Feykir


Feykir - 10.07.2014, Blaðsíða 9

Feykir - 10.07.2014, Blaðsíða 9
26/2014 Feykir 9 Heilir og sælir lesendur góðir. Aldrei þessu vant er nú nauðsynlegt að gera leiðréttingu á einni vísu er birtist í síðasta þætti. Er það önnur vísan sem birtist þar eftir Rakel Bessadóttur, svo litlu munar að í síðasta orði í annarri hendingu kemur l í staðinn fyrir t og breytir það ótrúlega miklu. Sama er í síðustu hendingu, þar kemur í einu orði l í staðinn fyrir b eins og flestir lesendur hafa trúlega tekið eftir. Rétt er vísan svo: Lífs á söndum leiðin skín liggur önduð staka. Óma löndin eru mín undir böndum klaka. Heyrum næst þessa játningu Ingólfs Ómars Ármannssonar. Ég hef gengið grýtta slóð gegnum slarkið flotið. Drukkið stíft og faðmað fljóð freistinganna notið. Ýmsar hliðar eru á þeim teningi. Ingólfur skýrir það frekar í næstu vísum. Bakkus gleði meinar mér mörg er ögur stundin. Píslargangan orðin er erfiðleikum bundin. Vínið leita löngum í líkt og margir gera. Oft á tíðum þurft hef því þungan kross að bera. Hjá okkur mörgum sem þekkja vel til á þessum vettvangi er stundum hægt að sjá fleiri leiðir með stuðningi þeirra sem eru sterkari. Að lokum þessi frá Ingólfi. Þó mig fjandinn fjötri í bönd og fækki týndum sauðum. Veit ég drottins hlýja hönd hjálpar mér í nauðum. Kannski þykir einhverjum að bera í bakkafullan lækinn að bæta einni vísu við um þennan konung. Vona að mér fyrirgefist að birta næst þessa vísu Jóns S. Bergmanns sem ort var að ég held eftir að svokölluð bannlög gengu í gildi. Er nokkuð ljóst að þar er sá snjalli hagyrðingur að átta sig á því að við þessa aðgerð færðist brennivínsþamb heldur á annan veg og margir þyngdu frekar drykkjuna. Bakkus hafði heilsubrest hnaut í öllum sporum. Honum er að batna best af bannlögunum vorum. Alltaf freistandi og gaman að rifja upp vísur eftir snillinginn Jón. Skoðum þessa. Þegar skyggði á þjóðarhag þrældómsmyrkrið svarta. Ferskeytlunnar létta lag lagði yl í hjarta. Á fallegum vormorgni yrkir Jón svo fallega hringhendu. Allt í kring er eilífð skírð, -ekkert þvingað grætur- Vísnaþáttur 621 Fuglar syngja um draumadýrðdaginn yngja lætur. Freistast til að enda þessa upprifjun með þessari mörgum kunnu vísu Jóns. Meðan einhver yrkir brag og Íslendingar skrifa. Þetta gamla þjóðar-lag- það skal alltaf lifa. Áfram skal haldið með kveðskap frá vinum í vestrinu ef svo mætti að orði komast. Held að rétt sé með farið að sá ágæti Bjarni frá Gröf hafi ort svo fallegar vorvísur. Þegar vorið bjart á brá byrjar hér að skína, með sólskríkjunni sendu þá sumarkveðju þína. Þegar hún kemur þreytt og svöng þúsund fræ að tína, hlusta ég á hennar söng og heyri kveðju þína. Eitt afbrigði í viðbót kemur hér af skáldskap Bjarna. Kallast það hjá miklum spekingum í vísnagerð braghenda. Get ég reyndar ekki alltaf munað þetta orð og kalla þetta ágæta afbrigði af skáldskap stundum þríhendu. Ég elska þessi atómljóð sem enginn skilur þau hvíla alveg í mér vitið sem er að verða þreytt og slitið. Að lokum þessi fallega vorvísa eftir Bjarna. Vorið kemur, vetur fer vonir allar stækka. Sólin hlær og segir mér, „sjáðu hvað ég hækka.“ Ef ég hef skilið þær upplýsingar rétt sem ég fékk í gegnum símtól að afstöðnum sveitarstjórnarkosningum mun Ágúst Marinósson gefa svo skýra lýsingu á úrslitum í Sveitarfélaginu Skagafirði. Fagur sem áður er fjörðurinn enn og fólkið sem glímuna þreytir. Flestir sem búa þar framsóknarmenn flórunni enginn hér breytir. Sá ágæti félagi og gleðimaður Magnús Halldórsson mun hafa hlustað á fréttaflutning frá ákveðinni stofnun á Selfossi og ort af því tilefni. Oft hafa þingið og þjóðin sannað að þurrð er á málum brýnum. Og gott er að fátt mig grætir annað en geldingar á svínum. Gott að leita til skáldsins Davíðs úr skóginum fagra með loka stefið. Er sólin rís úr svefnsins tæru laug er sælt að finna líf í hverri taug, og heyra daginn guða á gluggann sinn og geta jafnvel boðið honum inn. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is Vinkona mín Brynja Þórarinsdóttir skoraði á mig að skrifa pistil og ég kýs að fjalla um flugvöll. Mikið hefur verið rætt um Reykjavíkurflugvöll, flugvöll allra landsmanna, undanfarin misseri. Flugvöllurinn skiptir máli fyrir íbúa landsbyggðarinnar og fyrir íbúa Reykjavíkur. Menn deila um hvort flugvöllurinn eigi að fara eða vera og sjá ýmist kosti eða ókosti við að hafa hann áfram í Vatnsmýrinni. Á bloggsíðunum „Ég vil flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni“ og „Ég vil flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni“ keppast menn við að finna rök með og á móti vellinum. „Hjartað í Vatnsmýrinni“ er stuðningshópur vallarins, þar sem 70.000 manns hafa skrifað undir stuðningsyfirlýsingu við flugvöll í Vatnsmýrinni og mun það vera fjölmennasta undirskriftarsöfnun í sögu þjóðarinnar. Stjórnmálaflokkarnir hafa sig mismikið frammi í þessari umræðu og það er athyglisvert að nú síðustu vikurnar fyrir sveita- og borgarstjórnarkosningar hafa þeir flestir kosið að vera svolítið passívir eða hafa það pínulítið loðið hver stefna þeirra er í flugvallarmálinu. Sumir hafa talað um sátt í flugvallarmálinu, talað um að loka brautum eða ekki loka brautum og skipuleggja byggð en hafa flugvöllinn áfram. Mér finnst þetta mjög óskýrt. Staðsetning flugvallarins, vera hans eða flutningur er að sjálfsögðu pólitískt mál sem varðar alla landsmenn. Mönnum hefur verið tíðrætt um öryggi allra landsmanna og mikilvægi þess að hafa flugvöll í nálægð við sjúkrahús og bráðamóttöku sem getur þjónað öllu landinu. Staðsetning vallarins snýst ekki bara um öryggi landsmanna heldur um tengingu borgar við landsbyggðina, nálægð við opinberar stofnanir, stjórnsýslu og þjónustu höfuðborgarinnar og ekki síst um atvinnu fjölda fólks. Vert er að geta þess að í mörgum borgum erlendis er algengt að innanlandsflugvellir séu í nágrenni við miðborg. Staðsetning vallarins skiptir líka miklu máli í fjárhagslegu tilliti og eflaust er það stærsta deilumálið. Það er dýrt að byggja nýjan flugvöll, núverandi flugvöllur stendur á eftirsóttu svæði og margir sjá gróðavon í nýtískulegri íbúðabyggð á svæðinu. Núverandi flugvöllur skapar líka miklar tekjur sem færu annað eða legðust niður ef flugvöllurinn verður fluttur. Þeir sem vilja flugvöllinn burt úr Vatnsmýri hafa nefnt Löngusker, Hólmsheiði og Keflavík sem ákjósanlega staði fyrir nýjan völl. Veðurskilyrði á Hólmsheiði og Lönguskerjum eru ekki talin jafn góð og í Vatnsmýrinni. Margir telja að innanlandsflug leggist af ef það verður flutt til Keflavíkur, Keflavík er allt of langt frá miðborg Reykjavíkur og Keflavíkurflugvöllur er allt of dýr fyrir innanlandsflug, þar sem alþjóðaflugvellir innheimta miklu hærri gjöld en innanlandsflugvellir. Að lokum, ég bý í 50 metra fjarlægð frá flugvallargirðingunni og hér er mjög friðsælt að búa og ekkert ónæði frá flugvellinum. - - - - - Ég skora á Ingibjörgu Hafstað í Vík að skrifa næsta pistil. Pistill Arngunnar var ritaður í aðdraganda sveitarstjórnar- kosninga en fyrir mistök umsjónarmanns þáttarins birtist hann ekki fyrr en nú. Arngunnur H. Sigurþórsdóttir frá Messuholti í Skagafirði, núverandi íbúi í Skerjafirði skrifar Er ekki mikið ónæði af flugvellinum? ÁSKORENDAPENNINN UMSJÓN kristin@feykir.is

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.