Feykir


Feykir - 04.10.2012, Blaðsíða 4

Feykir - 04.10.2012, Blaðsíða 4
4 Feykir 37/2012 Meðferð móðurmálsins hér í blaðinu hefur orðið mér sár þyrnir í augum. Einkanlega á tveimur fréttatengdum pistlum undanfarið. Sá fyrri af fjárheimtum af fjalli eftir hríðarskotið á dögunum og nú í síðasta blaði, frásögnin af lagfæringum við umhverfi Sauðár. Báðar þessar greinar eru ómerktar, svo ég reikna með að þær séu á ábyrgð blaðsins, sem ég bið hér með um rými fyrir birtingu þessarar greinar og svari við henni, frá þeim sem svara vilja. Því sem ég set á blað tek ég ein ábyrgð á og svara fyrir. Þá er fyrsta spurningin: Hvenær var nafni Sauðár breytt þannig að það sé og verði eftirleiðis skrifað þannig að það verði með tveimur ennum? Verður þá nafn staðarins hér eftir SAUÐÁNNARkrókur? Í greininni: „Grænt og snoturt útivistarsvæði“ er hvað eftir annað skrifað um „svæðið umhverfis Sauðánna“, svo það sem ég vonaði fyrst að væri prentvilla, var hvað eftir annað prentað á sama hátt og því með vilja skrifað þannig: „Svæðið umhverfis Sauðánna“… „gera hlykki á Sauðánna“… „svo hægt sé að stikla á steinum yfir ánna“, o.s.frv. Mér vitanlega hefur ekki verið lögfest í móðurmáls- kennslu skólanna önnur fall- beyging en gullna reglan ein- falda: Hún, um hana, frá henni, til hennar. Ég hlýt því að álíta að enn sé rétt mál að segja og skrifa: Það er SAUÐÁIN, um SAUÐÁNA frá SAUÐÁNNI, til SAUÐÁRINNAR. Og um- hverfis SAUÐÁNA, (með einu N) sé því rétt mál, og miklu fallegra! Eins er nú oft farið með BRÚNA yfir ár og vötn, þar er klínt inn tveimur ennum í tíma og ótíma. Og táin fær ekki heldur að vera ein tá eða fleiri tær. Tána er ekki lengur að sjá með einu n, heldur er hún komin í fleirtölu, skökk og skæld! Mér finnst samt skömminni skárra að menn „fái sér í tána“, en að slaga áfram með að hafa „fengið sér í TÁNNA“, sem nú sýnist vera að verða málvenja, eins og tvö n í beygingum kvenkyns orða tröllríða prent- uðu máli nú orðið. Og svo ofbauð mér alveg meðferðin á fjárheimtum af fjalli! Er virkilega orðið svo illa farið máltilfinningu lands- manna að ekki sé gerður greinarmunur á fé í högum, eða fé í banka, fjármunum, eða lifandi fé. = Miklu fé, eða mörgu fé. Einni á eða mörgum ám í högum, ein ær og margar ær, lömb og aðrar kindur, margt fé á fjalli. Eða einni á og mörgum ám í farvegi. Ærnar og árnar eru samt ólíkrar gerðar og ekki hollt að blanda saman, hvorki í orði né á borði Og ennþá tala bændur (vonandi) um margt fé og eiga þá við fjöldann, en ekki mikið fé á fjalli, er bæri þá að skilja sem magn/þunga sem getur orðið mjög óviss, a.m.k. í áföllum sem um var rætt í téðri frétt. Reyndar er fólk orðið svo vant afbökuninni á frásögnum af miklum fjölda fólks að það kippir sér ekki upp við smá- muni. En þar sem MARGT fólk er saman komið er fjölmiðlum orðið tamt að tala um MIKIÐ af fólki. Hvort þetta tengist eitthvað holdafari og aukinni þyngd fólks veit ég ekki, en tel að nákvæmara sé að halda sig við höfðatöluna ef segja skal rétt frá þar sem „margt er um manninn“. Læt þetta nægja í bili um mál og málnotkun þó af mörgu sé að taka og umræða aðkall- andi. Með kveðju Guðríður B. Helgadóttir Opið bréf til Feykis FRÁ LESENDUM GUÐRÍÐUR B. HELGADÓTTIIR SKRIFAR Refurinn er einn af frumbyggjum landsins og hefur sinn rétt sem slíkur. Hinsvegar er vitað að frá landnámi hefur ávallt verið reynt að takmarka stofnstærð hans með veiðum og þannig að lágmarka skaða af hans völdum á búfénaði og öðrum skepnum landsins. Nú berast fréttir víða af landinu af gríðarlegum fjölda refa og að hann hafi gengið í lifandi fé sem grafið er í fönn. Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórnin án rökstuðnings að hætta stuðningi við refaveiðar þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hlutdeild sveitarfélaganna væru hærri en heildarútgjöld ríkisins. Við þessu var varað enda ljóst að mörg sveitarfélög mundu af fjárhagsástæðum nota tækifærið og skera niður fjárveitingar til refaveiða. Stærð refastofnsins tífaldast á 30 árum Sá losaragangur sem viðgengist hefur á stjórnun refaveiða undanfarna áratugi hefur ásamt friðun ákveðinna landsvæða leitt af sér óhóflega stækkun refastofnsins. Dr. Páll Hersteinsson, sem stundaði rannsóknir á íslenska refnum í áratugi, sagði í viðtali í Morgunblaðinu 15. desember 2010 að íslenski refastofninn hafi verið um 1.000 dýr í lágmarkinu 1973–1975 og miðar hann þá við hauststofn. Árið 2007 sé stofninn áætlaður um 10.000 dýr og hafi því tífaldast frá því 30 árum áður. Líkur má leiða að því að stofninn hafi stækkað með líkum hraða síðan 2007. Á þessum tíma hefur refurinn fært sig nær byggð og á síðustu árum er æ algengara að dýrbitið sauðfé finnist og fuglum hefur víða fækkað mikið. Því leggjast gríðarlegar fjárhagslegar byrðar á fámenn en landstór sveitarfélög þar sem skilningur hefur þó verið á vandamálum sem upp geta komið í náttúrunni þegar handleiðslu Fjölgun refa og röng stefna ríkisstjórnarinnar AÐSENT ÁSMUNDUR EINAR DAÐASON SKRIFAR mannsins nýtur ekki lengur og stofnar afræningja vaxa úr hófi. Skaða á fuglalífi vegna friðunar og tilviljanakenndra veiða má vel sjá á Vestfjörðum og víðar, af þeim sökum er afar brýnt að koma skipulagi aftur á refaveiðar. Hættum öfgum og beitum skynsemi í þágu náttúrunnar Í stað þess að vinna að friðun refa og skera algerlega niður fjárveitingar til refaveiða hefði verið skynsamlegra að skipuleggja þær betur og gera markvissari. Nú liggur fyrir Alþingi þingsályktunartillaga sem myndi breyta skipulagi refaveiða á Íslandi. Undirritaður er fyrsti flutningsmaður tillög- unnar en nái hún fram að ganga er kveðið á um að halda refastofninum í hæfilegri stofnstærð, sem gæti legið nærri 4–5.000 dýrum. Til að ná því markmiði gerir tillagan ráð fyrir að engin landsvæði verði undanskilin refaveiðum, teknar verði aftur upp greiðslur úr ríkissjóði vegna fækkunar refa, að samið verði við Samband íslenskra sveitarfélaga eða landshlutasamtök sveitarfélaga um að sjá um skipulagningu veiðanna og greiðslur til veiðimanna, að rannsóknir verði á hendi vísindamanna en veiðistjórnun á hendi reyndra veiðimanna og síðast en ekki síst að greiðslur fyrir hlaupadýr og grenjavinnslu verði þær sömu um land allt. Eins og rakið hefur verið þarf að halda refastofninum í hæfilegri stofnstærð og því er mikilvægt að tillaga sem felur í sér breytta framtíðarskipan refaveiða verði samþykkt sem fyrst. Við verðum að komast frá þeirri öfgastefnu sem umhverfis- ráðherra og ríkisstjórnin hefur á þessum málaflokki og setja fram skynsamlega stefnu í þágu náttúrunnar. Ásmundur Einar Daðason Alþingismaður Framsóknarflokksins Athugasemd ritstjóra Mér þykir leitt ef meðferð móðurmálsins í Feyki stingur svo í augu lesenda að það verði tilefni til opinnar umræðu í blaðinu. Guðríður B. Helgadóttir sér sig knúna til að senda blaðinu opið bréf vegna þess og biður um svör og ætla ég að reyna að svara eftir bestu getu. Guðríður talar um tvær greinar í blaðinu, eina um fjárheimtur af fjalli og aðra um umhverfi Sauðárinnar. Í síðustu fjórum tölublöðum hefur verið fjallað um fé á einn eða annan hátt m.a. búfénað en ég finn hvergi að skrifað hafi verið í blaðið „mikið fé á fjalli“. Ef þetta reynist rangt hjá mér biðst ég afsökunar á rangfærsl- unni. Allar fjárfréttirnar sem ég las í blaðinu eru merktar upphafsstöfum höfunda. Um umhverfi Sauðárinnar var hins vegar fjallað í síðasta blaði og er einnig merkt upphafsstöfum höfundar í lok greinar. Guðríður spyr hvenær nafni Sauðárinnar hafi verið breytt þannig að það sé og verði eftirleiðis skrifað þannig að það verði með tveimur ennum. Svarið er einfalt: Aldrei. Guðríður getur því verið róleg yfir því að við sem skrifum í blaðið reynum að detta ekki í þá gryfju að tala um Sauð- ánnarkrók. Þarna er um einfalda yfirsjón að ræða sem varla er hægt að blása upp sem dæmi um hnignandi málfar hjá þeim sem skrifa í Feyki. Hvort greint hafi verið frá því á Feyki eða í öðrum fjölmiðlum að „mikið af fólki“ hafi gert eitthvað veit ég ekki og get því ekki svarað fyrir það. Það er nú svo að í Feyki hafa verið villur: ritvillur, málvillur og staðreynda- villur svo einhverjar villur séu nefndar og því miður munu þær koma fyrir í framtíðinni. En við reynum að halda þeim í lágmarki, förum yfir og leiðréttum, eftir okkar bestu getu, villur sem við gerum okkur sek um rétt eins og annarra sem senda okkur efni og þar er bréf Guðríðar ekki undan- skilið. Páll Friðriksson ritstjóri

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.