Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.02.2018, Síða 12

Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.02.2018, Síða 12
ÚTTEKT 12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.2. 2018 rð kynslóðanna Munur á orðfæri mismunandi kynslóða er alltaf einhver, ekki síst þegar kemur að ým- iskonar tískuorðum, slangri og slettum. Sunnudagsblað Morgunblaðsins hitti fólk á öllum aldri og fékk innsýn í hvaða orð fylgja kynslóðunum, hvaða orð þykja úr- elt og hvaða orð ákveðnir aldurshópar skilja jafnvel ekki. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is Þ að er erfitt að sýna fram á á óvé- fengjanlegan vísindalegan hátt hvaða slangur, slettur og annað óhefðbundið orðfæri lifir hverju sinni með kynslóðunum. Hvað er í tísku í dag að segja verður kannski orðið úrelt á morgun, sérstaklega er dauði tísku- orða vís ef foreldrar fara að nota orðin, þá snúa unglingarnir sér eitthvað annað. Til að öðlast ef til vill smá innsýn í hvað kynslóðunum finnst um orðfæri hver ann- arrar hitti blaðamaður Sunnudagsblaðs ung- menni, foreldra, íslenskukennara, ömmur og afa og sköpuðust fjörugar umræður um hvaða orð unglingunum finnst hallærislegt að heyra foreldra sína segja, hvaða orð ung- lingarnir nota sem foreldrarnir botna ekkert í og jafnvel hvaða orð foreldrar elstu kyn- slóðarinnar notuðu sem eru lítið eða ekkert notuð í dag. Niðurstöður undirritaðrar hvað varðar eigin mál eru eftirfarandi: Það er lummulegt að segja lummulegt, leikfimi er ekki hægt að nota nema maður sé að sýna með fim- leikahópi á Melavelli 1940, annars heitir það ræktin eða íþróttir sé maður í grunnskóla. Og úllala er mjög hallærisleg upphrópun! „Foreldrar mínir eiga mikið til að stytta orð með því að skeyta ó aftan við þau, vandró, krúttó, halló og svo framvegis, og systir mín er nýlega búin að setja reglur, allar endingar sem enda á „ó“ eru bannaðar á heimilinu ásamt nokkrum öðrum tilteknum orðum,“ segir Lilja Hrönn Önnu Hrannarsdóttir, 18 ára nemandi í Verslunarskóla Íslands, sem finnst þetta afar hallærislegt orðfæri sem heyrist ekki aðeins hjá foreldrum hennar heldur mörgum fleiri af þeirra kynslóð. „Einnig allar samlíkingar með mat, þær eru líka bannaðar, að kalla okkur sykurpúða, kanilsnúða og svo eiga þau bara helst ekkert að reyna að vera að nota unglingatalsmáta, það verður mjög hallærislegt.“ Geturðu nefnt dæmi um orð sem eldri kynslóðin notar sem þú myndir ekki nota? „Afi og amma nota ýmis orð tengd tím- anum sem mín kynslóð myndi ekki nota. Eins og að klukkan sé gengin í eitthvað. Svo auðvitað eru orð sem foreldrum og eldri kynslóð líst heldur ekki á að við notum. Ég get nefnt sem dæmi batterí, það eiga að vera rafhlöður!“ Orð á bannlista Morgunblaðið/Hari Helgi Valdimarsson, sem er í 10. bekk íHagaskóla, og Sigrún Valgeirsdóttir,sem er á fyrsta ári í Tækniskólanum segja ýmsan mun á eigin orðanotkun og for- eldra þeirra og enn eldri kynslóðar. Blaðamaður tilkynnir þeim að eftir smá spjall ætli hann að sýna þeim nokkur orð úr slangurorðabók sem kom út árið 1982. „Já, voru ekki allir að segja eitthvað eins og „þrælskemmtilegt“? Mér finnst mamma og hennar kynslóð skeyta þræl- fyrir framan mjög margt, þrælfínt, þrælskemmtilegt.. Var það í tísku þá að bæta „þræl-“ fyrir framan orð?,“ spyr Sigrún sem á móður sem er fædd árið 1975. „En ég skil ekki alveg hvaðan það kemur. Síðan hvenær voru þrælar í tísku eða síðan hvenær var skemmtilegt að vera þræll?“ Hvaða orðum hvá eldri kynslóðir við, sem þið notið? Sigrún: „Reyndar hafa foreldrar oft aðrar hug- myndir um hvernig unglingar tala en raunin er. Þegar pabbi hermir eftir unglingum, eða mér og systkinum mínum segir hann „tótallí“ og „aksjúalí“ en það eru orð sem eru bara alls ekkert notuð, meðan hann segir þau í hverri einustu setningu. Hann heldur að allir ungling- ar tali þannig,“ segir Sigrún. Helgi: „Við styttum orð og notum skammstaf- anir, sérstaklega í spjalli í tölvunni, eins og á morgun er mrg,“ segir Helgi. Sigrún: „Ég segi oft nennis því ég nenni ekki að segja „ég nenni þessu ekki“. Svo skrifa ég gg, sem þýðir geggjað, það er eitthvað sem ég lærði í Hafnarfirði. Við notum mikið gaur, þeg- ar við tölum við hvort annað. Stelpur kalla stráka gaura og öfugt, strákar kalla stelpur gaura. Meira að segja mamma hefur skammað vini mína fyrir að kalla mig gaur, ég sé kven- kyns.“ Helgi: „Vinur hljómar allt of formlega, sem og félagi. Okkar vinahópur notar þó stundum gamaldags orð því okkur finnast þau bara svo fyndin, eins og félagi.“ Hvaða orð notið þið ef ykkur finnst eitthvað flott eða skemmtilegt? Helgi: „Að eitthvað sé nett er mikið notað af okkur kynslóð og aðeins eldri krökkum. Dope er annað orð sem er mikið notað og margir fullorðnir misskilja það en það þýðir alls ekki eiturlyf. Það er tekið úr ensku og þýð- ir bara að eitthvað sé flott. Aðra slettu, cringy, notum við mikið en ég held að eldri kynslóðir noti það orð alls ekki. Cringy lýsir því þegar eitthvað er óþægilegt á vandræðalegan hátt.“ Ef þið hugsið um kynslóð foreldra og afa og ömmu-kynslóð, hvaða orð nota þau sem þið mynduð aldrei nota? Sigrún: „Ég myndi segja orðið spes – „þetta er nú svolítið spes“. Ég segi stundum sjálf þessa línu í gríni og breyti röddinni eins og ég sé amma eða afi.“ Helgi: „Afi minn segir stundum skondið. Ég heyri það annars mjög sjaldan.“ Sigrún: „Mamma notar líka orðið skondið og ég stríði henni stundum með því að nota það þegar hún er að stríða mér með því að tala ung- lingamál. Ég hef einnig tekið eftir því að kyn- slóð foreldra minna og kynslóð ömmu og afa nota mjög mikið orðið týpa um fólk. „Hann er svo mikil týpa, öðruvísi týpa.“ Og eiginlega finnst þeim flottast að segja þetta orð með svona dönskum hreim, dönsku ypsilon; tuu- uípa!“ Helgi: „Maður heyrir stundum farvel hjá þess- ari kynslóð.“ Sigrún: „Amma mín er alltaf að segja hoj og slank. Hún segir það jafnvel um eitthvað sem er ekkert hoj og slank.“ Helgi: „Altmúligmann er svo annað orð. „Hann er svona altmúligmann“ er eitthvað sem maður heyrir en við myndum aldrei segja.“ Sigrún: „Mamma íslenskar allt, hún segir aldr- ei iPad eða iPod. Hún segir tónhlaða og spjald- tölva.“ Helgi: „Maður heyrir þessa kynslóð líka segja gsm-sími, sérstaklega kennara, en við segjum bara sími.“ Sigrún: „Svo er það þetta með að eitthvað sé lekkert, „agalega lekkert“. Helgi: „Svo má bæta því við að það er eitt orð sem ég heyri bara hjá afa mínum en það er skellinaðra. Þegar afi er að skutla mér og það birtast mótorhjól á veginum þá hef ég heyrt hann segja það.“ En hvað er hipp og kúl að segja? Helgi: „Það er að minnsta kosti ekki hipp og kúl að segja „hipp og kúl“!“ (Þau skellihlæja) Sigrún: Pabbi segir það alltaf því hann heldur að það sé ennþá í tísku hjá unglingum.“ Voru allir að segja þrælskemmtilegt? „Maður heyrir þessa kynslóð líka segja gsm-sími, sérstaklega kennara, en við segjum bara sími,“ segir Sigrún. Morgunblaðið/Eggert Eitthvað sé interessant? Bæði: Aldrei heyrt. Að trimma eða trimmgalli? Bæði: Haha, hvað er það? Gaga. Að eitthvað sé gaga? Sigrún: Pabbi notar það, ótrúlega pirrandi. Helgi: Bara heyrt það þegar ég bjó í Danmörku. Að eitthvað sé garanterað? Sigrún: Mamma notar það en ég man samt ekki alveg hvað það þýðir. Gasalegur? Helgi: Ég hef heyrt það í bók- um. Sigrún: Hef heyrt eldri kynslóðir nota það. Sauðdrukkinn: Bæði: Nei. Droppát? Bæði: Nei. Stælgæi? Bæði: Aldrei heyrt það. Beibífeis? Bæði: Höfum heyrt það en not- um það ekki. Spinnegal? Bæði: Ha? Speisaður? Bæði: Höfum ekki hugmynd hvað það þýðir. Flippa: Helgi: Notum það smávegis, en aðallega bara í gríni. Úllala: Bæði: Vitum hvað það þýðir en myndum ekki nota. *Bókin sem vísað er í heitir Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðs- mál og kom út árið 1982. Höfundar hennar voru Svavar Sigmundsson, Mörður Árnason og Örnólfur Thorsson Þekkja Sigrún og Helgi orð úr slangurorðabókinni frá 1982?*

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.