Skagfirðingabók - 01.01.2005, Page 116
SKAGFIRÐINGABÓK
taka þátt í lífsbaráttunni á bjargræðistímanum, þegar sumur
voru svo köld, að varla spruttu tún og nyt ánna var í minna
lagi vegna svalra regndaga og norðan þoku. Hann hlaut að
skila sínum hlut í einfarahlaupum og snúningum, í regnvosi
jafnt og sólskini, þoku jafnt sem norðansteytingi, að gæta þess
að ei týndist úr hjörð og minnkaði þess vegna sú fæða, sem
ásauðurinn gaf fyrir næsta tímaskeið, ofurharða suma vetur og
þrautalanga. Hann jafnaði því saman við það sem hann naut
nú með nægtanesti og skjólgóð föt. Út úr setningaskæðadríf-
unni heyrði ég eftirfarandi: „Hér mátti ég í átta ár ævina hafa
slæma. Nú ríð ég á kraftaklár og kann úr staupi að tæma.“ Ég
truflaði hann því og sagði: „Heyrðu Leifi. Þú varst að gera vísu“.
„Ha“, ansaði hann. Ég hafði því yfir það, sem ég fann út að
væri vísa hans um samanburðinn á æskuárunum og ellidegi.
Þá kættist hann og reið á sprett frá mér að kynna samferða-
mönnunum, að ég hefði raðað orðum hans í vísu. Hann var
harla glaður. Við snerum heim úr leit með nokkurn árangur,
og allmörgum skepnum hafði verið bjargað frá þjáningum.
En hvaða ár voru það sem Hjörleifur nefndi slæmu árin sín,
hjásetuárin frá Mælifellsá? Það voru harðindaárin á níunda
áratug nítjándu aldar, einhver harðasti veðurkafli sem á þjóð-
inni mæddi á árunum eftir 1880. Nægar frásagnir hafa verið
festar á blað um þá veðráttu og þau kjör, sem krepptu að þjóð-
inni. Hjörleifur Sigfússon hefir fráleitt verið eini smalinn, sem
gætti ásauðar á þeim árum og fann til þeirrar miklu ábyrgðar,
að starfi þeirra yrði að notum og hjálpaði til að bændur og
búalið gæti aflað nægilegs matarforða til næsta vetrar fyrir sig
og fénað sinn. Kaldsamir sumardagar norðan Sellækjar með
laufblöð í hlíð lögðu grunn að ævidögum Marka-Leifa, sem
var minnisverður heiðagarpur og happamaður á marga grein.
114