Skagfirðingabók - 01.01.2005, Page 178
SKAGFIRÐINGABÓK
var á herberginu með Eyþóri. Var það bílstjóri, því þeir eru
þrír á Korpúlfsstöðum. Við Eyþór röbbuðum svo lengi saman
frameftir, eins og gamall og góður sveitasiður er þegar gest ber
að garði. Lét Eyþór vel yfir líðan sinni, en sagði þó sér hefði
leiðst fyrst. Kaup hefir hann ágætt, en þarf líka um margt að
hugsa og mikið að gera, því hann hefir alla umsjón með kúa-
búinu á Korpúlfsstöðum.
Þegar komið var langt fram á nótt og ég var búinn að kom-
ast að því að Eyþór gat hlegið ennþá eins og sannur Skagfirð-
ingur, fórum við að sofa, en ekki fannst mér ég vera búinn að
sofa lengi þegar ég vaknaði við þennan dæmalausa glumru-
gang. Ég reis upp með andfælum og var þetta þá vekjara-
klukka sem var að ýta svona rösklega við vini mínum Eyþóri.
Vantaði þá klukkuna fjórðung í 5. Rauk Eyþór upp til handa
og fóta. Spurði ég hann að hvort hann ætlaði strax að fara að
mjólka. Hló hann við og sagðist ekki gera það strax, en hann
þyrfti að vera búinn að koma fólkinu upp áður en kl. væri 5,
því mjólkin yrði að fara af stað klukkan að ganga 8.
Ég hallaði mér svo á ný og fór ekki á fætur fyrr en bjart var
orðið. Hitti ég þá Eyþór. Var mjólkurbíllinn þá kominn á stað
fyrir nokkru. Fór Eyþór þá að sýna mér þá miklu byggingu
sem er í smíðum þar. Er hún víst sú langmesta sem til er enn
hér á landi í sveit. Ég veit ég get ekki lýst henni sem skyldi, en
það helsta er þetta.
Byggingin er 86 metra löng, 39 metra breið, og á að verða 17
metra há. Á þessu geta menn séð hvaða risabygging þetta er. í öðr-
um enda þessarar byggingar er bústaður verkafólksins, eldhús
o.s.frv. I miðri bygginginni á svo að vera fjósið. Það á að taka að
mig minnir 150 kýr. I hinum endanum eru hlöður og súrheys-
gryfjur. Þar eru á sömu hæð klefar sem á að láta mjólkina í.
Þar á að hreinsa hana, og úr því sem ekki selst daglega á að vinna
osta o.fl. Byggingin er ennþá fremur skammt á veg komin. Var
byrjað á henni í fyrra. Er ekki enn komið þak yfir nema þann
hluta sem íbúðin er í.
176