Velferð - 01.12.2018, Blaðsíða 13
Fyrstu skrefin
Hjartasjúklingum var vel ljóst hvað þörf fyrir nýjan tækja-
búnað á Landsspítala var orðin brýn. Því var fyrsta verk
þeirra að safna fé til að kaupa á hjartasónartæki, sem hingað
hafði verið lánað, erlendis frá til kynningar. Með öflugri
fjársöfnun LHS tókst að halda tækinu og færa Landspítala
það til eignar. Næsta verkefni var að safna fyrir nýju hjarta-
þræðingartæki, sem var keypt árið 1984.
Næsta ár voru keyptir þrír hjartasíritar, „Holtertæki", á veg-
um LHS til að fylgjast með hjartsláttartruflunum sjúklinga
og skrá þær. Gjöf LHS fylgdi hugbúnaður og ferð fyrir hjúkr-
unarfræðing til London til að kynna sér meðferð tækjanna.
Efnt var til átaks undir kjörorðinu: „Tökum á - tækin vantar"
árið 1985 og þetta slagorð hefur sjaldnast verið langt undan
enda lýsandi fyrir það sem var verið að gera.
Næsta verkefni LHS var að styrkja sjúklinga sem voru að
fara til útlanda í hjartaaðgerð. Einnig tókst að fá fargjöld
fylgdarmanna þeirra lækkuð um helming.
Árið 1985 voru félagar LHS orðnir um 500. Þar var sam-
þykkt tilaga um að ráða starfsmann á skrifstofu samtakanna.
Var Hallur Hermannsson ráðinn til að stýra skrifstofunni
frá 1. ágúst það ár. Fram að því höfðu stjórnarmenn og aðrir
áhugamenn unnið þau störf sem þurfti.
Hjartalækningar færast heim
Fyrstu hjartasjúklingarnir voru skornir upp á hjartaskurð-
deild Landspítalans þann 14., 16. og 18. júní 1986 og allt
tókst vel. Þetta voru stórkostleg tíðindi og nánast ótrúleg.
Tæpum þrem árum eftir stofnun samtakanna voru fyrstu
kransæðasjúklingarnir skornir upp hér með prýðilegum
árangri. Það má segja að óskir og vonir stofnenda hafi ræst
með þessum áfanga.
Aðgerðirnar gengu vel, en ekki reyndist unnt í upphaíi að
anna þörfinni og þurfti því áfram að senda sjúklinga til
London, tvo til þrjá í viku á árinu 1989. Þá höfðu verið send-
ir um 2000 sjúklingar til London eða USA frá því að hjarta-
skurðaðgerðir hófust um 1970.
HL stöðvar
Endurhæfing hjartasjúklinga á Reykjalundi hófst sumarið
1982. Fyrstu sjö árin nutu þessarar þjónustu tæplega níu
hundruð hjartasjúklingar. Fljótlega kom í ljós að þörf var á
viðhaldsþjálfun í framhaldinu til að halda því þreki og þoli
sem áunnist hafði.
Úr varð að SÍBS, Hjartavernd og LHS stofnuðu endurhæf-
ingarstöð og lagði hvert þeirra kr. 500.000 til stöðvarinnar
í upphafi. Hún fékk nafnið Endurhæfingarstöð hjarta- og
lungnasjúklinga, sem fljótlega var stytt í HL stöðin í daglegu
tali. Hún var opnuð 1989 og hefur starfað óslitið síðan. HL-
-stöðin á Akureyri hóf starfsemi í húsi Sjálfsbjargar, Bjargi,
árið 1991. Landssamtök hjartasjúklinga, SÍBS og Hjarta- og
æðaverndarfélag Akureyrar og nágrennis stóðu að stofnun
hennar. Einnig hafa starfað svonefndir HL hópar á vegum
deilda Hjartaheilla vítt um land um lengri eða skemmri tíma.
Útgáfu og kynningarmál
í janúar 1985, var LHS boðið að vera þáttakandi í útgáfu
SÍBSfrétta og birta þar efni um starfsemi sína. Blaðið yrði
sent ókeypis til allra félaga SÍBS og LHS. Var fréttapistill frá
LHS fastur liður í SÍBS fréttum á næstu árum, sem þar með
bárust til allra félagsmanna LHS.
í sambandi við fimm ára afmæli LHS var gefið út veglegt
afmælisrit sem hlaut nafnið Velferð og kom út árið 1989.
Útgáfan gekk mjög vel og var ákveðið að halda henni áfram.
Blaðið er sent öllum félagsmönnum og velunnurum, auk
þess að því er dreift á sjúkrastofnanir og biðstofur. Velferð
hefur komið út óslitið síðan.
Gefið verið út fjölbreytt fræðsluefni á vegum Hjartaheilla.
Fyrsta útgáfan var kynningarrit um samtökin. Þá var gefið
út ritið Hjartasjúkdómar, varnir, lcekning, endurhcefing árið
1992 og hefur síðan verið endurútgefið og efnið uppfært.
Eru Ijón í veginum? hefur verið einnig vinsælt rit. Samtök-
in hafa einnig gefið út myndbandið Hjartans mál svo og
Hjartabókina sem gefin var til Hjartadeildar Landspítalans
og hefur verið uppfærð eftir þörfum. Þá má nefna mynd-
bandið Grettir-Þroskasaga hjartasjúklings.
Heimasíða samtakanna er www.hiartaheill.is.
Deildaskipting
Á aðalfundi 10. mars 1990 var lögum breytt og gert ráð fyrir
deildaskiptingu eftir landssvæðum. Fjallað er um deildirnar
á öðrum stað í blaðinu.
Styrktarsjóður hjartasjúklinga var stofnaður 1991, með
stofnfé kr. tvær milljónir. Sjóðurinn starfaði á þriðja ára-
tug, en helsti tekjustofn hans var sala minningarkorta. Sá
tekjustofn er nú að verulegu leyti úr sögunni. Sjóðurinn var
lagður niður 2018 og starfsemi hans sameinuð skrifstofu
Hjartaheilla.
Innganga í SÍBS
Landssamtök hjartasjúklinga gengu í Samband íslenskra
berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS, árið 1992 og urðu um
leið aðili að Öryrkjabandalagi íslands. Við þessa ráðstöfun
jókst félagatala SÍBS verulega og síðan hafa hjartasjúklingar
verið stærsta félagið innan SlBS. Hjartasjúklingar tóku strax
fullan þátt í starfi SÍBS, sátu þing þess og fengu fulltrúa í
stjórn.
Velferð 13