Morgunblaðið - 01.12.2018, Page 12
12 LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018
Fullveldi Íslands
J
á, það var orðið tímabært að gefa sög-
urnar út að nýju,“ segir Jóhann Sig-
urðsson, útgefandi hátíðarútgáfu Ís-
lendingasagnanna, spurður hvort þær
hefðu verið gefnar út í ár, ef ekki væri
um afmælisár að ræða. Þeir Jóhann og Örnólfur
eru ekki ókunnugir sögunum og tengdust t.d.
báðir síðustu heildarútgáfu sagna og þátta sem
kom út fyrir ríflega þrjátíu árum og kennd var
við bókaútgáfuna Svart á hvítu. Sú útgáfa er
grunnur þessarar útgáfu sem hefur nú verið
endurskoðuð og aukin. Þá hefur Jóhann einnig
gefið út heildarútgáfur Íslendingasagna og
þátta á fjórum erlendum tungumálum, ensku,
dönsku, sænsku og norsku.
Í gegnum tíðina hafa sögurnar verið gefnar
út með ýmiss konar stafsetningu, og jafnvel
verið deilt um það hvort gefa eigi þær út á „nú-
tímaíslensku“ ef svo má að orði komast. „Það
kom aldrei annað til greina í okkar huga en að
gefa sögurnar út með nútímastafsetningu,“
segir Örnólfur, sem ritstýrði útgáfunni ásamt
þeim Aðalsteini Eyþórssyni, Braga Halldórs-
syni, Jóni Torfasyni og Sverri Tómassyni. Örn-
ólfur bendir á að þegar sögurnar voru upprit-
aðar í handritunum á fyrri öldum hafi þær
jafnan verið lagaðar að þeirri stafsetningu sem
ríkjandi var á hverjum tíma. „Það var okkar
vilji að fjarlægja alla þröskulda úr götu lesenda
að þessum sagnaheimi. Svo má nefna að á hand-
ritunum sjálfum er engin skólastafsetning, eng-
in „samræmd stafsetning forn“, enda eru þau
frá ýmsum tímum. Okkur þótti því fullkomlega
sjálfsagt að sögurnar væru prentaðar með nú-
tímastafsetningu.“
Meðal helstu gersema bókmenntanna
En hvers vegna hafa Íslendingasögurnar enn
þýðingu meðal þjóðarinnar? „Sögurnar hafa
vakað með þjóðinni í mörg hundruð ár, og fólk
veit af því að við eigum einhverjar mögnuðustu
bókmenntir sem skrifaðar hafa verið í heimi
vestrænna bókmennta,“ segir Jóhann. „Sög-
unum er líkt við hátinda á borð við Hómer og
Shakespeare, taldar til helstu gersema vest-
rænna bókmennta; það vekur stolt og heil-
brigða ættjarðarást að við skulum eiga þessi
verðmæti. Ég held að það hafi alltaf lifað með
þjóðinni.“
Jóhann bætir við að sögurnar séu sígild lista-
verk, virðist alltaf eiga erindi við samtímann.
Örnólfur tekur undir það. „Það gerir sögurnar
sérstæðar fyrir sinn ritunartíma að þær fjalla
ekki um upphafnar hetjur á stalli eða goðsögu-
legar persónur, þær fjalla um venjulegt fólk
sem er að stíga fyrstu skrefin í nýju landi, landi
þar sem náttúran hefur ekki einu sinni nafn, og
síðan afkomendur þeirra í tvær eða þrjár kyn-
slóðir. Landnámsmenn þurftu að yrkja jörðina í
tvennum skilningi. Kannski átti það sinn þátt í
því að svo brýnt þótti að varðveita frásagnir um
þetta nýja upphaf – og raunar skrásetja söguna
allt frá þessu upphafi sem við gátum teygt
okkur til ólíkt öðrum Evrópuþjóðum.“
Hann bendir á að margar sagnanna hverfist
um þau miklu tímamót árið 999 eða 1000 þegar
heiðinn siður vék fyrir kristnum með nýjum
gildum og nýju siðferði. „Þær eru í vissum
skilningi tímamótasögur; siðaskiptin hafa marg-
vísleg áhrif í heimi sagnanna, nýjar og kristi-
legar hugmyndir um fyrirgefningu og sáttfýsi
setja hetjunum skorður og samfélag friðsamra
bænda sýnir yfirgangi ofbeldis- og vígamanna
minna umburðarlyndi,“ segir Örnólfur. „Sög-
urnar eru með vissum hætti samfélagsmiðill svo
vísað sé í samtímann, þær eru aðferð þeirra
sem þær skapa í öndverðu, hinna munnlegu
sagnameistara sem hnita kjarnana í þessi ein-
stæðu listaverk, til þess að skilgreina t.d. lög og
rétt í nýju samfélagi, sæmd og skyldur; eins og
Robert Kellogg benti á má kannski segja að
samfélagið hugsi í Íslendingasögunum. En það
skiptir þó mestu að sögurnar eru fyrst og
fremst frábærar og skemmtilegar bókmenntir.“
Þá skipti einnig máli að sögupersónur sagn-
anna eru ekki goðsögulegar verur eða full-
komnir einstaklingar. „Þetta eru lifandi persón-
ur,“ segir Örnólfur. „Ekki algóðir eða alvondir
einstaklingar heldur breyskir bændur og höfð-
ingjar, hetjur í tilvistarkreppu, skáld í ástar-
sorg, myrkfælnir útlagar, örlyndar konur og of-
látar; fólk af holdi og blóði.“
Texti og skýringar
Þegar þeir Örnólfur og Jóhann eru inntir eftir
því hvaða vandamál fylgi því helst að gefa sög-
urnar út, nefna þeir m.a. að margt hafi breyst á
þeim þrjátíu árum sem liðin eru frá síðustu
heildarútgáfu. „Grundvöllur þessarar útgáfu er
heildarútgáfan frá 1987 en við höfum lagfært
villur og misræmi í texta sagna og þátta og í
nokkrum tilvikum endurskoðað textann með
hliðsjón af síðari rannsóknum eða útgáfum, t.d.
á það við um stærri sögur eins og Eglu, Eyr-
byggju, Laxdælu og Grettlu. Þá lögðum við
mikla vinnu í að ganga frá og samræma skýr-
ingar við þær tæplega 550 vísur, flestar drótt-
kvæðar, sem eru hluti af textunum og vonum að
með því opnist þessi forvitnilegi skáldheimur
betur fyrir lesendum. Þar eiga þau Bergljót S.
Kristjánsdóttir prófessor og Bragi Halldórsson
íslenskufræðingur drýgstan þátt. Við höfum
reynt að vanda eftir föngum allan frágang á
textunum og vonum að það létti lesendum för-
ina um þessa sagnaveröld. “
Þá nefnir Örnólfur einnig að ýmislegt skýr-
ingarefni fylgi þessari nýju útgáfu. „Þar má
nefna nýja formála í bland við eldra efni sem
ætlað er að varpa ljósi á helstu einkenni sagn-
anna og gera grein fyrir flokkun þeirra í bindi,
lýsa stuttlega einkennum Íslendingaþátta, gera
grein fyrir einkennum kveðskapar í sögunum
og sérstöðu Vínlandssagnanna svokölluðu. Þá
fylgir dálítil orðabók, skýringar um 6.000 orða
og orðasambanda sem ætla má að lesendur
kunni að hnjóta um, nafnaskrá þeirra ein-
staklinga sem koma við fleiri sögur en eina, kort
sem sýna sögusvið sagnanna og stuttar skýr-
ingargreinar með myndum sem varpa ljósi á hí-
býli og húsakost, skip og siglingar og helstu
vopn og verjur kappanna. “
Jóhann bætir við að þá sé svonefndur „sagna-
lykill“ í fimmta og síðasta bindi útgáfunnar, en
þar geti menn leitað að atriðum sem komi fyrir í
mörgum sögum. „Það eru atriði eins og bar-
dagar og víg, fyrirsátir, hólmgöngur, haugar og
dysjar, aflraunir, hestar, leikir og skemmtanir,
draugar og reimleikar,“ nefnir Jóhann sem
dæmi. Lykillinn beinir lesendum í þá kafla
hverrar sögu þar sem þessi atriði koma fyrir.
„Sá sem vill bara lesa um bardaga getur þá
brunað beint í þá kafla, og það er oft undanfari
þess að menn sjá hvað frásögnin er spennandi
og endar kannski með því að menn lesa alla sög-
una – og sumir lesa á endanum allar sögurnar
fjörutíu sér til þroska og ánægju,“ segir Jó-
hann. Lykillinn veiti því mörgum aðgang að
sögum sem þeir hefðu ella farið á mis við.
Nátengdar sjálfstæðisbaráttunni
En nú kynni einhver að spyrja sig, hvernig
tengjast fornsögurnar fullveldi Íslendinga,
mörgum öldum eftir ritunartíma þeirra? Jó-
hann er fljótur til svars. „Sögurnar hafa byggt
undir sjálfsvirðingu og sjálfstraust Íslendinga í
gegnum aldirnar.“ Hann bendir á að sögurnar
hafi alltaf verið tengdar við tilverugrundvöll Ís-
lendinga og tungumál. „Þessar bókmenntir
stóðu vörð um þjóðareinkenni okkar og tungu-
mál og spiluðu stóra rullu í sjálfstæðisbarátt-
unni.“
Jóhann segist trúa því að Íslendingasögurnar
séu mikilvægar á hverjum tíma. Það eigi ekki
síst við núna þegar fregnir hermi að bóklestur
sé á undanhaldi og að íslenskan eigi undir högg
að sækja í málheimi unga fólksins. „Þá er mik-
ilvægt að sögurnar séu aðgengilegar fyrir yngri
kynslóðir. Menn auka orðaforða og bæta mál-
vitund með því að lesa sögurnar og geta til-
einkað sér gullaldarmál einhvers konar, ef mað-
ur setur sig í rómantískar stellingar,“ segir
Jóhann.
„Sögurnar sjálfar eru nátengdar sjálfstæð-
isbaráttunni,“ segir Örnólfur. Hann bendir á að
margar af sjálfstæðishetjunum á 19. öld hafi t.d.
haft af því ærinn starfa í Kaupmannahöfn að
vinna að útgáfum og rannsóknum á íslenskum
fornsögum. Þær hafi um leið verið hluti af hug-
myndagrunni sjálfstæðisbaráttunnar, þar sem
meðal annars var uppi sú hugmynd að þær
sýndu þá gullöld sem hér hefði ríkt og þær
miklu bókmenntir sem Íslendingar gátu skapað
meðan þeir voru frjálsir menn í frjálsu landi.
Svo hafi öllu hnignað eftir sjálfstæðismissinn
um miðbik 13. aldar. „Þetta var ákveðin grunn-
hugmynd í sjálfstæðisbaráttunni, en ég er ekki
að segja að hún hafi endilega verið rétt,“ tekur
Örnólfur fram. Þessi hugmynd sýni þó að sög-
urnar voru ríkur partur af sjálfstæðisbarátt-
unni. Það hafi svo birst með vissum hætti þegar
Hið íslenska fornritafélag ýtti úr vör sinni miklu
og metnaðarfullu útgáfu á Íslendingasögum og
öðrum fornritum á fjórða áratug síðustu aldar.
Jóhann bætir við að útlendingum þyki það oft
merkileg staðreynd að á tíma þjóðveldisaldar
hafi risið hér upp hámenningarsamfélag sem
stofnaði elsta starfandi þjóðþing í heimi og gat
af sér einhverjar merkilegustu bókmenntir sem
skrifaðar hafa verið í heimi vestrænna bók-
mennta. „Já, og svo kröftugt var það samfélag
að menn sigldu milli heimsálfa og fundu Am-
eríku. Það var mikil drift og dugur í þjóðinni á
þessum tíma.“
Örnólfur er sammála Jóhanni. „Sögurnar
voru partur af sjálfstæðisbaráttunni og eru, og
þess vegna er ekki óeðlilegt að þegar við fögn-
um hundrað ára afmæli fullveldis sé hluti af
þeim hátíðarhöldum viðleitni til að gefa út það
sem okkur mörgum finnst vera eitt megin-
framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar,
gera það eins aðgengilegt og hægt er fyrir ungt
fólk, nýja lesendur jafnt sem hina eldri, þannig
að þessi sagnasjóður verði áfram veganesti okk-
ar inn í nýja öld.“
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sögurnar veganesti inn í nýja öld
Íslendingasögurnar hafa fylgt þjóðinni um aldir og ævi. Ásamt öðrum miðaldabókmenntum þjóðarinnar gáfu þær
Íslendingum sjálfstraust í sjálfstæðisbaráttu sinni. Fyrr á árinu var gefin út sérstök hátíðarútgáfa af Íslendingasög-
unum og var rætt af því tilefni við þá Jóhann Sigurðsson útgefanda og Örnólf Thorsson, einn af ritstjórum útgáfunnar.
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is
Þeir Örnólfur Thorsson, einn af ritstjórum útgáfunnar, og Jóhann Sigurðsson útgefandi ásamt
nýrri heildarútgáfu Íslendingasagnanna sem kom út í tilefni fullveldisafmælisins.
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Útgáfuna prýða m.a. 40 glæsilegar myndskreytingar eftir dönsku listakonuna Karin Birgitte
Lund. Hún myndskreytti einnig heildarútgáfu sagnanna á dönsku, sem kom út árið 2014.