Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 13.04.2016, Blaðsíða 14

Fréttir - Eyjafréttir - 13.04.2016, Blaðsíða 14
14 Eyjafréttir / Miðvikudagur 13. apríl 2016 Kjartan Bergsteinsson vann sem loftskeytamaður hátt í fimmtíu ár og reyndi margt á þeim tíma. Flakk um heiminn er honum minnisstætt og eins slysin sem hann kom að gegnum radíóið. Skemmtilegur en erfiður skóli Kjartan Bergsteinsson útskrifaðist sem loftskeytamaður frá Loft- skeytaskóla Íslands í maí árið 1959 og starfaði að mestu sem slíkur allt til ársins 2005 þegar hann settist í helgan stein, þá 67 ára. En hvað skyldi hafa rekið ungan Eyjapeyja til þess að gerast loftskeytamaður? „Ég valdi að gerast loftskeytamaður því þetta var nám sem maður gat klárað á tveimur árum!“ segir Kjartan. Loftskeytaskólinn þótti góður skóli og má segja að í honum hafi fyrst verið farið að bjóða upp á tæknimiðað nám hérlendis enda segir Kjartan að margir hafi síðar haldið áfram í annars konar tækninám eins og verkfræði eða jafnvel flugvirkjun. Skólinn byggðist upp á því að nemendum gengi vel í náminu og segir Kjartan að grisjað hafi verið skarpt hjá þeim sem komust inn. „Ef maður var hár í tölum gat maður hins vegar gengið að starfi hjá Símanum og þannig var þetta hjá mér því ég byrjaði að vinna hjá Vestmannaeyjaradíó með náminu 1958 og fór þangað aftur þegar ég útskrifaðist 1959.“ Á þessum tíma byggðu fjarskiptin á morse máli og þurftu loftskeyta- menn að kunna það reiprennandi. „Það má segja að aðalhlutverk skólans hafi verið að sjá togaraflot- anum fyrir loftskeytamönnum, á þeim tíma voru svo margir togarar á miðunum og allir þurftu þeir loftskeytamann. Maður þurfti því að kunna morse upp á tíu fingur. Það var helvíti stíft það nám, eiginlega alger heilaþvottur, og alls ekki fyrir alla. Þetta var eins og að læra nýtt tungumál sem enginn skildi nema þú.“ Hann segir að námið hafi verið áhugavert og samnemendurnir hinir skemmti- legustu enda séu margir þeirra ágætis vinir hans enn þann dag í dag. „Þetta byggðist auðvitað allt upp á góðum námsárangri og það var allt lagt í sölurnar. Það fyrir- komulag hentaði sumum betur en öðrum en svona er þetta, maður stefnir að einhverju og stundum tekst það og stundum ekki,“ segir hann. Loftskeytaskólinn var staðsettur í Sjómannaskólanum en starfsemi var á nokkrum öðrum stöðum líka. Á meðan á náminu stóð leigði Kjartan hjá skyldfólki. „Ég hafði það ágætt og borðaði niðri í bæ hjá konu sem seldi fæði. Þetta var allt öðruvísi þá, hér og hvar um bæinn gat maður mætt í hádeginu og keypt mat af ágætis konum sem oft leigðu herbergi líka.“ Hótað af breskum fallbyssubáti Eftir að náminu lauk hélt Kjartan aftur til Eyja þar sem hann vann í afleysingum á radíóinu en þegar þeim lauk var farið til Seyðisfjarðar þar sem hann var í rúmt ár. að því loknu lá leiðin enn og aftur til Eyja, á radíóið þar. Sjórinn togaði þó í hann og tók hann því öðru hvoru túra á skipum og var t.d eitt sumar á mótorbát með Binna í Gröf. „Maður vildi prófa ýmislegt og ég fór því til Rannsóknarstofnunar Háskólans sem gerði út lítinn togara og var á honum í ár og síðan hinum og þessum skipum þar til ég ákvað að tími væri kominn til að skoða mig meira um og fór á tveggja ára flæking með dönskum og norskum skipum, sennilega 1966 og 1967. Þetta var mikið ævintýri og maður lifir á því í dag.“ Kjartan segir að sér hafi líkað betur að vinna fyrir norðmennina þótt það megi kannski skrifa á tungumálið. Það hafi tekið sig þrjá mánuði að læra dönskuna en ekki nema mánuð að læra norskuna. Kjartan fór víða á þessum tímabili og var t.d mikið bæði á Persaflóa og við strendur afríku.Hann játar að á meðan á þessu stóð hafi hann auðvitað lent í fjölmörgum ævintýrum en vill þó lítið um þau tala. „Ég held að það sé best að maður sé ekki að rifja upp svall og vitleysu, það er best gleymt og grafið! Þetta var samt ansi skemmtilegt.“ afríkutúrinn byrjaði Kjartan í Cape town í Suður-afríku, og fór svo með ströndinni til margra borga. „Við brutum t.d. hafnbann Breta, það var býsna athyglisvert. Við vorum að flytja vörur frá Ródesíu, sem nú er Simbabve, til Mósambík en á þessum tíma voru Bretar með hafnbann á Ródesíu og mikil pólitísk deila í gangi. Við sigldum þarna frá landinu með fallbyssubáta allt í kringum okkur. Þeir höfðu auðvitað samband og kröfðust þess að við stoppum og hleypum þeim um borð til að skoða hvað við séum með. Við neituðum því hins vegar og sögðumst vera norðmenn og þetta væri norskt skip. Þetta var býsna svakalegt, allar byssur á fallbyssubátnum voru mannaðar. Þrátt fyrir það héldum við okkar striki. Sem loftskeytamaður var ég þarna í lykilhlutverki og ég var á ljósamorsi við hann allan tímann. Þetta var spurning hvor okkar myndi bakka! Við vorum auðvitað skíthræddir um að þeir myndu skjóta á okkur en það gerðist nú ekki, þetta voru bara hótanir, hann vildi sjá hvort hann gæti kúgað okkur til þess að stoppa. Bretar og norðmenn voru auðvitað vinir í Evrópu svo það hefði verið meiriháttar mál ef breskt skip hefði skotið á norskt skip. Manni stóð samt ekki á sama. Þetta var svolítið skemmtilegt svona eftir á og við vorum voða grobbnir með okkur; að hafa snúið svona á Bretann og ekki látið kúga okkur!“ Ógleymanleg heimsókn Kjartan var í marga mánuði á fraktara í Persaflóa að vitja um olíurör og fleira. Skipið fór t.d til Kuwait og Íraks og upp fljótið milli Íraks og Íran, gegnum Rauða hafið og Súez skurðinn. „Við lönduðum í abu dhabi sem þá var bara strönd. Í þá daga var þetta líka allt öðruvísi, það voru engir gámar svo það var stoppað lengi á hverjum stað og maður gat virkilega skoðað sig um. Ég þekki þessi lönd því vel eftir að hafa verið þarna. Hitanum gleymi ég samt aldrei, hann var alveg hræðilegur, yfir fimmtíu stig á daginn. Við vorum t.d heillengi í Kuwait og það gerðist einn daginn að ég ætlaði að stytta mér leið inni í gömlu borginni. Ég villtist auðvitað strax! Ég sá þarna nokkra Palestínumenn og fór að tala við þá til að athuga hvort þeir gætu nokkuð hjálpað mér að rata. Þeir töluðu ágætis ensku og vilja endilega bjóða mér heim til sín í kaffi. Það var heilmikil upplifun að koma heim til þeirra, eins og að koma inn í annan heim. Þarna voru sessur og púðar og teppi á öllum gólfum. Við fengum okkur sæti á þeim og síðan komu konurnar á heimilinu, allar með blæjur, og gáfu okkur kaffi. Við áttum þarna skemmtilega stund og þetta er alveg ógleymanlegt. Maður átti auðvitað ekki von á þessu. Eftir heimsóknina lóðsuðu þeir mig svo þangað sem ég vildi fara.“ Kjartan segist einu sinni hafa verið rændur á ferða- lögum sínum og lenti hann í því í Venezuela. „Þá var ég rotaður, rændur og hent í skúmaskot. Sem betur fer rákust hermenn á mig og komu mér á sjúkrahús.“ Kjartan fékk heilahristing sem varaði nokkra daga og ræningjarnir fundust auðvitað aldrei. „Þetta skrifast á mig, ég var einn á ferð sem var ekki gáfulegt. Þeir náðu þarna af mér úrinu og einhverju smáræði sem ég hafði í veskinu en meira var það ekki.“ Endað í Eyjum Þegar Kjartan var kominn með nóg af heimshornaflakkinu lá leiðin heim þar sem hann vann á ýmsum skipum og togurum um tveggja ára skeið þar til hann slasast á handlegg 1969. „Ég ætlaði að vera á báti í Eyjum eina vetrarvertíð en slasast og lenti á Reykjalundi þar sem ég var í heilt ár meðan þeir voru að reyna að laga á mér handlegginn. Það tókst nú aldrei alveg en ég hélt honum þó. fátt er svo með öllu illt því á Reykjalundi hitti ég konuna mína, arndísi Egilson, sem þar vann.“ Þegar Kjartan var orðinn vinnufær fékk hann vinnu hjá Reykjavíkurradíó í Gufunesi og er þar þangað til gosið hefst. Þá langaði hann til að skipta aftur um vettvang og fór að vinna hjá Hafró. Var hann bæði á gamla Árna friðrikssyni og Bjarna sem loftskeytamaður en líkaði ekki nógu vel svo hann fór í land. „Þetta var sumarið 1974 og þá stóðu yfir kjaradeilur við Hafró svo ég ákvað að hætta þessu bara og finna mér eitthvað nýtt að gera. Hvað það átti að vera vissi ég samt ekki. Þarna var ég að velta þessu fyrir mér á göngu yfir austurvöll þegar ég rekst á símstöðvarstjórann í Vestmanna- eyjum. Við tökum tal saman og hann segir mér að hann sé í standandi vandræðum og vanti svo mann, hvort ég væri ekki til í að fara til Eyja og vinna fyrir sig? Ég segi við hann: Þú hlýtur að vera eitthvað skrýtinn, Hilmar! Ég er kvæntur og með börn, mér tækist aldrei að sannfæra konuna um það!“ Kjartan samþykkti þó að koma til Eyja, með þeim fyrirvara að það væri allsendis óvíst hvað hann yrði lengi. Hilmar lagði þó áfram mikla áherslu á að halda honum svo Kjartan ákveður að spyrja arndísi hvort hún vilji ekki prófa að koma líka. fellst hún á það og kom til Eyja með börnin. „Það kom þá fljótlega í ljós að Reykja- víkurmærin var miklu meiri Eyjamaður en ég nokkurn tímann svo þarna vorum við þar til ég hætti 2005, þegar arndís deyr eftir löng veikindi.“ Maður varð bara að standa sig í stykkinu Kjartan segir að það erfiðasta við loftskeytastarfið hafi verið þegar stórslys urðu þegar hann var á vakt. „Það var ansi vont þegar Pelagus fórst 1982 og sömuleiðis 1983 þegar Kampen fór niður við Suðurströndina. Það dóu margir í þessum slysum og maður tekur svona lagað inn á sig. Sömuleiðis var þetta mjög erfitt þegar Hellis- eyjan ferst 1984. Maður verður bara að standa sig í stykkinu en maður er illa farinn á taugum á eftir. Þá var ekki til neitt sem hét áfallahjálp, Kjartan Bergsteinsson :: Loftskeytamaður sem rataði víða Stundum var maður heppinn og gat bjargað fólki Loftskeytamaðurinn að störfum 17. apríl 1982. Mynd Sigurgeir Jónasson. SædÍS EVa BirGiSdÓTTir seva@eyjafrettir.is

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.