Skagfirðingabók - 01.01.2005, Side 115
MINNINGABROT FRÁ KYNNUM VIÐ MARKA-LEIFA
bróðursonar hans, leitarstjóra. Stundum var krapastokkurinn á
miðjar síður og fönn yfir, svo að nær náði herðakambi á hesti.
Hjörleifur reið brúnum stólpagrip, sterkum og kjarkmiklum.
Og mikil var gleði hans þegar við fundum folaldshryssu, sem
tryppi fylgdi, auk folaldsins, fram á milli lækja og lauta lengst
suður á heiði, skammt norðan vaðsins yfir ána, sem rennur
norður Haukagilið. Svengdin var auðsén, og um leið og við
höfðum riðið krapastokkinn til vaðs fyrir hrossin, runnu þau í
slóð og rakleiðis vestur yfir á. Þar námu þau staðar á grasflóa,
sem nokkuð hafði blásið af, og fóru að bíta í ákefð. Það skipti
sannarlega um fyrir þeim frá blásnum, gróðursnauðum mel í
seðjandi haglendi grasbítum.
Segir svo fátt meira um sinn af leit og leitarárangri uns þar er
komið, að við förum á þriðja degi austur á bóginn um Kiða-
skarð með á fimmta tug hrossa og þriðja tug fjár á slóð, sem
reiðhross leitarmanna lögðu fyrir safnið. Á undan riðu þrír og
fjórir, en við Hjörleifur fórum á eftir og rákum, og stundum
leitarstjórinn líka. Hvít fannbreiðan lá yfir landi og lítill kostur
að á og beita. En mikið lá vel á öldungnum sjötuga, marg-
reyndum heiðagarp á góðum reiðskjóta.
Þegar austur hallaði úr skarðinu og leiðin lá ofan með
Sellæknum, fóru minningarnar að leita sér orða í upprifjun hjá
honum. Hérna liðu hjásetuárin utan við Sellækinn uppi í hlíð-
arkinninni, já, blábernskuárin, þegar hann var einn í þoku-
slæðum að gæta kvíaærhópsins og kynjamyndir þokunnar á
köldum sumardögum og rökum voru eins og óvættamynda-
sögur á næsta leiti. Hann stytti langsamar dægrastundir þessi
átta ár, sem hann margnefndi, með því að marka laufblöðin
hinum og þessum bóndanum eins og hann mundi mörk
þeirra. Hann kallaði árin slæm. „Hér mátti ég í átta ár hafa
slæma ævi“, sagði hann. Svo bar hann það saman við, hvað
hann væri nú vel settur á kraftaklár með dálítið tár á pela. Af
hverju voru árin slæm? Það sýndi sig. Hans hlutverk var að
8 Skagfirdingabók
113