Morgunblaðið - 05.11.2018, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 05.11.2018, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. NÓVEMBER 2018 Hjartans þakkir fyrir auðsýnda samúð og vináttu vegna andláts og útfarar móður okkar, tengdamóður, ömmu, langömmu og langalangömmu, GYÐU ARNDAL SVAVARSDÓTTUR, Sóltúni 2, Reykjavík. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Fyrir hönd aðstandenda, Sigurborg Valdimarsdóttir Ásgeir Valdimarsson Þorgerður Hreiðarsdóttir Hörður Hreiðarsson Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, AÐALGEIR AÐDAL JÓNSSON, Ægisgrund 7, Garðabæ, lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi fimmtudaginn 1. nóvember. Bryndís Þórarinsdóttir Sveinbjörn Aðalgeirsson Vésteinn Aðalgeirsson Kristjana Sigurgeirsdóttir Ingunn Þóra Hallsdóttir Ólafur Ingi Grettisson Þórhalla Rein Aðalgeirsd. og barnabörn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, REGÍNA GUÐMUNDSDÓTTIR, Hrafnistu, Nesvöllum í Reykjanesbæ, lést á heimili sínu mánudaginn 29. október. Útförin fer fram frá Njarðvíkurkirkju í Innri-Njarðvík þriðjudaginn 6. nóvember klukkan 13. Sigurborg Pétursdóttir Einar Már Jóhannesson Guðmundur Pétursson Rattanawadee Roopkhom Karen Pétursdóttir Ingvar Jón Óskarsson barnabörn og barnabarnabörn ✝ Bragi Ólafssonfæddist í bæn- um Herlev í Dan- mörku 24. desem- ber 1992. Hann lést á gjörgæslu- deild Landspít- alans í Fossvogi 26. október 2018 eftir stutt en erfið veikindi. Foreldrar hans eru Sigríður Ein- arsdóttir og Ólafur Jóhann Ólafsson. Systur Braga eru Andrea Diljá, f. 27. október 1982, maki hennar er Oddur Jóhann Brynjólfsson, og Hrefna, f. 28. janúar 1991, maki hennar er Sindri Baldurs- son. Eftir að Bragi flutti frá Dan- mörku ólst hann upp fyrst á Álftanesi og síðar í Ljósaberg- inu í Hafnarfirði. Hann var í Safa- mýrarskóla og í framhaldi Fjöl- brautaskólanum við Ármúla. Sam- hliða því naut hann þess að vera á Lyngási en síð- asta árið starfaði hann í Ögurhvarf- inu, sem er rekið af Styrktarfélaginu Ási. Í upphafi árs 2011 flutti Bragi á sambýlið Marbakka- braut í Kópavogi, þar sem hann bjó ásamt Sveinbirni, Hönnu, Ernu og Trausta. Bragi kom víða við á sinni stuttu ævi, en hann fékk m.a. að njóta sín í Reykjadalnum, Rjóðrinu og Móaflötinni í Garðabæ. Útför Braga fer fram frá Lindakirkju í Kópavogi í dag, 5. nóvember 2018, klukkan 15. Elsku Bragi, það var þvílík gleði þegar þú varst væntanlegur í heiminn, ekki bara það að þú værir væntanlegur heldur var settur dagur aðfangadagur og þú komst á aðfangadag. Lífið tók ekki blíðlega við þér og þú þurftir að hafa fyrir því nánast frá fyrstu stundu. En það vantaði ekkert upp á baráttuviljann og dugnað- inn og þú komst yfir byrjunar- örðugleikana. Þú varst samt svo hraustur, fékkst aldrei kvef eða pestir en eitthvað var það sem þú fékkst í fararnesti sem gerði það að verkum að líkamleg geta þín varð aldrei eins og annarra. Alla ævi þína þurftir þú á aðstoð margra að halda og komu allir að henni með fórnfýsi og sannri vin- áttu við þig og fjölskyldu þína og eignaðist þú marga góða vini. Bragi kynntist bestu vinkonu sinni þegar hann byrjaði á Lyng- ási, henni Ástu Sóllilju, og varð hún stuðningsfjölskyldan hans í mörg ár og eftir það besta vinkona þar til yfir lauk. Með henni fór hann meðal annars á tónleika og vestur í Dali í réttir og hún kom alltaf í afmælið hans á aðfangadag eins og margir hans ættingjar og vinir. Einnig var Halldór frændi allt- af vakinn og sofinn yfir velferð hans og heimsótti hann reglulega, hvort sem það var heim til hans, á spítala eða í skammtímavistun og hann var boðinn og búinn að að- stoða með allt sem sneri að honum. Bragi laðaði að sér gott fólk og laðaði líka það góða og gleðilega fram í fólki. Að flytjast á Marbakkabraut- ina var einstakt lán og þar var ein- stakt sambýlisfólk og starfsfólk og gott að koma í heimsókn, þar fékk maður faðmlög og spjall frá öllum á heimilinu og starfsfólki. Bragi var einstaklega fé- lagslyndur og lífsglaður drengur og ungur maður. Það var svo stutt í brosið og hláturinn, hann hafði góðan húmor og skemmti sér vel ef það var kraftur í lífinu. Tón- leikar, tívolí, ferðalög og samvera, þá var gleði og kátína. Honum eins og öðrum ungum mönnum fannst gott að fá að sofa aðeins lengur og vaka því lengur og græddi hann á því að fara seint að sofa því þá gat hann heyrt allt slúður og spjall sem var spjallað frammi og ekki sagði hann frá leyndarmálum en gat hlegið inni- lega að samtölum starfsfólks síns. Þegar Bragi komst á bragðið að ferðast erlendis þá var farið á hverju ári til Tenerife og notið sól- ar og samveru með okkur foreldr- um sínum og svo skiptust á að koma með systir hans og hennar vinkonur og Inga sem vann á Marbakka. Síðan var hægt að spjalla um ferðirnar og þá gaf Bragi það sterklega til kynna að hann myndi eftir þeirri skemmtun og það sást svo vel að hann hlakk- aði til næstu ferðar. Núna var búið að skipuleggja næstu ferð og ætl- uðum við að fara saman, öll fimm í fyrsta skipti til USA. En af því varð ekki því Bragi veiktist áður en átti að fara og fer nú í aðra ferð sem er örugglega góð fyrir hann en við munum ekki ferðast með honum núna en fáum að koma með honum seinna. Elsku Bragi, það sem við eigum eftir að sakna þín en á sama tíma gleðjast yfir minningum um þig. Við kveðjum þig með sorg í hjarta og munum muna þig eins og þú varst, fullur af lífi og gleði. Kveðja, mamma. Elsku Bragi minn. Þegar mamma þín fékk símtal- ið af Marbakkabrautinni fyrir ná- kvæmlega fjórum vikum átti ég ekki von á að vera í þessu sporum í dag. Þú varst greinilega eitthvað óhress og þá var eitthvað að, þú lagðir ekki í vana þinn að kvarta nema ástæða væri til. Það kom í ljós að þú varst kominn með nýrnastein, smá aðgerð og við héldum enn í vonina, halda okkar striki og fara öll fimm saman í frí til Flórída um næstu helgi. En þá fór í gang atburðarás sem jafnvel hörkutól eins og þú réðir ekki við. Gjörgæsludeildin í Fossvoginum varð þitt heimili síðustu ríflega tvær vikurnar. Þín náðargáfa í lífinu var að gefa til okkar sem fengum að vera þér samferða þennan aldarfjórð- ung. Æðruleysi, gleði og jákvæðni eru orðin sem kannski lýstu þér best. Þú varst hugsanlega ekki fyrstur manna úr rúminu á morgnana og pínu pirraður að vera rekinn af stað en við vitum báðir að morgunstund er stórlega ofmetin, kvöldin og næturnar eru okkar tími. Það var alla tíð ein- hver gleðiljómi sem fylgdi þér, eitthvað sem erfitt er að útskýra en flestir þekkja sem kynntust þér. Það var einfaldlega ómögu- legt að vera önugur í kringum þig og þegar maður lítur til baka sér maður hvernig þessi gleði og já- kvæðni þín endurspeglast í öllu þessu frábæra fólki sem hefur að- stoðað þig og okkur í gegnum tíð- ina. Alveg frá því að þú byrjaðir á Víðvöllum í Hafnarfirði hefur þú verið umvafinn frábæru fólki sem hefur viljað aðstoða þig eins vel og kostur er. Safamýrarskóli, Lyng- ás og núna síðast Ögurhvarfið hafa verið þinn vinnustaður í tutt- ugu ár en þar hefur þú kynnst mörgum af þínum bestu vinum. Við foreldrarnir fengum stóran hnút í magann þegar þér var boðið að flytja á Marbakkabrautina, alls endis óviss um hvað biði þín þar. Það kom hins vegar fljótlega í ljós að þær áhyggjur reyndust alger- lega óþarfar. Að sjálfsögðu varstu eldsnöggur að heilla þar alla, Svenni, Hanna, Erna og Trausti tóku þér svo sannarlega vel frá fyrsta degi og þú hafðir einstakt lag á að fá alla starfsmenn til að snúast í kringum þig. Bragi minn, það er erfitt að lýsa því hversu mikið þú hefur þroskað mig allt frá fyrsta degi. Þú hefur gert mig að miklu betri manni og gefið okkur litlu fjölskyldunni þinni svo ótal margt sem engin leið er að útskýra. Þú skilar kveðju frá mér til Dúnnu ömmu þegar þú hittir hana og ég vona að þú fáir loksins að kynnast afa þínum hann hefði al- veg kunnað að meta húmorinn þinn. Ég ætla að reyna að hafa ekki áhyggjur af þér lengur því auðvitað veit ég það innst inni að þú heldur áfram að vera þú sjálfur og aðrir á nýjum stað munu baða sig í geislum gleðinnar frá þér. Vertu sæll, drengurinn minn. Pabbi. Þetta var engan veginn á stefnuskránni hjá okkur Bragi. Við vorum með allt önnur plön en þessi. Við ætluðum að fara út til Tampa, liggja í sólinni, drekka Mojito og njóta þess að eiga góða stund saman í fyrsta skipti í 22 ár, loksins öll fimm saman til útlanda. En svona getur allt breyst á svip- stundu og heimurinn snýst á hvolf. Þú passaðir samt upp á að við værum öll saman með þér, þó það hafi verið þitt síðasta ferðalag og þinn síðasti spölur þá fengum við að fylgja þér þangað, vera til staðar og kyssa þig bless. Þú varst alltaf þægastur af okkur systkinum, það var aldrei neitt vesen á þér, enginn mótþrói, fýla eða rifrildi, samt sem áður tókst þér ávallt á einn eða annan hátt að halda okkur á tánum. Hvert sem við fórum þá varstu alltaf miðpunktur athyglinnar og þekktir fólk á öllum stöðum og öll- um aldri. Göngutúr í Kringlunni var eins og félagsmiðstöð þar sem þú þekktir nánast annan hvern mann sem gekk framhjá. Þegar þú varst lítill og hafðir ennþá hreyfigetu þá naustu þess í botn að rífa í fallegu ljósu lokkana hennar Hrefnu bara til þess eins að fá hana til að öskra. Það verður ekki tekið af þér að þú varst alveg einstaklega stríð- inn og leiddist það ekkert að hlæja þig máttlausan að okkur systrum eftir góða stríðni. Þú elskaðir tónlist en vildir sko ekkert vera að hlusta á einhverjar rómantískar ballöður heldur var rokkið málið sem og aðrir takt- góðir tónar. Góðir tónleikar voru eitthvað fyrir þig. Þegar tónlistin ómaði lyftir þú eyra og naust þess að hlusta, ekki skemmdi það fyrir ef Skálmöld og Sinfó voru að spila í Hörpunni. En mikið verður þetta erfitt, þó við vitum að þú hlaupir loksins um og hreyfir skrokkinn sem aldrei fyrr, daðrir við stelpurnar með fallegu röddinni þinni og njótir þín þá verður þín samt svo sárt saknað. Hvernig verða jólin, Bragi? Þú varst jólin, jólabarnið mikla. Það komu allir saman á aðfangadag til að fagna með þér. Þú hélst öllu saman, hélst uppi hefðinni en hvernig verður núna? Elsku Bragi, það verður allt svo öðruvísi núna. Ástarkveðjur, þínar systur og mágar, Diljá, Hrefna, Oddur og Sindri. En komin eru leiðarlok og lífsins kerti brunnið, og þín er liðin æviönn, á enda skeiðið runnið. Í hugann kemur minning mörg og myndir horfinna daga, frá liðnum stundum læðist fram mörg ljúf og falleg saga. Svo vinur kæri vertu sæll, nú vegir skilja að sinni. Þín geta máttug verndarvöld á vegferð nýrri þinni. Með heitu, bljúgu þeli þér ég þakka kynninguna, um göfugan og góðan dreng ég geymi minninguna. (Höf. ók.) Elsku Bragi okkar hefur kvatt þetta jarðlíf. Í huga okkar eru minningar um góðar stundir með honum eins og afmæliskaffi á að- fangadag og hin ýmsu heimboð á Marbakkabrautina. Það er okkur minnisstætt þegar við fórum í sjó- ferð árið 2013 með Braga um Sundin. Við upplifðum þá hversu glaður hann var og naut ferðar- innar. Það er trú okkar að nú sé Bragi á góðum stað og vel hafi verið tek- ið á móti honum. Elsku Óli, Sigríður, Diljá og Hrefna við sendum ykkur innileg- ar samúðarkveðjur. Halldór, Gyða og fjölskylda. Þótt sólin nú skíni á grænni grundu, er hjarta mitt þungt sem blý. Því burt varst þú kölluð á örskammri stundu, í huganum hrannast upp sorgarský. Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða, svo gestrisin, einlæg og hlý. En örlög þín ráðin – mig setur hljóða, við hittumst ei framar á ný. Megi algóður Guð þína sálu nú geyma, gæta að sorgmæddum, græða djúp sár. Þó komin sért yfir í aðra heima mun minning þín lifa um ókomin ár. (Sigríður Hörn Lárusdóttir) Hvíl í friði, elsku Bragi okkar. Hanna, Svenni, Erna og Trausti. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá Braga frænda minn fyrst. Við vorum samtímis við nám og störf í Danmörku, við Día, Sigríður og Óli Jóhann. Þær voru báðar ófrískar, Sigríður og Día. Ég var aldrei mikill barnakall, fannst ný- fædd börn ekki falleg, svona krumpuð, þrútin og mislit. Bragi var þó undantekning frá þessu. Mér fannst hann fallegasta barn sem ég hafði séð, fyrir utan börnin mín. Bragi fæddist í desember, Lilja Sif okkar Díu í maí vorið eftir. Við vorum mikið saman með börnin okkar þetta fallega vor í Dan- mörku. Það leið ekki langur tími þangað til við fórum að veita því eftirtekt að litla stelpan okkar tók fram úr frænda sínum í hreyfi- þroska. Okkur fór að gruna að ekki væri allt sem skyldi. Það kom í ljós að hann hafði orðið fyrir áföllum í fæðingunni sem höfðu valdið óafturkræfum skaða. Þrátt fyrir að fötlunin væri erf- ið þá óx Bragi úr grasi eins og annað ungt fólk. Um tíma fannst mér hann ótrúlega líkur Jóni heitnum frænda okkar frá Úthlíð, sem lést af slysförum allt of ungur. Það yljaði manni um hjartarætur að sjá Jón birtast þarna í Braga um tíma. Það var samt erfitt að horfa á þetta fallega barn verða sífellt meira fatlað lík- amlega og fylgjast með erfiðum veikindum sem lögðust þungt á hann og hans nánustu. Svona af hliðarlínunni þá var maður eigin- lega aldrei viss um hver andlegi þroskinn væri. Maður var þó aldr- ei í neinum vafa þegar Braga var skemmt. Það var helst á manna- mótum og þegar spiluð var tónlist, svo ekki sé talað um sólarlanda- ferðirnar. Þá ljómaði Bragi. Mér er minnisstæð tvítugsafmælis- veislan hans Braga á Marbakka- brautinni. Þar var Bragi hrókur alls fagnaðar. Það var gaman að fá að kynnast þessu einstaka sam- félagi sem þar var, sambýlingum Braga og frábæru starfsfólki. Þeim sé þökk fyrir þeirra frábæra starf. Það var líka gaman að sjá for- eldra og systur Braga með hon- um. Styrkur þeirra á erfiðum stundum og augljós virðing og væntumþykja hefur verið aðdáun- arverð. Þau ætluðu saman í frí til Flórída, Sigríður, Óli, systurnar og Bragi. Þau voru búin að segja okkur hversu mjög Bragi var far- inn að hlakka til ferðarinnar. Viku fyrir brottför veiktist Bragi hins vegar svo ekkert varð úr Flórída- ferð fjölskyldunnar. Þessi veikindi enduðu hins vegar í hinstu ferð Braga. Nú er hann laus úr þeim viðjum sem veikbyggður líkami hafði búið honum. Blessuð sé minning þessa fallega drengs. Erlendur Geir Arnarson og fjölskylda. Við minnumst Braga með hlý- hug, en hann flutti til okkar fyrir sjö árum. Frá fyrsta degi heillaði hann alla sem kynntust honum með sinni góðu nærveru og var hann öllum kær. Bragi hafði ein- stakt lag á að sameina kærleika og væntumþykju á heimilinu. Hann kenndi öllum sem umgengust hann þakklæti – þá ekki síst þakk- læti fyrir það sem maður hefur. Honum fannst einstaklega skemmtilegt að láta hnoðast með sig og allt knús og öll snerting ró- aði hann á erfiðum tímum. Bragi var athugull og áhuga- samur og það var fátt sem fór fram hjá honum, hann var sá sem vissi nánast allt um alla á heim- ilinu. Hann var alla jafna glaður, mikill húmoristi, hafði gaman að fíflalátum og hló og skríkti þegar honum fannst eitthvað fyndið. Bragi naut þess að hlusta á rokk- tónlist, en einnig að fara á viðburði og vera innan um fólk. Tjáning Braga var að mestu leyti í gegnum svipbrigði og fjöldamörg hljóð sem við lærðum að túlka og skilja hvað hann gæti verið að segja okkur. Bragi átti góða og umhyggju- sama foreldra og fjölskyldu og samverustundir með þeim voru honum kærar. Við þökkum Braga samfylgd- ina síðustu ár og sendum foreldr- um hans systrum og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Fyrir hönd starfsfólks á Mar- bakkabraut 14, Helga Steinarsdóttir. Elsku besti vinur. Það er komið að kveðjustund og ljúfar minningar hrannast upp. Ég var svo heppin að fá að kynn- ast þér fyrir 19 árum í Lyngási og fá að fylgja þér eftir í lífinu. Það mynduðust fljótt ótrúlega sterk bönd á milli okkar. Ég man daginn þegar mamma þín kom og spurði mig hvort ég vildi verða stuðningsfjölskyldan þín, ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Við brölluðum ýmislegt saman og létum ekkert stoppa okkur. Ein af fyrstu ferðunum okkar var að fara í réttir í Dölum og skemmtum við okkur konunglega. Ófáar sundferðir voru farnar og það var alltaf fjör. Þú varst algjör gaur og vildir hamagang og læti, og smitaðir fólk með hlátri þínum. Á aðfangadag var alltaf komið við í Ljósaberginu, skutlað inn af- mælispakka og gætt sér á af- mæliskræsingum. Aðfangadagur er afmælisdagurinn þinn og hélt Andrea Sif á tímabili að þú værir Jesúbarnið. Þetta var orðinn fast- ur liður á jólum að byrja hjá þér og þá máttu jólin koma. Þú varst svo ríkur, Bragi, að eiga svona yndislega fjölskyldu sem tók alltaf á móti okkur með hlýju og kærleika. Seinna kom- umst við að því að við værum bara svolítið skyld og skemmdi það ekki fyrir vináttu okkar. Í dag kveð ég þig, elsku besti vinur, og trúi því að við munum hittast aftur. Þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér og kenndir mér og mínum. Þú átt stóran stað í hjörtum okkar. Elsku Sirrý, Óli, Diljá og Hrefna, Guð styrki ykkur í sorg- inni. „Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“ (Kahlil Gibran, Spámaðurinn) Ásthildur Sóllilja og fjölskylda. Bragi Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.