Morgunblaðið - 27.06.2018, Síða 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 27. JÚNÍ 2018
Dreifingardeild Morgunblaðsins
leitar að dugmiklu fólki 13 ára
og eldra, til að bera út blöð.
Allar nánari upplýsingar
í síma 569 1440
eða dreifing@mbl.is
Hressandi
morgunganga
Teitur Gissurarson
teitur@mbl.is
„Þetta er alltaf svolítið langt ferli
hjá okkur. Hver plata með Árstíðum
er alltaf svolítil breyting frá þeirri
fyrri,“ segir Ragnar Ólafsson, einn
af þremur meðlimum hljómsveitar-
innar Árstíða. Árstíðir gáfu fimmtu
hljóðversplötu sína, Nivalis, út 22.
júní síðastliðinn
en ýmsar nýj-
ungar má heyra á
plötunni sem ekki
hafa heyrst áður
á plötu frá Árs-
tíðum. Ragnar
segir að platan
hafi verið tæpt ár í mótun, en raf-
gervlar og önnur nýmóðins hljóð-
færi voru notuð í ríkari mæli á plöt-
unni en á fyrri upptökum sveitar-
innar.
Syngjandi og spilandi í tíu ár
„Plöturnar eru allar mjög ólíkar
innbyrðis,“ segir Ragnar, en hljóm-
sveitin fagnar um þessar mundir tíu
ára starfsafmæli.
„Við höfum gengið í gegnum mikl-
ar mannabreytingar á þessum tíma.
Við byrjuðum þrír, ég, Daníel og
Gunnar, og svo óx bandið og var orð-
ið sextett þegar við vorum flestir,“
segir hann, en það var einmitt á
þeim tíma sem hljómsveitin varð á
einni nóttu sannkallað internet-
undur, þegar myndband af henni að
syngja Heyr himna smiður á braut-
arstöð í Þýskalandi fór eins og eldur
í sinu um netheima.
Síðan hefur aftur fækkað í hópn-
um og í dag eru einungis stofn-
meðlimirnir Ragnar, Daníel og
Gunnar innanborðs. „Sömu þrír
gaurarnir sem byrjuðu þetta fyrir
tíu árum,“ eins og Ragnar orðar það.
Breyttar áherslur
„Með svona mannabreytingum
breytast líka áherslur. Hljóðfærum
hefur náttúrulega fækkað en það
hefur þó líka opnað á möguleika á að
prófa nýja hluti,“ segir Ragnar um
nýju plötuna. „Við erum svolítið að
fara aftur í grunnatriðin. Það er að
segja, við erum sami kjarninn og
byrjaði,“ segir hann. „En á sama
tíma erum við að nýta alls konar
hljóðfæri og tækni sem við höfum
ekki notað áður,“ bætir hann síðan
við og nefnir í því samhengi áður-
nefnda rafgervla.
„Við tókum upp í Orgelsmiðjunni
hjá Magnúsi Øder. Það er bara eins
og leikfangabúð fyrir tónlistarfólk.
Allt vegg- og gólfpláss er nýtt fyrir
gamla hljóðgervla og önnur spenn-
andi hljóðfæri,“ segir Ragnar.
Samvinna er lykillinn
Ragnar og félagar höfðu úr mörg-
um lögum að velja þegar þeir
ákváðu hvaða lög myndu komast á
plötuna, enda allir frjóir lagasmiðir.
Við þá vinnu fengu þeir til liðs við
sig Færeyinginn Sakaris Emil Joen-
sen, sem pródúseraði plötuna ásamt
meðlimum hljómsveitarinnar.
„Hann kemur algjörlega úr raf-
tónlistaráttinni.“ segir Ragnar um
Færeyinginn knáa. „Hann vann
hluta af ferlinu með okkur og hjálp-
aði okkur að sætta þessa tvo heima,
það er að segja órafmagnaða grunn-
inn okkar og raftónlistarheiminn.“
Allir forsprakkar og lagasmiðir
Eins og áður segir sjá strákarnir í
Árstíðum um lagasmíðar í samein-
ingu og minnist Ragnar í því efni á
gott gengi íslenska karlalandsliðsins
í knattspyrnu, sem er ofarlega í
huga flestra Íslendinga um þessar
mundir.
„Við erum allir „frontmenn“ og
allir lagasmiðir. Það reynir auðvitað
á samstarfið, það verður að vera
mjög lýðræðislegt. Allir semja og
allir koma með helling á borðið.
Reglan hjá okkur er svo þannig að
um leið og eitthvað er komið inn á
borð er lagið orðið sameign hljóm-
sveitarinnar og allir í bandinu fá að
breyta og koma með hugmyndir.
Svo fer lagið í ferli þar sem við próf-
um hljóðheima og útsetningar,“ seg-
ir Ragnar og bætir við hlæjandi:
„Þetta er bara eins og Heimir (Hall-
grímsson) er alltaf að tala um; liðs-
heild. Það er held ég svolítið ís-
lenska leiðin þessa dagana.“
Liðsheild eins og Heimir mælir fyrir um
Hljómsveitin Árstíðir gefur út fimmtu hljóðversplötu sína, Nivalis „Við erum svolítið að fara
aftur í grunnatriðin,“ segir Ragnar Ólafsson, einn hljómsveitarmeðlima Lýðræðislegt samstarf
Árstíðamenn Fimmta hljóðversskífa hinna tíu ára gömlu Árstíða kom út fyrir tæpri viku og ber titilinn Nivalis.
Norræni menningarsjóðurinn út-
hlutaði í fyrradag styrkjum úr Púls-
áætluninni og kynnti nýja og svo-
nefnda Púls-skipuleggjendur tón-
leika til sögunnar, en á næstu
tveimur árum munu 62 skipuleggj-
endur um öll Norðurlönd bjóða al-
menningi upp á dagskrá með efni-
legu norrænu tónlistarfólki, að því
er fram kemur í tilkynningu. Þar
segir að auk þess að tilnefna Púls-
skipuleggjendur veiti sjóðurinn 4,8
milljónir danskra króna í styrki og
að verkefnið hafi vaxið um 600 þús-
und danskar krónur og 20 ný tón-
listarhús og tónlistarhátíðir hafi
bæst í hópinn.
Haft er eftir Benny Marcel, fram-
kvæmdastjóra Norræna menningar-
sjóðsins, að Púls sé dæmi um öflugt,
fjölþjóðlegt samstarfsnet sem auki
gæði menningarlífsins. Søren Staun,
aðalráðgjafi hjá Norræna menn-
ingarsjóðnum, segir að í ár hafi tek-
ist að ná til allra norrænu landanna
og að Ísland sé sérstaklega áberandi
með sterka umsækjendur og fyrir
tilstilli Púls verði nú komið á öflugu
samstarfsneti íslenskra tónleika-
staða um norræna tónlist.
Tíu Púls-skipuleggjendur af 62
eru hér á landi, en þeir eru Eistna-
flug, Myrkir músíkdagar, Húrra,
Græni hatturinn og Havarí, Iceland
Airwaves, Iðnó, Mengi, Norræna
húsið og Salurinn. Frekari upplýs-
ingar um Púls má finna á puls.nor-
diskkulturfond.org/en/.
Morgunblaðið/Einar Falur
Tónleikastaður Mengi heldur úti öflugri tónleikadagskrá. Hér sjást fé-
lagarnir Megas og Kristinn H. Árnason á tónleikum í húsinu í fyrra.
62 hljóta Púls-styrki