Bændablaðið - 25.06.2015, Síða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. júní 2015
Hrafninn er sá fugl sem
sveipaður er mestri dulúð í
íslenskri þjóðtrú og um hann
er fjöldi sagna.
Í aldaraðir hefur hann allt í
senn verið álitinn skemmtilegur
eða leiðinlegur, verið dáður og
hataður, ofsóttur eða alfriðaður.
Ólíkt því sem margir halda
telst hrafninn ekki til ættar
ránfugla. Hann er spörfugl eins
og þrösturinn, maríuerlan og
þúfutittlingurinn. Hrafninn er að
vísu fjarskyldur ættingi þessara
fugla og mjög ólíkur þeim. Hann
er langstærsti og algengasti
spörfuglinn sem verpir á Íslandi
og algengur um allt land.
Einstaka sinnum kemur fyrir
að það fæðist hvítur fugl og af
því er dregið orðtakið: Sjaldséðir
hvítir hrafnar. Einnig er vitað um
hrafn sem var með stórar hvítar
skellur á vængjunum.
Krummi er glysgjarn, hann er
safnari og stelur öllu sem hann
getur. Í laup hrafna hafa fundist
furðulegustu hlutir: marglit
glerbrot, litríkir steinar og
plastbrúsar og jafnvel gaddavír.
Ein sagan segir að krummi eigi
það til að grafa þýfið í jörðu en
finni það svo aldrei aftur vegna
þess að hann noti skýin sem
kennileiti.
Huginn og Muninn
Í norrænni trú var hrafninn
talinn spáfugl. Á öxlum Óðins
sitja tveir hrafnar, Huginn og
Muninn. Snemma á morgnana
hefja þeir sig til flugs og fljúga
um allar jarðir og þegar þeir snúa
til baka hvísla þeir fréttum í eyru
Óðins og er hann því nefndur
hrafnagoð. Hrafninn eru líka fugl
orrustuvallarins. Þeir sem falla í
valinn og fara til Valhallar eru
kallaðir hrafnafóður.
Sagt er að Flóki Vilgerðarson,
sem einna fyrstur fann Ísland, hafi
blótað þrjá hrafna og heitið Óðni
því að gera þá sér leiðitama. Þegar
hann sigldi síðan til Íslands hafði
hann hrafnana með til að vísa sér
leiðina.
Íslendingar hafa lengi trúað
því að hrafninn sé allra fugla
vitrastur og að hann viti ekki
einungis það sem á sér stað á
fjarlægum slóðum heldur geti
einnig sagt til um ókomna atburði.
Áður var talið að þeir sem legðu
sig fram við að fylgjast með
flugi og krunki hrafnsins áttuðu
sig á veðrabreytingum og öðru
gagnlegu af háttum hans.
Hrafninn er kjaftaglaður og
það þótti gagnlegt ef menn skildu
krunkið í honum eða tungumál
annarra fugla.
Hrafninn hefur lengi verið
tengdur ýmiss konar kukli og
nánast óhugsandi að nokkur
galdramaður með sjálfsvirðingu
eigi ekki taminn hrafn. Ungir
nútímaloddarar láta sér þó yfirleitt
duga að eiga uppstoppaðan fugl.
Hrafnar eru félagslyndir og fara
oft um í hópum. Á kvöldin safnast
hóparnir saman á náttstað og nefnist
það hrafnaþing. Í þjóðsögum Jóns
Árnasonar er sagt að hrafnar haldi
þing tvisvar á ári, vor og haust. Á
vorþingum ákveða hrafnar hvernig
þeir skuli hegða sér yfir sumarið,
en á haustþingum skipa þeir sér
niður á bæi. Þeir eru þá alltaf tveir
saman, karl- og kvenfugl, svipað
því og þegar hreppsómagar voru
settir niður til vetursetu. Ef tala
hrafna á þingi er stök eltir hópurinn
uppi þann staka og drepur hann.
Eftir að hrafnarnir settu sig niður á
bæina voru þeir kallaðir heima- eða
bæjarhrafnar. /VH
Skýin sem
kennileiti
Forseti Íslands og frú heimsóttu Sólheima
STEKKUR
Forsetafrúin Dorrit Moussaieff faðmar að sér einn af skjólstæðingum Sólheima.
Fimmtudaginn 18. júní heimsóttu
forseti Íslands, herra Ólafur
Ragnar Grímsson, og frú Dorrit
Moussaieff Sólheima í tilefni af 85
ára afmæli Sólheima í ár.
Forsetahjónin hittu íbúa
Sólheima að máli, fengu fræðslu
um sögu staðarins, skoðuðu sig um
á vinnustofunum og gróðursettu tré
við Sólheimakirkju.
Heimsóknin var í alla staði vel
heppnuð og öllum viðstöddum til
mikillar gleði.
Sesselja stofnaði Sólheima
5. júlí 1930
Það var Hafnfirðingurinn Sesselja
Hreindís Sigmundsdóttir sem
leigði jörðina Hverakot af
barnaheimilisnefnd Þjóðkirkjunnar
og stofnaði Sólheima á afmælisdegi
sínum, þann 5. júlí 1930. Þá var hún
28 ára gömul.
Starf Sólheima hófst 5. júlí 1930
í tjöldum en þann dag komu fyrstu
fimm börnin og nokkru síðar bættust
önnur fimm við. Ekkert íbúðarhæft
hús var á staðnum og því búið í
tjöldum þar til Sólheimahúsið var
fokhelt 4. nóvember um veturinn og
hægt var að flytja inn í kjallarann.
Lúðvík, bróðir Sesselju, smíðaði
trégólf í tjöldin og leiddi undir þau
hita frá hvernum.
Sólheimar voru stofnaðir sem
barnaheimili, einkum fyrir börn sem
bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður
svo sem foreldramissi eða veikindi
foreldra. Einnig voru tekin börn
til sumardvalar. Haustið 1931
kom fyrsta þroskahefta barnið að
Sólheimum en þá voru engin úrræði
til á Íslandi fyrir þroskahefta og þess
voru dæmi að þroskaheft fólk væri
geymt í útihúsum.
Sesselja lagði áherslu á að
Sólheimar væru heimili en ekki
stofnun og að fatlaðir sem ófatlaðir
deildu kjörum í daglegu lífi og
starfi. Á Sólheimum markaðist
upphaf þeirrar stefnu sem nefnd
er samskipan fatlaðra og ófatlaðra
eða blöndun en sú stefna var ekki
þekkt erlendis fyrr en um og eftir
1970. Sólheimar voru alla tíð skráð
barnaheimili en 1984 var þess
krafist að Sólheimar væru skráðir
vistheimili og var svo í níu ár, þar
til vistun fatlaðra lauk í janúar 1994
á Sólheimum. Á þeim tímamótum
tóku fatlaðir upp sjálfstæða búsetu
á Sólheimum. Þeir fá greiddar
örorkubætur í stað vasapeninga
vistmanna og greiða leigu fyrir sitt
húsnæði og standa straum af kostnaði
við eigið heimilishald. Fatlaðir íbúar
eru nú 42 af um rúmlega eitt hundrað
íbúum Sólheima.
Stundaði nám í Danmörku, Sviss
og Þýskalandi
Sesselja stundaði nám í sex ár í
Danmörku, Sviss og Þýskalandi,
m.a. í uppeldisfræði, barnahjúkrun
og rekstri barnaheimila og var fyrsti
Íslendingurinn sem lærði umönnun
þroskaheftra.
Á námsárunum í Þýskalandi
kynntist Sesselja kenningum dr.
Rudolf Steiner (1861–1925),
„anthroposophy“ eða mannspeki.
Sesselja stundaði einnig nám í
garðyrkju, blómarækt og meðferð
alifugla.
Sesselja ól upp fjölmörg
fósturbörn og var brautryðjandi
í uppeldismálum og umönnun
þroskaheftra á Íslandi. Sesselja
var frumkvöðull í lífrænni ræktun,
ekki aðeins á Íslandi heldur líka á
Norðurlöndum og er í raun fyrsti
íslenski umhverfissinninn.
Eftir að Sesselja flutti til Íslands
1930 stóð hún í bréfaskriftum við
fjölda fólks í Danmörku, Þýskalandi,
Hollandi, Englandi og Sviss, m.a.
um lífeflda ræktun (bio-dynamics)
og mannspeki og ferðaðist hún
reglulega til þessara landa. Meðal
þeirra sem hún átti í bréfaskiptum
við voru dr. Karl König, stofnandi
Camphill-hreyfingarinnar í
Bretlandi, Sólveig Nagel frá Noregi
og Caritu Stenback frá Finnlandi en
þær voru frumkvöðlar í málefnum
þroskaheftra í sínum heimalöndum.
Sesselja ættleiddi tvö börn,
Hólmfríði og Elvar, og ól upp 14
fósturbörn.
Sesselja giftist Rudolf Richard
Walter Noah 17. mars 1949. Noah
var þýskur tónlistarmaður og
kennari, sem kom til Íslands 1935
en var handtekinn af breska hernum
5. júlí 1940 og fluttur í fangabúðir
til Englands. Noah fékk ekki leyfi
til að koma til Íslands fyrr en 1949
eftir níu ára fjarveru. Hann fór aftur
til Þýskalands 7. mars 1953 án þess
að Sesselja og hann skildu formlega.
Noah lést í Þýskalandi 1967. Sesselja
lést á Landakotsspítala í Reykjavík
8. nóvember 1974, 72 ára gömul.
Nánar má lesa um Sesselju og
hennar lífsferil í bókinni „Mér leggst
eitthvað til – sagan um Sesselju
Sigmundsdóttur og Sólheima“ eftir
Jónínu Michaelsdóttur rithöfund.
Forsetahjónin gróðursetja tré á
Sólheimum.
Forsetahjónin Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson við gróðursetningarathöfn á Sólheimum. Fánaberinn er
hinn landskunni göngugarpur Reynir Pétur Ingvarsson, en við hlið hans er Pétur Sveinbjarnarson, stjórnarformaður
Sólheima. Lengst til vinstri er Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima.