Feykir


Feykir - 19.11.2015, Blaðsíða 5

Feykir - 19.11.2015, Blaðsíða 5
44/2015 5 Heilir og sælir lesendur góðir. Eitt orð í einni af vísum síðasta þáttar brenglaðist aðeins í prentverkinu. Er nauðsyn að gera þar leiðréttingu á. Er þetta hringhenda eftir Einar Karl Sigvaldason. Á fyrri hluti hennar að vera þannig. Eins og rakinn árdagsblær yljar blaki vöngum. Þrátt fyrir að eftir okkar tímatali sé nú kominn vetur, hafa ágætir dagar nú í nóvember minnt helst á góða haustdaga, eins og maður þykist muna eftir þeim hér áður fyrr. Vegna þess hafa verið að rifjast upp margar góðar vísur. Þessar mögnuðu hringhendur munu vera eftir fyrrverandi Eiríksstaðabónda, Gísla Ólafsson. Tímans hjólið hreyfist létt, hulinn sólarljóminn. Hefur njóla heiðrík sett hélukjól á blómin. Upp er hvesst með kulda rót, krapið sest að skörum. Sé ég flesta suðri mót sumargesti á förum. Minnir að Kristján Ólason á Húsavík hafi ort þessa. Hallar degi, haustar að hlíðum vindar strjúka. Viðir sölna, visnað blað verður að fjúka – fjúka. Einn af mörgum kunnum hagyrðingum er Ármann Þorgrímsson. Þessar ágætu haust- vísur munu vera eftir hann. Hörfar sumar, haustar að, héla leggst á fjallaskörð, fellir öspin fölnað blað, fer að skyggja á móður jörð. En huggun oft er harmi nær hef ég loforð fyrir því. Að á vori aftur grær, allt og laufgast tré á ný. Góður vísnaáhugamaður og dyggur unnandi þessa þáttar, sem býr í Skagafirði, hafði samband og langaði að vita hvort hægt væri að hafa upp á höfundi eftirfarandi vísu. Mun hún ort fyrir 1950 á þeim tíma sem Páll Zóphóníasson var nautgriparæktarráðunautur. Var á þeim tíma Gunnar Bjarnason í hrossarækt. Ýmsir hafa ort um Pál ótal vísur kunnar. Hestamanna hrellir sál hrossaræktar Gunnar. Gleðjum okkur næst við þessa ágætu vísu Péturs Stefánssonar. Það er margt sem yndi eykur á ævi minnar stuttu ferð. Þegar allt í lyndi leikur leik ég mér að vísnagerð. Sá gamli Matthías Jochumsson mun hafa einhverju sinni ort svo magnaða hringhendu. Horfðu á bjarta himininn Vísnaþáttur 653 haltu spart í auðinn, fyrir hjartahlýindin hörfar svarti dauðinn. Höfundur að næstu vísu mun vera Stefán Sigmundsson á Hlíðarenda í Óslandshlíð. Mun hún ort er Kristján Jónsson í Stóragerði gekk á fjall sem kallast Hattur og hlóð þar vörðu. Heimasætan köld á kinn kærleiks eykur gnóttir. Upp á Hatti stendur stinn Steinunn Kristjánsdóttir. Einn af dyggum lesendum þessa þáttar spyr um höfund að eftirfarandi vísu. Hef ég lengi kunnað hana og trúlega birt í þættinum án þess að muna það fyrir víst. Get ekki heldur muna hver höfundur er og bið lesendur um þær upplýsingar. Ævinnar um sóknarsvið sérhvers bíður glíma. Því er best að venjast við vosbúðina í tíma. Það mun hafa verið séra Einar Friðgeirsson á Borg sem orti svo til samferðamanns, er sá taldi sig fljótlega mundi hafa vistaskipti. Sankti Pétur sagði mér að sjálfsagt inn þér myndi hleypt, en dropann yrði að draga af þér og daður yrði ekki leyft. Einhverju sinni er bæjarstjóraskipti urðu á Ísafirði og þangað réðist ungur lögfræðingur, sem hafði þann kæk að róa mjög í sæti sínu, komst á kreik eftirfarandi vísa, án þess að vitað væri hver hefði ort. Eignast hefur okkar bær aflasæla veiðikló. Því einn er sá sem alltaf rær þó enginn bátur fari á sjó. Ef ég man rétt mun Reykjavíkurskáldið Tómas hafa einhverju sinni sent vini sínum svofellda heillaósk. Leiði þig gæfan sannan sælustig. Satan og allt hans hyski frá þér víki. Himnanna drottinn hoppi kringum þig helgist þitt nafn og tilkomi þitt ríki. Sumir geta alls ekki sætt sig við Moggann. Magnús Gíslason á þessa. Þekking á hvað þjóð er græn þarf ei djúpt að grafa. Mogga fyrir morgunbæn meðan flestir hafa. Enn hefur tekist að tína til og rifja upp nokkrar laglegar vísur fyrir vísnavini þessa þáttar. Kveð að sinni með þessari ágætu gleðskaparvísu Stebba Vagnssonar. Ei var þröngt á efni í brag ómaði af söng í ranni. Öls við föng og ljóðalag leiðist öngum manni. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is Spenntir að klæðast rauða jakkanum í fyrsta sinn Aldrei fleiri í Karlakórnum Heimi Æfingar hófust hjá Karlakórn- um Heimi þann 12. október og frá því þær fóru af stað hafa nýir menn verið að bætast í hópinn á hverri æfingu. Þeirra á meðal Sæþór Már Hinriksson og Gísli Laufeyjar Höskuldsson, nemendur í 10. bekk í Varmahlíðarskóla. „Ég ólst upp í kringum þetta, pabbi hefur verið í kórnum frá því ég man eftir mér og mér fannst áhugavert að ganga í hann,“ segir Gísli, sonur Hösk- uldar Jenssonar og Laufeyjar Haraldsdóttur. „Það hafa margir í 10. bekk í Varmahlíðarskóla farið í kórinn og ég var búinn að stefna á þetta. Pabbi minn hefur líka verið í kórnum og margir ættliðir í fjölskyldunni minni,“ segir Sæþór, sonur Kolbrúnar Maríu Sæmundsdóttur og Hinriks Más Jónssonar. Þeir félagar segja æfingarnar leggjast vel í þá og að karlarnir séu skemmtilegir, skemmtilegast sé þó þegar allur kórinn æfir saman. „Ég man á fyrstu æfingunni minni þegar kórinn byrjaði að syngja saman þá fékk ég gæsahúð,“ segir Sæþór. Gísli samsinnir honum. „Maður hefur farið á marga tónleika með þeim og það er skrítin tilfinning að standa svo sjálfur með þeim.“ Strákarnir segja inngöngu sína í kórinn í raun hafa verið rökrétt framhald við lok grunn- skólagöngunnar en þeir hafa alla tíð verið í tónlistarnámi samhliða grunnskólagöngu. „Það er mjög Sæþór Már Hinriksson og Gísli Laufeyjar Höskuldsson á æfingu í síðustu viku. MYND: BÞ þægilegt að hafa tónlistarskólann og grunnskólann í sama húsi og stórt hlutfall nemenda í tónlistar- skólanum. Við byrjuðum báðir á fiðlu á svipuðum tíma, um fimm ára aldurinn. Ég æfði hjá Stebba, hann kenndi mér á píanó og mörg önnur hljóðfæri,“ segir Sæþór en Gísli hefur verið í píanónámi hjá Thomasi R. Higgerson sl. níu ár. „Við félag- arnir í skólanum erum duglegir að syngja saman og erum oft að taka lagið við píanóið,“ segir Gísli. Nú segjast þeir vera spenntir að smeygja sér í rauða jakkann og koma fram með kórnum í fyrsta sinn í næsta mánuði. Víða annarsstaðar hafa karla- kórar átt í erfiðleikum með að fá unga menn til liðs við sig en því er öfugt farið hjá Heimi, kór- meðlimir hafa aldrei verið fleiri en nú. Flestir voru þeir áður á tíunda áratugnum, þá 70 talsins. „Við urðum fyrir þeirri skemmti- legu reynslu að við lá að við hættum hafa tölu á því hverjir voru að koma inn nýir,“ segir Gísli Árnason formaður kórsins. Stefán söngstjóri segir skýr- inguna á þessari miklu fjölgun ekki liggja fyrir. „Strákarnir þekkjast og sumir búnir að tala um þetta lengi. Einn þeirra minnti mig á það um daginn: „Manstu ekki eftir því,“ sagði hann, „ég talaði um þetta þegar ég byrjaði á flautu hjá þér þegar ég var 6 ára,“ segir Stefán og hlær. Auk ungu mannanna eru aðrir að koma aftur eftir lengri og styttri pásur, sumir allt að 15 ár. „Sumir hafa verið lengi á leiðinni og eru kannski að láta verða af því núna. Það er í umræðunni hve það hefur verið mikil fjölgun og það kannski hvetur aðra til að drífa sig af stað líka,“ segir Gísli og bætir við: „Tónlistarlífið er býsna öflugt í Skagafirði, sérstak- lega hérna framfrá, það náttúru- lega skilar sér.“ Það er ýmislegt í pípunum hjá karlakórnum. Hinir venju- bundnu tónleikar Heimismanna í Skagfirðingabúð og á Dvalar- heimili aldraðra í desember, árlegir Þrettándatónleikar 2. janúar og tónleikaferð í mars. „Þá stendur til að syngja á Landsmóti hestamanna að Hólum næsta sumar, svo verður eitthvað meira sem á eftir að koma í ljós,“ segir Stefán.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.