Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.12.2018, Side 17
30.12. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17
ég er frekar stór en maður finnur að á milli
þeirra ríkir jafningjasamband. Ilmur er nátt-
úrlega snilldarleikkona,“ segir hann.
„Annars er ég bara eins og aðrir, hlakka til
að sjá! Ég veit að þetta verður gott, með Balt-
asar þarna fremstan í flokki, hann hefur svo
mikinn metnað og er ósérhlífinn.“
Snjó sópað af Austurvelli
Aðspurður hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis
við tökur Ófærðar II þarf Ólafur Darri að
hugsa sig aðeins um.
„Jú, ég er með eina góða sögu. Sagan á að
gerast um haust en tökur voru frá hausti og yf-
ir á vetur. Það var eiginlega bara snjór á jörðu
frá október og fram í febrúar. Við áttum eftir
að taka nokrar stórar snjólausar útisenur, og
sérstaklega eina sem var skotin á Austurvelli.
Við vorum komin í þrot með það og niður-
staðan var að fresta tökum á senunni í mánuð.
Og auðvitað, íslenskt veður er dásamlegt, um
leið og þessi ákvörðun var tekin leysti snjó. Það
var enginn snjór í mánuð. Svo byrjuðum við að
skjóta í byrjun maí og hvað gerðist! Þá nátt-
úrulega byrjaði að snjóa. Menn voru að sópa
snjóinn af Austurvelli,“ segir hann og hlær.
„Við náðum ekki að klára síðustu senurnar
fyrr en í ágúst. Við erum ekkert þau einu sem
íslenskt veðurfar hefur strítt. Russell Crowe,
sem tók Noah hér á landi, sagði við Ben Stiller
áður en hann byrjaði tökur á The Secret Life
of Walter Mitty, „you have to dominate the
weather“. Þetta er það sem íslenskir kvik-
myndagerðarmenn þekkja mjög vel. Það er
aldrei hægt að treysta á íslenska veðrið. Það er
ekkert til sem heitir „dominate“ þegar kemur
að því.“
Þú kynntist Ben Stiller við tökur á þeirri
mynd. Eruð þið í einhverju sambandi?
„Já, við reynum að hittast þegar ég er í New
York og hittumst nú síðast í haust,“ segir hann
og hálfafsakar sig fyrir að „namedroppa“ eins
og það kallast. Blaðamaður sleppir honum
samt ekkert alveg.
Er Stiller skemmtilegur?
„Já, hann er frábær manneskja og hefur
reynst mér mjög vel síðan við lékum saman í
Walter Mitty. Ég lék líka hjá honum í Zoo-
lander 2. Það stóð til að ég myndi leika lítið
hlutverk í frábæru nýju sjónvarpsseríunni
hans, Escape at Dannemora, en ég gat það
ekki af því að ég var að leika í Ófærð,“ segir
hann. „Það er ekki hægt að gera allt. Þó að
mann langi það yfirleitt.“
Dæturnar alsælar í svítu
Það styttist í hátíðirnar þegar viðtalið er tekið
og Ólafur Darri aðeins búinn að vera um sólar-
hring á landinu. Það þarf að fara að leyfa
manninum að sinna fjölskyldunni eftir langa
fjarveru og njóta jólanna. Hann segir það hafa
verið yndislegt að koma heim til konunnar og
knúsa stelpurnar sínar, sem eru fjögurra og
átta ára gamlar. Hann nefnir að stuðningurinn
frá frábærri stórfjölskyldu geri honum kleift
að sinna starfi sínu jafn vel og hann gerir.
„En auðvitað kostar þetta fórnir, sérstak-
lega frá konunni minni sem er sjálf magnaður
listamaður og dansari. Það hefur verið mjög
mikið álag á henni að púsla og láta allt ganga
upp hér heima samhliða sinni vinnu á meðan
ég er erlendis. Það þarf sérstaka manneskju til
þess að þetta gangi upp og ég er mjög þakk-
látur og lánsamur þegar kemur að konunni
minni,“ segir hann.
Ólafur Darri fékk fjölskylduna í heimsókn
til sín erlendis þegar tækifæri gafst og gat það
verið afskaplega spennandi fyrir litlar stúlkur.
„Þær komu þegar ég var í tökum af Murder
Mystery í Montreal og voru hjá mér í þrjár
vikur,“ segir Ólafur Darri og segir frá því að
þar hafði verið leigð íbúð fyrir hann með það
fyrir augum að fjölskyldan gæti komið og dval-
ið hjá honum.
„Íbúðin var ekki nógu hugguleg og ég er nú
ekki vanur að kvarta en var ekki spenntur að
fá fjölskylduna þangað. Þessu var svo sann-
arlega kippt í liðinn og við enduðum á svítu á
fimm stjörnu hóteli í miðborg Montreal. Það
sem var svo sjúklega fyndið var að þarna vor-
um við í þrjár vikur með dætur okkar sem
voru eins og blómi í eggi með fólk sem þjónaði
þeim á alla kanta. Við vorum alltaf að reyna að
segja við þær: „Elskurnar mínar, þetta er ekki
eins og lífið er! Við höfum ekki efni á svona,
þetta verður ekki svona alltaf!““ segir hann og
skellihlær.
Við förum að slá botninn í spjallið en for-
vitnilegt er að heyra að lokum hvað sé fram-
undan á nýju ári.
„Efst á listanum er gott frí með fjölskyld-
unni eftir langa vinnutörn. Annars mun ég
leika í nýrri seríu fyrir Sagafilm, Ráðherrann.
Tökur hefjast á næsta ári. Svo er ég að fara að
lesa inn á nýja seríu fyrir Netflix sem heitir
The Dark Crystal sem er brúðuleikarasería.
Svo heldur NOS4AT2 vonandi áfram og Balt-
asar var eitthvað að tala um Ófærð III um
daginn. Það er sumsé byrjað að pæla í næstu
seríu en þetta tekur auðvitað langan tíma og
fjármögnunin er erfið því þetta er svakalega
dýrt í framleiðslu. En ef Ófærð II gengur vel,
sem allt stefnir í, verður það auðveldara,“
segir hann.
„Við Ilmur, ásamt fjölda annarra leikara,
erum líka í tveggja ára samstarfi við Íslands-
banka vegna Reykjavíkurmaraþonsins sem
mun halda áfram á næsta ári. Góðgerðarmál
hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið og
það eru forréttindi að fá tækifæri til að leggja
þeim lið,“ segir hann.
„Annars vona ég bara að ég fái áfram að
glíma við ólík og áhugaverð hlutverk sem ögra
mér og upplifa þakklæti fyrir þau tækifæri
sem bjóðast.“
Þetta áttu að vera lokaorð viðtalsins. Það
varð ekki. Þar sem við stöndum upp frá borð-
inu vindur kona nokkur sér að Ólafi Darra.
Hún hafði fengið forskot á sæluna og séð
fyrstu tvo þætti Ófærðar II í bíó kvöldinu áður
og vill þakka honum. Miðað við orð hennar á
þjóðin eftir að eiga góðar stundir í skammdeg-
inu yfir sjónvarpinu, að fylgjast með Andra og
Hinriku og öllum hinum í Ófærð.
„Til hamingju með sýninguna í gær, svaka-
lega flott! Ég er enn með gæsahúð!“
Ólafur Darri ljómar.
„Takk! Þakka þér kærlega fyrir að segja
þetta, en gaman!“
Morgunblaðið/Ásdís
Ólafur Darri lék með Ben Stiller í The Secret Life of Walter Mitty og tókst með þeim góður vin-
skapur sem haldist hefur síðan. Þeir hittast við tækifæri þegar Ólafur Darri er í New York.
„Ég hef stundum sagt að uppáhaldsaugnablikin mín í Ófærð I, þegar ég horfði á hana, voru þessi
samskipti á milli Hinriku og Andra, og Andra og Ásgeirs,“ segir Ólafur Darri, en hann leikur á móti
Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari Sigurðssyni í Ófærð.
Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir