Morgunblaðið - 26.07.2018, Blaðsíða 7
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. JÚLÍ 2018 7ATVINNULÍF
„Það er best að fjárfesta í trygginga-
félögum í upphafi efnahagssveiflu.
Þá eru tjón í lágmarki og hlutabréfa-
markaðurinn að taka við sér. Undir
lok efnahagssveiflunnar, eins og nú
er, er hlutabréfamarkaðurinn farinn
að dala og tjón eru í hámarki,“ segir
Snorri Jakobsson hjá Fjármála- og
hagfræðiráðgjöf Capacent í samtali
við ViðskiptaMoggann. Hann segir
að samt sem áður séu trygginga-
félögin íslensku öll vanmetin á
markaði í dag, rétt eins og íslenski
hlutabréfamarkaðurinn sé almennt.
Capacent hefur sent frá sér nýtt
verðmat á tveimur trygginga-
félögum, Sjóvá og VÍS, og vænt-
anleg er greining á því þriðja, TM.
Í verðmati á Sjóvá spyr Capacent
meðal annars hvort það ætti að
koma einhverjum á óvart að áætl-
anir tryggingafélaganna um tjóns-
hlutfall séu ekki að ganga eftir það
sem af er ári, sérstaklega þegar
horft sé til ástands vegakerfisins í
landinu. Verðmat Capacent á Sjóvá
er 20,3 krónur á hvern hlut, en loka-
gengi Sjóvár í Kauphöll Íslands í
gær var mun lægra, eða 15,15 krón-
ur á hvern hlut.
Í VÍS verðmatinu er þeirri spurn-
ingu velt upp hvort ekki hafi verið
óvenju lítið um tjón árin 2016 og
2017, fremur en að tjón hafi verið
óvenjulega mikil á árunum 2014,
2015 og 2018. Þarna er Capacent að
benda á mikilvægi þess að horfa að
lágmarki til 5-10 ára í greiningu á
tryggingafélögum, frekar heldur en
styttri tímabila.
Verðmat Capacent á félaginu er
13,9 krónur á hvern hlut, á meðan að
markaðurinn metur félagið á 11,6
krónur á hlut miðað við lokagengi í
kauphöll í gær.
Jákvæður bati í rekstri
Snorri segir að það jákvæðasta við
afkomu Sjóvár og VÍS á öðrum árs-
fjórðungi sé bættur trygginga-
rekstur, þótt hann sé ekki í sam-
ræmi við áætlanir félaganna. Flest
tryggingafélögin íslensku eru, að
sögn Snorra, með samsett hlutföll
neðan við 100% sem þýðir að
tryggingareksturinn er kominn upp
fyrir núllið. „Það sem er kannski að
koma í ljós er að þessar áætlanir
þeirra um stórbættan trygginga-
rekstur, er ekki alveg að ganga eftir.
Grunnreksturinn er vissulega að
batna, en þetta er seigfljótandi og
gerist hægt og rólega en ekki í
stökkum.“
Í verðmatinu á Sjóvá gerir Capa-
cent ráð fyrir að fjárfestingartekjur
félagsins verði 1.749 milljónir króna
árið 2018, í stað 2.893 milljóna áður.
Var of mikil bjartsýni ríkjandi í fyrri
spá? „Nei, við vorum að spá 7-8%
nafnávöxtun, en lækkuðum hana
niður í rúm 5%. Núna er stór hluti
ársins búinn og hlutabréfamark-
aðurinn er því miður afskaplega
dapur. Hann byrjaði vel í upphafi
ársins, en var mjög daufur á öðrum
ársfjórðungi og í byrjun sumars.“
Snorri segir að markaðurinn líði
fyrir það að of fáir fjárfestar séu á
honum. „Það er svolítið sérstakt að
allir vilja fjárfesta í húsnæði í dag.
Það treystir enginn hlutabréfamark-
aðnum. Ég myndi sjálfur telja að
það væri miklu meiri áhætta í dag að
fjárfesta í húsnæði. Þar er miklu
meiri spákaupmennska í gangi.“
Íslenskur hlutabréfamarkaður er
almennt ódýr í samanburði við
erlenda markaði að mati Snorra.
Kauptækifæri séu því á markaðnum.
Áhættustig mismunandi
Talandi um áhættustigið í fjár-
festingum tryggingafélaganna, segir
Snorri að TM sé með áhættusækn-
ustu fjárfestingastefnuna. VÍS og
Sjóvá séu varfærnari. Stefnan hafi
þó fært TM mun meiri ávöxtun en
hinum félögunum. „TM hefur verið
meðal annars í útlánum og kaupum á
óskráðum félögum.“
Í VÍS verðmatinu segir Capacent
að markaðurinn sé ekki að verð-
leggja 12% hlutafjárlækkun VÍS.
„Það er augljóst að þau hlutabréf
sem eftir standa verða verðmætari
fyrir vikið. Gengið ætti að hækka.“
Bréf VÍS hækkuðu nokkuð síðasta
vor, en eins og Snorri bendir á þá
varð það áður en fyrrnefnd hluta-
fjárlækkun var framkvæmd. „Maður
varð hálf gapandi. Mér fannst VÍS
gríðarlega ofmetið á þessum tíma,
og erfitt að skilja hvað menn voru að
verðleggja svona hátt. Gengið fór í
15-16 krónur á hlut, en við verðmát-
um félagið á þeim tíma á 12,7. Núna
hækkum við verðmatið upp í 13,9,
enda hefur bréfunum í félaginu
fækkað.“
Eins og fyrr sagði þá eru trygg-
ingafélögin mjög lágt verðmetin á
markaði að mati Capacent, og sér-
staklega í alþjóðlegum samanburði.
Erlendis eru tryggingafélög tvöfalt
dýrari að sögn Snorra. „Þegar við
byrjuðum að skoða tryggingabrans-
ann í upphafi árs 2016 þá skildum við
ekki af hverju þetta var, ekki hvað
síst í ljósi þess að vextir í Evrópu
eru mjög lágir, og því fengu félögin
mjög lága ávöxtun á iðgjöldin. Á Ís-
landi voru félögin á hálfvirði í þess-
um samanburði, en vextir hærri, og
ávöxtun iðgjalda því miklu betri. Það
var eins og aðilar á markaði hafi ekki
áttað sig á hugmyndafræðinni á bak-
við tryggingafélögin.“
Vantar meiri skoðanaskipti
Almennt varðandi virkni mark-
aðarins, segir Snorri að allir aðilar á
markaðnum þurfi að skoða hvernig
hægt sé að auka þátttöku fjárfesta
þar. Hann leggur áherslu á að það
vanti talsvert upp á gagnrýna um-
ræðu og skoðanaskipti. „Greining-
araðilar þurfa bæði að geta hælt og
gagnrýnt. Íslendingar eru því miður
ekki vanir að taka vel gagnrýni, en
það er þó nauðsynlegt. Virkur mark-
aður er í eðli sínu um skiptar skoð-
anir, hátt verð á móti lágu verði,
hækkun og lækkun gengis. Skortur
á umræðu var eitt af því sem orsak-
aði hrunið á sínum tíma. Þjóðarsálin
vill frekar trúa því að allt sé alltaf á
uppleið,“ segir Snorri og brosir.
„Menn mega ekki taka gagnrýni
persónulega og vera hörundsárir.“
Snorri segir að rekstur greining-
ardeildar geti verið hark og menn
séu ekki alltaf tilbúnir að greiða
fyrir greiningar og verðmöt. Áskrif-
endum greiningarefnis frá Capacent
hefur samt sem áður fjölgað tals-
vert, en deildin hefur verið starf-
rækt síðan árið 2016. Á þeim tíma
mat Capacent það þannig, að sögn
Snorra, að bæta mætti markaðs-
myndum á hlutabréfamarkaði og
auka umfjöllun og upplýsta umræðu
um hlutabréfamarkaðinn. „Það hef-
ur klárlega sýnt sig að innkoma
Capacent hefur aukið umfjöllun um
hlutabréfamarkaðinn og félög í
Kauphöllinni. Greiningar Capacent
eru mikið lesnar af áskrifendum og
útgáfan hefur hlotið mikla athygli.“
Tryggingafélögin vanmetin
Þóroddur Bjarnason
tobj@mbl.is
Íslensku tryggingafélögin
eru ódýr í alþjóðlegum
samanburði, að mati
Snorra Jakobssonar hjá
Capacent.
Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Snorri Jakobsson segir að mikilvægt sé að halda uppi umræðu um íslenska hlutabréfamarkaðinn.
Varahlutir í allar
Cummins vélar
Fljót og áreiðanleg þjónusta
Frá 1940
www.velasalan.is
Sími 520 0000, Dugguvogi 4 , 104 Reykjavík
Eltak sérhæfir sig í sölu
og þjónustu á vogum