Morgunblaðið - 12.03.2019, Blaðsíða 23

Morgunblaðið - 12.03.2019, Blaðsíða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. MARS 2019 ✝ Sigrún EddaHringsdóttir fæddist á Akranesi 15. febrúar 1958. Hún lést á sjúkra- húsi á Spáni 23. febrúar 2019. Foreldrar henn- ar voru Hringur Hjörleifsson, f. 30. júní 1933, d. 30. janúar 2007, og Sigrún Halldórs- dóttir, f. 30. janúar 1934, d. 21. júní 2012. Systkini Eddu eru: Halldór Gunnar, f. 13. júlí 1951, d. 24. mars 2007; Guðbjörg, f. 4. febr- úar 1955, gift Páli Guðmunds- syni; Hjörleifur, f. 18. mars 1956, giftur Elínu Baldurs- dóttur; Hinrik, f. 20. ágúst 1959, giftur Ingibjörgu Þráins- dóttur; og Gunnjóna Sigrún, hálfsystir samfeðra, f. 28. febr- úar 1954, gift Jón- asi Sigurðssyni. Edda giftist 3. júlí 1976 Hafsteini Jónssyni, f. 16. mars 1950. For- eldrar hans eru Jón Hansson, f. 4. júlí 1928, d. 14. september 2001, og Guðmunda Hjart- ardóttir, f. 7. nóv- ember 1931. Börn Eddu og Hafsteins eru: 1) Sigrún, f. 13. október 1975, eiginmaður hennar er Guð- mundur Andri Bergmann, f. 19. apríl 1971. Dætur þeirra eru Ása María, f. 3. desember 2001, og Andrea Bergmann, f. 25 nóvember 2008. 2) María, f. 12. október 1979, eiginmaður hennar er Björn Ingimundar- son, f. 24. október 1979. Synir þeirra eru Magnús Ari, f. 25. maí 2002, Hringur, f. 29. júní 2006, og Logi Hrafn, f. 24. júní 2016. 3) Hermann, f. 2. júlí 1986. Edda ólst upp á Flateyri en flutti með foreldrum sínum árið 1972 til Grundarfjarðar, þar sem hún fór fljótlega að vinna í fiski og við afgreiðslustörf. Á Grundarfirði hófst sambúð þeirra Hafsteins og þar eign- uðust þau dætur sínar. Síðar fluttu þau á Rif, þar sem sonur- inn bættist í hópinn. Árið 1988 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, þar sem Edda stundaði tölvu- og bókhalds- nám, og samhliða vinnu bætti hún síðar við sig námi við Endurmenntun Háskóla Ís- lands. Edda starfaði lengst af við bókhald og skrifstofustörf, fyrst hjá Fiskkaupum og síðar sem aðalbókari Seltjarnarnes- bæjar. Þá vann hún sem ráð- gjafi hjá tölvufyrirtækinu Mari- tech og síðast starfaði hún í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Útför Eddu fer fram frá Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 12. mars 2019, klukkan 13. Elsku Edda mín, það er þungt að setjast niður og rita minning- argrein um þig. Í 45 ár gengum við saman þennan lífsins veg. Er ég lít til baka finnst mér þetta hafa verið góður vegur, einhverj- ar brekkur, eins og gengur og gerist. En þetta var aldrei neitt mál. Að ganga með þér í gegnum lífið var bara yndislegt. Þú varst alltaf svo kát og glöð, alltaf bros- andi. Þú varst á 17. ári er við byrjuðum að búa, það var heldur ekkert mál fyrir þig. Þú varst aldrei í neinum vanda með að út- búa góðan mat fyrir fjölskylduna, veislur voru hristar fram úr erm- inni. Hver hélt upp stuðinu í fjöl- skylduboðunum? Að sjálfsögðu þú, og öll uppátækin sem þér datt í hug og allir gátu hlegið að. Hin árlegu bingó sem þú stjórnaðir gerðu mikla lukku. Þegar við vor- um stödd erlendis leitaðir þú að búðum sem seldu eitthvað snið- ugt í bingóvinningana því vinn- ingarnir áttu að vekja gleði og kátínu. Er við byggðum okkur sumar- hús í Borgarfirði fannst þér gam- an að skipuleggja í kringum bú- staðinn í landinu okkar, þú varst ótrúlega nösk á hvernig hlutirnir áttu að vera, algjör smekkmann- eskja. Þegar ég þurfti að breyta eða laga eitthvað í bústaðnum eða heima hjá okkur bar ég allt undir þig því þú vissir nákvæmlega hvernig hlutirnir áttu að vera. Í nýja húsinu okkar í Hvera- gerði var nýtt blöndunartæki í eldhúsinu, þú varst óánægð með þetta tæki svo það var bara farið og keypt nýtt og betra tæki. Þetta lýsir þér, hlutirnir eiga að vera í góðu lagi og virka. Þú vildir að fjölskyldan okkar væri vel til fara, alltaf snyrtileg. Skór voru í miklu uppáhaldi hjá þér, ég fékk stundum að heyra það: „Haf- steinn minn þú þarft að þrífa skóna þína.“ Sólarlandaferðir voru farnar stundum oft á ári. Vegna veikinda þinna fannst þér gott að vera í sól og hita. Nú í febrúar ákváðum við að vera tvo mánuði á Spáni, en því miður gripu örlögin inn í og lést þú hinn 23. febrúar eftir skamm- vinn veikindi. Þú sást alltaf um að pakka niður í töskur fyrir okkur bæði, kvöldið fyrir brottför sagðir þú: „Hafsteinn minn, þú mátt loka töskunum“ og það gleymdist aldrei neitt. Allt skipulag hjá þér var til fyrirmyndar. Ég gæti skrifað miklu meira um þig, elsku Edda mín. En nú vil ég bara að lokum þakka þér fyrir öll þessi ár sem við áttum saman. Brosið þitt og húmorinn eiga eftir að ylja mér um hjartarætur um ókomin ár. Lofa að bursta skóna mína oftar. Hafsteinn Jónsson. Elsku mamma, hver hefði trú- að því að Spánarferð ykkar pabba yrði þín hinsta ferð? Eftir sitjum við og eigum bágt með að trúa því sem gerðist en verðum samt að horfast í augu við þessi grimmu örlög. Ferð sem átti að verða yndisleg tveggja mánaða dvöl í sólinni breyttist fljótt í martröð. Við systur ætluðum að heim- sækja ykkur í mars og var til- hlökkunin mikil. Áætlanir um gæðastundir, verslunarferðir og skoðunarferðir um sveitir Spánar urðu að engu. Í stað þess þurftum við að flýta ferð okkar og styðja pabba í að vera með þér þína síð- ustu daga. Alltaf héldum við í vonina um að þú myndir ná bata en lífið er svo sannarlega óút- reiknanlegt og er þessi lífs- reynsla átakanleg áminning um það. Á stundum sem þessum leitar hugurinn til baka og minningarn- ar hrannast upp. Æskan á Snæ- fellsnesi sem er okkur svo kær. Flutningur í borgina sem leiddi af sér ný tækifæri og nýja lífssýn. Við systkinin uxum úr grasi og héldum okkar leið. Völdum ólíkar leiðir í lífinu en alltaf var hægt að treysta á stuðning ykkar pabba. Koma barnabarnanna fyllti líf ykkar af gleði og hlutverk ömmu og afa fóru ykkur vel. Þú barst hag barna þinna ávallt fyrir brjósti og þú elskaðir barnabörn- in þín fimm og þau elskuðu hressu, fyndnu, elskulegu Eddu ömmu. Mamma, þú varst alltaf svo hress, svo mikill gleðigjafi í lífi svo margra, og þá helst í lífi þinna nánustu. Hversu oft vorum við næstum búin að pissa í buxurnar af hlátri út af alls kyns minning- um, sem oft voru tengdar elsku pabba. Pabbi hafði sem betur fer húmor fyrir þessu öllu saman. Þannig leið okkur best, þar sem var glatt á hjalla og hláturinn réð ríkjum. Þið pabbi voruð góðar fyrirmyndir, samheldin í lífinu og gerðuð svo margt saman. Nokk- uð sem við munum hafa að leiðar- ljósi í okkar hjónaböndum. Þú tókst þér margt fyrir hendur; lærðir heilun, blómadropa- og ilmkjarnaolíumeðferð, málaðir myndir, gerðir hálsfestar og stofnaðir netverslun. Þú lést draumana rætast og skildir eftir þig fjársjóði fyrir okkur, eins og fallegu myndirnar sem þú mál- aðir og hanga uppi á vegg hjá okkur, svo tilfinningalega dýr- mætar. Þú barðist við þína líkamlegu kvilla en lést ekki á þeim bera þegar fjölskyldan kom saman. Þú dróst fram þitt létta, hressa geð og öllum fannst skemmtilegt í kringum þig. Hver á að stjórna fjölskyldubingóinu núna? Eflaust tekur elsku pabbi það að sér. En staðreyndin er að ekkert verður eins, missirinn mun nísta en við stöndum þétt saman og höldum vel hvert um annað. Elsku mamma, missir okkar er mikill en missir pabba er enn meiri. Lífsförunautur hverfur á braut og kaflaskil verða í lífinu. En hafðu ekki áhyggjur mamma, við hugsum vel um pabba og sjáum til þess að hann plumi sig. Minningu þinni verður haldið á lofti og verður þín minnst svo lengi sem við lifum og við munum halda áfram að hlæja og hafa gaman, alveg eins og þú hefðir viljað hafa það. Við söknum þín, elsku mamma. Þín börn, Sigrún, María og Hermann. Elsku besta tengdamamma. Nú eru að verða komin 20 ár síðan ég var svo heppinn að kynnast Maju og ykkur fjöl- skyldunni sem þá bjugguð á Austurströndinni. Þetta er hálf ævi mín og það er skrítið að hugsa til þess að á þessum tíma varst þú einungis einu ári eldri en ég verð í ár. Þær eru margar gleðistund- irnar sem við fjölskyldan höfum átt saman og þegar maður hugs- ar til baka þá man ég varla eftir þér öðruvísi en brosandi og hlæj- andi yfir einhverju sem verið var að ræða eða gera. Þessi gleði byrjaði strax við fyrstu kynni mín af ykkur Hafsteini. Hún er alltaf eftirminnileg ein fyrsta kvöldmáltíðin sem ég átti með ykkur þar sem eldaðir voru frosnir fiskstautar. Þeir voru eitthvað hálf misheppnaðir svo að megnið af þeim endaði í rusl- inu. Að þessu var mikið hlegið bæði þetta kvöld og síðar meir. Alltaf var svo gaman að koma í heimsókn í sumarbústaðinn ykk- ar á Sólvöllum. Þar sköpuðust margar ógleymanlegar minning- ar fyrir strákana okkar sem fannst svo gaman að gista þar hjá ömmu og afa. Um jól og áramót var alltaf svo notalegt að hittast í jólaveislum og áramótapartíum. Skötuboðin eru alltaf sérstaklega eftirminni- leg. Ég hefði ekki geta hugsað mér að borða skötu hér á árum áður en stemningin í kringum skötuboðin hjá ykkur var ávallt slík að það var erfitt að hrífast ekki með. Síðustu tvenn jól féll skatan þó niður en það er kominn tími til að við tökum það boð upp að nýju. Við tengdasynirnir tök- um eflaust að okkur þá elda- mennsku í sameiningu með and- legum stuðningi hvor annars. Ég á alltaf eftir að smakka vestfirska hnoðmörinn sem þú hafðir á boð- stólum sem fáir aðrir en þú sjálf tóku fram yfir hamsatólgina. Þú varst dugleg að lifa lífinu, gera það sem þig langaði til, prófa eitthvað nýtt og hafa það skemmtilegt. Það er gott að hugsa til þess hversu dugleg þið Hafsteinn hafið verið að ferðast bæði um Ísland og til útlanda. Þú vildir prófa að búa á mismundi stöðum og þér fannst ekki gaman að vera föst á sama stað lengi. Ég veit ekki um marga sem hafa flutt eins oft og þið Hafsteinn og vor- um við Gandri farnir að setja okkur í stellingar með flutnings- beltin hvað úr hverju. Það er svo ótal margt gott sem þú skilur eftir þig. Yndisleg börn og barnabörn, glæsileg málverk og góðan anda. Þið Hafsteinn hafið ávallt verið okkur Maju góðar fyrirmyndir og það er eitt- hvað sem ég veit að hefur mótað okkar fjölskyldu sterklega með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir bæði okkur og strákana okkar. Það á eftir að skila sér inn í komandi kynslóðir og þar lifir þú áfram. Hvíl í friði, elsku Edda. Þín verður sárt saknað. Björn. Elsku amma. Ég vildi að ég gæti knúsað þig núna velkomna heim frá Spáni. Við gætum spjallað um góðu tímana á Sólvöllum og allar heitu- pottaferðirnar og hvað afi væri mikill jólasveinn. Það var svo notalegt. Þú varst alltaf svo skemmtileg og hlý og það var alltaf svo gott að vera hjá þér. Þú varst svo hress, elsku amma, og bingó- stjórans verður sárt saknað í öll- um fjölskyldubingóunum. Þú gerðir allt sem þér datt í hug og ég næ einhvern veginn alltaf að tengja eitthvað við þig. Ég skil ekki alveg að þú sért farin, það er svo sárt að hugsa um það, en ég vona að þér líði vel, elsku amma. Ég veit að það mun ekki líða sá dagur að ég hugsi ekki til þín og þótt ég gráti núna mun ég alltaf minnast þín bros- andi. Þín Ása María. Elsku amma, það sem ég mun sakna þín og allra góðu stund- anna sem ég átti með þér og alls þess sem ég lærði af þér. Ég mun alltaf varðveita þær stundir sem ég eyddi með þér, afa og Ásu á Sólvöllum og þá sérstaklega úti á palli þegar það var gott veður. Þær stundir sem við hittumst öll fjölskyldan saman og þú hélst uppi góðum anda, bingóin þín og samtölin sem við áttum. Ég mun alltaf sakna hlátursins þíns, brossins, knússins þíns og jóla- sveinabrandaranna þinna af hon- um afa. Ég elska þig amma mín, takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Edda amma Elsku amma ég mun þín svo sakna. Á betri stað þú komin ert. Ég leggst niður, finn líkamann slakna. Minningarnar brjótast fram. Hláturinn, brandararnir og bros þitt. Fylltir alltaf upp hjartað mitt. Líf án þín verður erfitt. Ég elska þig amma Edda. (Magnús Ari) Magnús Ari Björnsson. Þegar sólin hækkar á lofti og fyrstu vorblómin gægjast upp úr jörðinni kemur upp tilhlökkun um komandi sumar með hlýind- um og birtu. Það var sannarlega tilhlökkun í huga okkar Ellu enda stóð til að við myndum eiga skemmtilega viku með Eddu systur og Hafsteini manni henn- ar á Alicante á Spáni. Hjónin höfðu leigt sér íbúð í febrúar og mars og buðu okkur að koma og vera með þeim okkur til gleði og ánægju. Við Ella höfum um árabil búið erlendis og samskipti því slitrótt og nú skyldi bætt úr því. Skyndi- lega hvarf sólin og dökk ský birt- ust sem hendi væri veifað, við fengum fréttir af því að Edda hefði verið lögð inn á spítala með flensu og slæma lungnabólgu. Til að auðvelda meðferðina var henni haldið sofandi á gjörgæslu spít- alans. Nú tók við bið á milli vonar og ótta. Þrátt fyrir tækni spítalans varð meðferðin henni of erfið og hún lést á spítalanum hinn 23.2. Sorgin tók yfir og hugurinn varð tómur. Ég horfi á regnið gráta á rúðunni og finn tárin streyma fram og minningarnar koma upp í hugann hver af ann- arri. Edda var búkona, stofnaði snemma heimili með Hafsteini sínum í Grundarfirði þar sem þau kynntust, svo komu börnin, fyrst Sigrún, þá María og svo Her- mann. Edda var búkona og „fast- eignasali“ því svo mörg híbýli höfðu þau keypt og selt um ævina að maður var löngu hættur að telja, maður spurði bara hvar búa Edda og Hafsteinn núna. Hjónin voru dugleg að ferðast, bæði innanlands og utan og nutu í rík- um mæli samvista hvort annars. Það var einkenni Eddu hve hún var alltaf mikill gleðigjafi þar sem hún fór og það var sannarlega gott að hlæja með henni. Edda gat líka verið alvörugefin og var yfirleitt varkár í athöfnum sínum. Sem börn fengum við stundum að sigla á milli fjarða með pabba, Edda var þá á varðbergi og hafði ekki tíma fyrir sjóveiki en við Gugga systir börðumst um sal- ernisskálina. Edda vildi ver klár ef eitthvað kæmi upp á. Eitt sinn fór pabbi með okkur systkinin i skemmtisiglingu inn Önundar- fjörðinn á plastbát með utan- borðsmótor, á bakaleiðinni stopp- aði mótorinn og tók smá tíma að baksa við hann. Eddu leist ekki á blikuna og minnti pabba á að mamma hefði sagt henni að vera komin heim fyrir kl. níu. Edda hélt alltaf fallegt heimili, var mikil jólamanneskja og skreytti heimilið vel fyrir jólahá- tíðina. Hún var vinnusöm og var á vinnumarkaði þar til veikindi sem hún bar komu í veg fyrir það. Það er gaman að fylgjast með sólinni setjast og sjá geisla henn- ar flæða um himinhvolfið að kveldi, sól Eddu systur gekk allt of snemma til viðar. Elsku Hafsteinn, Sigrún, María, Hermann, Guðmundur Andri, Björn, og barnabörn, við Ella vottum ykkur okkar dýpstu samúð vegna fráfalls elskaðrar eiginkonu, móður, tengdamóður og ömmu. Missirinn er sár en minningin er björt. Hvers vegna er leiknum lokið? Ég leita en finn ekki svar. Ég finn hjá mér þörf til að þakka þetta sem eitt sinn var. (Starri í Garði) Hjörleifur Hringsson, Elín Baldursdóttir. Ég sá hana fyrst í sjoppunni hjá Emil, þar sátu þær nokkrar stelpur og skröfuðu yfir appelsíni með lakkrísröri. Hún var í köfl- óttri mussu. Ég var nýkominn heim í jólafrí og þekkti ekki þessa stelpu. En fljótt beindist athygli mín að fjörugum umræðum við borðið og þessi stelpa talaði hátt, hló mikið og var fjörmikil. Við sem vorum komnir heim úr heimavistinni vildum vita hver hún væri. Ég vatt mér að henni og kynnti mig og spurði nafns. Hún sagðist heita Sigrún Edda Hringsdóttir, „en kallaðu mig bara Eddu“. Og tíminn leið, aftur var horfið til námsins, við sum í burtu, þau hin áfram heima. Á þessum tíma rúntaði Hafsteinn bróðir minn um á silfruðum Ford Taunus. Hörkustrákur og prúður sem vann við vélarnar í frystihúsinu. Stakur reglumaður með bíladellu og þær voru margar stelpurnar sem þáðu að rúnta með stóra bróður. Svo kom að því að Edda var sú sem sat í framsætinu og ekki var þörf fyrir fleiri í bílnum. Til var orðið par sem elskaðist heitt og var reiðubúið til að takast á við verkefni þeirra fullorðnu. Það var drifið í að kaupa íbúð vor- ið 1975, hann þá tuttugu og fimm, hún sautján. Fyrsta barnið eign- uðust þau í september það sama ár. Fljótt varð ljóst hve fullkomið par þau voru, dugleg og um- hyggjusöm um fjölskyldu og heimili. Þó að þau virtust býsna ólík féllu vel saman kraftarnir og alla tíð var verið að bjástra við heimili, þar sem réði fegurðar- skyn Eddu og dugnaður og vand- virkni Hafsteins. Edda var kjarkmikil og hugmyndarík kona, það sem henni datt í hug framkvæmdi hún. Og ef það var eitthvað sem ekki virkaði þá var bara að breyta því. Ef húsið var of lítið var keypt stærra og ef húsið var of stórt, varð að kaupa minna. Breytingar voru Eddu að skapi og alltaf var Hafsteinn tilbúinn í nýjar áskoranir. Allt féll að sama marki að eiga heimili eins og þau vildu hafa það. Og alltaf varð það nákvæmlega eins og það átti að vera. Þau voru alltaf kát og glöð, undu vel við sitt og hlúðu að börn- um og barnabörnum. Fjölskyld- an var þeirra heilagi hringur. Nú er stórt skarð höggvið, Edda lést 23. febrúar eftir skammvinn veikindi á Spáni. Sorg lemur á hjörtum okkar, svo óvænt, svo ótímabært. En lífs- gangan er ekki sett á rúðustrikað blað eða dregin með reglustiku. Hólar, hæðir, brekkur og beygj- ur eru á lífsveginum og oft vandi að rata. Fram að þessu hefur allt gengið vel og þú ert aldeilis ekki einn elsku bróðir minn, þú ert umvafinn fólki sem þú elskar og sem elskar þig. Megi góður Guð vera með ykkur og megi góður Guð varðveita minninguna um elskandi eiginkonu, móður og ömmu. Takk, elsku Edda, fyrir allt og skilaðu kveðju til þeirra sem bíða okkar í blómabrekkum Eilífðar- landsins. Ingi Hans og Sigurborg. Í dag kveðjum við elskulega mágkonu mína, Sigrúnu Eddu Hringsdóttur, sem alltaf var köll- uð Edda. Kynni okkar Eddu hóf- ust þegar ég kom inn í fjölskyld- una hans Hinriks fyrir um 16 árum en Edda systir hans var ein sú fyrsta sem ég kynntist. Það er ánægjulegt að rifja upp móttök- urnar sem ég fékk frá henni enda hafði Edda einstaklega glaðlega framkomu og sterka nærveru. Hún var hrókur alls fagnaðar á mannamótum og smitaði svo sannarlega nærstadda af gleði og jákvæðni. Að heimsækja Eddu og Hafstein var alltaf skemmti- legt, móttökurnar voru góðar og oftar en ekki sprellaði Edda að- eins í börnunum, þeim til mikillar gleði. Auk þess átti Edda hund sem var henni kær og hafði hún gaman af því þegar börnin sýndu honum áhuga. Það sem átti að vera tveggja mánaða dvöl á suðrænum slóðum í notalegum hita endaði öðruvísi en áætlað var hjá Hafsteini og Eddu. Fljótlega eftir komu þeirra til Spánar veiktist Edda, lungun störfuðu óeðlilega með þeim ömurlegu afleiðingum að hún fékk lungnabólgu sem læknavísindin réðu ekki við. Eiginkona, mamma, tengda- mamma, amma, systir, mágkona, frænka og vinur var hrifin á brott frá okkur eftir að hafa barist fyrir lífi sínu í heila viku. Við sem eftir sitjum, ósátt og reið, skiljum ekki hvað almættinu gekk til. Við get- um þó yljað okkur við margar góðar minningar og verið þakklát fyrir að hafa fengið að verða sam- ferða elsku Eddu. Ég votta Hafsteini, Sigrúnu, Maríu, Hermanni og fjölskyldum mína innilegustu samúð, þeirra er missirinn mestur enda var Edda mikil fjölskyldukona sem setti velferð sinna nánustu í önd- vegi. Minningin um elsku Eddu lifir með okkur, hennar er og verður sárt saknað. Ingibjörg H. Þráinsdóttir. Sigrún Edda Hringsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.