Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.02.2018, Page 19
11.2. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19
R
ysjótt og stormasamt veðurfar
hafði lengi komið í veg fyrir að
komast á fjöll til viðgerða á fjar-
skiptabúnaði en á þriðjudaginn
var ákváðu veðurguðirnir að
taka sér hlé um stund. Með klukkutíma fyr-
irvara var stokkið um borð í TF-LIF og hald-
ið af stað upp á mitt hálendi. Með í för voru
sjö vaskir menn, fimm frá Landhelgisgæsl-
unni, tveir tæknimenn frá Neyðarlínunni og
undirrituð.
Þyrlan lyftist fimlega frá jörðu og sveif yfir
höfuðborgina sem fjarlægðist smátt og
smátt. Blaðamaður fékk sæti beint fyrir aftan
flugmennina og var því með fimm stjörnu út-
sýni. Það virtust vera þúsund litlir takkar og
mælar á milli þyrluflugmannanna tveggja og
best að halda fótunum frá þeim.
Þegar borgin var horfin sjónum tók við ís-
kalt og snæviþakið landið. Alvanir þyrlu-
flugmenn létu á engu bera þótt skyggnið
hyrfi um stund og allt yrði hvítt. Sólin glennti
sig inn á milli og það stirndi á tignarlega
fjallstoppa þar sem við svifum yfir snjóbreið-
urnar. Þeir félagar fiktuðu í tökkum og
spjölluðu um flugleiðina, skyggnið, daginn og
veginn. Það var um að gera að halla sér aftur
og njóta stundarinnar því fátt er svalara en
að sitja í þyrlu með heyrnartól á eyrum, horfa
á ískalda náttúrufegurðina og hlusta á sam-
ræðurnar í gegnum hávaða í þyrluspöðum.
„Ég sé mastur two o’clock. Förum bara
straight ahead four miles.“
Blaðamaður var ekkert að blanda sér inn í
samræðurnar, enda vildi hann fyrir alla muni
ekki trufla, né reka sig í einn af þessum þús-
und tökkum.
Myndað með þykkum lúffum
Eftir tæplega klukkustundaflug var lent á
toppnum á Ásgarðsfjalli. Úti fyrir tók á móti
okkur nístingskuldi og geysileg náttúrufeg-
urð. Tæknimennirnir og blaðamaður stukku
út og þyrluflugmenn ákváðu að færa sig um
nokkra metra; finna öruggari lendingarstað.
Ekki var mikið pláss á toppnum og svellhált.
Það blés hressilega frá spöðum þyrlunnar og
mátti blaðamaður hafa sig allan við að halda
jafnvægi á hálum ís. Langt var niður á jafn-
sléttu og líklega ekki skemmtilegt að rúlla
þangað niður, þótt björgun hefði ekki verið
langt undan.
Þyrlan drap á sér og Gæslumenn stukku út
einn af öðrum á meðan tæknimennirnir, Sig-
urður Hauksson og Sveinn Ólafsson unnu
störf sín. Myndavélin var munduð en eftir
þrjár mínútur án vettlinga var lítið líf eftir í
fingrum. Myndirnar á síðunni eru því teknar
með þykkum lúffum, á meðan kuldaboli beit
fast í kinnar.
Útsýnið var engu líkt; víðáttan endalaus í
ýmsum hvítum tónum. Sólstafir dembdu sér
niður úr skýjunum okkur til heiðurs og hentu
ljósgulum lit í annars hvítu litapalettuna.
Mannveran verður ansi lítil frammi fyrir
heiminum á svona stundum.
Íslistaverk uppi á fjalli
Viðgerðin tókst með ágætum og eftir heitt kaffi
og kex í þröngri þyrlunni var haldið á næsta
stað, Laufafell á syðri Fjallabaksleið. Þegar
þangað var komið var tekið að rökkva. Þyrlan
lenti við mastur sem þakið var ís og snjó þannig
að minnti á skúlptúr. Útsýnið var lítið og himinn
og jörð runnu saman í þennan bláhvíta lit sem
einkennir oft veturinn. Það var nánast eins og
atriði úr geimmynd að horfa á eftir mönnunum
hlaupa í átt að þessu íslistaverki hátt uppi á
fjallinu. Tæknimennirnir hurfu inn í oggulítið
hús. Fiktuðu í snúrum í gulri birtu sem stakk í
stúf við blámann úti.
Stoppað var stutt enda ekki gott að vera í
kolniðamyrkri einn uppi á hálendi. Eða sjö.
Reyndar hafði enginn þarna sérstakar
áhyggjur og flugmennirnir skelltu nætur-
sjónaukum á hjálminn sinn á bakaleiðinni.
Alvöru Bond-taktar hjá Gæslunni.
Flogið var heimleiðis og brátt mátti sjá
Reykjavík glitra í myrkrinu. Strákarnir voru
orðnir svangir og á milli þess sem þeir sinntu
starfinu, ræddu þeir mat.
„Eigum við ekki panta pitsu? Ég myndi
vilja þarna Hawaii, þessa með skinku og an-
anas.“
Eftir nokkrar vangveltur var búið að velja
tvær tegundir og allir voru sáttir.
Það var komið myrkur þegar lent var í
Reykjavík. Blaðamaður kvaddi og þakkaði
fyrir sig. Fyrir utan flugskýlið beið pitsu-
sendillinn í hlaðinu.
Það var kalt og dimmt á toppnum en við-
gerðir gengu vel. Gula birtan úr litlum skúr
lýsti upp annars grábláu tilveruna.
Uppi á Laufafelli var
ísilagt mastur eins og skúlp-
túr frá geimstöð á Mars.
Þyrluævintýri á fjöllum
Í neyð er nauðsynlegt að geta hringt í 112, hvar og hvenær sem er. Fjarskiptabúnaður og möstur
eru víða um land, en þau tæki geta bilað eins og annað. Tæknimenn þurfa þá að sinna viðgerðum
og gott er að geta fengið Landhelgisgæsluna til að skutla sér upp á fjallstoppa um hávetur.
Blaðamaður fékk að fljóta með og upplifa þyrluflug upp á ískalt hálendið.
Myndir og texti: Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
Hvítt landið blasti við úr þyrlunni og sólin lét sjá
sig af og til og lýsti upp fjöll og firnindi.
Jóhannes Jóhannesson flugmaður, Elvar Steinn Þorvaldsson stýrimaður
og Jón Erlendsson flugvirki slá á létta strengi um borð í TF-LÍF.
Jón Erlendsson flugvirki gengur á toppi Ásgarðsfjalls með TF-LÍF í baksýn.
Á meðan á viðgerðum stóð var hægt að teygja úr sér og njóta útsýnisins.
’ Það var um að gera að hallasér aftur og njóta stund-arinnar því fátt er svalara en aðsitja í þyrlu með heyrnartól á
eyrum, horfa á ískalda náttúru-
fegurðina og hlusta á samræð-
urnar í gegnum hávaða í þyrlu-
spöðum.