Fréttir - Eyjafréttir - 04.06.2014, Side 9
°
°
9Eyjafréttir / Miðvikudagur 4. júní 2014
Sæheimar, Fiska- og náttúrugripasafn Vestmannaeyja 50 ára:
Safnið á stað í hjörtum
bæjarbúa
:: Kristján Egilsson fyrrum safnstjóri og Margrét Lilja Magnúsdóttir safnstjóri segja þörf
á nýju húsnæði :: Tólf þúsund gestir á ári en voru áður þrjú til fimm þúsund
Sæheimar, sem áður hét
Fiska- og náttúrugripasafn
Vestmannaeyja, fagnar nú 50
ára afmæli sínu en hinn
eiginlegi afmælisdagur er 5.
júní. Safnið er einstakt hér á
landi enda eina fiskasafnið sem
er starfrækt á Íslandi. Þrátt fyrir
það hefur safnið tekið litlum
breytingum á þessari hálfri öld
og fyrir löngu orðið aðkallandi
að búa safninu betri umgjörð.
Núverandi safnstjóri er Margrét
Lilja Magnúsdóttir en blaðamaður
settist niður með henni og forvera
hennar, Kristjáni Egilssyni sem var
safnstjóri í ríflega aldarfjórðung.
Kristján er enn á safninu, er með
aðstöðu bakatil þar sem hann
stoppar upp fugla og er Margréti
Lilju innan handar.
„Við héldum upp á afmælið á
laugardaginn síðasta. Okkur fannst
vel við hæfi að halda upp á það um
sjómannadagshelgina þar sem
sjómenn hafa verið okkur sérlega
hjálplegir í gegnum árin og óhætt
að segja að safnið væri hvorki fugl
né fiskur án þeirra,“ sagði Margrét
Lilja og brosti. „Það komu um sex
hundruð manns í veisluna og
krakkarnir í Grunnskóla Vest-
mannaeyja voru búin að skreyta
húsið. Þau voru líka með skemmti-
atriði, 4. bekkur sýndi dans og 5 ára
krakkarnir sungu lag um fiskana
sem þau hafa verið að æfa. Birta og
Erna Scheving tóku svo lagið og
auðvitað var boðið upp á kökur,
eins og í alvöru afmælisveislu. Svo
má ekki gleyma því að Gísli
Óskarsson gerði áhugaverða
heimildarmynd um Löngu þar sem
hann ræddi m.a. við Kristján og
Svavar Steingrímsson og hún var
sýnd. Reyndar gekk sýningin ekki
nógu vel því það var svo mikill
kliður í salnum en vonandi getum
við sýnt myndina aftur.“
Kambháfur í einkaflugvél
til Eyja
„Þau losna ekki við mig,“ sagði
Kristján þegar hann er spurður út í
hversu langan tíma hann var
safnstjóri. „Sem betur fer,“ skýtur
Margrét inn í. „Ég hef oft hringt í
Kidda og fengið góð ráð hjá
honum,“ bætti hún við en Kristján
er með aðstöðu á safninu til að
stoppa upp fugla og vera þeim
innan handar sem nú starfa á
safninu.
Kristján hóf störf á safninu 1986
en tók svo alfarið við sem safnstjóri
árið 1992, þegar tengdafaðir hans
og þáverandi safnstjóri, Friðrik
Jesson lést. Kristján segist varla
vita hvar hann á að byrja þegar
hann er beðinn um að rifja upp hvað
standi upp úr eftir þennan tíma á
safninu. „Það er margs að minnast
og helst er það samvinnan við
sjómennina okkar. Það hefur alltaf
verið nóg að taka upp símtólið ef
eitthvað vantar í búrin og þá er
málinu bara reddað. Sömu sögu er
að segja um aðra bæjarbúa því
okkur öll þykir vænt um safnið.
Við komum hingað sem börn og þá
var þetta algjör ævintýraheimur og
síðan komum við með okkar gesti
hingað á safnið.
En ef það er einhver einn atburður
sem mér finnst standa upp úr í
minningunni, þá er það þegar komið
var með kambháf á safnið. Hann
náðist lifandi vestur á Ísafirði en
hann komi í trollið á Guðbjörgu ÍS
8. desember 1988. Kambháfar nást
yfirleitt ekki lifandi og því lagði
áhöfnin á sig mikla vinnu til að
koma honum til okkar. Hann var
m.a. fluttur með einkaflugvél til
Reykjavíkur og einn úr áhöfninni
fylgdi kambháfnum alla leið. Ég
tók svo á móti honum í Reykjavík
og flutti hann hingað. Þetta var
mikið ævintýri og allt reynt til að
halda honum á lífi. M.a. kom Siggi
kafari með þrýstijafnara til að reyna
halda lífi í honum en því miður
höfðum við ekki nógu góða aðstöðu
fyrir hann. Kambháfurinn er um
einn og hálfur metri á lengd og allt
of stór fyrir búrin hjá okkur. Því fór
sem fór.“
Einstakt safn
Eins og áður sagði eru Sæheimar
einstakt safn hér á landi og hefur
verið það frá upphafi. „Já manni
finnst það í raun og veru alveg
ótrúlegt að 50 árum eftir stofnun
safnsins, skuli það enn vera einstakt
hér á landi,“ sagði Kristján.
„Sæheimar eru eina fiskasafn
landsins og þykir því mjög
merkilegt. Safnið hefur alltaf verið
hér í sama húsnæðinu, sem er á
annarri hæð og óhentugt eftir því.
T.d. hefur lekið hér að ofan og niður
í Slökkvistöðina á neðri hæðinni.
Upphaflega hugmyndin var að setja
bókasafnið hér á neðri hæðina en
sem betur fer var það ekki gert enda
hefði ekki farið vel um bækurnar
þegar lekið hefur niður.“
Bankarán fyrir safnið
Margrét skýtur því inn í að Ragnar
Baldvinsson, slökkvistjóri hafi sagt
henni skemmtilega sögu um safnið
úr gosinu. „Þegar rafstöðin fór
undir hraun, þá var hlaupið upp til
handa og fóta að reyna koma
rafmagni á safnið enda yrði fljótlega
súrefnislaust í búrunum ef því yrði
ekki kippt í liðinn. Þá komust þeir
yfir ljósavél og komu henni í gang
við safnið,“ sagði Margrét og
Kristján greip boltann á lofti. „Þeir
brutust inn í bankann og náðu í
ljósavélina. Eina bankaránið sem
kom ekki til kasta laganna varða,“
sagði Kristján við og glotti.
Lítið breyst
Þeir sem hafa komið á safnið sjá að
það er komið til ára sinna og lítið
hefur breyst frá opnun þess fyrir
hálfri öld. „Eina stóra breytingin er
steinasafnið sem var opnað 1976.
Á fjögurra ára fresti hefur alltaf
verið gefin út viljayfirlýsing að nú
yrði eitthvað gert. Þannig hefur það
gengið fyrir sig undanfarna áratugi
og mér heyrðist bæjarstjórinn hafa
lýst því yfir að nú væri komið að
safninu eftir átak í safnamálum
undanfarið. Búið væri að opna
Sagnheima og Eldheima og næst
væri það Sæheimar. En hann
nefndi reyndar enga tímasetningar í
þeim efnum,“ sagði Margrét.
Gestafjöldi á safnið margfaldaðist
þegar Landeyjahöfn opnaði en
Kristján sagði að áður þótti mjög
gott ef átta þúsund kæmu á safnið á
ári en meðaltalið hefði verið þrjú til
fimm þúsund. „Í dag eru gestir um
tólf þúsund á ári og í júlí í fyrra
komu fjögur þúsund eða eins og
gestir voru á ársgrundvelli fyrir
Landeyjahöfn. Safnið hefur því
sprengt utan af sér og orðið
aðkallandi að fara huga að því að
koma safninu í nýtt húsnæði,“ sagði
Margrét.
Hafið þið velt fyrir ykkur hvernig
draumasafnið væri ef þið fengjuð
að hanna nýtt safn sjálf?
„Það er búið að pæla í því fram og
til baka,“ sagði Kristján og hló. „Á
sínum tíma var mikill áhugi á að
setja safnið í Vigtarhúsið við
Fiskiðjuna. Það mál var komið vel
á veg en síðan var það sett á ís.
Síðar var farið að tala um jarðhæð-
ina í Fiskiðjunni en málið hefur
aldrei komist lengra en þetta. Það
eru gífurlegir möguleikar á að gera
glæsilegt safn á heimsmælikvarða.
Ég nefni sem dæmi flott búr með
sjófuglum, svona af því að Tóti
lundapysja er hér á vappi í kringum
okkur. Búr með sjó og smá kletta
fyrir fuglana væri ákjósanleg
aðstaða og yrði mjög vinsælt. Svo
þarf nýtt safn að vera upplifun.
Fólk vill taka þátt, snerta og þess
háttar en ekki bara skoða í gegnum
gler.“
Vantar betri aðstöðu
En það er ekki bara sýningarhlutinn
sem þarfnast úrbóta því á safninu fá
málleysingjar aðstoð þegar á þarf að
halda. „Við erum að taka á móti
mikið af særðum og veikum fuglum
en höfum enga aðstöðu í raun og
veru til að taka á móti þeim. Við
vorum t.d. með um 50 rituunga hér
síðasta sumar en höfðum engan
tíma til að sinna þeim. Sem betur
fer eigum við nokkra krakka sem
eru tilbúnir til að aðstoða okkur.
Eins vantar aðstöðu fyrir móttöku
skólabarna, sem nýta safnið mjög
vel. Það væri t.d. hægt að setja upp
litla rannsóknarstofur þar sem hægt
væri að skoða lífríkið sem ekki er
auðvelt að sjá með berum augum.
Þá þarf svona safn líka að vera
breytilegt, með rými þar sem væri
hægt að skipta um sýningaratriði
þannig að heimamenn heimsæki
það reglulega og að safnið væri
fyrir heimamenn líka. Fiskasafnið
á stað í hjörtum okkar allra og við
eigum öll svolítið í safninu,“ sagði
Margrét að lokum.
Kristján Egilsson og Margrét Lilja Magnúsdóttir.
Kristján ásamt tengdaföður sínum og stofnanda safnsins, Friðriki
Jessyni.
Snertibúrið í fiskasafninu er mjög
vinsælt meðal yngstu gestanna.
Tveir af sérlegum aðstoðarmönnum safnsins, þeir Tryggvi Geir
Ingvarsson og Þorbjörn Andri Hinriksson færðu Margréti Lilju
blóm á afmælisdaginn.
JúlíuS G. InGaSon
julius@eyjafrettir.is