Morgunblaðið - 04.05.2018, Blaðsíða 19
FÖSTUDAGUR 4. MAÍ 2018 MORGUNBLAÐIÐ 19
stökkvið var svo tekið með hinni nýju kynslóð
sem búin er 40 kWh rafhlöðu en hún skilar
bílnum í raun 170-180 km á hverri hleðslu. Sú
drægni ætti að laða enn fleiri kaupendur að
framleiðslunni enda hafa margir haldið því
fram að takmörkuð drægni rafbíla, ásamt mun
lengri hleðslutíma en það tekur að dæla elds-
neyti á tank, valdi því að það kjósi enn sem
komið er fremur að knýja bíla sína jarð-
efnaeldsneyti en rafmagni.
Þegar bílaáhugafólk beið þess að ný kynslóð
Laufsins yrði kynnt til sögunnar gengu þær
sögur fjöllunum hærra að framleiðandinn
hygðist jafnvel bjóða upp á 60 kWh rafhlöðu í
dýrari útgáfum bílsins. Nissan hefur ekkert
gefið út um það hvort Laufið verði nokkru sinni
búið svo stórri rafhlöðu. Hins vegar bendir
flest til að fyrirtækið muni kynna rafbíl til sög-
unnar með slíkri rafhlöðu, einhvern tíma á
árinu 2019. Hvort það verði Lauf eða enn ný
tegund verður að koma í ljós.
Enn kynnir Laufið nýja tækni
En Laufið er ekki aðeins orðið langdrægara en
áður og hefðbundnara í útliti. Hin nýja kynslóð
er búin ýmiss konar tækni sem jafnt og þétt er
að ryðja sér til rúms á markaðnum og þá býr
bíllinn einnig yfir sérstöðu sem vekur verulega
eftirtekt.
Við reynsluakstur var afskaplega fróðlegt að
kynnast hinum svokallaða E-pedala sem bíllinn
er nú búinn. Með tilkomu hans reynir Nissan
að draga úr notkun tveggja fótstiga við akst-
urinn. Með einföldum hætti má koma bílnum í
þá stillingu að aflgjöfin virki í senn sem aflgjöf
og bremsa. Þegar inngjöfinni er sleppt brems-
ar bíllinn nokkuð ákveðið þannig að í allt að
80% tilvika þarf ekki að stíga á hina hefð-
bundnu bremsu. Þegar E-pedalanum er sleppt
hleður bíllinn inn á rafhlöðuna og hægir á hon-
um þar til hann stöðvast algjörlega. Á það bæði
við um það þegar honum er ekið áfram sem og í
bakkgír. Þarna stígur Nissan forvitnilegt skref
sem í raun var að hálfu stigið með hinni svo-
kölluðu B-stillingu í gírstöng fyrri kynslóðar
Laufsins. Sú stilling er enn til staðar en með
henni má með einföldum hætti virkja rafmót-
ora bílsins til þess að hægja á honum og hlaða
um leið inn á hann. Þeir sem vanist hafa þeim
búnaði eiga oft erfitt með að venjast því þegar
sest er undir stýri í öðrum bílategundum, og
búnaðarins nýtur ekki við.
Auk E-pedalans er bíllinn einnig búinn
tækni til þess að leggja með sjálfvirkum hætti í
stæði og er sá búnaður kærkominn mörgum
þeim sem þykir óþægilegt að smokra bílnum í
þröng stæði, m.a. við verslunarmiðstöðvar. Þá
er bíllinn einnig búinn svokölluðu Propilot-
kerfi sem auðveldar akstur, ekki síst í mikilli
umferð. Þá heldur bíllinn réttri vegalengd í
næsta bíl, heldur sér innan akreina og stöðvar
einnig þar sem þess gerist þörf.
Svakalegur kraftur í léttu Laufi
Þótt Nissan Leaf teljist til svokallaðra smábíla
er hann rúmgóður að innan. Þá vekur sérstaka
eftirtekt að skottplássið er mjög ríflegt eða 405
lítrar. Það sem gerir bílinn hins vegar sér-
staklega spennandi er sú staðreynd að hann er
feikilega kraftmikill. Myndu jafnvel einhverjir
segja of kraftmikill, ekki síst þegar tekið er af
stað á blautu eða hálu malbiki. Því ræður m.a.
sú staðreynd að orkan fer samstundis út í
framhjólin og engir eru gírarnir.
Í fyrri kynslóð, rétt eins og þeirri sem nú
hefur verði kynnt, er svokallaður „ECO“-takki
sem hægt er að nota til þess að draga úr afli
bílsins og auka þar með drægni hans. Dregur
það um 70% úr aflinu. Í fyrri kynslóð forðaðist
maður eins og heitan eldinn að hafa bílinn á
þessari stillingu, enda varð hann silalegur og
leiðinlegur í akstri þegar henni var beitt. Nýi
bíllinn sem er um 150 hestöfl samanborið við
um 107 hestöfl í fyrri útgáfum, virkar „ECO“-
stillingin mun betur og minnir krafturinn sem
hún tryggir helst á venjulegan fjölskyldubíl
sem ekki þarf að sýna mikla takta á götunum.
Eftir sem áður er bíllinn á hinni hefðbundnu
stillingu mun skemmtilegri og gefur sprækum
sportbílum ekkert eftir.
Svipað og samkeppnishæft verð
Það vakti nokkra athygli þegar BL kynnti
verðlista fyrir nýju kynslóðina. Þá kom í ljós að
verðið hefur lítið sem ekkert hækkað frá fyrri
útgáfu, þrátt fyrir mun meiri búnað og meiri
drægni. Þannig er hægt að fá Visia-útgáfu bíls-
ins á tæpar 3,7 milljónir króna. Fyrir 300 þús-
und króna uppfærslu má fá Acenta útgáfu sem
er mun betur búin, m.a. NissanConnect kerfi 7
tommu skjá í mælaborði sem sannarlega er
saknað í ódýrustu útgáfunni. Þessi útgáfa er
einnig búin bakkmyndavél sem margir telja
ómissandi búnað í dag. Þá er Acenta einnig bú-
inn 16" álfelgum í stað 16" stálfelga sem fylgja
með ódýrustu útgáfunni. Á rafbílum skyldi allt-
af ekið á álfelgum enda skiptir þyngdarmun-
urinn á þeim búnaði sköpum þegar kemur að
því að hámarka drægni bílanna.
Þriðja útfærslan nefnist svo N-Connecta,
sem kostar tæpar 4,2 milljónir. Þar fer bíllinn
að njóta sín fyrir alvöru. Hann er búinn
myndavélakerfi og hreyfigreiningu ásamt ár-
vekniskerfi fyrir ökumann. Segja má að í þess-
ari útgáfu sé bíllinn fyrst farinn að sýna á spilin
gagnvart þeirri sjálfvirknivæðingu sem fram-
undan er í bílaheiminum. Þá er N-Connecta
einnig búinn 17" álfelgum og skyggðum rúðum.
Í heitari löndum skiptir sá búnaði máli til að
draga úr orkunotkun við loftkælingu. Hér á
landi tryggja dökkar rúður einfaldlega sport-
legra yfirbragð.
Flaggskipsútgáfa Laufsins er Tekna og er
hann í raun hlaðinn aukabúnaði. Hann er m.a.
leðurklæddur, búinn sjálfvirkum birtu- og
regnskynjara, er búinn heimreiðarlýsingu og
sjálfvirku hættuljósi. Enn um sinn verða
áhugasamir þó að bíða eftir þessari útgáfu
enda mun framleiðsla hennar hefjast nú um
mitt árið.
Stýrishjólið er skemmtilegt og leðurklætt með bláum saumi sem kallast á við grillið og lista á ytra byrði
bílsins. Ökumaðurinn er fljótur að tileinka sér aðgerðastýrið sem er einfaldara í notkun en virðist í fyrstu.
Ljósabúnaðurinn á Laufinu er sportlegur og mun betur heppnaður en á fyrri kynslóð. Það á bæði við um framenda bílsins en ekki
síður afturendann. Jafnvel hörðustu töffarar gætu sætt sig við útfærsluna sem nú sver sig í ætt við Micra, X-Trail og Pulsar.
Þótt Laufið teljist til smábíla er það afar rúmgott og það fer vel um farþega bæði í fram- og aft-
ursætum. Með einföldum hætti má fella niður aftursæti til að auka skottplássið sem er talsvert fyrir.
Í VISIA-útfærslunni er ekki snjallskjár í mælaborði en öðrum tækjabúnaði er
komið haganlega fyrir. Ræsihnappurinn er á heppilegri stað en í fyrri útfærslum.
Þótt rafbílar séu að verða algengari á götunum
og að nýjasta kynslóðin af Laufinu hafi nú þegar
selst í nærri 300 eintökum hér á landi á örfáum
vikum, hefur tekið langan tíma að þróa tæknina
að baki þessum bílum.
Þannig kynnti Nissan fyrsta hreina rafbílinn
til sögunnar í árslok 1997 og bar hann heitið
Altra. Þann bíl framleiddi fyrirtækið í fjögur ár
og komust aðeins um 200 eintök á göturnar. Þá
gerði Nissan einnig tilraunir með svokallaðan
hypermini sem framleiddur var í afar takmörk-
uðu upplagi og settur á göturnar í Japan og í
Kaliforníu um svipað leyti og Altra leit dagsins
ljós. Það var svo ekki fyrr en árið 2009 sem
fyrsti tilraunabíllinn, sem síðar varð Nissan
Leaf, var opinberaður, og hefur sú þróun nú leitt
af sér nýja kynslóð sem selst eins og heitar
lummur víða um heim.Til dagsins í dag hafa yfir
300 þúsund Lauf verið seld á heimsvísu og gerir
það tegundina þá langsamlega mest seldu með-
al rafbíla í heiminum.
Margra ára þróun að baki
Nissan Altra var sannarlega ekki mikið fyrir augað en ruddi þó mikilvæga braut í átt til rafvæðingar.