Bændablaðið - 25.06.2015, Side 44

Bændablaðið - 25.06.2015, Side 44
44 Bændablaðið | Fimmtudagur 25. júní 2015 Æviafurðaeinkunn fyrir mjólkurkýr Hollendingar hafa um áratuga skeið staðið flestum öðrum fremur í mjólkurframleiðslu. Það sem mér hefur alltaf þótt einkenna þeirra rannsóknarstörf í nautgriparæktinni, sem ég held ég þekki frekast eitthvað til þarlendis, er hin mikla áhersla á hagnýtingu á niðurstöðum, að þær komi sem fyrst og best til nota í fjósinu. Í nýlegri alþjóðlegri rannsókna- skýrslu um nautgriparækt rekst ég á grein eftir einn af þessum þekktu hollensku nautgripasérfræðingum. Þarna birtist allt í einu ljóslifandi ein þeirra hugmynda sem ég óneitanlega velti oft fyrir mér en kom aldrei til framkvæmda frekar en mörgu öðru. Á þeim tíma að vísu var rannsóknarþekking okkar varla næg til þess að það væri mögulegt. Það sem hér um ræðir er ævieinkunn um afurðir kúanna. Hann telur að með þessu séu ráðunautar loksins komnir með í hendurnar nákvæmlega tölurnar sem bændurnir hafi mikinn áhuga á að ræða og skoða. Hér eru flestir hlutir komnir í fullt samhengi. Þessi einkunn mælir í raun hvers má vænta um dætur hvers og eins nauts um æviafurðir þeirra, hve miklar þær verða og yfir hve langt framleiðslutímabil. Kostnaður vegna viðhalds og endurnýjunar mjólkurkúastofnsins Ég vil aðeins reyna hér á eftir að gera grein fyrir hvernig þetta er gert vegna þess að ég sé ekki betur en okkur eigi hvað úr hverju að vera mögulegt að nýta þessa hugmynd að fullu. Áður vil ég víkja að þeim þætti sem ef til vill er hvað veikasti þáttur hjá íslenskum bændum í mati á framleiðsluhagkvæmni en kemur um leið mjög að hugsuninni að baki þessari einkunn. Hér á ég að sjálfsögðu við kostnað vegna viðhalds og endurnýjunar mjólkurkúastofnsins. Að sjálfsögðu er ekki ástæða eða rými til að fjalla ítarlega um þetta efni, aðeins að benda á örfáar staðreyndir sem liggja fyrir. Þróun á aldri á kvígum þegar þær bera fyrsta kálfi hefur á síðustu áratugum verið ískyggileg. Ég fæ ekki betur séð að bændur úr mínu æskuhéraði nái varla í dag því meðaltali sem ég tel mig hafa alist upp við fyrir fimm áratugum. Þá var staðan í sumum öðrum héruðum að vísu ákaflega bágborin þar sem fjöldi bænda stjórnuðust af úreltum hefðarhugmyndum í þessum efnum. Uppeldi og aðbúnaði verður að vísu að haga það vel að kvígurnar séu tilbúnar fyrir framleiðslu við tveggja ára aldurinn. Uppeldið er framtíðarfjárfesting þar sem seint mun vera viturlegt að stjórnast af misskilinni sparsemi. Viðbótarmjólkurskeið er alltaf verðmætt hjá kúnni sem komin er í framleiðslu. Þar þarf ekki að leggja í viðbótarkostnað vegna uppeldis. Þó að ég verði manna síðastur til að neita því að talsverður árangur hafi náðst í ræktunarstarfinu í nautgriparæktinni á síðari árum þá eru þær framfarir ekki það ævintýralegar að aukin gæði á nýjum grip fari framúr hagnaði af að geta haft grip, sem þegar er kominn í framleiðslu, í framleiðslu eitt mjólkurskeið til viðbótar og sé hraust og heilbrigð (hér fer eðlislæg góð ending að skipta verulegu máli). Því miður held ég að menn séu slegnir einhverri glýju trúi þeir slíku. Með lækkandi burðaraldri kvígnanna og betri endingu skapast svigrúm til vals ásetningskvígnanna í stað þess að setja á hverja fædda kvígu (í fullri alvöru mega kúabændur velta fyrir sér hvort þeir við aðstæður hér á landi hefðu ekki jafnvel meira að sækja í þetta en kyngreiningu á sæði). Síðast og ekki síst þá skapar minna uppeldi aukið rými í fjósi og sparnað í fóðurnotkun. Til skamms tíma var mjólkurframleiðendum vegna framleiðslutakmarkana ef til vill haldið um of frá að velta þessum þætti fyrir sér. Með ótakmörkuðum framleiðsluheimildum eins og nú er fær þetta gríðarlega aukið vægi, mögulega hafa sumir bændur gleymt því. Ef til vill hefðu margir bændur góðan arð af því að taka upp reiknivél, jafnvel með samvinnu við ráðunaut sinn, og velta aðeins fyrir sér þeim möguleikum sem mögulega liggja þarna ónotaðir í fjósinu hjá honum. Látum nú af þessu rausi og snúum okkur að hvernig Holllendingarnir reikna ævieinkunnina í sinni nautgriparækt. Einkunnir Holllendinga reiknaðar á nokkuð annan hátt Gögnin sem þeir nota við að reikna einkunn eru þeir öll með í höndunum. Þetta eru kynbóta einkunnir fyrir framleiðslu eiginleikana, mjólkurmagn og magn af mjólkurfitu og mjólkurpróteini. Hér eru einkunnir Holllendinga reiknaðar á nokkuð annan hátt en gerist hér. Þeir nota svonefnt mælidagalíkan sem er það sem almennt er orðið víðast hvar erlendis. Það er frábrugðið okkar útreikningum að því leyti að hér er mjólkurmagn metið á grunni framleiðslunnar í heild yfir mjaltaskeiðið. Í mælidagalíkani er hins vegar metin einkunn fyrir mánaðarlega mælidaga frá byrjun til loka mjólkurskeiðsins og þær síðan á réttan hátt vegnar saman í einkunn fyrir mjólkurskeiðið allt. Vonandi kemur nýr og ferskur maður til að vinna þetta hér þannig að þetta verði unnið á þennan hátt einnig hér sem allra fyrst.( Þó að það komi ekki við því sem hér er rætt vil ég samt búast við að í sambandi við mat á júgurhreysti út frá frumutölu höfum við ef til vill enn meira að vinna með mælidagslíkani). Þessi munur í útreikningum á magneiginleikum kemur hins vegar að næsta atriðinu í útreikningum Hollendinganna. Þar kemur að upplýsingum um lögun mjólkurlínuritsins, hefur kýrin flata eða bratta mjólkurkúrfu? Þetta fá þeir sjálfkrafa fram við útreikninga sína á grunni mælidagalíkansins. Auk þess reikna þeir einnig mjólkurmagnseinkunn fyrir þrjú fyrstu mjólkurskeiðin eins og hér er gert og nýta upplýsingarnar þaðan við mat breytinga á mjólkurskeiðum. Í þessum efnum er ég ekki alveg tilbúinn að gleypa öll rök Holllendinganna hrá um það hvað breytingar milli mjólkurskeiða segja okkur í raun. Með hverju ári sem líður sannfærist ég hins vegar meira og meira um að sú ákvörðun Ágústar og mín að skoða mjólkurskeiðsnyt á hverju þrem fyrstu mjólkurskeiðunum sem sjálfstæða eiginleika var miklu framsýnni en við sjálfir gerðum okkur grein fyrir þá. Meðan ég var að vasast í nautgriparækinni fyrir allmörgum árum var ég nokkrum sinnum búinn að skrifa um það að breytingar í afurðum á milli mjólkurskeiða væri áreiðanlega talsvert ættgengur þáttur sem þörf væri á að skoða og meta betur hvað þar er mögulega verið að mæla og hvernig síðan mætti nýta þær upplýsingar í ræktunarstarfinu. Eins og margt annað komst þetta aldrei í verk hjá mér og ekkert hef ég séð frá þeim sem við þessum verkum tók um að þau hafi eytt tíma í að hugleiða það. Hafa vafalítið líkt og ég kynntist verið yfirsett öðrum verkefnum. Holllendingarnir gera ráð fyrir að mjólkurskeið eftir þriðja mjólkurskeiðið hegði sér líkt og það gerir. Í raun þekki ég engar erlendar rannsóknir þar um enda orðið ákaflega valið gagnasafn að vinna með sem erfitt er að meðhöndla tölfræðilega. Til að sannreyna hvaða vit væri í þessum útreikningum sínum báru Holllendingarnir saman einkunnir nautanna og rauntölurnar afurða hjá dætrunum. Til að vaða ekki reyk vegna ónákvæmni í talnasafninu gerðu þeir kröfur um að hið minnsta væru fyrir hendi upplýsingar fyrir förgun 150 dætra nautsins. Sambandið þarna á milli reyndist mjög sterkt. Athygli vekur hinn gífurlegi munur á dætrahópunum í æviafurðum dætranna en hann var á bilinu 20–40 þúsund kg af mjólk Þá er notað kynbótamat um endingu sem aðeins þarf að umreikna og umbreyta í dagafjölda þegar ævilíkur eru metnar. Síðasti þátturinn er síðan frjósemieinkunn en hún er hjá þeim eins og okkur metin á grunni bils á milli burða og þarf því aðeins að breyta henni í dagafjölda. Eins og ég hef bent á þá eigum við að hafa nánast allt í höndunum til að yfirfæra þessa aðferð Holllendinganna til okkar. Þar bíður að mínu viti tæplega annað en að hefjast handa. Ég held að við mundum finna sama ávinning og þeir. Við værum komnir með tölur sem bæði bændur og ráðunautar skilja báðir eins og eru áhugaverðar. Þannig skapast árangur í framhaldinu. Þegar ég er að ljúka greininni lendir inn á borð hjá mér hefti af tímariti ræktenda svartskjöldóttu kúnna (SD) í Danmörku. Það sem þar vekur athygli er að enginn þáttur er þar plássfrekari en umfjöllun sem lýtur að endingu kúnna. Gríðarlega margt er þar af áhugaverðu efni, bæði þarlendu og sem þeir hafa sótt til annarra landa. Áhugavert hefði verið að endursegja sumt af því en verður ekki gert hér. Áherslur á endingu kúnna skilar sér í framleiðslunni Eitt skal samt nefna að á síðustu misserum hefur landsmet í æviafurðum verið að falla með nokkurra mánaða millibili hjá þessu langútbreiddasta kúakyni í Danmörku. Þetta er ákaflega sterk vísbending þess að áherslur á endingu kúnna skili sér af fullum þunga í framleiðslunni. Nýja landsmetið hjá þeim eru rúmlega 184 þúsund kg af mjólk og er greinilegt að íslenskar kýr eiga smávegalengd þangað enn. Í lokin verð ég að víkja að ákveðnum ummælum í frásögn frá aðalfundi ræktunarfélagsins sem koma fram í blaðinu. Það kemur að vísu ekki við efni þessarar greinar en snýr verulega að því sem ég hef verið að skrifa að undanförnu hér í blaðinu. Þar segir að umtalsvert hafi dregið úr áhuga hjá dönskum mjólkurbændum í nýtingu blendingsræktar vegna þess gríðarlega forskots sem svartskjöldóttu kýrnar hafi náð með stofnstærð sinni og möguleikum á að taka í notkun val á grunni úrvals út frá erfðamenginu allnokkrum árum á undan hinum kynjunum. Þetta segir okkur víst að einhver sannleikur er að baki tröllasögum um möguleika þessa í ræktunarstarfinu sem ég hef áður verið að ýja að. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins Jón Viðar Jónmundsson Ráðunautur hjá RML jvj@bondi.is Hér má sjá einn Íslandsmeistara í æviafurðum. Það er Hrafnhetta 153 í Hólmum í A-Landeyjum sem var 18 vetra að meðaltali á ári. Mynd / MHH Starfsfólk óskast Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins óskar eftir að ráða tvo starfsmenn til að sinna verkefnum og ráðgjöf í nautgriparækt. Ráðningin er til eins árs með möguleika á framlengingu. Ábyrgðarsvið, menntun og hæfniskröfur: • Skal hafa lokið háskólaprófi í búvísindum eða annari sambærilegri menntun. Framhaldsmenntun á sviði kynbóta, fóðrunar, aðbúnaðar, frjósemi, nautakjötsframleiðslu eða annara þátta er tengjast framleiðsluferlum í nautgriparækt æskileg. • Mun starfa með faghópi nautgriparæktar og fóðrunar og vinna sem hluta af ráðgjafateymi sem sinnir alhliða ráðgjöf til kúabænda með sérstaka áherslu á ráðgjöf í fóðrun, frjósemi og kynbótum sem og almennri ráðgjöf til kúabænda • Vinna að þróun og sölu á ráðgjöf á landsvísu og á það jafnt við um sérhæfða ráðgjöf sem og aðkomu að heildstæðri og þverfaglegri ráðgjöf í samstarfi við aðra starfsmenn RML • Við leitum að einstaklingum með brennandi áhuga á nautgriparækt í sínum víðasta skilningi og hafa metnað og frumkvæði sem nýtast til að byggja upp þekkingu sem nýtist til að efla búgreinina. • Áhersla er lögð á skipulögð vinnubrögð og hæfni í mannlegum samskiptum auk þess sem að viðkomandi þarf að halda utan um og stýra verkefnum innan fyrirtækisins samkvæmt vinnuferlum verkefnastjórnunar • Kemur að öðrum verkefnum á einstökum fagsviðum sem starfsmaður hefur sérþekkingu til að gegna eftir því sem starfsaðstæður leyfa á hverjum tíma Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarnins er framsækið ráðgjafarfyritæki í eigu bænda og leggur metnað sinn í að viðhalda faglegri og óháðri ráðgjöf til aðila innan landbúnaðarins. Fyrirtækið er með starfstöðvar víðsvegar um landið en nánari upplýsingar um starfsemina má finna á vef þessrml.is . Upplýsingar um starfið eru veittar með tölvupósti í gegnum netföng Karvels L. Karvelssonar (klk@rml.is) eða Gunnfríðar E. Hreiðarsdóttur (geh@ rml.is ). Umsóknarfrestur er til 15. júlí Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um starfið á vef RML. www.rml.is. Umsóknum skulu fylgja upplýsingar um menntun og starfsferil umsækjanda ásamt upplýsingum um umsagnaraðila.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.