornræktar á Íslandi þrátt fyrir slæm sumur undanfarin ár. „Ég hef verið að vonast til þess að bændur sem ættu landnæði sem ekki væri nýtt, myndu láta þau til nota í kornrækt. Í framtíðinni væri áhugavert bæði fyrir svínabændur – og ég tala nú ekki um fóðurfyrirtæki og ölgerðir – að íslenskt korn yrði keypt í mun meira mæli en nú er gert. Vonandi verður almennileg vakning fyrir þessu – því af þessu getur leitt alveg gríðarleg stærðarhagkvæmni. Fyrir heildarsamhengi landbúnaðarins á Íslandi skiptir sjálfbærni öllu máli.“ Höfum fína aðstöðu og allt til alls Við ætlum bara að halda áfram núna á fullum krafti á Melum – enda lagt mikla vinnu í þetta. Við erum komin með fína aðstöðu og höfum allt til alls; erum komin með þurrkara þarna á planið, búnir að grafa skurði, höfum áburðinn og svínin sem eiga að éta kornið. Bygg getur verið allt að 70 prósent af fóðri svína, þannig að það eru miklir hagsmunir í húfi. Það er þó ljóst að byggræktin á Melum dugar í raun engan veginn alveg fyrir svínabúið.“ Geir Gunnar segir ágætt útlit með uppskeru nú í haust. „Það var hlýtt þótt það hefði verið blautt á löngum köflum og mér sýnist það vera ágæt fylling í því. Menn verða líka að hafa í huga að í raun er þetta ekkert öðruvísi en gerist og gengur erlendis. Þar geta menn allt eins átt von á uppskerubresti eins og hér. Menn verða bara að geta haldið út í dálítinn tíma því þegar til lengri tíma er litið hefur reynslan sýnt að kornrækt mun borga sig.“ /smh Kornræktin á landsvísu: Lítur afar vel út fyrir Norður- og Austurland – Misjafnt útlit á Vestur- og Suðurlandi Fyrir um mánuði síðan sagði Jónatan Hermannsson, til- raunastjóri Landbúnaðarháskóla Íslands á Korpu, í viðtali hér í blaðinu að útlitið væri gott í kornræktinni þetta sumarið. Taldi hann líkur á því að um afbragðsgott kornár væri að ræða ef það viðraði vel næstu þrjár vikurnar. Bændablaðið kannaði stöðuna hjá ráðunautum um allt land. Nú virðist ljóst að vonir um metuppskeru um allt land verða ekki uppfylltar. Afar vel lítur samt út fyrir Norður- og Austurland. Kornrækt dregist saman á Vesturlandi Sigurður Jarlsson, ráðunautur fyrir Vesturland og Vestfirði, kannaði stöðuna fyrir blaðið á hans svæðum. „Ég hringdi meðal annars í Magnús í Ásgarði sem er með rúma 40 ha og Svan í Dalsmynni sem er með um 20 ha – en nokkuð margir eru nálægt honum. Útlit þarna er allgott, mun betra en í fyrra enda var þá líklega hér á Vesturlandi eitt lakasta ár frá upphafi. Í Ásgarði er stutt í þreskingu, líkast til byrjað í næsta þurrkakafla og eins er Melabúið búið að kalla eftir þreskingu á einum 20 ha – en annað er seinna. Svanur í Dalsmynni var ekki alveg jafn ánægður með útlit og Magnús, helst var það væta í júní sem hefur skaðað, sumir akrar aðeins skellóttir. Heilt yfir er útlit þokkalegt og stefnir í gott meðalár, en samt nokkuð misjafnt milli bæja.“ Kornrækt verið hætt í Dölum og norðanverðu Snæfellsnesi „Mín tilfinning er að kornrækt á vestanverðu landinu hafi dregist frekar saman en hitt og þá líklega vegna tíðarfars síðustu sumra. Held til dæmis að allir Dalamenn séu hættir kornrækt. Líkast til enginn heldur á norðanverðu Snæfellsnesi. Margir hér í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu eru smærri í sniðum en fyrri ár. Hvetur Sigurður bændur til að skrá tjón vegna ágangs álfta og gæsa samviskusamlega svo hægt sé að ná heildrænt utan um vandann. Þannig fáist vonandi marktækar upplýsingar sem hægt verði að byggja aðgerðir á.“ Uppskeruhorfur góðar í Skagafirði Eiríkur Loftsson kannaði stöðuna fyrir Skagafjörð. Hann segir uppskeruhorfur almennt góðar í Skagafirði, magn sé í góðu meðallagi og þroski víða með besta móti. Gisnir akrar og lakari finnist þó einnig. Hann segir sennilegt að svipuðu hafi verið sáð og í fyrra í Skagafirði, en bændur veigri sér við því að auka við sig vegna óstöðugs tíðarfars. Ræktendum fækkar í Eyjafirði en uppskeruhorfur góðar „Ég held að þeim sem ræktað hafa nokkuð á síðustu árum vegna óstöðugleika í tíðarfari,“ segir Sigurgeir B. Hreinsson. „Kornskurður er nokkuð kominn af stað og dæmi eru um mjög góða uppskeru. Eitthvað er og þeir sprotar eru þá með grænt og óþroskað korn enn. Annars lítur þetta vel út.“ Uppskera með allra besta móti í Þingeyjarsýslum María Svanþrúður Jónsdóttir segist ekki hafa fregnað af beinum uppskerutölum úr Þingeyjarsýslum en kornskurður sé í fullum gangi og uppskera með allra besta móti. Uppskerumagn á Austurlandi líklega mun meira en í meðalári Fyrir Austurlandi urðu þau Guðfinna Harpa Árnadóttir og Þórarinn Lárusson til svara. Þau segja tíðarfar hafa verið með eindæmum gott í sumar og kornþroski þar af leiðandi góður, eða um tveimur til þremur vikum fyrr á ferðinni en í meðalári. Uppskerumagn verði líklega einnig mun meira. Tíðarfar og nýting áburðarefna hafi meira að segja verið það gott að „hreiður“ í ökrum séu algengari en á undanförnum árum. Þau segja að eitthvað minna hafi verið sáð af korni í ár – og einnig í fyrra – sennilega vegna þess að bændur séu brenndir af tíðarfari. Töluverður ágangur var af álftum og gæsum í vor en akrar virðast hafa náð sér ágætlega. Gott útlit í Austur-Skaftafellssýslu Grétar Már Þorkelsson segir að í Austur-Skaftafellssýslu líti vel út með kornrækt. „Því miður lítur út fyrir að færri séu í kornrækt en í fyrra, en það er eingöngu vegna ágangs gæsa þar sem tjón er mikið bæði að vori og hausti. Einn bóndi er búinn að þreskja, en það hefði mátt bíða að hans sögn. Það var hins vegar spurning um að ná einhverju þar sem gæsin var mjög aðgangshörð, þó svo að gasbyssur hefðu verið notaðar. Kornrækt lítur líka vel út í Vestur- Skaftafellssýslu og er einhver aukning í Mýrdalshreppi.“ Misjafnt á Suðurlandi Sveinn Sigurmundsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands segir sólríka daga síðsumars hafa lagað stöðuna mikið. „Þorvaldseyrarbúið er búið að þreskja þó nokkuð. Veit samt um nokkur dæmi þar sem kornuppskera er misheppnuð vegna bleytu framan af. Mér sýnist að horfur séu góðar eða allgóðar í uppsveitum þar sem heldur minni úrkoma hefur fallið. Í lagsveitum eru horfur misjafnari. Sum staðar eru skaðar vegna bleytu og útskolunar áburðarefna. Kornið er þó að ná mun betri fyllingu en í fyrra. Nú vantar þurrt veður til þreskingar. Veit dæmi um mjög góða uppskeru þar sem þresking hefur farið fram.“ /smh

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.