Morgunblaðið - 01.12.2018, Page 45

Morgunblaðið - 01.12.2018, Page 45
LAUGARDAGUR 1. DESEMBER 2018 45 Fullveldi Íslands Á þeirri öld sem nú er liðin frá því að Ísland var lýst frjálst og fullvalda ríki með sambandslögunum frá 1918 má fullyrða að orðið hafi veru- legar breytingar á hugmyndum manna um hvað felist í fullveldi og sér í lagi að hvaða marki megi takmarka það. Ástæða þessa er einkum vaxandi þátttaka Íslands í al- þjóðlegu samstarfi og framsal á tilteknum valdheimildum til alþjóðastofnana, svo sem þeirra stofnana sem starfa á grundvelli EES- samningsins. Samhliða hef- ur risið umræða um að með slíku samstarfi sé fullveldi ríkisins skert, enda sé ákvörðunarvald um eigin málefni fært frá innlendum stofnunum til erlendra aðila í síauknum mæli. Stjórnarskráin er byggð á þeirri forsendu að Ísland sé fullvalda ríki og stendur hún í þeim skilningi vörð um fullveldið. Hún er þögul um heimild til að framselja valdheim- ildir ríkisins en þó hefur verið gengið út frá því að það sé heimilt innan ákveðinna marka sé tekin lögmæt ákvörðun um það. Það fer saman við það sjónarmið að í fullveldinu felist réttur ríkja til að takast á hendur þjóðréttarlegar skuldbindingar og að þátttaka íslenska ríkis- ins í alþjóðasamstarfi sé í þeim skilningi beit- ing á fullveldinu. Hér á landi hefur skapast venjuhelguð regla um framsal valdheimilda ríkisins og hafa fræðimenn leitast við að draga ályktanir um inntak reglunnar með hliðsjón af beitingu hennar í framkvæmd, svo sem vegna upphaflegrar aðildar Íslands að EES- samningnum og síðari innleiðingar gerða sem stafa frá Evrópusambandinu. Aftur á móti er ekki einhugur um inntak og umfang þessarar reglu, þar með talið um hver séu ytri mörk heimilaðs framsals. Leiðir það óhjákvæmilega til þess að réttarstaðan er óljós. Frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994 hafa skuldbindingar íslenska ríkisins aukist verulega og hefur samstarfið krafist þess að valdheimilir séu framseldar í vaxandi mæli til stofnana EES. Almennt er viðurkennt að lögfesting samningsins hafi á sínum tíma reynt verulega á mörk stjórnarskrárinnar og því fór fjarri að samhugur væri um hvort þörf væri á stjórnarskrárbreytingu. Nefnd þeirra fjögurra sérfræðinga í lögum, sem leitað var til, taldi að framsal valdheimilda samkvæmt samningnum stæðist stjórnarskrá og vísaði einkum til þess að framsalið væri „skýrt af- markað, ekki umfangsmikið eða verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga eða lögaðila“. Sé litið til stöðunnar í dag, um aldarfjórð- ungi síðar, má ljóst vera að íslenska ríkið hef- ur framselt valdheimildir í talsverðum mæli til stofnana EES og hefur þeim jafnframt verið eftirlátið vald til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi, svo sem með álagningu sekta og beinum afskiptum af rekstri fyrirtækja. Hér má nefna sem dæmi að samkvæmt reglum Evrópusam- bandsins um fjármálaeftirlit, sem voru inn- leiddar hér á landi haustið 2016, hefur Eftir- litsstofnun EFTA (ESA) heimild til að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenskum stofnunum og fyrirtækjum á fjármálamarkaði sem geta meðal annars náð til þess að stöðva starfsemi þeirra. Frumkvæði að slíkum ákvörðunum og undirbúningur þeirra er í höndum sérstakra eftirlitsstofnana, sem starfa á vettvangi Evrópusambandsins, og á Ísland ekki aðild að þeim. Þá má jafnframt nefna að vegna breytinga á samkeppnisreglum EES- samningsins var með samkeppnislögum nr. 44/ 2005 lögfest ákvæði sem felur efnislega í sér að ákvarðanir ESA eru í ákveðnum tilvikum bindandi fyrir íslenska dómstóla við úrlausn mála þar sem þeir fara með dómsvald. Hefur löggjafinn þar með bundið hendur dómstóla í ákveðnum skilningi vegna reglna EES-réttar. Telja verður líklegt að álitaefni um mörk heimils framsals muni aukast í framtíðinn og væri það í takt við þróun í regluverki Evrópu- sambandsins þar sem sjálfstæðum eftirlits- stofnunum eru í auknum mæli veittar vald- heimildir gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Skýrt dæmi um þetta er þriðji orkupakki Evrópusambandsins sem hefur upp á síðkastið verið tilefni umræðu um mörk heimils framsals valdheimilda hér á landi. Það er í öllu falli ljóst að þær forsendur sem voru taldar styðja þá upphaflegu afstöðu að ekki væri þörf á stjórnarskrárbreytingu vegna aðildar Íslands að EES-samningnum hafa breyst og að valdframsal er mun meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Í því sambandi er at- hyglisvert að höfundar sumra þeirra álits- gerða, sem aflað hefur verið vegna innleið- ingar gerða, hafa lagt áherslu á að jafnvel þó að framsal samkvæmt einstakri gerð sé talið standast stjórnskipulega sé ekki þar með sagt að breytingarnar virtar heildstætt teljist inn- an ramma stjórnarskrárinnar. Það hefur lengi verið til umræðu hvort setja skuli sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um fram- sal ríkisvalds til alþjóðastofnana, en tillögur um slíkt hafa ekki náð fram að ganga. Fræði- menn hafa bent á að slíkt ákvæði gæti í reynd styrkt og treyst fullveldið í sessi þar sem heimild til framsals valdheimilda yrðu settar skorður í stjórnarskrá. Með slíku ákvæði væri þannig ekki ætlunin að auka möguleika til framsals einstakra valdheimilda, heldur að tryggja að skýr skilyrði, sem Alþingi hefði fyr- ir fram samþykkt, lægju slíkri ákvörðun til grundvallar. Frá lagalegu sjónarhorni verður það í öllu falli að teljast varhugavart að byggja framsal valdheimilda á óskráðri reglu sem ekki er sammæli um hvað varðar inntak og umfang. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Magnús Ólafsson Stofnun Hæstaréttar Íslands hinn 16. febrúar 1920 var talin mikilvægur liður í fullveldi Íslands. Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti lýðveldisins, stendur fyrir miðri mynd. Fullveldi og framsal valdheimilda ÁSGERÐUR RAGNARSDÓTTIR, DÓMARI VIÐ HÉRAÐSDÓM REYKJAVÍKUR Ásgerður Ragnarsdóttir F ullveldi felur í sér sjálfstæði, það að hafa fullt vald yfir málum sínum. Nú fagnar Ísland aldarafmæli fullveld- isins. Þegar ég velti því fyrir mér hugsa ég um fullveldið sem mikil- fenglegan lið í sögu þjóðarinnar þar sem eyjar- skeggjar náðu að brjótast undan yfirvaldi ann- arra yfir málefnum þeirra. Við hér á Íslandi fögnum því að hafa fengið valdið til að ráða því hvernig málunum yrði háttað á okkar eigin landi, nú og til framtíðar. En hvað felst raun- verulega í því að vera fullvalda þjóð? Hvað þýðir það nákvæmlega og hvernig birtist það okkur hér á landi? Til að ná sem fyllstum skilningi á þýðingu orða og hugtaka finnst mér alltaf gott að kafa í merkingu þeirra til að átta mig nákvæmlega á því hvað felist í þeim. Hvað merkir eiginlega orðið fullveldi? Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur? Það vita sennilega flestallir hvað full- veldi þýðir en hver er birtingarmynd þess hér á landi? Eins og ég kom inn á áðan þýðir full- veldi í raun sjálfstæði. Það er skýringin sem orðabókin gefur mér. Ef við yfirfærum hug- takið fullveldi, táknrænt yfir á einstaklinginn, þá mæti líta svo á að í því felst að hafa fullt vald yfir málum sínum og að viðkomandi hafi getu til þess að móta líf sitt sjálfur og hafi tækifæri til að taka ákvarð- anir sem séu viðkomandi fyrir bestu. „Frelsi“ og „fullveldi“ eru orð sem við heyrum oft samhliða hvort öðru. Með því að hugsa um fullveldi á táknrænan hátt hefði mað- ur haldið að með fullveldinu gæti enginn tekið af ein- hverjum frelsið til að taka ákvarðanir um þau mál sem snerta hagsmuni viðkomandi. Eða þannig skil ég það allavega. En hvað gerist þegar þetta val hefur verið tekið af fólki? Þegar þú hefur ekki valdið til að taka ákvörðun sem er þér fyrir bestu? Þar sem þú neyðist til þess að sætta þig við óboðlegar aðstæður vegna utanaðkomandi kringumstæðna sem sjá um að taka valið fyrir þig. Því miður búum við í samfélagi þar sem hlutfallið á milli þeirra sem eiga mikla fjár- muni og þeirra sem eiga litla sem enga, fer sí- fellt vaxandi og margir búa við slæm efnahags- leg kjör. Í þeim sporum hafa einstaklingar því oft ekki vald til að móta líf sitt eftir eigin höfði. Því spyr ég; Hversu frjáls ertu þegar þú neyðist til að verja stærstum hluta ráðstöf- unartekna þinna í leigu á lítilli íbúð, því þú finnur ekkert á viðráðanlegu verði á leigu- markaðnum? Hversu frjáls ertu þegar allur þinn tími er undirlagður í vinnu, aukavinnu númer eitt og aukavinnu númer tvö, að við- bættum smásvefni inni á milli, til að eiga í þig og á, þar sem láglaunavinnustaðir landsins bjóða ekki upp á mannsæmandi laun fyrir fullt starf? Hversu frjáls ertu þegar þú neyðist til að sætta þig við ömurleg kjör sem lífeyrisþegi, því ríkisstjórn þjóðarinnar kemst upp með það að brjóta á mannréttindum öryrkja og eldri borgara ár eftir ár? Þá eru einstaklingar sviptir frelsinu til öruggs lífs, þegar rík þjóð hendir þeim sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi út í óvissuna því hún telur sig ekki færa um að taka á móti fleiri aðilum sem koma hingað til lands frá öðrum löndum til að skapa sér betra líf. Við virðumst oft ríghalda í þá ímynd að full- veldi þjóðarinnar skerðist á einhvern hátt og verði ógnað um leið og utanaðkomandi aðilar koma hingað til lands, þegar sannleikurinn er sá að fjölbreytnin er það sem auðgar sam- félagið okkar. Það er því ekki nema von að maður velti því fyrir sér fyrir hvern fullveldið sé og hvernig framtíð okkar fullvalda þjóðar muni líta út ef við höldum áfram á þessari braut. Braut þar sem lítill hluti þjóðarinnar, stjórnvöld, fjármagnseigendur og gróða- fyrirtæki hafa mest að segja um stefnumótun þjóðarinnar í málum sem viðkoma almenningi. Fullveldi; rétturinn og valdið til þess að stjórna sér sjálfur, án þess að utanaðkomandi aðilar eða stofnanir skipti sér þar af málum. Ég get ekki séð að hér ríki fullveldi fyrir alla, heldur virðumst við búa við fullveldi fárra. Fáir útvaldir sem hafa völdin til þess að móta líf allra hinna sem hér búa. Hér er mikilvægt að taka það fram að fullveldi er ekki það sama og lýðræði. Hér ríkir ekki sú lýðræðislega þjóðskipan þar sem ein rödd jafngildir einu at- kvæði, heldur virðist hér ein króna hafa eitt at- kvæði. Því fleiri krónur sem einstaklingur eða stofnun hefur til umráða því meiri völd til að móta stefnur sem hafa áhrif á almenning. Með nýfrjálshyggjunni sem ruddi sér til rúms í okkar sjálfstæðu þjóð á tíunda áratugnum fékk fjármagn aukið vægi á kostnað almenn- ings. Með aukinni einstaklingshyggju hefur áherslan færst yfir á það að hver aðili beri ábyrgð á sjálfum sér og við virðumst hafa misst sjónar á því að enginn er eyland, heldur erum við samfélag. Fögnum fullveldinu með samstöðu. Samstöðu sem berst fyrir fullveldi fjöldans með áherslu á valddreifingu og auk- inni lýðræðisvæðingu innan samfélagsins. SANNA MAGDALENA MÖRTUDÓTTIR, BORGARFULLTRÚI SÓSÍALISTAFLOKKSINS Fullveldi fjöldans, ekki aðeins hinna fáu Sanna Magdalena Mörtudóttir

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.