Bændablaðið - 11.09.2014, Síða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 11. september 2014
Af sauðburðarvaktinni í Skotlandsferð með Spretti
Það er ómetanlegt sáluhjálparatriði
á sauðburði að hafa eitthvað á
dagskránni sem horft er fram til með
eftirvæntingu, að þessum annatíma
loknum. Þennan sannleika upplifði
þreytt húsmóðir og sauðfjárbóndi
í Suður-Þingeyjarsýslu þegar
hún skjögraði á næturvakt um
miðjan maímánuð, illa sofin með
kuldahroll í kroppnum og seiðing
í höfðinu. Mögulegt var að kæfa
sjálfsvorkunnarkastið í fæðingu
þegar það rifjaðist upp fyrir henni
að þau hjónin höfðu þá þegar
bókað sig í bændaferð til Skotlands
með Skeljungi. Guði sé lof. Mánuði
síðar lentu þau hjónin ásamt 26
öðrum glaðlegum og galvöskum
bændum á Glasgow-flugvelli, í 24
stiga hita, sól og blíðu.
Fararstjórarnir, þeir Aron
og Lúðvík, starfsmenn hjá
Skeljungi, söfnuðu sauðunum
saman við töskufæribandið og
buðu ferðalangana velkomna á
skoska grundu. Þá komu einnig
til sögunnar þeir Mark og Peter,
starfsmenn áburðarverksmiðjunnar
sem Skeljungur verslar við. Þeir voru
gestgjafar hópsins og leiðsögumenn
okkar ferðalanganna flesta dagana
og nutum við indællar nærveru
þeirra meðan á dvöl okkar stóð.
Þeir tilkynntu okkur strax í upphafi
að þetta væri dæmigert veðurfar
í Skotlandi sem við værum lent í.
Eitthvað í svip þeirra sagði okkur
að þeir væru ekki að segja allan
sannleikann.
Smakkað á haggis
Fyrsta stopp var í Stirling-kastala
þar sem hópnum var boðið upp
á hressingu á glæsilegum og
fornaldarlegum veitingastað sem
er þar innan virkismúranna. Síðan
fengum við leiðsögn og fylgd hjá
hinum alþýðlega Joseph, sem leiddi
okkur um og fór í grófum dráttum
yfir sögu kastalans og benti á helstu
minnismerkin. Sögustund Josephs
um hugrakka kappa og konur, sem
háðu oftar en einu sinni hetjulega
baráttu fyrir sjálfstæði, frelsi og
réttlæti, færði okkur nær anda
þjóðarinnar. Það var víðar en á Íslandi
þar sem hvorki var tími né rúm til
að gráta Björn bónda eða hvað hann
nú hét, heldur söfnuðu menn liði og
sneru vörn í sókn. Í þessari heimsókn
upplifðum við gestrisni, hógværð og í
senn glaðværð Skotanna sem átti eftir
að mæta okkur hvert sem við fórum.
Um kvöldið var hópnum boðið út
að borða á hið fínasta veitingahús þar
sem boðið var upp á þrírétta máltíð
og kynntust flestir þá haggis, sem er
einhvers konar þjóðarréttur Skota,
en minnir einna helst á lifrarpylsu.
Skotarnir matreiða haggisið þó
á ýmsan máta, ýmist innbakað í
smjördeig, djúpsteikt eða bara eins og
hakk borið fram með rófustöppu og
kartöflumús. Ekki endilega ljúffengt
að allra mati, en nauðsynlegt að
smakka þegar komið er til Skotlands.
Konungleg Hálandasýning
Föstudagurinn 20. júní var hápunktur
dagskrárinnar, en þá heimsótti
hópurinn hina stórglæsilegu sýningu
Royal Highland Show. Farið var á
fætur á helst til ókristilegum tíma til
að mæta nógu snemma og eyddum við
deginum á landbúnaðarsýningunni,
enda margt þar að sjá og upplifa.
Skosk sauðfjárrækt er mjög
fjölbreytileg og margar tegundir
ræktaðar. Þarna mættu bændurnir
með sín bestu afkvæmi og keppt var
í hverjum flokki.
Allt svæðið var vel skipulagt
og dagskráin sömuleiðis. Hægt
var að ganga á milli húsa og skoða
geitur, kýr, naut, kálfa og hesta
og njóta sýninga á þeim, sem
voru á auglýstum tíma. Heilmikið
handverk var til sýnis og sölu og
umfangsmiklar kynningar á ýmsum
landbúnaðarvörum, að ónefndu
skoska viskíinu.
Mögulegt var að eyða drjúgum
tíma af deginum í að skoða vélar og
tæki og mátti sjá fullorðna menn verða
drengi á ný, stadda í leikfangalandi
drauma sinna. En stærðin á sumum
vélunum var yfirþyrmandi að mati
sumra og óraunveruleg, það var líka
verðið á flestum þeirra.
Skoskt fé, fasanar og viskí
Næsta dag tókum við hús á bónda
nokkrum sem lifir á sauðfjárrækt,
með um 1.800 kindur og einnig
ræktar hann endur og fasana. Við
fengum að líta nokkur þúsund
andarunga og einnig voru fasanarnir
þarna heima við, en í október fer
hann með 12.000 þeirra inn í skóginn
sem er þarna í landi hans og selur
skotglöðum veiðimönnum aðgang.
Greiða þarf 23 pund fyrir stykkið.
Eftir hádegið skoðuðum við skoska
viskíverksmiðju og smökkuðum
nokkrar tegundir af The Famous
Grouse, sem runnu ljúflega niður
kverkarnar. Spretts-fulltrúarnir
afhentu ferðafélögunum óvæntan
glaðning á leiðinni heim, flösku af
þessari tegund, en sérmerkt ,,The
Famous Sprettur“. Trúlega hafa
allar flöskurnar fengið heiðursstað á
hverju heimili þegar heim var komið.
Þetta kvöld nutum við
enn höfðinglegrar gestrisni
Skeljungsmanna, sem buðu hópnum
út að borða og var Aron svo hjálplegur
að þýða margréttaðan matseðilinn
fyrir hópinn. Gat fólk því valið um
,,frjálsgangandi kjúkling eða lúðu
,,fillet“ með trufluðum sveppum“ og
sitthvað fleira. En allt smakkaðist vel
og reynt var að létta á birgðastöðunni
í kjallara hússins.
Síðasta daginn var hópnum
boðið að fara til Edinborgar með
rútu og þar byrjuðu flestir á því
að skoða Edinborgarkastala,
sem er stórkostlegur í alla staði.
Aðgengilegar upplýsingar eru
um sögu staðarins og þjóðarinnar
og þarna var t.d. hægt að sjá hin
konunglegu djásn krúnunnar sem
falin voru í kastalanum í fyrri
heimsstyrjöldinni og lifa sig inn í
söguna innan um sögulegar gersemar.
Handan við kastalann er stór
verslunargata og fundvísar húsmæður
höfðu meðal annars uppi á hinni
títtnefndu H&M-búð þar sem margur
bóndinn guðaði á gluggann meðan
frúin ýtti undir djúpa uppsveiflu
í skoska efnahagskerfinu. Næsta
dag var haldið heim og heyskapur
í framhaldinu.
Hópurinn átti góða og
ógleymanlega daga og er hér
með komið á framfæri þakklæti
til Skeljungsmanna fyrir að bjóða
„áburðar-viðskiptavinum“ upp á
þessa bændaferð. Sérstakar þakkir
færum við þeim nöfnum, Lúðvík
og Lúðvík og svo Aroni, Mark og
Peter fyrir leiðsögn og ánægjulega
samfylgd.
/Halla Kristjánsdóttir
Hópur íslenskra bænda kominn á skoska grund ásamt starfsmönnum Skeljungs.