Fréttatíminn - 20.10.2016, Blaðsíða 24
24 | FRÉTTATÍMINN | Fimmtudagur 20. október 2016
Fráleitir dómar
um frábæra leiksýningu
F
á leikskáld hafa notið meiri hylli en Arth-
ur Miller hér á landi. Fyrir því eru eflaust
ýmsar ástæður. Fyrstu – og að flestra
dómi – bestu leikrit hans, leikritin sem
hann samdi á fimmta og sjötta áratug
síðustu aldar, fengu strax feikigóðar við-
tökur og hafa síðan verið fastagestir í leikhúsum um
veröld víða, einnig hér á Íslandi. Miller kom í öllum
meginatriðum fram sem raunsæishöfundur, sagði
spennandi og áhugaverðar sögur með vel teiknuð-
um og sterkum mannlýsingum; það hlaut að fara vel
í íslenska áhorfendur sem voru enn lítt vanir ýmiss
konar framúrstefnu og formtilraunum sem þá voru
móðins í evrópsku samtímaleikhúsi. Mestu skipti
þó að Miller var skáld sem átti erindi, að sögur hans
fjölluðu um eitthvað sammannlegt, siðferðileg og
tilvistarleg álita- og átakamál sem flestir hugsandi
menn gátu – og geta enn – tengt sig við.
Þegar Miller bar hér fyrst að garði stóð vel á í ís-
lensku leikhúsi. Fram var að koma dágóður leikenda-
hópur sem undir viðeigandi leikstjórn hafði burði
til að blása lífi í harmsögur hans – því að flest eru
leikrit Millers með einhverjum hætti tragísk verk,
eða stefna á að vera það. Og viti menn: nokkrir af
bestu leikurum áranna nýttu listræn tækifæri þeirra
svo vel að lengi var í minnum haft. Ég gæti hér nefnt
ýmis nöfn, en læt eitt duga: Róberts Arnfinnssonar.
Róbert vann frægan sigur árið 1957 í burðarhlutverk-
inu í Horft af brúnni (sem Sigurður Pálsson hefur af
Jón Viðar Jónsson
gagnrýnandi
skrifar um sýningu
Þjóðleikhússins,
Horft af brúnni,
og gagnrýnir
gagnrýni um
sýninguna.
mér óskiljanlegum ástæðum kosið að nefna Horft
frá brúnni í annars vandaðri og lipurri nýþýðingu
sinni). Sú sýning hlaut miklar vinsældir; um átján
þúsund manns sáu hana bæði á sviði Þjóðleikhússins
og í leikför þess um landið (þetta var á meðan leik-
húsið sinnti enn landsbyggðinni). Löngu síðar sagði
Róbert í viðtali að hann vildi frekar leika Miller en
Shakespeare; ég veit ekki hvort margir kollegar hans
voru sama sinnis, en þetta var hans skoðun sem
hann hafði vitaskuld fullan rétt á að hafa.
Tákn og tæknikúnstir?
Nú hefur Þjóðleikhúsið enn á ný tekið Horft af
brúnni til meðferðar – og ég finn mig knúinn til að
drepa niður penna í tilefni þess. Ástæðan er fyrst
og fremst sú að um sýninguna hafa birst harla
undarlegir dómar í tveimur af öflugustu fjölmiðlum
landsins, Fréttablaðinu og Ríkissjónvarpinu (báðir
eru auðfundnir á Netinu, á visir.is og ruv.is). Dóm-
ar þessir eru báðir svo yfirborðslegir og – að mínu
viti – rangir að ég fæ ekki orða bundist. Leikdómari
Fréttablaðsins, Sigríður Jónsdóttir, er þannig ósátt
við frammistöðu nær allra leikenda; þar er ég henni
upp undir hundrað prósent ósammála. Ég nefni sem
lítið dæmi ummæli hennar um framsögn annarrar
leikkonunnar (þetta er mikið karlaverk) sem var í
mjög góðu lagi í bæði skiptin sem ég sá sýninguna.
Þá talar Sigríður um að persónurnar verði „tákn“
fremur en fólk af holdi og blóði; „tákn“ fyrir hvað,
spyr ég, en er litlu nær af lestri greinarinnar. Annars
er ljóst að hún lítur á sviðsetningu Stefans Metz sem
estetíska stíltilraun án tengsla við verk Millers; þar
fer hún, að mínum dómi, enn villur vegar og gæti ég
skrifað um það langt mál sem rýmið leyfir mér ekki
hér.
„Melódrama“ i Kastljósi
Í Kastljósi bunaði Hlín Agnarsdóttir venju sam-
kvæmt ræðu sinni upp úr sér á slíkum methraða að
maður varð nánast móður af því einu að leggja við
hlustir. Ég hef þó lagt á mig að hlýða á þetta sam-
tal, eða öllu heldur eintal, tvisvar sinnum og þykir
næsta augljóst að hún víkur sér markvisst undan því
að leggja nokkurt mat á túlkun leikenda. Þess í stað
lætur hún móðan mása um sviðsetningu og ytri stíl-
brögð; það er bersýnilega hið eina sem vakið hefur
áhuga hennar og hún getur borið lof á. Slík vinnu-
brögð skil ég ekki. Ég skil ekki heldur hvað hún er að
fara þegar hún segir að þetta leikrit sé „melódrama“.
Hefði hún verið að tala um Í deiglunni sama höf-
undar (sem var sýnt hér fyrir fáeinum árum undir
heitinu Eldraunin) hefði ég getað tekið undir með
henni; Horft af brúnni fer hins vegar í mínum aug-
um eins nærri því að vera klassískur harmleikur og
hægt er að ætlast til af nútímaverki.
Farið og sjáið sjálf!
En gott og vel; erindi mitt með þessum greinarstubb
er í rauninni aðeins eitt: í öllum bænum, þið sem
hann sjáið og unnið leiklistinni, látið ekki aðra eins
„dóma“ og þessa tvo fæla ykkur frá sýningunni!
Hún er í fáum orðum sagt einstakur listviðburður
og sigur, ekki aðeins leikstjórans og hans hjástoðar-
fólks, heldur ekki síður og umfram allt leikendanna.
Túlkun Hilmis Snæs á Eddie Carbone er þaulunnin
og útpæld, innlifuð og áhrifamikil, og aðrir leik-
endur fylgja fast á hæla honum; allir skila sínu með
prýði í jöfnum og þéttum samleik sem á, ef vel er að
verki staðið, að geta orðið enn betri, því lengur sem
sýningin fær að lifa. Ég er alls ekki að segja að ekki
megi finna að einu og öðru, ekki setja spurningar-
merki hér og þar, en þegar svona vel tekst til, er það
ekki höfuðatriði, alltént ekki í örstuttri blaðagrein.
Maður óskar Þjóðleikhúsinu einfaldlega til hamingju
og fagnar því að nokkrir af bestu leikurum okkar
(og nokkrir af þeim efnilegri) fái tækifæri til að sýna
hvers þeir eru megnugir, þegar þeir fá góða leik-
stjórn í góðum leikskáldskap.
Jón Viðar
Jónsson skrifar
um leikhús
„Látið ekki aðra eins „dóma“
og þessa tvo fæla ykkur frá
sýningunni! Hún er í fáum
orðum sagt einstakur listvið-
burður og sigur, ekki aðeins
leikstjórans og hans hjástoðar-
fólks, heldur ekki síður og
umfram allt leikendanna.“
Túlkun Hilmis Snæs
á Eddie Carbone
er þaulunnin og
útpæld, innlifuð og
áhrifamikil, segir Jón
Viðar í grein sinni.
Myndir | Hörður Sveinsson
&
Þann 28. október
Heilsa
lífsstíll
gt@frettatiminn.is
531 3319
frettatiminn.is