Dagblaðið Vísir - DV - 04.10.2016, Page 32
Vikublað 4.–6. október 201628 Menning
S
ögusvið verksins Horft frá
brúnni, sem frumsýnt var á
stóra sviði Þjóðleikhússins
síðastliðið föstudagskvöld,
er dimmt og fábrotið íbúða-
hverfi í grennd við Brooklyn-brúna
á sjötta áratug síðustu aldar. Ítölsku
hjónin Eddie og Beatrice hafa alið
upp systurdóttur Beatrice, Katrínu,
sem nú er að stíga sín fyrstu spor á
vinnumarkaðinum. Þau hjónin hafa
einnig boðist til að hýsa frændur Be-
atrice, bræðurna Marco og Rodolfo,
sem komnir eru ólöglega inn í
landið. Bræðurnir eru ólíkir. Marco
á eiginkonu og þrjú börn heima á
Ítalíu og hann sendir þeim sam-
viskusamlega stærsta hluta launa
sinna. Yngri bróðirinn, Rodolfo,
eyðir hins vegar öllu í tísku, tónlist
og skemmtanir. Eddie til mikillar
skapraunar fella þau Katrín og Rod-
olfo hugi saman. Hann grunar að
Rodolfo sé samkynhneigður og sé
einungis að gera hosur sínar grænar
fyrir Katrínu til þess að fá landvistar-
leyfi með hjónabandi.
Þetta þolir Eddie ekki, hann
leitar til ítalska lögfræðingsins, hr.
Alfieri, sem segir lögin ekki geta
hjálpað honum í þessu máli. Hann
ráðleggur Eddie að sleppa hendinni
af Katrínu og leyfa henni að taka
ábyrgð á eigin lífi. Þessu unir Eddie
ekki. Þegar hann kemst svo að því
að Rodolfo hefur sofið hjá Katrínu
snýr hann sér til útlendingaeftirlits-
ins og segir til þeirra bræðra. Hann
geldur fyrir svik sín.
Misjöfn frammistaða leikaranna
Hilmir Snær fer með hlutverk Eddie.
Að þessu sinni er freistast til þess
að skafa svolítið sjarmann af Hilmi
Snæ og það virkar ágætlega. Áhrif
bumbunnar á hreyfigetu leikarans
voru þó kannski svolítið of mikil,
Hilmir er að nálgast fimmtugt og
mátti alveg hreyfa sig eðlilega þrátt
fyrir púðann á maganum. En hann
heldur sýningunni uppi og gerir það
vel að vanda.
Harpa Arnardóttir leikur eigin-
konuna, Beatrice. Eftir svolítið veika
byrjun í upphafi verksins náði hún
sér á strik og sýndi alveg fantagóðan
og í raun óaðfinnanlegan leik.
Með hlutverki Katrínar fer Lára
Jóhanna Jónsdóttir. Nær alla sýn-
inguna notaði hún einhvers konar
tilbúna flauelsrödd. Þetta er væntan-
lega leikstjórnarlegt atriði, líklega til
þess ætlað að skapa „femme fatale“
áhrif en það misheppnaðist alveg.
Rödd hennar var flöt, tilgerðarleg og
þar af leiðandi kynþokkalaus. Það
var ekki fyrr en í dramatískum enda
verksins að hennar rétta rödd kom
fram og túlkunin náði flugi.
Stefán Hallur Stefánsson fer
mjög vel með hlutverk eldri bróð-
urins, Marco, en ég var ekki alveg
eins hrifin af Snorra Engilbertssyni
í hlutverki Rodolfo. Tengsl hans við
bæði Marco og Katrínu voru aldrei
nógu trúverðug, ekki síst þar sem
þau hætta bæði framtíð sinni fyrir
hann í lok verksins.
Arnar Jónsson lék lögfræðinginn,
hr. Alfieri. Þetta er ögrandi hlutverk
sögumannsins sem horfir frá brúnni
á milli heima og tíma. Hann veit í
upphafi að búið er að skrifa síðasta
kafla verksins. Arnar greip til gam-
alla takta í byrjun sýningarinnar. Í
stað þess að tala beint við áhorfend-
ur og trúa þeim fyrir sögunni, fór
allt hans kapp í kunnuglegan radd-
beitingarrússíbana. Þar var til skipt-
is hvíslað og mælt af yfirgengilegri
raust, gjarnan allt í sömu setningu
líkt og bilað hljóðkerfi. Ég býst við
að annar hver leikari geti leikið þetta
eftir en það er vandasamara að vera
einlægur og trúverðugur. Það tókst
Arnari hins vegar ágætlega í lok leik-
ritsins þar sem hann átti mun betri
sprett og tengdist verkinu betur.
Firnamikið myrkur
Það eru sterk „film noir“ áhrif
í þessari uppfærslu. Hvít birta
úr þröngum ljóskösturum sker
myrkrið sem umlykur sviðið allan
tímann og lýsir upp þær hliðar sem
persónurnar kjósa að sýna. Þetta
er áhugaverð tilraun og vel unn-
in en gagnast þó sýningunni ekki
vel. Að mínum dómi var myrkr-
ið einfaldlega of fyrirferðarmikið á
þessu stóra sviði, leikararnir duttu
niður í notalegan hraða og óþarfa
værð færðist yfir áhorfendur. Þegar
ókunnugur sessunautur minn var
búinn að leyfa sér tvo stóra geispa
átti ég fullt í fangi með að fara ekki
að dæmi hans.
Mikil hugsun hefur verið sett í
leiksviðið sem snýst í ótal hringi og
sýnir stöðugt nýjar myndir þrátt fyrir
myrkrið á sviðinu. Slagsmálaatriðin
voru vel unnin og nýttu hringsviðið
með eftirminnilegum hætti.
Enginn leikstjórnarsigur
Mér þykir Stefan Metz ekki hafa sýnt
slíka leikstjórnarlega yfirburði að
sækja þurfi hann ítrekað hingað til
lands. Ég er handviss um að það séu
til fleiri erlendir leikstjórar sem feng-
ur gæti verið af að fá til landsins. En
þetta er eitt af bestu leikhúshand-
ritum síðustu aldar og þeir frábæru
leikarar sem manna þessa sýningu
munu örugglega skína skærar í hlut-
verkum sínum eftir því sem sýning-
um fjölgar. n
Skráðu þig í Bed&Breakfast klúbbinn
okkar og fáðu betri kjör
s: 426 5000 — booking@bbkefairport.is — bbkeflavik.com
Ertu á leið í flug?
Við geymum bílinn frítt,
keyrum þig á flugvöllinn og
sækjum þig við heimkomu
Kökulist | Firði Hafnarfirði og Valgeirsbakarí | Hólagötu 17 í Reykjanesbæ
Súrdeigsbrauðin
okkar eru alvöru
u Heilkorna
u 100% spelt
u Sykurlaus
u Gerlaus
u Olíulaus
Að sleppa takinu
„Leikararnir duttu
niður í notalegan
hraða og óþarfa værð
færðist yfir áhorfendur.
Bryndís Loftsdóttir
ritstjorn@dv.is
Leikhús
Horft frá brúnni
Höfundur: Arthur Miller
Leikstjóri: Stefan Metz
Þýðing: Sigurður Pálsson
Leikarar: Hilmir Snær Guðnason, Harpa
Arnardóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Arnar
Jónsson, Snorri Engilbertsson, Stefán Hallur
Stefánsson, Baltasar Breki Samper, Hall-
grímur Ólafsson og Baldur Trausti Hreinsson
Leikmynd og búningar: Sean Mackaoui
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Sýnt í Þjóðleikhúsinu
Horft frá brúnni „Það eru
sterk „film noir“ áhrif í þessari
uppfærslu.“ Mynd Hörður SvEinSSon