Skagfirðingabók - 01.01.2005, Page 181
FERÐAMINNINGAR FRÁ 1926
hvort Elliðaáin væri nú ekki mikið minni en á sumrin, þegar
þeir væru að veiða laxinn þar. Sagði hann að svo væri, enda
væri hún með minnsta móti um þennan tíma árs.
Þegar við vorum rétt komnir til bæjarins sáum við mann á
undan okkur og teymdi hann hest. Tók maðurinn ekki eftir
að neinn kæmi á eftir sér og stautaði miðja brautina í mesta
sakleysi. Bílstjórinn hægði því á sér og ,baulaði‘. En þá varð
hestinum svo illt við að hann þaut eins og örskot út á aðra
hliðina. Maðurinn var óviðbúinn þessum snöggu sveiflum hjá
gæðingnum og af því brautin var flughál, rallaði hann á hrygg-
inn, þegar hesturinn kippti í hann, og stansaði ekki fyrr en á
brautarkantinum. En hesturinn þaut langt út á holt og stans-
aði þar, sneri sér við og horfði með fnæstum nösum og reistum
haus á bílinn sem stansaði, því bílstjórinn vildi vita hvort mað-
urinn hefði meitt sig. En varla var bíllinn stansaður þegar
maðurinn spratt upp. Var þá víst búinn að átta sig á því að
viðkunnanlegra væri að renna sér fótskriðu niður hjarnið við
þjóðveginn en ramba það svona á bakinu. Þegar bílstjórinn sá
að maðurinn hafði aðeins öðlast meira fjör við byltuna, en
hann sýndist áður eiga í fórum sínum, hélt hann leiðar sinnar
og stansaði ekki fyrr en niðri í bæ, og skildu þar leiðir okkar.
Reykjavík
I Reykjavík hitti ég marga kunningja. Sumum þeirra hafði ég
kynnst á skólanum á Akureyri og nokkrir voru héðan úr sveit-
inni.17 Líka átti ég þar frændfólk. Hjá öllum fékk ég bestu
móttökur. Að telja upp nöfn alls þessa fólks ætla ég að sleppa
nú, enda sé ég það væri ekki til annars en eyða dálitlu af pappír,
því margt af því fólki kemur þessum Reykjavíkurpistli ekkert
við.
Margt nýtt ber fyrir augun í Reykjavík. Sumt af því er óneit-
17 Gísli lauk prófi við Gagnfræðaskólann á Akureyri vorið 1919.
179