Feykir


Feykir - 25.08.2011, Blaðsíða 9

Feykir - 25.08.2011, Blaðsíða 9
31/2011 Feykir 9 Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi er svo sannarlega eitt sinnar tegundar á Íslandi. Það hefur að geyma heimagerða tóvinnu- og textílmuni en þar eru einnig til sýnis ýmsar gerðir af listfengnum hannyrðum og áhöldum sem notuð voru við gerð þeirra. Á safninu eru fimm fastasýningar og svo er alltaf ein sumarsýning í gangi, sem breytist frá ári til árs. Þráðurinn er þema sýninganna og er það sem tengir þær saman, bæði sem grunnur handíða og tenging fortíðar við nútíð. Ævistarf til sýnis Halldórustofa er deild innan safnsins og er kennd við Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981). Hún var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands og gaf m.a. út Hlín, ársrit Sambands norðlenskra kvenna, um 44 ára skeið. Einnig stofnaði hún og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður-Þingeyjarsýslu. Halldóra arfleiddi Heim- ilisiðnaðarsafnið að fjölmörgum eigum sínum þar með allskyns vefnaðar og prjónlesprufum sem hún hafði safnað á ferðum sínum um landið. Halldóra gaf út bókina Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Bókin kom út árið 1966 en hafði verið ófáanleg til fjölda ára. Fyrir tveimur árum endurútgaf Heimilisiðnaðarsafnið bókina og fæst hún þar á tilboðsverði. Bókin er sígild ef svo má að orði komast og segir ekki aðeins frá vefnaði og listhneigð Íslendinga, heldur fjallar hún líka um heimilið og starfsskilyrði þess og er í raun alþýðuþjóðrit. Fjöldi mynda prýðir bókina af margskonar vefnaðarprufum og öðrum munum. Stór hluti þeirra textílmuna sem gerð eru skil í bókinni eru varðveittir í Halldórustofu. Listilega útsaumaðir þjóðbúningar og nærfatnaður Safnið hefur einnig að geyma úrval íslenskra þjóðbúninga. Þar eru skautbúningar, upphlutir og peysuföt, sumir hverjir með einstaklega fíngerðum útsaumi og öðru skrautverki. Eitt herbergi er tileinkað útsaumi þar sem fallegum nærklæðnaði kvenna frá fyrri tíð eru gerð skil, ásamt listilega útsaumuðum dúkum, ungbarna- og barnafatnaði. Ein sýning er tileinkuð ullinni þar sem vinnsluferli hennar er sýnt, allt frá reyfi til unninna flíka. Með safnmununum fylgir ýmis fróðleikur, bæði í rituðu máli og myndum. Þá eru til sýnis ýmis gömul áhöld, svo sem spunavél, vefstóll, rokkar og fleiri áhöld sem notuð voru við heimilisiðnað. Úr smiðju vefarans mikla Einkasýning ársins kallast Úr smiðju vefarans mikla og er yfirlitssýning á verkum Guðrúnar J. Vigfúsdóttur, veflistakonu frá Ísafirði. Hún var vefnaðarkennari við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði í 43 ár og rak Vefstofu Guðrúnar J. Vigfúsdóttur hf. á Ísafirði í 26 ár. Guðrún var einna þekktust fyrir hökla og stóla sem hún gerði fyrir nokkrar kirkjur landsins og falleg myndverk sem finna má á mörgum heimilum og stofnunum. Hún gerði einnig ýmsa nytjahluti, eins og púða, herrabindi, sjöl svo og kjólefni sem urðu gjarnan að klassískum tískuflíkum. Á Húnavöku í sumar, var haldin tískusýning í Heimilisiðnaðarsafninu á handofnum fatnaði í eigu Guðrúnar, fatnaði sem unnin var á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum en hefði eins getað verið hannaður í dag. Á döfinni „Sumarið fór heldur rólega af stað. Sennilega vegna þess hve kalt var í júnímánuði og hve hátt eldsneytisverðið hefur verið. Íslenskir safngestir eru hlutfallslega færri í sumar en undanfarin ár,“ sagði Elín S. Sigurðardóttir, forstöðumaður Heimilisiðnaðarsafnsins, aðspurð um aðsókn í sumar. „Í júlí og ágúst hafa álíka margir sótt safnið heim og undanfarin ár“. Helgina 8. og 9. október verður safna- og setrahelgi, þá er meiningin að hafa söfn og setur í héraði opin. Þetta tengist verkefninu Huggulegt haust, en markmið þess verkefnis er meðal annars að lengja ferðamannatímabilið. „Ef til vill getum við líka boðið uppá eitthvað skemmtilegt þessa helgi eða haft sérstaka dagskrá annan hvorn daginn,“ sagði Elín. „Sumarsýningar safnsins hafa gjarnan staðið frá ári til árs en hvað þessa sýningu varðar að þá eru ýmsir munir fengnir að láni og því ekki auðvelt um vik. Það er því verið að skoða þann möguleika að framlengja sýninguna í u.þ.b. tvo mánuði,“ bætti Elín við. Safnið lokar þann 31. ágúst en reynt er að koma til móts við hópa og opna safnið þegar þörf krefur. Á aðventunni er lesið úr nýjum bókum og myndast þá gjarnan notaleg stemning í safninu. Þessar uppákomur eru auglýstar sérstaklega og er aðgangur ókeypis og súkkulaði og smákökur á boðstólnum. Þræðir fortíðar og nútíðar Sögudagur á Sturlungaslóð fór fram á laugardaginn síðastliðinn þar sem fullt af fróðleik og skemmtun var með í för. Gestir Sögudagsins fengu að njóta frísks lofts og heilsusamlegrar hreyfingar með gönguferðum að Örlygsstöðum og Fosslaug. Um kvöldið var boðið upp á girnilegt hlaðborð að hætti miðalda, á Ásbirningablóti í Héðinsminni. Dagskráin hófst í Mikla- bæjarkirkju þar sem Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggða- safns Skagfirðinga, flutti erindi um stórbýlið Miklabæ og hvernig það tengist Sturlungu. Einnig tóku Atli Gunnar Arnórsson, Jón Sveinsson og Borgþór Borg- arsson lagið í kirkjunni. Þá var gengið að Örlygs- stöðum þar sem Helgi Hannes- son leiddi fólk um bardagaslóðir og sagði frá þeim atburðum sem þar áttu sér stað. Þar voru skemmtileg leikföng að fornum sið í boði fyrir börnin. Leynd perla í Skagafirði Seinna um daginn var gengið frá Vindheimamelum að Fosslaug sem var hlaðin upp síðastliðið vor á vegum Sturlungahópsins og var nú formlega tekin í gagnið. Laugin situr ofan við hinn fagra Reykjafoss í Svartá og er óhætt að segja að fossinn sé leynd perla í Skagafirði. Þar sagði Sigurður Hansen frá aðdraganda Örlygsstaðabardaga og áningu herja Gissurar Þorvaldssonar og Kolbeins unga við Reykjalaug. Þá las Sigurður Sigfússon frá Vík ræðu Gissurar Þorvaldssonar, sem hann flutti yfir mönnum sínum og Kolbeins daginn fyrir bardagann. Kræsingar að miðaldasið Um kvöldið var haldið Ás- birningablót í Héðinsminni og var Agnar Gunnarsson veislustjóri. Boðið var upp á ýmsar kræsingar að miðaldasið, sem matreiddar voru í eldhúsi Hótels Varmahlíðar. Hluti af því sem þar var í boði var purusteik, súrmeti, gæsalæri soðin úr malti, siginn fiskur með smjöri, salvíu og lauk og bleikja með hunangi og möndlum. Þetta var borið fram með salati úr hundasúrum og haugarfa og pönnubrauði úr byggi með nýstrokkuðu smjöri. Í eftirrétt voru ábrystir, fjalla- grasamjólk og ósætt skyr með krækiberjum. Á blótinu var skemmtun og fróðleikur einnig á boð- stólnum. Þar talaði Björn Björns- son um góða og misgóða eiginleika Skagfirðinga, Nanna Rögnvaldardóttir sagði gestum frá matarmenningu á miðöldum og Kristín Halla Bergsdóttir hélt tölu um tónlist miðalda með tóndæmum. Menning Söguunnendur á Sturlungaslóð Sigurður Hansen segir frá aðdraganda Örlygsstaðabardaga við Fosslaug. Leikið sér með leikföng fyrri tíma.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.