Morgunblaðið - 01.12.2018, Síða 30
30 LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018
Fullveldi Íslands
Þ
egar Íslendingar fögnuðu fullveldi
þann 1. desember 1918 var mjög
erfitt ár senn á enda. Harður vetur,
spænska veikin, Kötlugos; allt
hafði lagst á eitt til að reyna þolrif
landsmanna. Hátíðahöldin voru því skipulögð
með hófstilltum hætti en samt varð margt sem
lagðist á sveif með Íslendingum. Veðrið var
fagurt. Íslenski fáninn var dreginn að hún í
fyrsta sinn. Þegar fullveldinu var lýst fyrir
framan Stjórnarráðið ætlaði húrrahrópunum
aldrei að linna.
Fullveldið skipti landsmenn máli. Sá sigur
sem var staðfestur þann 1. desember 1918
sýndi að miklu má áorka þó að ytri aðstæður
séu ekki endilega hagfelldar. Saga fullveld-
isins hefur æ síðan einkennst af sóknarhug
sem oft hefur skilað okkur langt. Íslendingar
voru fámennasta þjóð sögunnar til að keppa á
Heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í sum-
ar og er það afrek í sjálfu sér. Þó að íslenska
viðhorfið sé reyndar að það sé ekki nema sjálf-
sagt að ná árangri á við miklu stærri þjóðir.
Svipaður baráttuandi liggur á bak við stofn-
un Háskóla Íslands, byggingu Landspítalans,
uppbyggingu menningarstofnana og baráttu
fjöldahreyfinga á borð við verkalýðshreyf-
inguna og kvennahreyfinguna sem breyttu
samfélagi okkar til góðs. Almannatryggingar
og vinnulöggjöf, fæðingarorlof og leikskólar;
allt eru þetta mikilvægar stoðir samfélagsins
sem við byggjum nú. Hið fullvalda Ísland 2018
væri líklega óþekkjanlegt þeim sem söfnuðust
fyrir framan Stjórnarráðið 1918. Saga full-
veldisins hefur ekki verið saga værðar og
hvíldar. Unnið hefur verið unnið sleitulaust til
að ná þeim mikla árangri sem náðst hefur. En
margir draumar hafa ræst og Ísland trónir nú
á toppi ýmissa þeirra lista sem mæla hagsæld
og velferð. Samfélagið hefur orðið fjölbreytt-
ara, uppruni landsmanna er nú fjölbreyttari
en árið 1918 og þeir eiga ólíka sögu og bak-
grunn.
Aflgjafi að árangri
Það er ekki nokkur vafi á því að fullveldið
reyndist aflgjafi til að ná öllum þessum ár-
angri. Við vildum ráða örlögum okkar sjálf og
það reyndist farsælt þó að við höfum ekki liðið
gegnum öldina átakalaust. Hitamál hafa reglu-
lega skipt þjóðinni í ólík horn þar sem tekist
hefur verið á um ólík sjónarmið. Ekki síst hef-
ur það verið á vettvangi alþjóðlegra samskipta
en líka í kjarabaráttu og jafnréttisbaráttu.
Þegar áföll hafa dunið yfir hafa landsmenn
sett þessi mál til hliðar og staðið saman sem
einn.
Samstaða mun skipta máli í þeim áskor-
unum sem blasa við fullveldinu á komandi öld.
Loftslagsbreytingar munu hafa veruleg áhrif á
alla mannlega tilveru. Þar þurfum við að snúa
vörn í sókn. Fyrstu skrefin hafa verið stigin
með nýrri stórhuga aðgerðaáætlun í loftslags-
málum þar sem stefnt er að orkuskiptum í
samgöngum og stóraukinni kolefnisbindingu
en fyrir liggur að endurskoða þarf áætlunina
reglulega og fylgja henni aftur af krafti og
baráttuhug ef árangur á að nást.
Tæknibreytingar eru önnur stór áskorun
sem mun hafa áhrif á öll svið mannlegs lífs;
menntakerfi, vinnumarkað, stjórnmál og
mannleg samskipti. Þær verða í forgrunni í
allri stefnumótun stjórnvalda næstu árin með
það að markmiði að tæknin þjóni fólki en ekki
öfugt. Í öllum þeim umbreytingum má aldrei
missa sjónar á mennskunni og mannúðinni
sem verður að vera okkar leiðarljós.
Enginn verði skilinn eftir
Enn ein áskorunin er sú að tryggja að um
leið og við tökumst á við þessar áskoranir
stuðlum við um leið að auknum jöfnuði. Það er
vel þekkt að miklar samfélagsbreytingar hafa
oft þau áhrif að einhverjir hagnast og aðrir eru
hliðarsettir. Við sjáum merki um að tæknibylt-
ingin hefur haft þessi áhrif nú þegar. Því er
mikilvægt að jöfnuður og velferð allra verði í
öndvegi á næstu öld fullveldisins, að enginn
verði skilinn eftir.
Við hátíðahöld dagsins var lögð áhersla á að
hlusta eftir sjónarmiðum barna og ungs fólks.
Það segir mikið um samfélag hvernig það býr
að börnum og það er sérstakt umhugsunarefni
að andleg vanlíðan ungs fólks virðist fara vax-
andi þrátt fyrir ytri velmegun. Það er sérstakt
verkefni að tryggja að menntakerfið mæti öll-
um börnum á þeirra eigin forsendum og eins
að öll börn fái jöfn tækifæri. Enn fremur þarf
aðgengi barna að góðri heilbrigðisþjónustu að
vera tryggt. Síðast en ekki síst eiga raddir
barna að heyrast oft og víða og áhrif þeirra á
samfélag okkar að aukast.
Á árinu höfum við minnst þess með ýmsum
viðburðum um land allt að 100 ár eru liðin síð-
an íslenska þjóðin fékk fullveldi. Í dag ná þessi
hátíðahöld hámarki með sérstakri hátíða-
dagskrá og viðburðum víða um land. Ég hvet
landsmenn alla til að taka þátt en gefa sér líka
tíma til að ígrunda hvert skuli stefna næstu
hundrað árin og hvað skiptir okkur mestu
máli. Eru það langir og strangir vinnudagar?
Skoðanaskipti á samfélagsmiðlum um alla
skapaða hluti í frítímanum? Kapphlaup um að
eiga sem mest og helst meira en nágranninn?
Eða liggur mesti ágóðinn í góðri samveru?
Stöldrum við og sjáum fegurðina í mannlegu
samfélagi.
Gleðilega hátíð.
Morgunblaðið/Hari
Hundrað ára fullveldi
’
Það er ekki nokkur vafi á því að
fullveldið reyndist aflgjafi til að
ná öllum þessum árangri. Við
vildum ráða örlögum okkar
sjálf og það reyndist farsælt
þó að við höfum ekki liðið
gegnum öldina átakalaust.
KATRÍN JAKOBSDÓTTIR, FORSÆTISRÁÐHERRA ÍSLANDS OG FORMAÐUR VINSTRI GRÆNNA