Morgunblaðið - 05.01.2018, Blaðsíða 22
22
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. JANÚAR 2018
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Ætlamættiaf um-
ræðunni að Do-
nald Trump hafi
fundið upp stjórn-
málalega „tístið.“
Þótt forsetinn kalli ekki allt
ömmu sína hefur hann ekki
sjálfur þóst vera sá uppfinn-
ingamaður. Hann man
kannski brunablettina á Al
Gore sem virtist um skeið
telja sjálfan sig hafa haft
mest með tilurð „internets-
ins“ að gera. Það er ekki nóg
með að Trump hafi ekki fund-
ið upp fyrirbærið heldur er
hann fjarri því að vera fyrsti
innanbúðarmaður í keilulaga
kontórnum til að nýta sér
það. Þannig tísti Obama for-
seti töluvert. En vandinn var
sá að hans tíst vöktu sáralitla
athygli og enginn stillti vekj-
araklukku sína á miðja nótt
til að missa ekki af neinu. Sá
grunur lá á að andlitslausir
búrókratar pikkuðu tístin í
nafni forsetans þótt aðrir
andmæltu því og segðu
Obama fullfæran um að draga
upp dauflegan póst. En tístin
nú bera nánast öll með sér
bæði hugarfar og handbragð
forsetans sjálfs. Tístin sem
fljúga út um heimsbyggðina í
nýopnaða morgunsárið ráða
iðulega umræðunni daginn
sem fer á eftir, hvort sem að
öflugum fjölmiðlum nær eða
fjær líkar það betur eða verr.
Stærstur hluti öflugustu
fjölmiðla vestra hefur áratug-
um saman hallast mjög til
vinstri. Ýmsir sem með því
fylgjast best segja að umræða
um jafnvægi í því sambandi
sé langt í burtu og er þá mælt
í ljósárum. Sama gegnir um
fjölmiðla af því tagi í Evrópu
og allir kannast við hvað hið
íslenska Ríkisútvarp getur
orðið hlægilegt þegar það
fjallar um núverandi forseta
Bandaríkjanna.
Þessa dagana er töluvert
fjallað vestra um bók sem er
við það að koma út og er sögð
lýsa innanbúðarástandi í
Hvíta húsinu frá valdatöku
Trumps. Tilgreindar heim-
ildir fyrir frásögnunum eru
veikburða og mest er um
„heimildir“ sem ekki vildu
„láta nafn síns getið.“
Sumir þeirra sem vitnað er
til undir nafni hafa svarið
þann vitnisburð af sér. Þegar
þetta er skrifað hefur Steve
Bannon ekki gert það. Sá kom
að efsta lagi kosningabaráttu
Trumps á seinustu mánuðum
hennar og var svo ráðinn í
hóp háttsettustu ráðgjafa for-
setans eftir að sigurinn hafði
opnað honum allar
dyr Hvíta hússins.
Mörgum þykir
sem nafn Bannons
gefi bókinni vægi,
sem ella myndi
eingöngu vera
sett í flokk með algengum
slúðurritum um forsetatíð á
fyrstu mánuðum. En þó hefur
verið viðurkennt að bókarhöf-
undurinn, Michael Wolff, hafi
um skeið haft tiltölulega
greiða leið að ýmsum starfs-
mönnum Hvíta hússins.
Rétt er að geta þess að
hingað til hafa aðeins verið
birtir kynningarkaflar úr
þessari væntanlegu bók. En
þeir kaflar hafa þegar vakið
mikla athygli og viðbrögð.
Sjónvarpsmiðlarnir og
blöðin Washington Post og
NYT, sem gjarnan eru kall-
aðir „the mainstream media“
vestra og styðja undantekn-
arlaust eða -lítið flokk og mál-
stað demókrata, hafa jafnvel
tekið sig til og skrúbbað
nokkra bletti af Bannon, sem
þeir höfðu fram að því talið af
síðustu sort ómerkinga, til að
gera frásögnina trúverðuga.
En Trump forseti hefur
einnig brugðist við og verið
það mikið niðri fyrir að „tíst“
er allt of takmarkað og því
hefur hann birt sérstakar
yfirlýsingar.
Forsetinn hefur ekki aðeins
gefið embættismönnum fyrir-
mæli um að leitast við að
beita löglegum úrræðum til
að koma í veg fyrir bókin
verði gefin út. Þá hefur for-
setinn ekki látið duga að
senda sínum gamla ráðgjafa
pillu. Nær er að segja að hann
hafi hellt úr öllu pilluboxinu
yfir hann.
Donald Trump segir nú að
þegar hann hafi rekið Steve
Bannon úr starfi hafi sá ekki
aðeins misst vinnuna heldur
einnig vitið.
Það er auðvitað hætt við að
þessar yfirlýsingar og að-
gerðirnar kunni að hafa öfug
áhrif við þau sem ætlað er.
Einhverjir, sem þó eru ekki
fullkomlega forstokkaðir fé-
lagar í hatursklúbbi forset-
ans, sem er fjölmennur,
kynnu að hugsa sem svo:
Fyrst að þetta eru við-
brögðin, er þá ekki líklegra
en ella að eitthvað sé til í hinu
meinta slúðri og ósannindum?
Einhver fullyrti að þegar
væri hafist handa við að þýða
bókarómyndina yfir á kór-
esku því í Pyongyang biði
ákafur lesandi.
Sá er áhugasamur um
sprengjur og bókin sú virðist
einmitt vera efni í eina slíka.
Enginn spáði eilífu
logni um Trump en
varla heldur eilífum
stormbeljanda}
Menn brenna sig
á bókabrennum
Í
nýsamþykktum fjárlögum var umtals-
vert aukið í fjárframlög ríkisins til heil-
brigðisþjónustunnar. Aukningunni var
beint bæði í Landspítalann, heilbrigð-
isstofnanirnar úti um land og í Heilsu-
gæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Þessi aukning
er í samræmi við langvarandi kröfu úr sam-
félaginu öllu, sameiginlega áherslu nánast allra
stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga en
ekki síst þá staðreynd að heilbrigðiskerfið hef-
ur setið eftir nú þegar efnahagslífið hefur náð
að rétta úr kútnum eftir efnahagshrunið.
Fyrir liggur að innspýting af þessu tagi dug-
ar hvergi nærri til að tryggja að heilbrigðis-
þjónustan á Íslandi dragist ekki aftur úr. Til
þess þarf frekari aðgerðir. Hin mikilvægasta er
að setja saman skýra og markvissa heilbrigð-
isstefnu sem verði leiðarljós fyrir alla þá sem
starfa í málaflokknum allt frá ráðuneyti til einstakra stofn-
ana og rekstraraðila sem veita heilbrigðisþjónustu. Það
þarf að liggja fyrir hverjum beri að sinna hverjum geira
þjónustunnar, hvort um skörun er að ræða og ekki síður
hvort einhvers staðar er um að ræða skort á þjónustu sem
sannarlega er þörf fyrir.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sjónum ekki
síður beint að jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð
búsetu. Þar er um að ræða almenna heilbrigðisþjónustu,
fæðingarhjálp, mæðravernd og aðra þætti sem telja má til
grunnþjónustu. Um leið má öllum vera ljóst að ákveðinn
hluta þjónustunnar er aðeins hægt að bjóða á öflugu móð-
ursjúkrahúsi íslenska heilbrigðiskerfisins,
Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi. Þar fara
fram rannsóknir, kennsla auk þess sem allar
flóknari aðgerðir og þyngri þjónusta er veitt.
LSH þjónar landinu öllu þegar þjónustunni í
heimabyggð sleppir og er þannig bakland alls
heilbrigðiskerfisins í landinu.
Íbúaþróun, ferðamennska, samgöngur, ólík
fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og mismun-
andi aldurssamsetning gera það að verkum að
þarfir heilbrigðisstofnana út um land er með
mismunandi hætti. Þessa þjónustu þarf að
meta, greina þörfina og gera áætlanir til lengri
framtíðar með þjónustu við alla landsmenn að
markmiði.
Góð heilbrigðisþjónusta byggist á skýrri
heilbrigðisstefnu sem er og á að vera hluti af
samfélagssáttmálanum. Stefna sem lifir af
kosningar og breytingar í landsstjórninni og snýst um jafnt
aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags eða
búsetu og þar sem almannafé er skynsamlega ráðstafað.
Í fjárlagaumræðunni nú fyrir jól varð ég þess áskynja í
þingsal að almennur vilji þingmanna stendur til þess að
stefnumótun af þessu tagi fari fram og að jöfnuður sé þar
leiðarljós. Ég mun ráðast í mótun á skýrri heilbrigðisstefnu
nú á næstu mánuðum sem mun hafa það hlutverk að liggja
til grundvallar öllum helstu ákvörðunum í málaflokknum til
framtíðar.
Svandís
Svavarsdóttir
Pistill
Jöfnuður sem leiðarljós
Höfundur er heilbrigðisráðherra.
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen BAKSVIÐ
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
B
likur eru á lofti í sam-
skiptum Íslendinga og
Færeyinga í sjávar-
útvegi eftir að viðræður
um tvíhliða samning
þjóðanna sigldu í strand í síðasta mán-
uði. Að óbreyttu fá Færeyingar ekki
að veiða hér við land og Íslendingum
er óheimill aðgangur að færeyskri lög-
sögu. „Ef Færeyingar loka alfarið á
okkur þá eru fleiri þjóðir með aðgang
að fiskimiðum í eigin lögsögu. Þegar
einar dyr lokast þá opnast aðrar og ef
ekki nást samningar við Færeyinga
gætu stjórnvöld snúið sér til annarra
þjóða eins og Íra, Breta og Evrópu-
sambandsins,“ segir Gunnþór Ingva-
son, framkvæmdastjóri Síldar-
vinnslunnar í Neskaupstað.
Á nýliðnu ári veiddu íslensk skip
um 230 þúsund tonn af kolmunna, þar
af veiddust yfir 190 þúsund tonn í fær-
eyskri lögsögu og tæplega 27 þúsund
tonn í íslenskri lögsögu. Þá veiddu ís-
lensk skip 26 þúsund tonn af norsk-
íslenskri síld í færeyskri lögsögu í
fyrra, skv. yfirliti á vef Fiskistofu.
Færeyingar höfðu heimild til að
veiða 5% af úthlutuðum loðnukvóta Ís-
lendinga, að hámarki 30 þúsund tonn.
Ef miðað er við árið í ár og 208 þúund
tonna upphafskvóta hefðu Fær-
eyingar fengið að veiða rúmlega 10
þúsund tonn að minnsta kosti. Fær-
eyingar höfðu heimild til að veiða
5.600 tonn af bolfiski hér við land, þar
af 2.400 tonn af þorski.
Samkvæmt aflareynslu
Erfitt er að bera saman verðmæti
í þessum samningi því sá reginmunur
var á að Færeyingar tóku sinn afla af
heildarkvóta Íslendinga. Íslensk skip
fengu hins vegar aðgang að færeyskri
lögsögu, en tóku með sér heimildir af
hlutdeild Íslands. Þær tóku mið af
hlutdeild samkvæmt aflareynslu og
eldri samningi strandríkja, en síðustu
ár hafa samningar ekki verið í gildi um
veiðar á kolmunna, makríl og norsk-
íslenskri síld.
Í frétt á vef sjávarútvegsráðu-
neytisins er greint frá því að ráðherra
hafi ákveðið að fella úr gildi allar
heimildir færeyskra fiskiskipa til að
stunda veiðar innan íslenskrar lög-
sögu á árinu 2018. Þar er greint frá
viðræðunum við Færeyinga 12.-13.
desember og segir þar að Ísland hafi
boðið óbreyttan samning en Færeyjar
krafist aukinna heimilda til veiða á
botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt af-
léttingu takmarkana á manneld-
isvinnslu á loðnu.
Útgerðarmenn sem rætt var við
í vikunni og hafa mikla hagsmuni af
uppsjávarveiðum sögðust ánægðir
með að „ráðherrann skuli standa í
lappirnar gagnvart Færeyingum“.
Þeir sögðu þó ljóst að til að ná eins
miklum kolmunnaafla og veiddist í
fyrra þyrftu útgerðir að breyta
sóknarmynstrinu. Með auknum veið-
um á íslensku og alþjóðlegu hafsvæði
mætti veiða meira þar en gert hefði
verið, t.d. á síðasta ári. Þá þyrfti að
breyta sóknarmynstri í veiðum á öðr-
um tegundum, en síðsumars og á
haustin hafa uppsjávarskipin verið á
makríl og síld. Þær tegundir fara að
mestu til manneldisvinnslu, en kol-
munninn í bræðslu.
Viljum hafa þetta óbreytt
Ákveðin óvissa er um hversu
mikið væri hægt að veiða af kolmunna
í íslenskri lögsögu og eins er langt að
sækja á alþjóðlega hafsvæðið vestur
af Írlandi, þar sem oft hefur fengist
góður kolmunnaafli. Hagkvæmt hefur
verið að sækja kolmunna til Færeyja,
en á móti er bent á að Íslendingar
eiga orðið stór og burðarmikil skip til
að sækja á fjarlæg mið.
Gunnþór segist telja mögulegt að
ná þessum kolmunnaafla þó svo að
Færeyjamið lokist. „Við eigum þessa
hlutdeild og höfum möguleika á að
veiða annars staðar, en við höfum
gert síðustu ár. Við viljum að sjálf-
sögðu hafa þetta óbreytt, en munum
laga okkur að þeim veruleika sem við
stöndum frammi fyrir,“ segir Gunn-
þór.
Aflaheimildir við Ísland,
aðgangur við Færeyjar
Morgunblaðið/Börkur Kjartansson
Óvissa Á kolmunnaveiðum á Víkingi AK norðan Færeyja í fyrravetur.
Ekkert hefur verið ákveðið með viðræður við Færeyinga um nýjan fisk-
veiðisamning, samkvæmt upplýsingum úr sjávarútvegsráðuneytinu.
Samning um bolfiskveiðar Færeyinga við Ísland má rekja til ársins
1976 í kjölfar útfærslu íslensku landhelginnar. Samkvæmt þeim samningi
eru færeyskum skipum heimilaðar línu- og handfæraveiðar á botnfiski
með takmörkunum um hámarksafla, skipafjölda, tímabilatakmörkum og
svæðatakmörkunum.
Samningar um loðnuveiðar Færeyinga hér við land voru fyrst gerðir
1991. Á það hefur verið bent að megnið af loðnuaflanum fór þá til
bræðslu, en nú er stór hluti aflans frystur og loðnan orðin verðmætara
hráefni.
Samningar á gömlum meiði
ÓLJÓST UM FRAMHALD VIÐRÆÐNA