Morgunblaðið - 18.08.2015, Blaðsíða 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. ÁGÚST 2015
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Við bjóðum upp á fjölbreytt og metnaðarfullt
leikár. Þar geta vonandi allir fundið eitthvað
við sitt hæfi, en til þess er leikurinn gerður,“
sagði Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri þegar
hann kynnti komandi leikár á Stóra sviðinu í
gær. „Hér er hugað að börnum í þriðjungi
leiksýninga, helmingur sýninga leikársins eru
íslensk verk, við frum-
sýnum bæði ný íslensk verk
sem sérstaklega eru samin
fyrir Þjóðleikhúsið og ný
erlend verk sem hafa unnið
stóra sigra á undanförnum
árum. Við erum með klass-
ísk verk sem teljast til
fremstu verka heims-
bókmenntanna. Meirihluti
listrænna stjórnenda eru
konur, annað leikárið í röð.
Við munum fara í leikferðir um allt land til að
sinna landsbyggðinni betur. Ég hef líka áhuga
á því að við fáum fremstu leikhúslistamenn í
Evrópu til samstarfs við Þjóðleikhúsið og hef
sáð fræjum slíks samstarfs sem vonandi ber
árangur á næstu árum.“
Sem kunnugt er var tilkynnt um skipan Ara
sem þjóðleikhússtjóra um miðjan nóv-
embermánuð á síðasta ári, en Ari tók formlega
við um áramótin og er skipunartími hans til
fimm ára. Í samtali við Morgunblaðið bendir
Ari á að naumur tími hafi gefist til að setja
saman komandi leikár, því hann þurfti að skila
af sér tæmandi verkefnalista fyrir 1. febrúar
sl. „En ég er mjög stoltur af hvernig til hefur
tekist og ánægður með komandi leikár. Við er-
um að uppfylla allar okkar skyldur samkvæmt
samningi við ríkið og að auki vonandi að skila
rekstrarafgangi á árinu 2015.“
Eldfjörug fjölskyldusýning
Fyrsta frumsýning á Stóra sviðinu er 12.
september á Í hjarta Hróa hattar eftir David
Farr í leikstjórn Gísla Arnars Garðarssonar
og Selmu Björnsdóttur, en uppfærslan er í
samstarfi við Vesturport. „Leikmyndina hann-
ar Börkur Jónsson, en hann fékk kanadísku
leiklistarverðlaunin sl. vor fyrir hana. Tónlist-
ina semur Salka Sól Eyfeld og hennar hljóm-
sveit. Í aðalhlutverkum eru Lára Jóhanna
Jónsdóttir, Þórir Sæmundsson, Guðjón Davíð
Karlsson og Sigurður Þór Óskarsson. Þetta er
eldfjörug fjölskyldusýning, uppfull af leik-
hústöfrum í anda Vesturports. Þetta er róm-
antískt, hættulegt og drungalegt og ekki síst
skemmtilegt – og femínískt,“ sagði Ari.
Heimkoman eftir Harold Pinter í leikstjórn
Atla Rafns Sigurðarsonar verður frumsýnd á
Stóra sviðinu 10. október. „Verkið er af mörg-
um talið magnaðasta verk Pinters. Leikrit
hans hafa mörg hver hversdagsleg yfirbragð,
en í þeim býr óvenjulegur kraftur og undir yf-
irborðinu leynast heiftúðug átök, kynferðisleg
spenna, kúgun og ótti. Það er einvalalið sem
leikur í þessu meistaraverki Nóbelsskáldsins,“
sagði Ari og taldi upp: Ingvar E. Sigurðsson,
Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Björn Hlynur Har-
aldsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Eng-
ilbertsson og Eggert Þorleifsson. Tónlist sem-
ur og flytur á sviðinu Einar Scheving, en
Börkur Jónsson hannar leikmynd og Helga
Stefánsdóttir búninga.
Í sama mánuði frumsýnir Spaugstofan einn-
ig á Stóra sviðinu sérstaka afmælissýningu í
tilefni 30 ára starfsafmælis hópsins sem nefn-
ist Yfir til þín. „Spaugstofumenn eru allir að
upplagi Þjóðleikhúsleikarar og því eðlilegt að
afmælinu sé fagnað hér á heimavelli. Þetta eru
þekktir guðlastarar, rugludallar og klám-
hundar sem verða með sprellfjöruga gleðisýn-
ingu fyrir alla fjölskylduna,“ sagði Ari.
Sporvagninn Girnd eftir Tennessee Willi-
ams í leikstjórn Stefáns Baldurssonar verður
frumsýnd á Stóra sviðinu 26. desember. „Þetta
er eitt af meistaraverkum 20. aldarinnar í leik-
stjórn eins fremsta leikstjóra þjóðarinnar,“
sagði Ari. Leikmynd gerir Þórunn Sigríður
Þorgrímsdóttir og búninga Filippía Elísdóttir.
Í aðalhlutverkum eru Nína Dögg Filippus-
dóttir, Baltasar Breki Samper, Lára Jóhanna
Jónsdóttir og Guðjón Davíð Karlsson. „Þetta
er frábært leikaraleikrit sem mun gefa okkar
hæfileikaríku leikurum tækifæri til að sýna
hvers þeir eru megnir.“
Vampírur og einelti
Í lok febrúar verður á Stóra sviðinu frum-
sýnt leikritið Hleyptu þeim rétta inn eftir
John Ajvide Lindqvist í leikgerð Jack Thorne
og leikstjórn Selmu Björnsdóttur. „Um er að
ræða hrollvekjandi fantasíu um einelti, vináttu
og myrkan heim vampírunnar, sem byggist á
samnefndri skáldsögu og kvikmynd. Leikritið
hefur gagntekið áhorfendur víða um heim, því
sýningin hefur verið sýnd í Skoska þjóðleik-
húsinu, West End og Broadway við miklar
vinsældir,“ sagði Ari, en með aðalhlutverk
fara Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Sigurður Þór
Óskarsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Leik-
mynd gerir Halla Gunnarsdóttir og búninga
María Ólafsdóttir.
Síðasta frumsýningin á Stóra sviðinu er
Djöflaeyjan sem er nýr söngleikur er byggist
á skáldsögu Einars Kárasonar sem Þjóðleik-
húsið setur upp í samstarfi við Baltasar Kor-
mák í apríl. „Ekki þarf að ræða það frekar
hversu mikill fengur það er fyrir okkur að fá
Baltasar til samstarfs, hinn margverðlaunaða
leikhúslistamann og okkar allra stærsta kvik-
myndagerðarmann,“ sagði Ari, en Baltasar
mun sjálfur vinna leikgerðina og leikstýra í
samvinnu við Atla Rafn Sigurðarson. Leik-
mynd gerir Gretar Reynisson og um tónlist
sér Memfismafían. „Djöflaeyjan gerist á mikl-
um umbrotatímum í íslensku samfélagi og er
saga um fjölskylduátök, vináttu, ástir, vonir og
þrár. Þetta verður íslenskur söngleikur,
byggður á íslenskum aðstæðum, frumsaminn
sérstaklega fyrir Þjóðleikhúsið og gerður af
okkar fremstu leikhúslistamönnum í víðu sam-
hengi.“
Börnum sinnt af krafti
Fyrsta frumsýning haustsins verður
Móðurharðindin eftir Björn Hlyn Haraldsson í
leikstjórn höfundar í Kassanum 5. september.
„Það er sérstök ánægja að opna komandi leik-
ár með frumsýningu á nýju íslensku leikriti.
Þetta er kolsvört kómedía um sérkennilega
fjölskyldu,“ sagði Ari. Með aðalhlutverk fara
bræðurnir Árni Pétur og Kjartan Guðjóns-
synir, en auk þeirra leika Ólafía Hrönn Jóns-
dóttir, Sigurður Sigurjónsson og Hallgrímur
Ólafsson. Leikmynd gerir Axel Hallkell Jó-
hannesson.
Á haustdögum verða frumsýnd tvö sam-
starfsverkefni.Annars vegar 4:48 Psychosis
eftir Söruh Kane í leikstjórn Stefáns Halls
Stefánssonar, en Edda Björg Eyjólfsdóttir
leikur. Frumsýnt verður í Kúlunni 10. sept-
ember. Hins vegar (90)210 Garðabær eftir
Heiðar Sumarliðason í leikstjórn höfundar.
„Heiðar er spennandi höfundur og þetta verk
er áhugavert og á köflum grimmt uppgjör við
yfirborðsmennsku og leynd.“
Um áramótin verður í Kassanum frumsýnt
verkið [um það bil] eftir Jonas Hassan
Khemiri í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur.
„Verkið var frumsýnt á Dramaten í Stokk-
hólmi á liðnu hausti og hefur notið gríðarlegra
vinsælda í Svíþjóð. Þetta er í senn bráðfyndið
og ágengt verk þar sem leitast er við að veita
áhorfendum, sem fjárfest hafa í leikhús-
upplifun kvöldsins hæsta mögulega skemmta-
gildi á hvern keyptan miða.“
Í miðjan mars verður í Kassanum frumsýnt
dansverkið Kvika eftir Katrínu Gunn-
arsdóttur. Síðasta frumsýning leikársins í
Kassanum er síðan barna- og fjölskyldu-
leikritið Umhverfis jörðina á 80 dögum eftir
Sigurð Sigurjónsson og Karl Ágúst Úlfsson í
leikstjórn Ágústu Skúladóttur. „Verkið er
byggt á skáldsögu Jules Verne, en efnistökin
eru frjálsleg,“ sagði Ari og bætti við að Þjóð-
leikhúsið muni sinna börnum af miklum krafti
á komandi leikári. „Bernd Ogrodnik og Brúðu-
heimar fara í leikferð um allt landið, Sögu-
stundin verður á sínum stað, Leitin að jól-
unum einnig, við höldum áfram að sýna Kugg
og leikhúsvélina auk þess sem við sýnum Ein-
ar Áskel á Brúðuloftinu,“ sagði Ari.
Sýnilegra á landsbyggðinni
Í samtali við Morgunblaðið segir Ari sterka
skyldu hvíla á herðum Þjóðleikhússins að sýna
ný íslensk verk. „En það er líka mikilvægt fyr-
ir okkur að sýna erlend afburðaverk og túlka
þau á íslenskan máta með okkar íslenska
hjarta vegna þess að þá verðum við jafnframt
hluti af erlendum menningarheimi. Það eykur
samkennd okkar með öðrum þjóðum. Þannig
að hvort tveggja er mikilvægt. Aðalatriðið er
samt að við sýnum góð verk, sem gefa okkar
listamönnum tækifæri til að þróa sig og
þroska í listinni,“ segir Ari.
Spurður um hátt hlutfall kvenna í hópi list-
rænna stjórnenda segir Ari það endurspegla
þá ánægjulegu staðreynd að Þjóðleikhúsið
hafi aðgang að frábærum listrænum stjórn-
endum úr hópi kvenna. „Leikhúsið og listirnar
eiga að endurspegla þá staðreynd að sam-
félagið og heimurinn er skipaður báðum kynj-
um jafnt. Við eigum að segja sögu beggja
kynja og það er í mínu hlutverki að passa upp
á að hér séu jöfn tækifæri fyrir karla og kon-
ur.“
Í kynningu Ara á leikárinu kom fram að
skipt hefði verið um sviðsgólf á Stóra sviðinu
sem og allar raflagnir og hljóðkerfi. Í samtali
við Morgunblaðið segir Ari tími til kominn að
huga betur að tæknibúnaði hússins. „Þjóðleik-
húsið er mjög vanbúið í umbúnaði leiksviðsins.
Á mótornum sem snýr hringsviðinu stendur
Landsmiðjan 1945. Stálið í hringsviðinu var í
Ölfusárbrúnni sem hrundi 1944. Þetta er stál
frá 1890. Flugkerfið er það sama og var árið
1950,“ segir Ari og bendir á að meðan sviðs-
búnaður Þjóðleikhússins sé svo gamall geti
það ekki keppt í uppsetningu flókinna og
tæknilega krefjandi West End-söngleikja með
öllu tilheyrandi.
Að lokum var Ari spurður nánar út í þau
áform sín að gera Þjóðleikhúsið sýnilegra á
landsbyggðinni. „Ég hef sett mér það mark-
mið að frumsýna Þjóðleikhússýningu á lands-
byggðinni innan næstu fimm ára, t.d. í Vest-
mannaeyjum,“ segir Ari og tekur fram að sér
finnist mjög mikilvægt að færa starfsemi
Þjóðleikhússins nær landsbyggðinni til að
undirstrika að leikhúsið sé í eigu þjóðarinnar.
„Það er auðvitað miklu dýrara, en fyrir mér er
þetta spurning um forgangsröðun. Skilaboð
mín með þessu eru að Þjóðleikhúsið er leikhús
okkar allra,“ segir Ari að lokum.
„Fjölbreytt og metnaðarfullt leikár“
Þjóðleikhússtjóri kynnir vetrardagskrána Helmingur sýninga leikársins eru íslensk verk
Meirihluti listrænna stjórnenda eru konur Hugað er að börnum í þriðjungi leiksýninga
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Samstillt Starfsfólk Þjóðleikhússins stillti sér upp úti á tröppum leikhússins í góða veðrinu í
gær að kynningu leikhússtjórans lokinni. Markmið hópsins er að hreyfa við leikhúsgestum.
Ari Matthíasson