Feykir


Feykir - 10.07.2014, Blaðsíða 2

Feykir - 10.07.2014, Blaðsíða 2
2 Feykir 26/2014 Útgefandi: Nýprent ehf., Borgarflöt 1, Sauðárkróki Póstfang Feykis: Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur Ritstjóri & ábyrgðarmaður: Berglind Þorsteinsdóttir – berglind@feykir.is & 455 7176 Blaðamenn: Kristín Sigurrós Einarsdóttir – kristin@feykir.is & 867 3164 Óli Arnar Brynjarsson – oli@feykir.is Guðrún Sif Gísladóttir – gudrun@feykir.is Hrafnhildur Viðarsdóttir – hrafnhv@nyprent.is Áskriftarverð: 450 kr. hvert tölublað með vsk. Lausasöluverð: 490 kr. með vsk. Áskrift og dreifing: Nýprent ehf. Sími 455 7171. Umbrot og prentun: Nýprent ehf. Óháð fréttablað á Norðurlandi vestra - alltaf á fimmtudögum LEIÐARI Á ferð og flugi „Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði skáldið og sjálf gæti ég ekki verið meira sammála. Allt frá unga aldri hef ég verið haldinn óstjórnlegri forvitni um þau svæði sem ég hef ferðast um og vil vita sem mest um það sem fyrir augu ber, hvort sem ferðast er á tveimur jafnfljótum, hesti eða í bifreið. Vegahandbókin var jafnsjálfsögð í farangurinn og nestið og tjaldið. Mér skilst reyndar á þeim sem eru betri heimildarmenn um barnæsku mína en ég sjálf að ég hafi verið óhemju heimakært barn og hvenær ferðaþráin kom til sögunnar geri ég mér ekki grein fyrir. Alla vega er óttalegt flökkueðli í mér í seinni tíð og ég fæ seint nóg af því að þeysast um landið eða fljúga á vit erlendra ævintýra og skoða nýjar slóðir. Undanfarið hefur mér gefist tækifæri til að ferðast annars vegar um Noreg í tvær vikur og hins vegar um austanverðan Skagafjörð í tvo daga. Hvort tveggja ánægjuleg upplifun og alltaf eitthvað nýtt að sjá, hvort sem staðurinn er heimsóttur í fyrsta sinn eða maður telur sig kunnugan honum. Noregur er óhemju fallegt land og í fylgd systkina minna sem búa þar ytra fékk ég að skoða þeirra nýju heimaslóðir og marga þekkta, sem og minna þekkta áningarstaði. Á nútíma- máli mætti kannski segja að Noregur væri ein alls herjar krúttsprengja, þar er endalaust ekið um krúttleg þorp og falleg bæjarstæði, fallega firði eða vinalega víkur. Og nú get ég séð fyrir mér staðina sem þau nefna í næstu símtölum því ég er sjálf búin að heimsækja þá. Svipað og Páll Sigurðsson, leiðsögumaður í Árbókarferð FÍ um Skagafjörð og árbókarhöfundur, lýsir upplifun sinni þegar hann fór að rita á bók lýsingar á sínum æskuslóðum. Fjöllin, dalirnir, hvammarnir og hæðirnar, sem hann ungur gekk um, birtust honum lifandi fyrir hugskotssjónum og lýsingarnar urðu auðskrifaðar. Ég vil ráðleggja öllum sem eiga kost á og hafa ánægju af því að ferðast að gefa gaum að umhverfinu. Gefa sér tíma til að fara út úr bílnum eða stíga af gæðingnum eða vélfáknum og ganga jafnvel spölkorn ef heilsan leyfir. Hver einn staður á sína sögu og það er gaman að tengja frásagnir og fróðleik, kveðskap og karaktera við þá staði sem maður er staddur á hverju sinni. Það þarf heldur ekki alltaf að leita langt yfir skammt. Sjálf eyddi ég tveimur dögum í upphafi þessarar vinnuviku í að skoða austanverðan Skagafjörð, frá Kolkuósi að Fremri- Kotum í Norðurárdal og Gilsbakka á Kjálka. Þrátt fyrir að hafa lesið talsvert og ferðast áður um svæðið var margt nýtt sem fyrir augu bar. Þó ekki væri annað en veðrabrigðin þá er tilbreyting í því að skoða sig um í nánasta umhverfi! Eigið ánægjulegt ferðasumar. Kristín S. Einarsdóttir Viðamesta framkvæmdin til fjölda ára Ný stofnlögn lögð á Sauðárkróki Ný stofnlögn var lögð frá dælustöð á Borgarmýrum að Sauðárkróksbraut á Sauðárkróki dagana 13. og 14. júní sl. Að sögn Indriða Þórs Einarssonar, sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs Svf. Skagafjarðar, var um að ræða viðamestu framkvæmd í hitaveitu á Sauðárkróki til fjölda ára. Hin nýja stofnlögn flytur um 13% meira magn en gamla lögnin og er þar að auki einangruð ólíkt gömlu lögninni. Indriði segir framkvæmdina við tengingu lagnarinnar hafa gengið mjög vel en lokað var fyrir vatnið samkvæmt áætlun, kl. 22 föstudagskvöldið 13. júní, og byrjað að hleypa aftur á nýja lögn um kl. 09 morguninn eftir. Vatn komst hinsvegar ekki á allan bæinn fyrr en mun seinna vegna mikils lofts í stofnlögnum sem vill verða þegar svona stendur á. „Þegar heita vatnið er tekið af lögnum í þetta langan tíma er það óhjákvæmilegt að bilanir munu koma upp. Vatnið kólnar í lögnunum og hitnar svo aftur þegar hleypt er á, þetta veldur þenslu á lögnum og í sumum tilfellum þola gamlar lagnir illa þessa þenslu og þá koma fram bilanir eins og gerðist í kjölfarið á þessari lokun. Segja má að veiku punktarnir í kerfinu komi fram við framkvæmd sem þessa. Við gerðum ráð fyrir því að einhverjar bilanir myndu koma fram en þær voru þó heldur fleiri en við gerðum ráð fyrir,“ útskýrði Indriði. Hann segir engar álíka framkvæmdir í burðarliðnum eins og er enda er hér um að ræða viðamestu framkvæmd í hitaveitu á Sauðárkróki til fjölda ára. „Nýja stofnlögnin flytur um 13% meira magn en gamla lögnin og er þar að auki einangruð ólíkt gömlu lögninni. Það er því möguleiki að íbúar neðri bæjarins á Sauðárkróki finni fyrir örlítilli breytingu á þrýstingi og hitastigi en það á þó aðeins við þá allra næmustu,“ segir hann að lokum. /BÞ Fjölbreytt dagskrá á Listaflóði á vígaslóð Leikir, lifandi tónlist, handverk og hugverk Menningarhátíðin Listaflóð á vígaslóð verður haldin dagana 11.-12. júlí. Kvöldvaka verður í Kakalaskála föstudagskvöldið 11. júlí kl. 20:30. Þar verður fjölbreytt dagskrá. Þingeyskir skemmtikraftar mæta á svæðið en það eru þeir Hörður Benonýsson, Sigurður Illugason og Pétur Ingólfsson sem skipa tríó er kallar sig Hárbandið. Árni Geir Sigurbjörnsson tenór tekur lagið og Karlakórinn Brandur Kolbeinsson stígur á stokk. Skagamenn eiga síðan sína fulltrúa en BAK tríóið sem er skipað Sveini Arnari, Baldri Ketilssyni gítarleikara og Kristínu Sigurjóns- dóttur fiðluleikara flytja alþekkt dægurlög og þjóðlög frá ýmsum tímum í nýstárlegum útsetningum. Pétur Ingólfsson úr Hárbandinu gerist þá liðhlaupi og spilar með BAK tríóinu á bassa. Laugardaginn 12. júlí verður síðan mikið um dýrðir. Hádegistónleikar í Miklabæjarkirkju kl. 12 með BAK tríóinu og Pétri, göngutúr með Sigurði Hansen á Haugsnesgrundir eftir tónleika og klukkan 14 hefst síðan fjölskylduhátíðin Sunnan við garðinn hennar mömmu á Syðstu-Grund. Fjölbreytt dagskrá með leikjum, lifandi tónlist, handverkum og hugverkum. Að sjálfsögðu verður Lilla á Grund klár með kaffiveitingar. Áætlað er að dagskránni ljúki um kl. 17. Aðstandendur listaflóðsins bjóða alla hjartanlega velkomna á viðburðina. /Fréttatilkynning Listsýning á útskurði og tálgun í tré Maríudagar um helgina Síðustu þrjú ár hefur fjölskylda Maríu Hjaltadóttur frá Hvoli heiðrað minningu hennar með listsýningu sem nefnist „Maríudagar“ en þann 1. júlí sl. hefði María orðið níræð. Helgina 12. og 13. júlí, kl. 13-18 báða dagana, ætlar fjölskylda hennar enn á ný að efna til Maríudaga með sýningu á útskurði og tálgun í tré. Sýningin verður haldin á Hvoli í Vesturhópi. Verkin á sýningunni eru eftir tvær dætur hennar, þær Kristínu og Oddnýju og tvo systkinasyni hennar, þá Helga Björnsson og Sigurjón Gunnarsson. Þess má geta að listafólkið verður að störfum meðan á sýningunni stendur. Einnig verður ljósmyndasýning, gamlar myndir af sveitungum í leik og starfi. Gestum er boðið að þiggja veitingar báða sýningar- dagana. /Fréttatilkynning Atkvæðagreiðsla stendur yfir Samið við sveitarfélögin Starfsgreinasamband Íslands hefur undirritað samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd þrettán aðildarfélaga sinna, þ.m.t. Ölduna stéttarfélag og Stéttar- félagið Samstöðu. Samkvæmt vef Stéttar- félagsins Samstöðu gildir samningurinn frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015 og koma launahækkanir í tveimur skrefum þannig að fyrsta hækkun gildir frá 1. maí 2014 og síðan verða aftur breytingar á launatöflu um áramótin 2014/2015. Ákveðið var að halda sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu og skal henni lokið fyrir 22. júlí nk. Félagar fá sent heim kynningarefni og lykilorð vegna hennar. Kjölur, stéttarfélag starfs- manna í almannaþjónustu, hefur einnig undirritað samn- ing við Samband íslenskra sveitarfélaga þann 3. júlí sl. um framlengingu og breytingar á kjarasamningum vegna starfs- manna sveitarfélaga. Á heima- síðu Kjalar kemur fram að BSRB hafi undirritaði sams- konar samkomulag við Sam- band íslenskra sveitarfélaga og tekur hann gildi á sama tíma. Samningurinn tekur gildi frá 1. maí sl. og er til 30. apríl 2015. Póstkosning um kjarasamning stendur yfir og þarf að koma kjörseðli í póst fyrir 17. júlí nk. Nánari upplýsingar um kjarasamninginn má sjá á heimasíðu Kjalar. /BÞ

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.