Skagfirðingabók - 01.01.2005, Page 112
SKAGFIRÐINGABÓK
Rétt er að gera ráð fyrir því, að gáfumaðurinn séra Jón
Sveinsson hafi að þeirra tíma sið uppfrætt fermingarbörn tvo
eða þrjá vetur fyrir fermingu. Við skulum líka gera ráð fyrir, að
hann gefi börnunum níu, sem hann fermir 29. maí 1887,
vitnisburði þá, sem séra Jón Ó. Magnússon skráir í skýrslu
sinni eftir kirkjubókinni. Hvernig ætli vitnisburðirnir séu svo?
Hjörleifur les sæmilega á bók, kann lærdómsbók, bænir og
sálma allvel, skrifar lítið og reiknar lítið, svo hegðar hann sér
vel. Þau orð sem notuð eru í vitnisburðinum eru, um lestur:
vel, allvel, sæmilega og dálítið; um kunnáttu: vel, allvel og
sæmilega; um skrift: vel, allvel, lítið og nokkuð; um reikning:
nokkuð, dálítið eða lítið. Öll hegða sér vel.
Við skoðun á meðaltali umsagna um öll börnin reyndist
Hjörleifur vel í meðallagi, upp á góða 1. einkunn, ef svo má
segja. Vitnisburðurinn sjálfur virðist sýna nokkra sinnu við
lestrarkennslu og verulega við að kenna þeim fræðin. Aftur á
móti virðist skriftarkennslu vera nokkuð ábótavant og annað-
hvort er fræðarinn mjög kröfuharður um reikningsgetu eða til-
sögn hefir verið mjög af skornum skammti. Þá ályktun dreg ég
annars af vitnisburðunum, að sanngjarnt sé að tala um Hjör-
leif sem efnispilt á fermingardegi, í betra meðallagi miðað við
hópinn. Hann kunni sumum betur og engum verr, rétt orðinn
14 ára, og hefði verið fermdur ári seinna ef hann hefði verið
laklega að sér. Það var lenska að gera kröfti um kunnáttu og
færni til þess að fá að ganga fyrir gafl. Rétt er að geta þess, að í
fermingarskýrslunni kemur fram fæðingardagurinn 12. maí
1873 [réttara 1872], og einnig það, að hann er bólusettur við
kúabólu 19. janúar 1878, á fimmta ári.
Af kynnum mínum við Hjörleif veit ég, að hann var
stálminnugur. Stundum fór hann með fræði, sem hann hafði
lært á bernskuárum, t.d. vísnabálk eða versaflokk utanbókar,
án hiks eða tafa í orði, þótt stundum tafsaði hann í samtali.
Um það fjölyrði ég ekki að sinni.
110