Morgunblaðið - 12.03.2019, Side 22

Morgunblaðið - 12.03.2019, Side 22
22 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. MARS 2019 lítilli birtu og óbærilegri líðan ill- vígs sjúkdóms og lyfja sem taka allt. Bæn um ljósið og friðinn. Það var svo gott að sjá orð elsku Möggu Stínu um hvernig hann var umvafinn friði og birtu þegar hann hafði kvatt. Ég hélt samt og vonaði að hann risi upp eins og fuglinn Fönix úr veikindunum. Hann hafði svo oft gert það. Í þökk og virðingu kveð ég þig, góði vinur í hálfa öld. Það er tómt eftir þig. Minningarnar eru góðar og fallegar. Elsku Jóhanna, Magga Stína og fjölskylda. Sorgin ykkar og missirinn er mikill. Guð styrki ykkur og huggi í sorg og söknuði. Bænin hans Didda um ljós og frið umvefji ykkur. Blessuð sé minn- ing hans. Halla. Kveðja frá Hinu íslenska biblíufélagi Með fráfalli sr. Sigurðar Páls- sonar hefur elsta félag landsins, Biblíufélagið, misst traustan og góðan félaga. Sigurður var fram- kvæmdastjóri félagsins á árunum 1990 til 1997 og sat í stjórn þess frá árinu 1998 til ársins 2012. Á stjórnarárum hans í félaginu var unnið að stóru verkefni, nýrri þýð- ingu Biblíunnar á íslensku. Það var margra ára vinna og átti Sig- urður sæti í þýðingarnefnd Gamla testamentisins um 17 ára skeið, frá 1990 til 2007 þegar Biblía 21. aldarinnar var gefin út. Í prédikun sinni á Biblíudaginn árið 2006 sagði sr. Sigurður: „Þeir sem sá ráða hvorki vexti eða ávöxtum. Þeirra skylda, eða öllu heldur forréttindi, er að sá, það er Guð sem gefur vöxtinn. En vilji enginn sá, sprettur ekkert. Hvernig viljum við sjá framtíðina fyrir okkur? Er okkur sama hvort kristin trú lognist útaf á meðal okkar vegna skeytingarleysis eða erum við tilbúin að sá, hvar sem við erum. Það er hægt að eiga sér staðfasta trúarsannfæringu en sýna jafnframt umburðarlyndi gagnvart sannfæringu annarra. Það er hægt að vitna um og boða trú sína án þess að meina öðrum að gera hið sama. Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Með þessum orðum hófst sáningar- starf sem borið hefur ávöxt um víða veröld í tvö þúsund ár, þrátt fyrir fyrirlitningu, andróður og of- sóknir, vegna þess að fjöldi sáð- manna hefur hlýtt þessum orðum Jesú Krists. Þessir sáðmenn hafa talið erindi Jesú Krists mikilvæg- ara en öll önnur erindi, talið að mikilvægara sé að setja von sína í lífi og dauða á hann en nokkurn annan. Farið um allan heim, skírið og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Þau boð finnum við í bókinni sem þessi dagur er helgaður.“ Fyrir mikilsvert framlag sitt í Biblíufélaginu var Sigurður gerð- ur að heiðursfélaga árið 2015 á 200 ára afmæli félagsins. Góður félagi er fallinn frá. Stjórn Hins íslenska biblíufélags vottar Jóhönnu eiginkonu hans og fjölskyldunni allri samúð sína og biður þeim huggunar í harmi. Agnes M. Sigurðardóttir, forseti Hins íslenska biblíufélags. „Mínum Drottni til þakklætis“ var það heiti sem dr. Sigurður Pálsson valdi bók sinni um Sögu Hallgrímskirkju (2015), þeirri kirkju sem hann unni svo mjög. Orðin gætu allt eins staðið sem yf- irskrift ævistarfs Sigurðar. Allt var það unnið og starfað í sama anda, ótrúlega mikið og fjölbreyti- legt starf á vettvangi kirkju og kristinnar boðunar, kennslu og fræðslu ungra sem aldinna, „Drottni til þakklætis“. Það breytir því ekki að Sigurð- ur lagði áherslu á að sú hlið sem harmsálmar Saltarans tjá, þ.e. angist og harm, hefði verið van- rækt í trúarlífi kirkjunnar. Sjálfur orti hann meðvitað í stíl harmsál- manna fallegan, persónulegan og sársaukafullan sálm er hann nefndi „Ákall.“ Tilefni sálmsins var afar erfið og sár reynsla af dótturmissi árið 1990, sem hann sagðist aldrei hafa komist yfir. Sigurður var svo elskulegur að leyfa mér að birta þann sálm í bók minni Áhrifasaga Saltarans (2014) og þar tjáði hann sig opinskátt og einlæglega um hið sársaukafulla tilefni. Lokaerindið var í formi bænar: Guð, sefaðu svíðandi hjarta að sjái ég ljósið þitt bjarta og gef mér þinn græðandi frið. Sigurður sýndi mér margvís- lega vinsemd og margar eru þær bækur sem hann hefur gefið mér. Við unnum saman í þýðingar- nefnd Gamla testamentisins öll þau sextán ár sem það starf stóð. Hann var fyrst ritari nefndarinn- ar en fljótlega varð próf. Þórir Kr. Þórðarson að láta af störfum vegna veikinda. Var þá ákveðið að fjölga ekki í nefndinni heldur að ritarinn tæki sæti Þóris. Það var gæfuspor því að þar reynist Sig- urður traustur og góður liðsmað- ur. Nokkru eftir að þýðingarstarf- inu lauk hafði Sigurður samband við okkur dr. Guðrúnu Kvaran og sagðist sakna samfunda. Það varð til þess að við tókum okkur fyrir hendur að vinna saman að rann- sókn á stíl Viðeyjarbiblíu sem við höfðum öll mætur á. Þegar því var lokið héldum við áfram að hittast af og til í hádegisverði á Hótel Sögu eða Norræna húsinu til að rifja upp kynnin. Jafnan var það Sigurður sem boðaði til þeirra funda. Nú var nokkuð um liðið frá því að frá honum hafði heyrst en skýringin hryggilega kom svo á dögunum. Hans verður sárt sakn- að, en ég vil trúa að nú hafi hann öðlast hinn „græðandi frið“. Ég verð erlendis á útfarardegi Sigurðar vinar míns, staddur í námsleyfi í hinni helgu borg Jerú- salem, en hyggst gera mér ferð að grátmúrnum og minnast hans þar. Ég votta Jóhönnu G. Möller, eiginkonu Sigurðar, samúð mína sem og ástvinum þeirra öllum. Megi Guð blessa þau og styrkja í sorginni. Gunnlaugur A. Jónsson. Kveðja frá KFUM og KFUK Fyrir tæpum tveimur árum var sr. Sigurður Pálsson lýstur heið- ursfélagi KFUM og KFUK á Ís- landi. Við það tækifæri var lesið úr Orðskviðunum 22:6 en þar segir: „Fræð hinn unga um veginn sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ Í tvennum skilningi er þetta ritn- ingarvers yfirskrift yfir lífi Sig- urðar. Annars vegar ólst hann upp í rækt kristinnar trúar og vissi af nálægð Guðs áður en hann mundi eftir sjálfum sér eins og hann komst stundum að orði. Ævilangt gekk hann veg trúarinnar, einnig þegar sú leið varð torfær í erfið- leikum og áföllum lífsins. Hins vegar snerist lífsstarf hans og köllun um að miðla trúnni til upp- vaxandi kynslóðar hverju sinni. Í því efni unni hann sér aldrei hvíld- ar. Sigurður fæddist inn í KFUM og KFUK því foreldrar hans tóku virkan þátt í félagsstarfinu. Stór- an hluta ævinnar gerði hann það einnig og gegndi gjarnan ábyrgð- arstörfum enda vel til slíks fallinn. Ungur varð hann leiðtogi í æsku- lýðsstarfi félagsins. Árið 1978 varð hann formaður KFUM í Reykjavík. Með þeirri skipan voru staðfest kynslóðaskipti í fram- varðasveit félagsins. Vissulega var hann sjálfur kominn yfir fer- tugt en hafði sterk tengsl við yngra félagsfólk, alveg niður í unglinga. Þar naut Sigurður góðs af því að hafa verið eldri fulltrúi í stjórn Kristilegra skólasamtaka (KSS) í 14 ár, oft komið á KSS- fundi og tók ásamt Jóhönnu eig- inkonu sinni iðulega þátt í kristi- legum skólamótum. Jafnframt hafði hann stjórnað Æskulýðskór KFUM og KFUK í sex ár. Í öllum þessum trúnaðarstörf- um var hann bæði samviskusamur og sanngjarn, tók verkefnin föst- um tökum og reyndist samstarfs- fólki sínu góð fyrirmynd. Fræðsla var hans hjartans mál. Hann var sannfærður um gildi þess að upp- fræða börn og unglinga í kristinni trú. Jafnframt lagði hann áherslu á að styrkja grundvöll kristins leikfólks með aukinni fræðslu. Sigurður var óspar á tíma og krafta í þágu fagnaðarerindisins. Sem prédikari og fræðari var hann alltaf mjög vel undirbúinn og gaf mikið af sér. Fyrir nokkrum árum hélt hann eftirminnilega hugvekju á aðventufundi AD KFUM og KFUK. Þar brýndi hann okkur til að vaka á verði og láta ekki deigan síga heldur miðla boðskap kristinnar trúar inn í samtíðina og til uppvaxandi kyn- slóðar. Það er hlutverk KFUM og KFUK. Persónulega naut ég þess að hafa Sigurð sem kennara í kristn- um fræðum við Kennaraháskóla Íslands. Hann var eftirminnilegur kennari, enda hafði hann brenn- andi áhuga á stöðu kristinna fræða innan skólakerfisins og brýndi okkur nemendur sína til að standa vörð um þau á faglegum grunni. Félagar í KFUM og KFUK þakka fyrir líf Sigurðar Pálssonar, fyrirmynd hans og allt sem hann lagði af mörkum öðrum til heilla. Innilegar samúðarkveðjur til Jó- hönnu og fjölskyldunnar. F.h. KFUM og KFUK á Ís- landi, Helgi Gíslason, formaður. Dáinn er hinn glæsilegi séra og doktor Sigurður Pálsson, fyrir aldur fram. Er tilfinnanleg eft- irsjá að þessum frækna menning- arstólpa fyrir okkur hitt mennta- fólkið. Við Sigurður kynntumst fyrir nokkrum árum í blönduðum kór. Var hann þar ásamt konu sinni að syngja með okkur. Einnig heyrði ég hann messa, og snart það mig þá sem hann hafði að segja um kennarafortíð sína. Hann hafði mætur á alnafna sínum, Sigurði Pálssyni, og bland- aði ég honum síðan gjarnan í tal okkar. Þegar ég hitti svo séra Sig- urð síðast, komandi úr messu, komst ég svo að orði að nú væri hann orðinn eini Sigurður Páls- soninn! Játti hann því nú óðara. Séra Sigurður keypti eina ljóðabók af mér. Lét hann síðar svo ummælt að efnið hefði verið merkilega fjölbreytt og skapandi, sem hann hefði kunnað að meta. Mér þykir því við hæfi að kveðja hann nú með slíku ljóði mínu, en það heitir: Seifur og Ása-Þór ræða málin. Þar yrki ég m.a. svo: … Þá sá Seifur eins og eldingarsýn í augum frænda síns norræna, er sagði: „Hver veit nema Rómverjar hafi komið þar á milli okkar og nútímans: er ítalski keisarinn Konstantínus sá krossmarkið í sólunni fyrir úrslita- orrustuna; er hann túlkaði þá sem friðarmerki hins íranska sláturguðs Mýþra; þótt móðir hans kristna hafi svo leiðrétt þetta fyrir honum er hann hafði unnið Rómaveldi; og lögleiddi þar seinna kristnina?“ … „Þó mun raunin að krossmynd var fyrir sem gunnfánatákn Rómaveld- is; og að ef menn horfa beint í sólu sjá þeir alltaf eitthvert krossmynstur! En grillti þar þó fyrst í evrópska friðinn?“ Tryggvi V. Líndal. Sigurður Pálsson ✝ KristrúnGrímsdóttir fæddist 3. júlí 1931 á Grundum í Kolls- vík í Rauðasands- hreppi. Hún lést 2. mars 2019 á Land- spítalanum í Foss- vogi. Foreldrar henn- ar voru hjónin María Jónsdóttir húsmóðir, f. 11.4. 1893. d. 1.11. 1946, og Grímur Árnason útvegsbóndi, f. 30.11. 1891, d. 2.1. 1972. Kristrún var áttunda í röðinni af tíu syst- kinum. Þau eru Ólína Sigríður, f. 19.7. 1920, d. 1934, Hrefna, f. 22.9. 1921, d. 15.2. 1924, Guðrún Beta, f. 25.5. 1923, d. 17.2. 2019, Arngerður Jóhanna, f. 13.6. 1925, Guðmundur Bjarni, f. 21.10. 1926, d. 21.1. 2001, Rakel, f. 25.6. 1928, d. 18.7. 2016, Elín Gréta, f. 3.1. 1930, Sólveig, f. 20.1. 1933, og Ósk- ar Veturliði, f. 11.4. 1934. Kristrún fluttist til Guðrúnar systur sinnar og Einars T. Guðbjartssonar, þegar heimilið að Grundum leystist upp í kjölfar þess að Grímur faðir þeirra veiktist af berklum og fór á Vífilsstaði. Þegar þau bjuggu í Súðavík ól hún dóttur, Maríu Jónu, f. 13.2. 1953, barnsfaðir: Stefán Vilhjálmsson. María ólst upp hjá Guðrúnu og Einari og ættleiddu þau hana, hún á fjög- ur börn. Eiginmaður hennar er: Hreggviður Hreggviðsson, f. 14.2. 1951. Kristrún giftist Ottó Svavari Viktorssyni, f. 5.10. 1927, þau skildu. Börn þeirra: Hallgrímur Árni, f. 24.4. 1955, hann á fjögur börn, eiginkona hans er Ástrós Gunnarsdóttir, f. 4.12. 1959, Jón Viktor, f. 16.11. 1960, d. 9.11. 1964, Kristín Guðný, f. 7.3. 1963, hún á fimm börn, Viktoría Eyrún, f. 13.2. 1965, hún á tvö börn, Valgerður Ósk, f. 9.7. 1967, hún á tvo syni. Börn Kristrúnar og Axels Kvar- an, f. 7.1. 1932, eru: Kolbrún, f. 14.3. 1970, hún á tvær dætur, eiginmaður hennar er Kristinn Brynjar Bjarnason, f. 10.11. 1966, og Jón Rúnar, f. 9.2. 1975, hann á þrjú börn, eiginkona hans er: Helga Valgerður Skúladóttir, f. 25.11. 1977. Eiginmaður Kristrúnar er Brynjólfur Kristinsson, f. 9.2. 1933. Hann á þrjú börn af fyrra hjónabandi. Ömmubörnin eru 22 og langömmubörnin 22. Kristrún vann á sínum yngri árum á Kleppspítalanum. Aðal- starf hennar var húsmóður- starfið. Þegar börnin voru orðin eldri vann hún ýmis störf utan heimilis, s.s. í Sjálfstæðishúsinu og á Hótel Borg. Hin seinni ár átti hún við heilsuleysi að stríða. Útför Kristrúnar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 12. mars 2019, klukkan 13. Hvernig á ég að takast á við að skrifa um mæður mínar tvær með tveggja vikna millibili? En það er samt ekkert annað í boði. Hún Rúna, blóðmóðir mín, átti heimili hjá systur sinni Guðrúnu þegar heimili foreldra þeirra leystist upp vegna veikinda föður þeirra. Rúna þá 13 ára. Gunna systir hennar leit alltaf eftir yngri systur sinni. Rúna eignað- ist mig hjá henni og manni henn- ar Einari Tómasi Guðbjartssyni og atvikaðist það svo, að þegar Rúna hélt til Reykjavíkur með Ottó, unnusta sínum, þá varð ég eftir og ólst upp hjá þeim og ætt- leiddu þau mig. En alltaf var gott samband við Rúnu og systkini mín. Þegar ég var sjálf orðin móðir skildi ég fyrst hversu erfitt það hlýtur að hafa verið að skilja frumburðinn sinn eftir hjá systur sinni, þó svo ég hafi búið við mjög gott atlæti. Hún leit auðvitað allt- af á mig sem dóttur sína og börn- in mín bjuggu við það ríkidæmi að eiga tvær ömmur og maðurinn minn tvær tengdamömmur. Sjálfsagt hefur hún oft hugsað hvernig lífið hefði orðið ef hún hefði eignast heimili með blóðföð- ur mínum og haft mig hjá sér. Já, það skiptir máli hvert spor sem stigið er og í hvaða átt er haldið. Við vitum aldrei hvar við endum, þegar lagt er upp í ferð. Rúna ræddi aldrei þessa lífs- reynslu sína við mig og ekki við marga. Ég veit að hún ætlaði að gera það, en rétta stundin kom ekki. Hún mátti reyna margt erf- itt í lífinu, s.s. þegar heimilið leystist upp og systkinunum var komið fyrir á bæjum í sveitinni. Þrátt fyrir það held ég að það sé leitun að jafn samheldnum syst- kinum. En án efa var hennar erf- iðasta lífsreynsla þegar hún missti Jón Viktor sinn, rétt tæp- lega fjögurra ára gamlan, af slys- förum. Hún komst aldrei yfir þann missi, ekki frekar en nokk- urt foreldri sem missir barn. Hann hefur án efa tekið á móti henni og hún þrýst honum í fang sér, eins og hún gerði við okkur öll afkomendur sína og tengda- börn. Nú hefur hún verið leyst öllum þrautunum frá og svífur um með- al horfinna ættingja. Og Gunna systir örugglega búin að undir- búa komu hennar, þar sem hún fór 13 dögum fyrr. Það er und- arlegt að missa báðar mæður sín- ar með svo stuttu millibili. En kannski ekki, þar sem ég, strax við fæðingu, eignaðist tvær mæð- ur. Þín dóttir, María Jóna Einarsdóttir. Það er skrýtin tilfinning að missa tvær tengdamæður með hálfs mánaðar millibili, hvað þá fyrir Maríu Jónu eiginkonu mína að missa tvær mæður á sama tíma. Þær systurnar Kristrún og Guðrún Beta voru vissulega komnar við aldur, en viðbrigðin fyrir okkur hin engu að síður skrítin upplifun. Þær systur voru nánar, en ólíkar engu að síður. Ef nota má líkingamál úr Kollsvík- inni sunnanvert við Blakksnesið, þá var Guðrún eins og klettarnir eða skerin þar – semsagt stað- festa, en Kristrún eða Rúna eins og sandurinn – mjúki og fallegi í víkinni. Það má segja að Rúna hafi flogið frekar í seinna lagi úr hreiðri þeirra systra, því hún sem var átta árum yngri var undir verndarvæng Guðrúnar og Ein- ars heitins, eiginmanns Guðrún- ar. Lífið var erfitt á þessum ein- angraða stað, kjörin kröpp og systkinahópurinn stór. En sam- staðan var sterk og þau sem kom- ust til fullorðinsára hafa reynst traust og gott fólk, heiðarlegt, vinnusamt og samstillt, þrátt fyr- ir vestfirsku þvermóðskuna. Allt- af hefur þó verið stutt í grínið hjá þeim og vestfirska glottið. Rúna hafði alla þessa góðu mannkosti, auk alveg sérstakrar hlýju og nærgætni. Bros og faðmlag sem var engu líkt og maður gleymir aldrei. Forrétt- indi að fá að kynnast henni og vera henni náinn. Eftir að leiðir Rúnu og Otta, þess góða og prúða manns, lágu hvor í sína áttina og eftir að hafa komið upp og eignast fallegan og góðan barnahóp, þá kynntist Rúna Binna og áttu þau farsæl ár. Binni kletturinn og mýktin í senn og Rúna einnig gædd mikilli mýkt og mannlegu innsæi. Á heimili þeirra þótti okkur fjöl- skyldunni eins og öðrum gott að koma. Þar hefur verið tekið á móti öllum eins og hver og einn sé sérstakur og mun það verða þannig áfram hjá Binna sem saknar Rúnu sinnar sárt. Á hlýju og fallegu heimili þeirra hefur margt verið rætt, en ætíð höfð aðgát í nærveru sálar. Það er eftirsjá að Rúnu, en nú hefur góður Guð, almættið, tekið á móti henni og búið henni stað við hlið Gunnu systur sinnar, sem mun áfram líta eftir Rúnu litlu systur sinni. Guð blessi þær systur. Missir þeirra verður mörgum okkar hinna erfiður. Hann varðveiti og leiði Binna og börn hennar. Hreggviður Hreggviðsson. Nú hefur elsku Rúna amma kvatt þessa jarðvist, 87 ára að aldri. Það er vissulega skrýtið að þær systurnar, móðurömmur mínar, skyldu fara með aðeins 13 daga millibili. Þær virðast hafa viljað vera samferða yfir þarna hinum megin. Kannski ekki skrýtið þó, þar sem þær voru allt- af mjög nánar (eins og þau reynd- ar öll systkinin) og Gunna amma var vön að passa upp á Rúnu litlu systur sína. Það er með miklum söknuði sem ég kveð ömmur mínar sem báðar voru virkilega góðar ömmur. Gunna amma svo mikill prakkari og fyndin og Rúna amma alltaf svo hlýleg og blíð. Þær systurnar voru býsna ólíkar, en að mínu mati áttu þær það að minnsta kosti sameiginlegt að vera afar góðar ömmur, miklir dýravinir, léttar í lundu og með ágætan skammt af hinni svoköll- uðu „vestfirsku þrjósku“. Ég hef oft hugsað til þess hversu heppin ég hef verið að eiga tvær ömmur móðurmegin – Guðrúnu Betu kjörmóður mömmu og Kristrúnu blóðmóður mömmu, sér í lagi þar sem ég missti af að kynnast föðurömmu minni og nöfnu sem dó þegar ég var bara á fyrsta árinu. Þá hafa þetta verið sérstök forréttindi. Mér verður alltaf minnisstætt hlýtt, mjúkt og traust faðmlag Rúnu ömmu og hvernig hún hvíslaði alltaf svo fallegum orðum að manni þegar hún faðmaði mann. Hún ætlaði aldrei að sleppa manni þegar maður kvaddi hana og lét manni alltaf finnast sem maður væri alveg sérstakur. Það er ég viss um að frændsystkini mín og fleiri geta tekið í sama streng. Svona var Rúna amma alltaf notaleg við alla. Hún hafði líka mikið dálæti á dýrum, sér í lagi köttum og hundum og minntist hún ósjaldan með söknuði fram- liðinna fjórfættra loðinna vina sinna. Lífið hjá Rúnu ömmu var ekki alltaf dans á rósum og glímurnar ófáar sem hún þurfti að heyja. Því var stundum slegið fram í fjölskyldunni að hún hefði níu líf eins og kettirnir. Samt sem áður, þrátt fyrir þá erfiðleika sem hún þurfti að ganga í gegnum á lífs- leið sinni, var Rúna amma afar glaðleg, jákvæð og bjartsýn manneskja og sérlega skapgóð. Hún hafði líka gott lag á því að stappa í mann stálinu og vekja bjartsýni með manni með já- kvæðum spádómum um framtíð- ina. Elsku Rúna amma, líkt og þú kvaddir mig í lok hverrar sam- verustundar sem við áttum með fallegum orðum og jákvæðri spá, langar mig að reyna að kveðja þig nú með svipuðum hætti: Hvíl í friði, elsku amma. Ég veit að nú ertu laus allra þjáninga og ég veit að Jón Viktor þinn, systkini þín heitin fimm og fleiri ástvinir munu taka vel á móti þér. Ég finn það á mér. Það er alltaf, líkt og þú sagðir, sterkur strengur á milli okkar og hann mun aldrei slitna. Þín ömmustelpa, Sesselja Hreggviðsdóttir. Kristrún Grímsdóttir

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.