Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Blaðsíða 17

Fréttir - Eyjafréttir - 21.12.2016, Blaðsíða 17
17Eyjafréttir / Miðvikudagur 21. desember 2016 „Elsta hlutafélag landsins, Ísfélag Vestmannaeyja, varð 115 ára þann 1. desember síðast- liðinn. Félagið var stofnað árið 1901 og fer vel á því að sá dagur hafi 17 árum síðar verið valinn fullveldisdagur Íslendinga og enn höldum við hann hátíð- legan. Þann 1. desember 1918 tóku gildi svonefnd fullveldislög sem fólu í sér viðurkenningu Dana á að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Íslenski fáninn var þennan dag dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni,“ segir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnar- formaður félagsins á þessum tímamótum. „Þessa er getið hér af þeim augljósu ástæðum að skynsamleg nýting auðlinda okkar til sjávar og sveita er forsenda velsældar okkar og í raun þess að við þrífumst hér í norðri við þann góða kost sem raunin er. Það fer vel á því að elsta starfandi fyrirtæki landsins sé sjávarútvegsfyrirtæki í einni stærstu og mikilvægustu verstöð landsins. Sjávarútvegur hefur verið og mun ávallt verða sú grunnstoð sem íslensk byggð hvílir á. Sjávarútveg- urinn er því tvímælalaus grund- völlur okkar sjálfstæðis,“ bætti Gunnlaugur við. Mikilvægt að halda óskor- uðum yfirráðum yfir auðlind- um sjávar Sagði hann að þessa væri enn- fremur getið hér til að minna á mikilvægi þess að við höldum óskoruðum yfirráðum yfir auðlind- um sjávar. „Ég átti þess kost fyrir skömmu að sitja fund með nokkrum málsmetandi Bretum, meðal annars fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Davids Cameron og þingmanni á breska þinginu. Þar var rætt um sjávarútvegsmál og fiskveiði- stjórnun. Fram kom að allt að 80% fiskistofna Breta væru veiddir af skipum annarra þjóða í Evrópusam- bandinu, Spánverjum, Hollend- ingum og fleirum. Þeir töldu breskan sjávarútveg hafa verið illa svikinn og honum fórnað við inngöngu Breta í ESB á sínum tíma.“ Yrðum ofurseld valdi þeirra Gunnlaugur sagði Bretana sitja uppi með vonlaust kerfi og spillt. „Svindlað er á lönduðum afla, brottkast verulegt vandamál og langur vegur frá því að fiskveiði- stjórnunarkerfið tryggði hagkvæma nýtingu auðlindarinnar. Sjávarút- vegur hefur þó litla þýðingu fyrir Breta sem þjóð í samanburði við Íslendinga en skiptir þó miklu fyrir einstakar byggðir og svæði til að mynda á Skotlandi. Það er undarlegt að enn skuli vera Íslendingar sem eygi enga aðra lausn en þá að ganga í þetta bandalag sem tekur ekkert tillit til hagsmuna smáríkja eins og dæmin sanna. Við yrðum ofurseld valdi þeirra og myndum engu máli skipta á þeirra stóra taflborði. Það er deginum ljósara að innan fárra ára sætum við uppi með erlendan flota á okkar fengsælu fiskimiðum enda er margsannað að engar undanþágur fylgi aðildinni. Við yrðum fljótlega beiðandi með betlistaf í Brussel. Guð forði okkur frá þeim örlögum.“ Átt undir högg að sækja Gunnlaugur sagði það ekki ofsögum sagt, að sjávarútvegurinn hafi á liðnum árum átt undir högg að sækja. „Við höfum staðið í áróðursstríði og farið fremur halloka. Talað hefur verið um útgerðarmenn sem sægreifa í niðrandi merkingu sem hafi sölsað undir sig sameiginlega auðlind þjóðarinnar og nýti hana mis- kunnarlaust í eigin þágu. Njóti afrakstursins ríkulega, áhyggjulausir og án allrar áhættu. Aðgengi þeirra að auðlindinni sé algerlega óverðskuldað og hirða beri veiðiheimildir af útgerðinni eða skattlegja atvinnuveginn í drep. Nýjasta hugmyndin er uppboð á veiðiheimildum og uppboðsgjaldið skal renna í ríkissjóð. Með þessari gölnu hugmynd er sagt að verið sé að markaðsvæða sjávarútveginn. Vitaskuld er raunin allt önnur. Hér er náttúrlega ekki um annað að ræða en þjóðnýtingu á útveginum í anda sósíalismans. Hirða á eignir og réttindi af útgerðinni og síðan skulu stjórn- málamenn endurúthluta gæðunum,“ sagði Gunnlaugur. Kvótakerfi ekki að beiðni útgerðarinnar Hann segir að Íslendingum hafi lánast að byggja hér upp hag- kvæman sjávarútveg á grundvelli stjórnkerfis framseljanlegra aflaheimilda sem hafi átt þátt í að íslenskur sjávarútvegur hefur tekið stakkaskiptum á liðnum áratugum og er í fremstu röð á veraldarvísu. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur gert það að verkum að hagkvæmari útgerðir hafa keypt hinar óhag- kvæmu upp eða útgerðarfélög hafa átt viðskipti sín á milli með veiðiheimildir eða sameinast í því skyni að hámarkar arðsemi sinnar fjárfestingar. Það vill nefnilega oft gleymast að íslenskur sjávarútvegur var ofurskuldsettur vegna offjárfest- ingar og lélegs rekstrar. Vandamál þessa höfuðatvinnuvegar var meginvandamál ríkisstjórna svo áratugum skipti. Rétt er ennfremur að minna á að kvótakerfi var sett á í sjávarútvegi vegna ofveiði fiskistofna og offjárfestingar. Takmarka þurfti sóknina ef ekki átti illa að fara. Kvótakerfi var ekki komið á að beiðni útgerðarinnar. Með upptöku kvótakerfis og nauðsynlegri takmörkun í sóknina urðu skipin sem slík verðlítil en aflaheimild- irnar að verðmætum.“ Háværari krafa um auðlindagjald Gunnlaugur sagði að með aukinni hagkvæmni, stærri og öflugri sjávarútvegsfyrirtækjum hafi krafan um auðlindagjald orðið háværari. Það er að útgerðarfyrirtæki greiði sérstakt gjald fyrir nýtingu aflaheimilda. „Hefur sú gjaldtaka verið óhófleg á liðnum árum. Nær er að fyrirtæki í sjávarútvegi sem og önnur fyrirtæki greiði hóflegan skatt af hagnaði sínum eftir almennum reglum. Þannig má stuðla að því að íslenskum sjávarútvegi vegni vel í hörðum heimi alþjóðlegrar samkeppni. Megnið af aflaheimildum í sjávarútvegi eru keyptar heimildir á grundvelli frjáls framsals. Stór hluti þessara heimilda hefur verið keyptur af opinberum aðilum, t.d. ríkinu sjálfu, bönkum í ríkiseigu, sveitarfélögum og stofnunum á borð við Byggðastofnun. Þannig er það til dæmis með megnið af aflaheimildum sem Ísfélag Vestmannaeyja nýtir í dag. Hvernig má það þá vera að fólki sem vill láta taka sig alvarlega getur komið til hugar að þjóðnýta og ríkisvæða þessa atvinnugrein sem hefur verið og er grundvöllur velsældar á Íslandi. Slíkt fólk virðist hafa að lífsviðhorfi að sæl sé sameiginleg eymd.“ Höfum vaxið og dafnað Ísfélag Vestmannaeyja er eitt þeirra félaga sem vaxið hefur og dafnað á liðnum árum. Félagið hefur verið í fararbroddi í fjárfestingum til lands og sjávar. „Uppsjávarfloti félagsins er á við það besta sem gerist og sama máli gegnir um uppsjávar- vinnslu félagsins í Vestmanneyjum og á Þórshöfn í frystihúsum þess og fiskimjölsverksmiðjum. Rétt er að minna á að félagið keypti fyrir áratug öll hlutabréfin í Hraðfrystistöð Þórshafnar en sveitarfélagið hafði verið aðal eigandi félagsins sem átti í erfiðleikum. Ísfélagið hefur þar byggt upp öfluga vinnslu og útgerð og er burðarás í atvinnulífi þessa litla sveitarfélags. Félagið á til jafns við Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði sölufyrirtækið Icelandic Pelagic sem annast sölu á fiskafurð- um til Austur-Evrópu, Asíu og Afríku. Það er þátttakandi í útgerð á Grænlandi og í Afríku.“ Alltaf horft til framtíðar Gunnlaugur segir það hafa verið gæfa Ísfélags Vestmannaeyja að hafa á að skipa hæfu fólki sem sinnir starfi sínu af áhuga og kostgæfni. „Ekki síst hefur það reynst félaginu farsælt að eigendur þess hafa ávallt talið það skyldu sína að horfa til framtíðar við uppbyggingu þess. Þeir hafa verið framsýnir og áttað sig á mikilvægi þess að fjárfesta í tækjum og búnaði, aflaheimildum og skipum. Þannig hefur tekist að byggja upp eitt af glæsilegustu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins sem er burðarást atvinnu- lífs í Vestmannaeyjum og Þórshöfn. Það er ekki lítill árangur enda nýtur félagið, eigendur þess og starfsfólk almennrar velvildar og virðingar,“ sagði Gunnlaugur Sævar sem er stjórnarformaður Ísfélags Vest- mannaeyja hf og hefur setið í stjórn þess í 25 ár. Ísfélag Vestmannaeyja 115 ára :: Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður :: Fyrirtæki í fararbroddi: Kvótakerfi var ekki komið á að beiðni útgerðarinnar :: Með upptöku kvótakerfis og nauðsynlegri takmörkun í sóknina urðu skipin sem slík verðlítil en aflaheimildirnar að verðmætum Gunnlaugur Sævar ásamt Önnu eiginkonu sinni og yngsta syninum, Gunnlaugi. Frystihús Ísfélagsins. Fiskimjölsverksmiðja Ísfélagsins.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.