Skagfirðingabók - 01.01.2005, Page 46
SKAGFIRÐINGABÓK
auki væri stolin og stæld frá Hemingway. Ég lét mér þetta
að vísu í léttu rúmi liggja og hef alltaf gert, en ég hafði
töluverðan metnað fyrir Land og syni. Mér fannst ég verða
að klára mig af henni og hætti á Tímanum 58 til að skrifa
hana. Ég fór aftur norður og skrifaði 200 síðna handrit,
gjörsamlega ómögulegt, ekki til í því heil brú, - ég var bæði
sár og leiður og fór bara og réði mig á Alþýðublaðið.
(Illugi Jökulsson, Tíminn, 28. mars 1982)
I Stríði og söng segir Indriði ástæðu þess að þetta handrit mis-
heppnaðist hafa verið einfalda: „Ég hafði reynt að skrifa texta
sem enginn gæti sagt um að ég byggði á eigin reynslu.“ (Matt-
hías Viðar Sæmundsson, 56). En þetta sýnir vel hve strangar
kröfur Indriði gerir til sín um persónuleg tök á viðfangsefninu.
Það getur ekki farið fram hjá neinum lesanda að í endanlegri
gerð er Land og synir þrautunnin saga, þar er nostrað við hvert
smáatriði, og má jafnvel segja að yfirlegan hafi verið á kostnað
þess fersldeika sem hin fljótskrifaða bók, Sjötíu og níu af stöð-
inni, hefur til að bera.
Það var árið 1959 sem Indriði fór yfir á Alþýðublaðið. Það
var þá í uppsveiflu og hæfileikamikill blaðamaður og kunnur
rithöfúndur eins og Indriði hlaut að geta verið slíku blaði sem
rós í hnappagatið. Líklega hafa hin flokkslegu sjónarmið verið
að láta undan síga hjá blöðunum þegar hér var komið. Að
minnsta kosti fer engum sögum af því að Indriði hafi nokkru
sinni stutt Alþýðuflokkinn eða til þess verið ætlast, enda þótt
sá flokkur væri vitanlega útgefandi Alþýðublaðsins eins og
Framsóknarflokkurinn Tímans. En Indriði staldraði raunar
ekki lengi við á Alþýðublaðinu.
Árið 1962 gerðist tvennt í lífi Indriða sem fól í sér tímamót.
Hann fór aftur að Tímanum, nú sem ritstjóri, og gegndi því
starfi í áratug, aftur nokkur ár löngu síðar og var aldrei í föstu
starfi við annan fjölmiðil upp frá því. Þá var sagan Sjötíu og
níu af stöðinni kvikmynduð á þessu ári. Fyrirtækið Edda-Film
44