Feykir


Feykir - 10.04.1991, Qupperneq 6

Feykir - 10.04.1991, Qupperneq 6
6 FEYKIR 13/1991 Guðbrandur Magnússon: Yfirleitt endaði þetta um miðja nótt Það var í ritstjóratíð Guðbrandar, sem Feykir opnaði ritstjórnarskrifstofu í gamla bæjarþingsalnum þar sem blaðið er enn til húsa. Hér neglir ritstjórinn upp skilti með haus blaðsins á þessum tíma. Upphaf þess að ég hóf störf sem ritstjóri Feykis fólst í því að útsendarar blaðsins náðu í mig norður á Akureyri, þar sem ég var þá við störf hjá Bókaforlagi Odds Björnsson og stýrði útgáfu á því gagnmerka tímariti Heima er bezt ásamt því að vinna við útvarpið á Akureyri í hjáverkum. Öll prentvinnsla Feykis fór í upphafi fram í Prentverki Odds Bjömssonar og fylgdist ég að sjálfsögðu grannt með öllu sem fram fór, bæði vegna þess að ég hef áhuga á allri útgáfustarfsemi og svo auðvitað vegna þess að ég er Sauðkrækingur. Ritnefndarmenn Feykis komu hálfsmánaðarlega til Akur- eyrar ásamt ritstjóranum, sem þá var Baldur Hafstað til að fylgjast með umbroti blaðsins. Þeir sem þekkja til slíkrar vinnslu vita, að útilokað er að senda handritin í prentsmiðju án þess að fylgja eftir uppsetningunni og fráganginum. Eg spjallaði oft við þessa kunningja mína og lagði blaðinu það lið sem ég mátti. Sem vonlegt var þreyttust aðstandendur Feykis á því að þeytast stöðugt yfir Trölla- skaga til að láta setja og prenta blaðið auk þess sem þeim var meinilla við það af byggðapólitískum ástæðum. I ritstjórahallæri fóru þeir þess því á leit við mig, að ég tæki að mér bæði ritstjórn Feykis og prentsmíðina og lét ég tilleiðast og flutti til Sauðárkróks. Ég þurfti því að byrja á því, að útvegatæki til prentsmíðinnar og húsnaeði undir þau og blaðið. Ég keypti til landsins tölvu, sem á þeim tíma var nokkuð fullkomin, til að setja blaðið með og önnur þau áhöld sem prentsmíð krefst. Þetta var mikilvægur áfangi í sögu blaðins og tryggði að ég held áframhaldandi útgáfu. Sam- timis þessu opnaði blaðið ritstjórnarskrifstofu í fyrsta sinn. Fyrir valinu varðgamli bæjarþingsalurinn í Aðalgötu 2, sem þá hafði lengi staðið ónýttur fullur af drasli. Ég mokaði því út, þreif og málaði og gerði úr þessu þokkalega aðstöðu. Núna eru Stebbi Árna og Guðni í þessu plássi, en Feykir kominn í suðurendann, sem fyrst á mínum tíma var íbúð Geirlaugs Magnússonar, ljóð- skálds og kennara. Ég varð reyndar lítið var við Geirlaug, en þó fór vera hans í húsinu ekki fram hjá neinum, því lyktin af frönsku sígarettunum hans smaug um alla bjálka hússins. Eftir að vinnsla blaðsins fluttist til Sauðárkróks var hægt að vera með nýrri fréttir í blaðinu en áður hafði verið mögulegt. Fyrst og fremst skapaðist þó við það ákveðin festa, blaðið hafði ritstjómar- skrifstofu sem allir vissu hvar var og var opin alla daga. I starfi mínu sem ritstjóri lagði ég höfuðáhersluna á fréttaflutning og hafði ríkan metnað fyrir hönd blaðsins að það flytti fjölbreyttar fréttir og væri á undan öðmm fjölmiðlum með fréttir úr kjördæminu. Það tókst ótrúlega oft, enda var mikið um að vera á þessum árum. Ég var að fletta blöðunum nú um daginn, og meðal þeirra mála sem efst voru á baugi má nefna uppbyggingu stein- ullarverksmiðjunnar, enda- lausar deilur um riðuveiki, viðkvæmar kosningar um áfengisútsölu á Króknum, deilur meðal framsóknar- manna, sem enduðu með sérframboði svokallaðra göngu- manna. Á Sauðárkróki lífgaði sumarsæluvika uppá tilveruna, Tindastóll komst upp í aðra deild í fótbolta, Skagfirðingabúð var opnuð og svona mætti lengi telja. Mér fannst mikilvægt að Feykir hefði ákveðið frum- kvæði í því að afla frétta og greina, í stað þess að bíða eftir að einhver birtist í dyrunum með efni í blaðið. Við fórum víða til að afla efnis. Minnisstæðar eru göngur á Eyvindarstaðaheiði með úrvalsfólki úr Lýtingssstaða- hreppi, viðtal á bökkum Ströngukvíslar við „uppreisnar- menn” úr röðum hrossa- bænda sem ráku hross sín gegn vilja stjórnvalda á Auðkúlu- og Eyvindarstaða- heiði og mikil fundahöld og eftirmálar um beitarþol. Á þessum tíma var einnig merkilegur viðtalsflokkur um konur í Skagafirði og fleira mætti nefna. Mér fannst og finnst enn að höfuðáhersluna eigi Feykir að leggja á fjölbreyttan og vandaðan fréttaflutning. Til þess að geta flutt nýjar fréttir þarf að bera sig eftir þeim, það eru ekki lengur fréttir það sem allir vita og á slíku lifir ekkert blað. Þess vegna réði ég sérstakan blaðamann í Húnaþingi, Magnús Ólafs- son á Sveinsstöðum, og síðar kom Hávar Sigurjónsson einnig til liðs við mig og tók svo við ritstjórninni þegar ég hætti. Blaðið kom út á miðviku- dögum og vann ég oft frameftir á mánudögum við að rekasmiðshöggiðá blaðið. Hjalti Pálsson las þá yfir prófarkir og leiðrétti mesta ruglið í ritstjóranum. Oft var farið að rofa af nýjum degi þegar ég lauk við blaðið og ég minnist þess að oftar en einu sinni mætti ég Óttari bakara á leið í vinnuna þegar ég var að fara heim. Yfirleitt endaði þetta þó með því að ég keyrði upp í Hlíðahverfi og stakk pakka meðuppsettum síðum í flutningabílinn hjá Magga Svavars, sem keyrði á þriðjudegi til Akureyrar og byrjaði á því að losa sig við pakkann í prentsmiðjuna. Á meðan hann lestaði vörur var blaðið prentað og kom hann svo með upplagið heim á þriðjudagskvöldi sem dreift var til áskrifenda á miðviku- degi. Ég geri ráð fyrir að það hafi ekki breyst, að ritstjór- inn geri allt sem gera þarf. Skrifi, taki myndir, framkalli, setji textann og teikni síðurnar; safni auglýsingum, skrifi reikninga og innheimti; telji blöð handa blaðberum, lími áskriftarmiða á og setji í póst. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt í dálítinn tíma. Samskiptin við ritnefnd blaðsins voru öll mjög góð. Við borðuðum saman í hádeginu á mánudögum í Hressingarskálanum og rædd- um málin. Af ritnefndar- mönnum hafði ég mesttengsl við séra Hjálmar, en yfirleitt hljóp ég yfir Aðalgötuna og drakk með honum kaffi daglega í Safnaðarheimilinu. Af því spratt vinátta sem enst hefur fram á þennan dag. Við hann gat ég rætt öll vandamál sem upp komu við ritstjórn blaðsins og hafði hann ævinlega á reiðum höndum góðar lausnir. Búseta mín í Reykjavík núna hefur þann ókost að ég get ekki stutt hann með atkvæði mínu til þeirra verka sem hann kýs nú að ganga. Vonandi kemst ég, þrátt fyrir það, í kaffi við Austurvöll fljótlega. Og ég hugga mig við það að ég hlýt að fá tækifæri til að styðja Jón Ásbergsson til sömu erinda áður en langt um líður, en hann reyndist mér einnig hinn traustasti maður. (Mikið er annars gaman að skrifa um pólitík rétt fyrir kosningar og þurfa ekki að gæta hlutleysis). Haustið 1984 lenti blaðið í sex vikna verkfalli, sem kom í veg fyrir hefðbundna prentun þess og dreifingu. Það kom þó ekki í veg fyrir útgáfu, því þá yar blaðið prentað hjá SÁST (sem reyndar prentar blaðið núna), heft í kjölinn og dreift á venjulegan hátt á Sauðárkróki. En vegna verkfallsins var póstþjónustan lömuð og því varð að grípa til annarra ráða. Mjólkurbílstjórar tóku þá að sér að dreifa blaðinu á alla sveitabæi sem þeir fóru á, bæði í Skagafírði og Húnaþingi. Fréttaþjónusta blaðsins á þessum tíma var einstaklega þakklát, því stóru fjölmiðlarnir voru allir lamaðir. Fjölmargir lögðu leið sína inn á ritstjórnarskrifstofuna. Fremstur í flokki var Gvendur dýri, síungur og skemmtilegur. Sömuleiðis var hressandi að fá Björn á Sveinsstöðum gustmikinn inn á gólf til sín, og þá ekki síður Þorberg Þorsteinsson léttmildan. Verkefni mitt var að færa vinnslu blaðsins heim í hérað og festa það í sessi með opnun ritstjórnarskrifstofu. Þegar því var lokið hvarf ég til annarra starfa. Ég vona að Feykir styrki stöðu sína enn frekar í framtíðinni, að blaðið batni með hverju árinu og sinni hlutverki sínu vel sem fréttablað Norðurlands vestra. Það er ekki hægt að stækka blaðið mikið, en það er endalaust hægt aðgera betur á þessum fáu síðum. Gæði blaða eru ekki mæld í síðufjölda. Feykir vikublaö Ari Jóhann Sigurðsson frá Holtsmúla í Skagafirði var ritstjóri Feykis frá ársbyrjun 1987 til vors 1988. í hans tíð varð Feykir vikublað, en ætíð hafði Verið að því stefnt. Gerðist það 1. apríl 1987. Undanfari Ara í ritstjórastól var Jón Gauti Jónsson, sem ritstýrði Feyki í rúmt ár. Þar á undan var Hávar Sigurjóns- son ritstjóri. Arftaki Baldurs Hafstað var Þorsteinn Brodda- son, en Þorsteinn og Hávar höfðu skamma viðdvöl í ritstjórastóli.

x

Feykir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.