Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 12.10.2016, Blaðsíða 9

Fréttir - Eyjafréttir - 12.10.2016, Blaðsíða 9
Vinnslustöðin opnar almenningi dyr sínar á laugardaginn kemur, 15. október, og býður gestum að fagna með sér í tilefni af því að ný og glæsileg uppsjávarvinnsla félagsins hefur verið tekin í notkun. Fyrir- komulag í frystingunni er hið fyrsta og eina sinnar tegundar á Íslandi. Sjón er sögu ríkari. Verið velkomin til okkar kl. 14-16 á laugardaginn! Þennan áfanga ber upp á afmælisár því 30. desember næstkomandi verða rétt 70 ár liðin frá því 105 útvegsmenn komu saman í Vestmannaeyjum og stofnuðu Vinnslu- og sölumiðstöð fiskfram- leiðenda, eins og félagið nefndist í upphafi. Stofnendurnir kváðust gera þetta til að „sameinast um fisk- vinnslu til hagsbóta fyrir sig og byggðarlagið“. Mikið vatn hefur til sjávar runnið og margt gengið á í íslensku samfélagi, í Vestmannaeyjum og í Vinnslustöðinni sjálfri á áratug- unum sjö sem liðnir eru frá stofnfundinum milli jóla og nýárs árið 1946. Oft hafa stormar gnauðað um Vinnslustöðina af ýmsu tilefni og vindstigin jafnvel mælst álíka því sem mest gerist á Stórhöfða í verstu hviðum. Þau augnablik eru til og þekkt í sögu fyrirtækisins að samfélagið í Vestmannaeyjum hélt niðri í sér andanum og spurði sig í hljóði: Lifir Vinnslustöðin af þrengingarnar? Hún stóð tæpt þegar verst lét en farsælum eigendum og stjórnendum tókst að sigla félaginu upp úr öldudölum en það kostaði vissulega sitt. Slíkir tímar eru afar erfiðir og reyna verulega á, eðli máls samkvæmt. Núna lifir Vinnslustöðin góðu lífi. Hún er stórt, öflugt og traust fyrirtæki. Enginn veltir því lengur fyrir sér hvort hún hafi lífsanda til að þrauka. Þvert á móti, Vinnslu- stöðin er lífsreynd en ung í anda, heilbrigð og spræk! Það vita Eyjamenn og það vita reyndar flestir landsmenn líka. Ég fylgdist með Vinnslustöðinni nokkuð vel í fjarlægð áður en ég varð svo lánsamur að kynnast starfseminni af eigin raun og eigendum hennar og mörgum starfsmönnum sömuleiðis. Það var í framhaldi af aðalfundi í júní 2010 þegar ég var kjörinn í stjórn félagsins og tók þar við for- mennsku. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að fylgjast með og hafa áhrif á gang mála í Vinnslustöðinni. Stofnendurnir færðu til bókar á sínum tíma að þeir sameinuðust í félaginu sér og byggðarlaginu til hagsbóta. Við mér hefur hins vegar blasað aftur og aftur að hagsmunir byggðarlagsins, Eyjasamfélagsins sjálfs, eru hiklaust fremst í forgangi í orðum og gjörðum núverandi eigenda Vinnslustöðvarinnar. Þeir eru afar vel meðvitaðir um að hagsmunir byggðarinnar í Vest- mannaeyjum og félagsins fara saman. Stór og sterkbyggð Vinnslustöð eflir og styrkir Vestmannaeyjar sem samfélag og atvinnusvæði. Svo einfalt er nú það. Við höfum á vettvangi stjórnarinnar ákveðið að taka þátt í að stofna þrjú félög hér í Vestmannaeyjum sem hvert um sig er sérhæfður vaxtarsproti í fjöl- breyttri flóru sjávarútvegsins. Við endurnýjum skipakost Vinnslu- stöðvarinnar, fjölgum hráefnis- geymum og ætlum að stækka frystigeymsluna á Eiði margfalt. Og nú tökum við í gagnið nýju uppsjávarvinnsluna. Allt ber að sama brunni: Vinnslu- stöðin styrkir stöðu sína og skýtur um leið enn fleiri styrkum stoðum undir samfélag sitt. Að framkvæma það sem ég hef hér nefnt er ekki sjálfsagður hlutur, hreint ekki! Mörgum þótti biðin löng eftir fjárfestingum til lands og sjávar. Fyrir kom á aðalfundum að spurt væri: Á ekki að kaupa skip eða smíða skip? Á ekki að reisa ný hús og láta þau gömlu víkja? Út af fyrir sig skildi ég fyrirspyrj- endur vel og gat verið þeim sammála að einhverju leyti en við í stjórninni og stjórnendur félagsins höfðum sett sem forgangsverkefni að styrkja það og efla með því að sameinast öðrum félögum til að stækka, kaupa aflaheimildir og síðast en ekki síst að greiða niður skuldir áður en horft yrði til verulegra fjárfestinga. Þannig gekk þetta fyrir sig og eftir á að hyggja: Það sýndi sig og sýnir sig enn hverju það skilar til lengdar að vera varkár, staðfastur og fyrirhyggjusamur í rekstri fyrir- tækis, lesa rétt í stöðuna og umhverfið og vanda undirbúning afdrifaríkra ákvarðana. Þannig stjórnunarstíll ríkir í brú Vinnslu- stöðvarnnar. Ágreiningur í hluthafahópi Vinnslustöðvarinnar hefur verið nokkuð fyrirferðarmikill í fréttum af fyrirtækinu hin síðari ár, óþægilega fyrirferðarmikill reyndar á köflum. Ég hef á aðalfundum hvatt fylkingar hluthafa til að tala saman á lægri nótum og stuðla að friðsamlegri sambúð innan félagsins. Ánægjuleg er því sú staðreynd að samstaða var í eigendahópnum um helstu fjár- festingar sem efst eru á baugi nú. Endurnýjun framleiðslutækja og skipa er mikilvægt skref í sjálfu sér en við höfum jafnframt styrkt undirstöðu starfseminnar með því að efla sölustarfsemina. Söluskrif- stofum í Evrópu fjölgar og við höfum sérstaklega lagt okkur eftir því að styrkja tengslin við markaði í Asíu, með góðum árangri. Í Asíu tókst einmitt að finna kaupendur að afurðum sem áður voru seldar til Rússlands, áður en sá markaður lokaðist af alþjóðapólitískum ástæðum. Bjart er yfir Vinnslustöðinni og Vestmannaeyjum á þessum merkilegu tímamótum. Í mann- heimum jafngildir sjötugsaldur því að viðkomandi nálgist sólsetur og ævikvöld. Sjötugsafmæli Vinnslu- stöðvarinnar táknar hins vegar upphaf nýs æviskeiðs fyrirtækis sem gengur nú í endurnýjun lífdaga í flestum skilningi og það með umtalsverðum stæl. Ég óska eigendum, stjórnendum, núverandi og fyrrverandi starfs- mönnum og Vestmannaeyingum öllum til hamingju með nýja uppsjávarhúsið og annað það sem drífur nú á daga Vinnslustöðvar- innar á afmælisárinu og eftirleiðis. Hagsmunir Vinnslustöðvarinnar og byggðarlagsins fara saman 70 ÁRA guðmundur gunnarsson Stjórnarformaður VSV VINNSLUSTÖÐ VESTMANNAEYJA

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.