Fréttatíminn

Tölublað

Fréttatíminn - 20.10.2016, Blaðsíða 10

Fréttatíminn - 20.10.2016, Blaðsíða 10
10 | FRÉTTATÍMINN | Fimmtudagur 20. október 2016 ÞESSAR KOSNINGAR VERÐA ALGJÖRT MET Það má ganga að því sem vísu að komandi kosningar verði sögulegar. Það eru mörg Íslandsmet í hættu í þessum kosningum og mörg þeirra verða slegin. Met í fjölda þingflokka, met í fylgisaukningu, met í fylgi nýs flokks, met í fylgistapi, met í litlu fylgi fjórflokksins, met í lélegu fylgi einstakra flokka og svo framvegis. Þessi staða sýnir ágætlega það umrót og umbreytingu sem íslensk stjórnmál eru að ganga í gegnum. Gunnar Smári Egilsson gunnarsmari@frettatiminn.is Það eru miklar líkur á að eftir kosn- ingar verði sjö þingflokkar á þingi, einum fleiri en eru nú. Þingflokk- um hefur farið fjölgandi eftir því sem kjördæmaskipaninni hefur verið breytt þannig að fleiri þing- menn eru kjörnir úr færri og stærri kjördæmum. Þótt iðulega sé talað um fjórflokk þá hafa ekki svo fáir þingflokkar verið á þingi síðan á kjörtímabilinu 1979 til 1983, fyrir 33 árum. Síðan þá hafa fimm flokk- ar setið á þingi helming tímans en sex flokkar helminginn. Það ætti því enginn að undra sig á því að sjö flokkar settust á þing eftir kosn- ingar. Og það er allt eins líklegt að þeir verði átta eftir næstu kosningar. Methafar í fylgisaukningu Það eru mörg met í hættu í kom- andi kosningum. Píratar hafa enn ágæta möguleika á að slá Íslandsmet í fylgisaukningu. Núgildandi met setti Alþýðuflokkurinn 1978 þegar fylgi hans stökk upp um 12,9 pró- sentustig eftir kröftuga kosninga- baráttu þar sem Vilmundur Gylfa- son var einna mest áberandi. Til að slá það met þurfa Píratar að ná 18,0% atkvæða. Þeir voru vel yfir því hjá MMR (19,6%), rétt yfir hjá Gallup (18,3%) en undir metinu hjá Félags- vísindastofnun (17,5%). Annað sætið í fylgisaukningu á Framsóknarflokk- urinn undir forystu Hermanns Jón- assonar frá 1959. Þá hækkaði Fram- sókn um heil 11,6 prósentustig. Til að krækja í silfrið þurfa Píratar því að komast í 16,7% atkvæða. Þau eru enn yfir því marki í öllum könnunum. Annars er topp tíu listinn yfir fylgisaukningu eldri framboða þessi: +12,9% Alþýðuflokkurinn 1978 (Vilmundur Gylfason & co) +11,6% Framsóknarflokkurinn 1959 (Hermann Jónasson) +11,4% Sjálfstæðisflokkurinn 1991 (Davíð Oddsson eftir sameiningu við Borgaraflokkinn) +9,6% Framsóknarflokkurinn 2013 (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) +8,0% Framsóknarflokkurinn 1979 (Steingrímur Hermannsson) +7,3% Vinstri græn 2009 (Steingrímur J. Sigfússon) +6,5% Sjálfstæðisflokkurinn 1974 (Geir Hallgrímsson) +5,6% Vinstri græn 2007 (Steingrímur J. Sigfússon) +5,1% Sjálfstæðisflokkurinn 1956 (Ólafur Thors) +4,6% Kvennalistinn 1987 (margar konur í forsvari) Það kemur kannski mörgum á óvart hversu lítil hreyfing á fylgi fleytir flokkum inn á þennan lista. Meginreglan er að fylgi f lokka hreyfist lítið milli kosninga, það þarf mikið að ganga á svo flokkar bæti við sig mörgum prósentum. Íslandsmet í tapi Íslandsmet í fylgistapi liggur hjá Samfylkingunni 2013, nokkrum mánuðum eftir að Árni Páll Árna- son tók við af Jóhönnu Sigurðar- dóttur sem formaður. Þá missti Samfylkingin 16,9 prósentustig. Næstum því sjötti hver Íslendingur var í þeim hópi sem kaus Samfylk- inguna 2009 en ekki 2013. Miðað við skoðanakannan- ir eiga aðeins Framsóknarmenn möguleika á að slá þetta met. Til að ná því má Framsókn ekki fá meira en 7,5 prósent atkvæða. Flokk- urinn þyrfti þá að tapa miklu á síð- ustu tveimur vikum því hann hefur fengið á bilinu 8,6 til 9,8% í síðustu könnunum. Það er því líklegra að Framsókn kræki í silfurverðlaun í fylgistapi. Til þess þarf hann að komast undir 11,5 prósent. Þá nær hann silfrinu af Sjálfstæðisflokkn- um í fyrstu kosningum eftir Hrun, en þá féll flokkurinn um 12,9 pró- sentustig. Sjálfstæðisf lokkurinn á líka bronsið, en eftir að Albert Guðmundsson klauf sig úr flokkn- um 1987 féll flokkurinn um 11,4 pró- sentustig í kosningum. Annars er listinn yfir mestu fylgistöp í kosningum svona: -16,9% Samfylkingin 2013 (Árni Páll Árnason) -12,9% Sjálfstæðisflokkurinn 2009 (Bjarni Benediktsson) -11,4% Sjálfstæðisflokkurinn 1987 (Þorsteinn Pálsson) -10,8% Vinstri græn 2013 (Katrín Jakobsdóttir) -10,0% Sjálfstæðisflokkurinn 1978 (Geir Hallgrímsson) -8,0% Framsóknarflokkurinn 1978 (Ólafur Jóhannesson) -7,0% Sjálfstæðisflokkurinn 2003 (Davíð Oddsson) -6,4% Framsóknarflokkurinn 1983 (Steingrímur Hermannsson) -6,3% Framsóknarflokkurinn 1956 (Hermann Jónasson) -6,0% Framsóknarflokkurinn 2009 (Jón Sigurðsson) Skiljanlega raða Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sér á þennan lista. Flokkar sem hafa haft mesta fylgið hafa mestu fylgi að tapa. Það vekur hins vegar athygli hversu mikið af forystufólki dagsins í dag hefur mátt þola mikið tap; Árni Páll, Bjarni og Katrín. Þau hafa hins vegar öll þá afsökun að hafa erft vonlitla stöðu frá forverum sínum; Jóhönnu Sigurðardóttur, Geir H. Haarde og Steingrími J. Sigfússyni. Íslandsmet nýliða Viðreisn gæti slegið metið í fylgis- aukningu með góðum endaspretti. Flokkurinn mælist nú með á bil- inu 10,2% (MMR) til 12,4% (Gallup). Þaðan er ekki svo langt í 12,9%. Þótt það náist ekki á Viðreisn möguleika á öðru Íslandsmeti, í flokki nýrra flokka. Gildandi Íslandsmet á Borg- araflokkur Alberts Guðmundsson- ar frá 1987, 10,9%. Sama ár fékk Kvennalistinn 10,1% atkvæða. Topp listi nýrra flokka er annars svona í dag. Hér eru ekki talin með sameiningar flokka og því teljast ekki með fyrstu framboð Samfylk- ingarinnar, Alþýðubandalagsins eða Sósíalistaflokksins. Þessir flokk- ar teljast til arftaka eldri flokka. Klofningsframboð teljast hins vegar með og þar á meðan Vinstrihreyf- ingin – grænt framboð. 10,9% Borgaraflokkurinn 1987 (Albert Guðmundsson) 9,1% Vinstri græn 1999 (Steingrímur J. Sigfússon) 8,9% Samtök frjálslyndra og vinstrimanna 1971 (Hannibal Valdimarsson) 8,2% Björt framtíð 2013 (Guðmundur Steingrímsson) 7,3% Bandalag jafnaðarmanna 1983 (Vilmundur Gylfason) 7,2% Þjóðvaki 1995 (Jóhanna Sigurðardóttir) 7,2% Borgarahreyfingin 2009 (Birgitta Jónsdóttir o.fl.) 6,0% Þjóðvarnarflokkurinn 1953 (Ragnar Arnalds o.fl.) 5,5% Kvennalistinn 1983 (margar konur í forsvari) 5,1% Píratar 2013 (Birgitta Jónsdóttir o.fl.) 4,2% Frjálslyndi flokkurinn 1999 (Sverrir Hermannsson) Ég veit ekki hvort raunhæft sé að Flokkur fólksins komist upp fyrir fylgi Frjálslynda flokksins frá 1999. Ári eftir þær kosningar var kosn- ingalögum breytt svo að flokkar, sem ekki ná inn kjördæmakjörum þingmanni, þurfa að fá 5 prósent eða meira til að koma til greina við útdeilingu uppbótarmanna. Það kann því ekki að duga Flokki fólks- ins að komast yfir Sverri Hermanns- son og félaga til að ná inn á þing. Þegar listinn er skoðaður verður að segjast að það er nokkurt afrek hjá Benedikt Jóhannessyni að vera kominn í þá stöðu að sigra á þess- um lista. Þarna eru margir af helstu refum og baráttujöxlum íslenskra stjórnmála; Albert, Steingrímur J., Hannibal, Vilmundur, Jóhanna og Sverrir Hermannsson, auk Gvend- ar Steingríms og Birgittu. Benedikt yrði eini forystumaðurinn sem ekki hefur áður setið á þingi, fyrir utan Birgittu og aðra frambjóðendur Borgarahreyfingarinnar í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Sögulegur toppur Nokkrir flokkar eiga möguleika á að ná sögulegu hámarki í fylgi. Píratar eru líklegastir. Úr þessu má heita ómögulegt að þeir fari ekki yfir þau 5,1% sem þeir fengu 2013. Björt framtíð fékk 8,2% 2013 og eygir möguleika á að slá það met, hefur verið með á bilinu 7,7 til 8,2% í síð- ustu könnunum. Sjálfstæðisflokk- ur, Framsókn og Samfylking eiga enga raunhæfa möguleika á að slá út sína bestu útkomu og VG þyrfti að eiga stórkostlegan endasprett í kosningabaráttunni til að komast yfir þau 21,7 prósent sem flokkurinn fékk 2009. Í könnunum undanfarið hefur flokkurinn mælst með 14,5 til 17,7 prósent. Sögulegur botn Nokkrir flokkar stefna að söguleg- um botni. Hingað til hefur Samfylk- ingin ekki fengið lakari útkomu en í síðustu kosningum, 12,9%. Í síð- ustu skoðanakönnunum hefur flokkurinn mælst með 6,9 til 9,0 prósent. Frambjóðendur flokks- Vilmundur Gylfason var að öðrum ólöstuðum mest áberandi í kröftugri kosningabaráttu Alþýðuflokksins 1978, sem að mestu snerist um kröfuna um gagngerar kerfisbreytingar á Íslandi. Albert Guðmundsson er fremstur þeirra sem hafa haft forystu um stofn- un nýrra flokka. Árið 1987 náði hann sjö manns inn á þing með klofnings- framboði sínu úr Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt skoðanakönnunum á Inga Sæland ekki mikla möguleika á að komast á þing. Hún á hins vegar góða möguleika á að ná yfir 2,5 prósent markið, en það færir Flokki fólksins vænan ríkisstyrk sem ætti að nýtast til undirbúnings næstu kosninga. Birgitta Jónsdóttir gæti orðið meðal þeirra Pírata sem settu Íslandsmet í fylgis- aukningu. Birgitta er þegar afrekskona í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur verið í forystu tveggja nýrra flokka sem hafa komist á þing. Óttarr Proppé gæti með góðum enda- spretti komið Bjartri framtíð yfir fylgið frá síðustu kosningum, 8,2 prósent. Björt framtíð yrði þá í hópi fárra nýrra flokka sem hafa náð að auka fylgi sitt á milli kosninga. Kvennalistanum tókst það 1987, Frjálslynda flokknum 2003 en öðrum ekki. Nema náttúrlega Pírötum nú. Benedikt Jóhannesson á nokkra möguleika á að slá met Albert Guðmunds- sonar í flokki stjórnmálaleiðtoga sem ná bestum árangri með nýjan flokk í kosn- ingum. Það væri mikið afrek af Benedikt. Þau sem hafa náð lengst í þessari íþrótt eru flest allt þingmenn með langa þing- reynslu, fólk sem var vel hert af átökum stjórnmálanna. Árni Páll Árnason tók við Samfylk- ingunni í ársbyrjun 2013 eftir mikið fylgishrun flokksins allt kjörtímabilið og leiddi flokkinn til stærsta fylgistaps Íslandssögunnar. „Þótt iðulega sé talað um fjórflokk þá hafa ekki svo fáir þingflokkar verið á þingi síðan á kjörtímabil- inu 1979 til 1983, fyrir 33 árum.“

x

Fréttatíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.