Morgunblaðið - 25.09.2018, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 25.09.2018, Blaðsíða 30
30 MENNING MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 25. SEPTEMBER 2018 Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is „Þótt það geti reynst áskorun að vekja eftirtekt í heimi djass píanó- tríóa, er hér náð fram sannfærandi samhæfingu í drifkrafti, íhugun og grípandi laglínum,“ segir um Fund, nýútkomna plötu Inga Bjarna Skúla- sonar, píanóleikara og tónsmiðs, í firnagóðum dómi í vefritinu London Jazz. Lofsöngurinn er lengri og rýn- ar á öðrum erlendum miðlum taka í svipaða strengi. Líkt og þeir gerðu fyrir þremur árum þegar hann gaf út Skarkala á netinu. „Öfugt við fyrri plötuna er Fundur bæði gefinn út á diski og netinu og af bandarísku útgáfufyrirtæki, en ekki mér sjálfum. Þeir hjá Dot Time Re- cords voru ánægðir með hljóð- dæmin, sem ég sendi þeim í tölvu- pósti og ákváðu að gefa út átta lög. Ég er auðvitað mjög ánægður, enda betra að vera undir einhverjum svona hatti, þótt ég viti svo sem ekk- ert hvert það leiðir mig,“ segir Ingi Bjarni. Á Fundi með Inga Bjarna Tríói spila þeir Bárður Reinert Poulsen frá Færeyjum á kontrabassa og Magnús Trygvason Eliassen á trommur. „Við tókum plötuna upp í október í fyrra, héldum útgáfuhófið á Jazzhátíð Reykjavíkur í byrjun þessa mánaðar og ætlum að reyna að fylgja henni eftir í nánustu framtíð. Lögin eiga það helst sameiginlegt að vera undir áhrifum norrænna þjóð- laga og djass, en segja má að meg- instefið sé leitin að rótunum.“ Þriggja borga sýn Ingi Bjarni lauk í vor sérhæfðu meistaranámi í tónlist, Nordic Mast- er: The Composing Musician, sem fram fór í þremur borgum; Gauta- borg, Kaupmannahöfn og Osló. Áður hafði hann lagt stund á djass- píanónám í Tónlistarskóla FÍH og lokið BA-námi við Konunglega Tón- listarháskólann í Haag í Hollandi. Núna er hann tónlistarkennari í Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlist- arskóla Mosfellsbæjar, spilar kvöld- verðartónlist í Hannesarholti einu sinni í viku og á tónleikum þegar færi gefst. Þeir næstu með Inga Bjarna tríói eru í Kex hostel kl. 20.30 í kvöld og verða þá spiluð nokkur lög af plötunni Fundur. „Í meistaranáminu flakkaði ég á milli borganna þriggja því annirnar voru þar sitt á hvað. Þannig kynntist ég mjög áhugaverðum og jafnframt mismunandi tónlistarsenum í borg- um, sem allar hafa sína sérstöðu. Djasshugtakið á Norðurlöndum er víðtækt, til dæmis eru töluverð þjóð- lagaáhrif í Osló og Svíþjóð, en meiri áhersla á frjálsan spuna í Kaup- mannahöfn.“ Spurður hvar Reykjavík standi að þessu leytinu kveðst hann lítt dóm- bær þar sem hann hafi ekki verið bú- settur á landinu í sex ár. „Ég held að tónlistarsenan sé um margt sérstök. Hún er rosalega lítil, sem hefur sína kosti og galla, en þrátt fyrir fátt fólk er mikil sköpun í gangi. Markaður- inn fyrir djasstónlist mætti að ósekju vera stærri, en ég reyni jafnan að semja tónlist með því hugarfari að hún takmarkist ekki bara við Ís- land,“ segir Ingi Bjarni, sem nýlega skrifaði langa færslu á Facebook þar sem hann veltir því m.a. fyrir sér hvers vegna unga fólkið sæki ekki tónleika í meira mæli. Kveikjan var fjarvera þess á nýafstaðinni Jazzhá- tíð Reykjavíkur: Hvar er unga fólkið? „… hvar eru nemendurnir sem eru að læra þessa tónlist? Af hverju er ekki þetta fólk meira áberandi á tónleikunum?“ spyr hann og heldur áfram: „Framtíð lifandi tónlistar snýst um ungt fólk sem á að vera á svona tónleikum.“ Og hann heldur áfram og veltir fyrir sér stílbrigðum tónlistar: „… flokkun tónlistar í stíl- brigði er stundum óþörf […] hvað er þessi djass eiginlega? Er hugtakið djass eitthvað sem ungt fólk tengir við og finnst aðlaðandi?“ Þá segir hann það geta verið takmarkandi að setja ákveðinn stimpil á tónlist. Tón- list í grunninn sé ekki takmörkunum háð heldur við sem takmörkum hana. Hvað sem öllum pælingum líður staðfestir Ingi Bjarni á Facebook að hann elski djass og beri mikla virð- ingu fyrir djasshefðinni. Enda hefur hann í áranna rás nokkrum sinnum komið fram á Jazzhátíð Reykjavíkur og spilað á alþjóðlegum djasshátíð- um víða í Evrópu. Í ársbyrjun hélt hann sína fyrstu einleikstónleika hérlendis. Fyrst og fremst er hann tónsmiður og píanóleikari. Lögin á Fundi segir Ingi Bjarni vera einhvers konar samtíning og þau hafi orðið til eins og aðrar laga- smíðar hans. Hann er með yfir 400 lagahugmyndir í símanum sínum og sumar í kollinum, en kveðst sjaldan setjast niður gagngert til að reyna að semja lag. Innsæið ræður „Ég leik mér bara að því að spila af fingrum fram á píanóið og leyfi innsæinu að ráða. Mikilvægast er að hafa trú á sjálfum sér. Ég ímynda mér gjarnan að ég sé landkönnuður að kanna hljóðheima tónlistarinnar. Stundum kanna ég bara tvö tónbil,“ segir Ingi Bjarni og viðurkennir að sér þyki oft gott að syngja með spil- verkinu. Söngröddin tengist inn- sæinu og sé merkilegt hljóðfæri. Varðandi upptökurnar í símanum segir hann að stundum líði mánuðir þar til hann hlusti á þær. Slíkt sé út af fyrir sig ágætt því þá nálgist hann hugmyndina kannski með opnari huga og minni sjálfsgagnrýni en ella. „Nafn disksins, Fundur, er ekki úr lausu lofti gripið, en það er frekar í merkingunni að finna eitthvað held- ur en að hittast. Ég reyni alltaf að ögra sjálfum mér og leita, til dæmis að rétta tóninum eða rótunum. Endapunkturinn; sjálfur fundurinn, er ekki áhugaverðastur, heldur leitin að honum – þegar maður er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt.“ Hlauptu burtu á lagalista Spotify Spurður hvort Fundur sé ólíkur Skarkala, þar sem með honum léku Valdimar Olgeirsson á kontrabassa og Óskar Kjartansson á trommur, giskar hann á að Fundur sé dýpri og svolítið lágstemmdari. Eitt lagið, „Hlauptu burtu“, skoraði svo hátt að komast á lagalista Spotify og hafði á tveimur vikum verið spilað 37 þús- und sinnum. Í næsta mánuði fer Ingi Bjarni til Svíþjóðar, þar sem hann mun skipa kvintett ásamt tónlistarfólki frá Nor- egi, Svíþjóð og Eistlandi, sem hann var með í meistaranáminu. Mein- ingin er að taka upp plötu og sæta kannski lagi og spila saman í ein- hverjum klúbbnum. Kannar hljóðheima tónlistarinnar  Ingi Bjarni Skúlason, píanóleikari og tónsmiður, fær lof og prís fyrir Fund, nýja tríódiskinn sinn Morgunblaðið/Eggert Tónsmiður og píanóleikari Ingi Bjarni er með mörg hundruð lagahugmyndir í símanum sínum og sumar í kollinum. Tónleikar með Inga Bjarna tríói eru í Kex hostel kl. 20.30 í kvöld. Úrval stuttmynda eftir upprennandi íslenska leikstjóra verður sýnt á Al- þjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykja- vík, RIFF, sem hefst á fimmtudag- inn. Meðal þeirra sem sýndar verða er stuttmyndin Ég eftir Hallfríði Þóru Tryggvadóttur og Völu Óm- arsdóttur en hún fjallar um unga transmanneskju frá litlu þorpi sem ferðast til borgarinnar í leit að frelsi til að vera hán sjálf, eins og segir í tilkynningu frá RIFF. Þar segir einnig að Samtökin ’78 hafi boðið fjölda framhaldsskólanema á sýn- ingu myndarinnar og að samtökin muni standa fyrir umræðum að henni lokinni. Ísak Hinriksson sýnir tvær stutt- myndir á hátíðinni. Fyrri mynd hans, Afsakið, fjallar um mann sem festir skóinn sinn undir bíl og sú seinni, Skeljar, fjallar um Auði nokkra sem reynir að verjast lífinu á eyju, eins og því er lýst í tilkynn- ingu. Af öðrum myndum má nefna Sumarið ’67 eftir Gunnþórunni Jónsdóttur blaðamann sem fjallar um forboðna ást og stuttmynd Ka Ki Wong, Ég teikna inní kind, sem fjallar um stúlku sem leitar að ung- um manni sem birtist henni end- urtekið í draumi. Hún ákveður síð- an að elta kind sem verður á vegi hennar. Kindin leiðir hana svo til unga mannsins. Frekari upplýs- ingar má finna á vef hátíðarinnar, riff.is. Forvitnileg Úr stuttmyndinni Ég teikna inní kind eftir Ka Ki Wong. Ung kona eltir kind í leit sinni að ungum manni sem birtist henni í draumi. Eltir kind í leit sinni að ungum manni

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.