Morgunblaðið - 13.03.2019, Qupperneq 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. MARS 2019
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Á þessari sýningu er ég að fást við
málverkið, í senn sem yfirborð og
blekkingu,“ segir myndlistarkonan
Steinunn Önnudóttir þegar hún er
trufluð við uppsetningu sýningar
sinnar sem verður opnuð í D-sal
Listasafns Reykjavíkur – Hafnar-
húss á morgun, fimmtudag, kl 17.
Sýninguna kallar Steinunn upp á
latínu Non plus ultra og í tilkynn-
ingu er hún sögð eins konar kyrra-
lífsmynd, bæði málverk og innsetn-
ing í senn og að Steinunn fáist við
málverkahefðina í víðum skilningi.
Titill sýningarinnar vísar í forna
heimsmynd Grikkja og Rómverja
sem töldu að heimurinn endaði
handan Gíbraltarsunds. Non plus
ultra þýðir „ekkert handan þessa
staðar“ og með titlinum vísar Stein-
unn í það sem við sjáum ekki.
Hún er 36. listamaðurinn sem val-
in er til að taka þátt í sýningaröðinni
en í henni er efnilegum listamönnum
boðið að halda sína fyrstu safnasýn-
ingu. Þegar blaðamaður lítur inn er
Steinunn að klæða aðra sveru burð-
arsúluna í salnum með málverki á
striga, verki sem vísar í fornar súlur;
það er marmaraáferð á hluta verks-
ins en vatnslitakenndari pensil-
drættir ofar. Þá hefur verið smíð-
aður í salinn veggur sem klæddur er
einskonar tjaldi, einnig máluðu, og
þá mun Steinunn einnig klæða ann-
an vegg með málverki sem enn er
upprúllað en hún segir mun lífrænna
og vísa meira til austrænna hug-
mynda um sjónarhorn en hinna vest-
rænu um fjarvídd í tvívíðu verki út
frá einum einstaklingi.
„Hugmyndin að tjaldinu hér á tré-
veggnum sprettur af hinni fornu
grísku sögu um málarann fræga
Zeuxis sem fór í keppni við Parrhas-
ius um það hvort gæti málað raun-
verulegri mynd,“ segir hún og strýk-
ur málverkið sem klæðir vegginn
sem settur hefur verið í miðjan sal-
inn . „Ég var að hugsa um eltingar-
leik málara við að túlka raunveru-
leikann,“ segir hún og að allir sem
fáist við miðilinn þurfi að taka af-
stöðu til blekkingarinnar sem er lyk-
ill að miðlinum. „Því raunverulegri
sem manni tekst að gera verkið,
þeim mun meiri er blekkingin – og
fjarlægist jafnframt einhvern kjarna
því þá snýst kúnstin svo mikið um
eitthvað yfirborð. Í mínu ferli er ég
að finna mér stað og þreifa fyrir mér
með málverkið. Ég er í raun mjög
upptekin af málverkinu.
Mér finnst samt ekkert sjálfsagt
að fara að mála tvívíðan flöt, ein-
hverja abstrakt mynd eða einhverja
frásögn, þar finn ég fyrir fyrirstöðu
og finnst ég þurfa að eiga við svo
margt í málverkinu áður en ég get
farið að vinda mér í það, í eftirmynd-
ina. Það leitar sífellt á mig hvað mál-
verkið er og ég reyni að skoða skilin
á milli þrívíðs hlutar og málverks og
fara með verkin þannig að þau dansi
þar á einhverri línu. Einn vill mögu-
lega kalla þetta skúlptúr hjá mér en
annar málverk,“ segir hún.
Steinunn, sem fæddist árið 1984,
útskrifaðist með BA-gráðu í mynd-
list frá Gerrit Rietveld-akademíinu í
Amsterdam árið 2011. Hún hefur
haldið einkasýningar og tekið þátt í
samsýningum hér á landi og erlend-
is. Árið 2014 stofnaði Steinunn sýn-
ingarrýmið Harbinger og hefur
starfrækt það síðan.
Morgunblaðið/Einar Falur
Málverk „Einn vill mögulega kalla þetta skúlptúr hjá mér en annar málverk,“ segir Steinunn um verkin í D-salnum.
„Þreifa fyrir mér með málverkið“
Sýning Steinunnar Önnudóttur, Non plus ultra, verður opnuð í D-sal Hafnarhússins á morgun
„Ég reyni að skoða skilin á milli þrívíðs hlutar og málverks,“ segir myndlistarkonan um sýninguna
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Una útgáfuhús heitir nýtt bókaforlag
sem gaf á dögunum út bókina Undir
fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hall-
grímsson, en sú bók kom fyrst út
1941 og hefur verið ófáanleg í fjölda
ára.
Á vefsetri Unu kemur fram að
ekki sé bara ætlunin að gefa út eldri
verk, heldur sé Una útgáfuhús
„rekið af hugsjón
fyrir kynningu
og útgáfu á
merkum bók-
menntaverkum
og skáldskap
nýrra höfunda“.
Að forlaginu
standa Einar
Kári Jóhanns-
son, Jóhannes
Helgason, Krist-
ín María
Kristinsdóttir og Styrmir Dýrfjörð
og Einar segir að þau fjögur hafi
kynnst er þau unnu saman í bóka-
búð Eymundsson í Austurstræti.
„Við vorum lengi búin að fylgjast
með bókaútgáfu og sögu og okkur
fannst vanta vettvang fyrir ung-
skáld, vettvang fyrir stærri verk-
efni en Meðgönguljóð Partusar, og
svo koma svo oft flottar bækur út á
Íslandi sem klárast og koma aldrei
aftur í prenti. Við vorum til dæmis
með margar bækur í huga sem
komu kannski út fyrir tuttugu árum
eða svo og voru ófáanlegar. Við
ákváðum því að stofnað forlag og að
fyrsta bókin yrði Undir fána lýð-
veldisins eftir Hallgrím Hallgríms-
son. Hún lýsir ágætlega okkar hug-
myndafræði, það er að segja að
finna einhverja merkilega bók úr
fortíð sem ekki allir þekkja en hefur
samt mikla þýðingu.“
Fátækur drengur
verður byltingarmaður
„Í framhaldinu rannsökuðum við
líf og störf Hallgríms og skrifuðum
langan og ítarlegan eftirmála, enda
er það í takt við það sem viljum gera:
finna verk og setja í nýtt samhengi,
segja af hverju það er mikilvægt,
hvernig það talar við samtímann og
hvað er hægt að læra af því.
Hallgrímur var fátækur drengur
af þingeyskum ættum sem kynntist
róttækni í kvöldskóla hjá Einari Ol-
geirssyni, tók þátt í verkföllum ung-
ur og var snemma stimplaður sem
róttækur kommúnisti, sem hann
náttúrlega var, og var meðal yngstu
stofnenda Kommúnistaflokks Ís-
lands. Hann fór svo í leynilegan
skóla Komintern í Moskvu í gegnum
íslenska flokkinn. Sagnfræðingar
takast enn á um það hvað námið
snerist um þar, en það er ljóst að
Hallgrímur lærði eitthvað að fara
með vopn, en óvíst að hægt sé að
ganga svo langt að halda því fram að
hann hafi verið þjálfaður til að gera
byltingu eins og sumir vilja meina.
Við fengum aðeins af gögnum frá
Moskvu í gegnum Jón Ólafsson og
það er ekkert sem styður þá kenn-
ingu en ekki heldur neitt sem afsann-
ar hana algerlega.
Hallgrímur varð fyrst þekktur
meðal íslenskra kommúnista þegar
hann réðst á þýska skipið Eider 1933
og skar niður hakakrossfána. Hann
fór svo út til Spánar að berast með
lýðveldissinnum og 1938 birtust í
Þjóðviljanum fyrstu greinar hans frá
vígvöllum Spánar. Hann kom aftur
til Íslands í desember það ár. Hall-
grímur var seinna dæmdur fyrir
landráð og fangelsaður fyrir aðild að
hinu svokallaða „Dreifibréfsmáli“,
sem var tilraun til að hvetja hermenn
til stuðnings við verkalýðsbaráttu Ís-
lendinga. Það er reyndar eiginlega
búið að sanna það að hann tók á sig
sökina ásamt félaga sínum, Eggerti
Þorbjarnarsyni, í því máli til að hlífa
Sósíalistaflokknum. Þeir sátu báðir
inni í átta mánuði á Litla-Hrauni,
sem þá var vinnuhæli, og þar hélt
Hallgrímur sínu striki og hvatti til
mómæla og verkfalls og var settur í
einangrun í rúma fimmtíu daga.“
Líkindi með Hallgrími og Hauki
– Undir fána lýðveldisins segir frá
ungum manni sem heldur út í heim
til að berjast fyrir hugsjónir sínar og
það er ekki langt síðan mikið var
fjallað um annan ungan Íslending
sem hélt út í heim til að taka þátt í
vopnaðri frelsisbaráttu annarrar
þjóðar.
„Við viljum ekki nota það sem
sölupunkt, en líkindin með Hallgrími
og Hauki Hilmarssyni eru mikil; þeir
fara báðir í stríð án þess að láta
nokkurn vita og þeir eru báðir týndir
í dag, hurfu báðir 32 ára, því að Hall-
grímur hvarf í sjóinn austur af
Langanesi 1942 og það er ekki vitað
hvað gerðist, en líklegt að báturinn
hafi orðið fyrir tundurdufli eða jafn-
vel verið sökkt af kafbát.“
– Þið byrjið með þessari endur-
útgáfu en hvað er meira í bígerð?
„Við höfum verið að skima í gegn-
um bókmenntasöguna í leit að kven-
höfundum sem átti betra skilið en að
gleymast þegar tíðarandinn var að
bækur eftir konur væru kerl-
ingabókmenntir. Við erum ekki kom-
in með rétt á neinu svo ég vil ekki
nefna nein nöfn, en ég held að næsta
verkefni getið orðið slík bók.
Í maí kemur lítið safn eftir ritlist-
arnema, ungskáld, ef allt gengur
upp, og kannski ein þýðing. Það sem
okkur langar líka til að gera er að
gefa út klassískar bókmenntir sem
eru til í góðum þýðingum, endur-
skoða kannski þýðinguna út frá
stöðlum samtímans um þýðingar en
líka að gefa út þýdd verk sem ekki
hafa komið út áður.“
Morgunblaðið/Hari
Hugsjónafólk Einar Kári Jóhannsson, Jóhannes Helgason, Kristín María Kristinsdóttir og Styrmir Dýrfjörð.
Af hugsjón fyrir bókmenntum
Útgáfuhúsið Una er rekið af hugsjón fyrir kynningu og útgáfu á merkum verkum og nýjum skáld-
skap Fyrsta útgáfan er frásögn ungs manns sem hélt út í heim til að taka þátt í frelsisbaráttu
Hallgrímur
Hallgrímsson