Víkurfréttir


Víkurfréttir - 22.10.2015, Blaðsíða 8

Víkurfréttir - 22.10.2015, Blaðsíða 8
8 fimmtudagur 22. október 2015 • VÍKURFRÉTTIR „Ég ólst upp fyrstu tvö árin mín hjá foreldrum mínum hérna í Kefla- vik. Ég er einkabarn þeirra, en þau skildu þegar ég var rúmlega tveggja ára gömul. Ég bjó svo hjá mömmu næstu árin. Pabbi vann úti á landi svo ég hitti hann ekki oft á þessum árum,“ segir Herdís. Móðir hennar veiktist af geðhvarfasýki fljótlega eftir fæðingu Herdísar en fékk aldrei greiningu á sjúkdómnum fyrr en Herdís var komin á ungl- ingsaldur. „Veikindi hennar voru okkur báðum erfið, hún átti erfitt með skap, var óáreiðanleg og fann sig ekki í móðurhlutverkinu sem að sjálfsögðu bitnaði mest á mér. Ég fór fljótlega að sjá um mig sjálf og hef allar götur síðan verið mjög sjálfstæð.“ Sváfum oft í bílnum Mæðgurnar flökkuðu mikið á milli staða á þessum tíma og sváfu oft í bílnum. „Ég var oft og iðulega sótt síðust í leikskólann og stundum var ég jafnvel ekki sótt. Þá var hringt í ömmu þegar klukkan var að ganga sjö og hún sótti mig. Mér leið alltaf svo vel hjá henni og það var orðið þannig að ég var farin að fela mig eða læsa mig inni á baði þegar að við heimsóttum ömmu eða ég var hjá henni í pössun.“ Á þeim tíma áttaði amma Herdísar sig á því að ekki væri allt með felldu og fljótlega flutti hún svo til hennar. Herdís segir árin hjá ömmu sinni hafa verið góð. Þar hafi hún fengið öryggi og annað sem af uppeldi hlýst. „Amma agaði mig til þar sem ég hafði að mestu verið sjálfala fram að þessu og þetta var hellings vinna fyrir ömmu sem þá var fimmtug og búin með uppeldispakkann. Ég hefði ekki getað beðið um neitt betra en að alast upp hjá ömmu. Barnaverndar- nefnd var komin í málið á þessum tíma og fósturforeldrar voru næsta skref fyrir mig. Ég verð alltaf þakklát ömmu fyrir að halda mér innan fjöl- skyldunnar og fyrir að leyfa mér að alast upp með fólkinu mínu.“ Herdís segir ömmu sína hafa kennt sér svo margt í lífinu og hún geti alltaf treyst á hana í einu og öllu. „Það er ekki öllum gefið að eiga góða að en ég er svo sannarlega heppin með ömmu mína. Henni verð ég ævinlega þakk- lát fyrir að koma mér til manns og það gerði hún vel.“ Fann fyrir mikilli reiði Þegar Herdís komst á unglings- aldurinn vöknuðu hjá henni ýmsar spurningar. Eins og af hverju mamma hennar hafi ekki getað hugsað um hana. „Ég hugsaði af hverju ég? Ég fann fyrir mikilli reiði á þessum árum. Ætli höfnunin hafi ekki komið mest fram þá eða að ég hafi verið farin að skilja að móðir mín hafnaði mér vegna veikinda sinna sem er gífurlega stór biti fyrir ungling að kyngja. Mér leið ekki alltaf vel i skóla. Fannst það frekar hallærislegt að búa hjá ömmu og fannst eins og ég væri púkó. Skóla- árin voru ekki minn besti tími og ég hafði mjög lítið sjálfstraust á þeim tíma. Það var auðvitað reynt eftir bestu getu að útskýra fyrir mér að mamma mín væri lasin en skiln- ingurinn var ekki alltaf til staðar hjá mér þá. Auðvitað dreymdi mann um að alast upp með foreldrum sín- um og ég þráði ekkert heitara en að eiga systkini.“ Herdís segir að uppeldið hafi mótað sig mikið og þess vegna sé hún sú sem hún er í dag. „Öll reiðin sem snérist svo upp í ást eftir því sem ég þroskaðist og skildi þessi veikindi móður minnar en þó voru unglings- árin erfiðust og mikil uppreisn bjó í mér á þessu æviskeiði. Pabbi hennar bjó á Grundarfirði og var ákveðið að hún myndi prufa að búa hjá honum yfir sumarið þegar hún varð 16 ára. „Sá tími var æðis- legur og við pabbi náðum vel saman. Sá tími verður mér ávallt dýrmætur því faðir minn lést eftir mikil veik- indi þegar að ég var að verða tvítug. En ég lít á það þannig að öll þessi reynsla hafi verið mér til góðs. Ég nýt litlu hlutanna sem lífið hefur upp á að bjóða og er nægjusöm með svo margt. Það þarf ekki alltaf eitt- hvað mikið til að gleðja mann og næra hjartað.“ Vantaði mömmu Herdís segir þessa reynslu hafa haft áhrif á sig sem móður. „Ég varð sjálf móðir 27 ára gömul. Ekkert er yndis- legra eða dásamlegra en að fá nýfætt barnið sitt í fangið, en ég fann þarna að mig vantaði að eiga móður mér til halds og trausts. Amma reyndi eftir bestu getu að upplýsa mig um eitt og annað en það er mikið að læra þegar maður verður foreldri.“ Eftir að eldri sonur Herdísar fæddist upplifði hún kvíða og hræðslu og var hrædd um að eitthvað gæti komið fyrir hana. „Ég var líka hrædd um að ég gæti ekki hugsað um drenginn minn. Ég var hrædd við að veikjast kannski eins og móðir mín. Þegar svo yngri sonur minn fædd- ist þá hrundi eiginlega allt hjá mér. Ég var svo dofin að ég gat varla hreyft mig, varð stjörf af hræðslu og sængurkvennagráturinn heltók mig. Mig langaði ekki að verða móðir aftur og þunglyndið helltist yfir mig. Ég var nánast hætt að svara fólki í símann og lokaði mig af. Svaf eins mikið og ég gat með litla drengnum mínum. Inga (fullt nafn?) ljósmóðir mín kom mér til bjargar og sagði við mig orðrétt. „Herdís þú ferð á læknavaktina strax í dag. Þú getur ekki verið svona og ekki notið þess að vera með litla barninu þínu.“ Herdís segist vera Ingu ævinlega þakklát fyrir að hafa rekið sig af stað og áttað sig í því hver staðan var. „Ég held að fólk átti sig ekki nógu vel á þeim einkennum sem fylgja fæðingarþunglyndi. Ég fékk lyf og frábæra sálfræðiaðstoð hjá Heil- brigðisstofnuninni sem hjálpaði mér á réttan stað aftur. Eftir allt þetta hefur lífið kennt mér að allt getur gerst og að við erum ekki heilög. Allir geta veikst andlega og það er svo gott að vera meðvitaður um það og geta gripið inn í hjá öðrum ef maður sér þess merki. En auðvitað er þetta allt viðkvæmt og ekki svo gott að eiga við en við verðum alltaf að reyna. Mín saga er þannig að barnæskan var í húfi og hún skiptir svo gífurlega miklu máli. Fyrstu ár ævinnar erum við að mótast og þá er svo mikilvægt að allir þættir séu í lagi. Barnasálfræðingurinn sem ég fór til sagði við ömmu mína. „Þetta barn er kraftaverk eftir allt sem á undan hefur gengið.“ Ég hlýt að hafa verið rosalega heppin að komast vel út úr þessu öllu og standa bein í baki í dag.” Það skiptir máli að leita sér hjálpar Herdís vill ráðleggja mæðrum sem upplifa vanlíðan eftir barnsburð að loka sig ekki af þó svo að það geti verið freistandi. „En það er hægt að fá hjálp frá fagfólki. Það skiptir svo miklu máli svo við getum fengið að njóta litlu krílanna okkar og tím- ans sem við fáum á meðan þau eru lítil. Þó allt virðist vonlaust þá er alltaf einhver sem hefur það verr en maður sjálfur. Tölum um hlutina sama hversu asnalegir manni finnst þeir vera. Við erum ekki ein, leyfum hjálpinni að berast til okkar ef við getum ekki borið okkur eftir henni sjálf. Það er meira í húfi en bara við sjálf og lífið er dýrmæt gjöf. Í dag er ég hamingjusöm mamma. Ég elska fátt meira en að dansa um eldhús- gólfið með strákunum mínum. Í dag er Herdís í ágætu sambandi við mömmu sína. „Hún er mikið breytt og ég er henni alls ekki reið og mun aldrei vera það. Að því sögðu þá verðum við aldrei nánar eins og mæðgur ættu að vera, eða eins og ég óskaði að samband okkar yrði þegar ég var lítil.“ Húmorinn er aldrei langt undan hjá Herdísi og segir hún hann hafa hjálpað sér í gegnum raunir lífsins. „Ég trúi því að við séum okkar eigin gæfusmiðir og á meðan við erum sífellt með áhyggjur af því sem við hræðumst þá njótum við ekki þess sem lífið hefur uppá að bjóða.“ Herdís Ósk Unnarsdóttir 34 ára gömul Suðurnesjamær, er í sambúð og á tvö börn. Hún upplifði andlega erfiðleika eftir fæðingu tveggja barna sinna og telur að fólk átti sig ekki nógu vel á þeim einkennum sem fylgja fæðingarþunglyndi. Hún ræðir einnig hvernig það var að alast upp hjá ömmu sinni því foreldrar hennar gátu ekki séð um hana. Hún ólst upp við það að sofa oft í bílnum og stundum var hún ekki sótt á leikskólann. Herdís Ósk Unnarsdóttir, 34 ára gömul Suðurnesjamær ræðir um fæðingarþunglyndi og erfiðleika í æsku: Verð alltaf þakklát ömmu að koma mér til manns Ekki loka ykkur af þó það sé það eina sem manni langar til að gera og helst að jörðin gleypi mann Herdís Ósk með sam- býlismanninum Örvari Þór Kristjánssyni og sonunum tveimur Kristjáni Leó og Jóni Unnari.

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.